Vetrarfrí

Eins og fram kom í síðustu myndaseríu voru María og Hugi í vetrarfríi í síðustu viku. Vetrarfríið varð skyndilega mjög vetrarlegt þegar hér gerði snjóstorm 1. nóvember og daginn eftir vöknuðum við upp í 10 stiga frosti! Hér koma nokkrar vetrarlegar myndir frá fyrstu dögum mánaðarins:

Við erum auðvitað vön nokkuð öflugum snjóstormum frá Íslandi og fannst því ekkert sérstaklega mikið til þess sænska koma! Hann náði þó að gera heilmikinn usla, stöðvaði meðal annars umferð á vegum og lestarteinum um hríð. Og þótt við höfum nú séð það svartara urðum við að viðurkenna að það var fremur ókræsilegt að vera úti við í þessu veðri!

Graskerjagaurarnir okkar settu upp þessar fínu snjóhúfur og drógu niður fyrir augu en voru samt afskaplega kátir með þetta allt saman! Mikið hefði nú verið gott ef allir hefðu verið jafnjákvæðir í garð snjóstormsins og þeir!

Það var nú aldeilis notalegt að vera inni í snjóstorminum, kveikja upp í arninum og lita og prjóna í ylnum frá honum. Finnst ykkur María ekki stórustelpuleg á þessari mynd?!

Morguninn eftir snjóstorminn sýndi hitamælirinn -10°C! En veðrið var dásamlega stillt, bjart og fallegt og við skelltum okkur því út í garð til að leika og hengja upp fína fuglaveitingastaðinn sem amma á Sóló gaf okkur um daginn. Húsið tekur sig vel út þar sem það hangir niður úr eplatrénu og við komum strax fyrir í því fuglafræjablöndu sem er sérstaklega ætluð þröstum, spörvum og svo uppáhaldsfuglategundinni minni hérna, blåmesum.

Börnin voru að vonum himinsæl með snjóinn sem kom svona óvænt. Það er kannski til marks um hvað vetrarkoman var skyndileg að þarna lengst til vinstri á myndinni má sjá falleg lillablá blóm sem voru í fullum blóma áður frostið og snjórinn kom.

Snjór á greinum í garðinum okkar.

Snjórinn kaffærði ekki bara blómin heldur líka berjaklasa sem enn héngu á runnunum þegar stormurinn skall á.

Það var dálítið skrýtið að sjá allt þetta skærgræna lauf gægjast út úr snjónum.

Húsmóðirin með Konsulentvägen 2 í baksýn.

María faðmar plómutréð að sér að finnskum sið.

Hugi Einarsson með sýnikennslu í snjóáti ... hann myndi sjálfsagt hampa heimsmeistaratitli ef einhver slíkur væri veittur!

Systkinin stilla sér upp fyrir mynd ... en Hugi hefur meiri áhuga á að japla á snjónum en að brosa í myndavélina ...

... eins og sjá má!

Finnst ykkur húsið mitt ekki æðislegt í vetrarbúningi?!

Í tilefni af vetrarfríinu tók Einar sér langa helgi. Það var óendanlega notalegt að geta verið öll saman í fríi og við notuðum dagana vel, kveiktum upp í arninum um leið og við vöknuðum og nutum þess að dunda okkur hvert við sitt fyrir framan hann: einn las í bók, tveir teiknuðu og lituðu og einn prjónaði og drakk kaffi!

Fyrst eftir að við settum upp fuglafræjahúsið okkar var þar allt með kyrrum kjörum. Við sáum nokkra smáfugla fljúga um og tylla sér á greinar eplatrésins en það var eins og enginn þeirra áttaði sig á húsinu, okkur til sárra vonbrigða. En að morgni þriðja dags urðum við vör við að lítill hópur blåmesa hafði greinilega uppgötvað kræsingarnar. Í fyrstu voru þeir dálítið taugaveiklaðir, flögruðu allt í kring og rétt tylltu sér á brúnina áður en þeir þutu af stað aftur. En eftir því sem leið á daginn urðu þeir öruggari og fóru að sitja lengur við og gæða sér á hnetum og fræjum í mestu makindum. Nú sýnist okkur við hafa eignast lítinn hóp „kostgangara“ og það er óskaplega notalegt að sitja við eldhúsgluggann, sötra kaffi og fylgjast með þessum hnoðrum athafna sig fyrir utan. Verst að það sést ekki alveg nógu vel á myndinni hvað þetta eru óendanlega dúllulegir fuglar!

  

Um daginn var loks drifið í því að fara með Huga í klippingu enda orðið ófermdarástand á Lubba Skallasyni! Ekki voru þó allir á eitt sáttir um ágæti sænsku hárgreiðslukonunnar og klippingarinnar sem hún vann þvert á óskir móðurinnar ... en drengurinn er auðvitað alltaf jafnsætur!

Um helgar fáum við oft upphringingar frá ættingjum og vinum á Íslandi og kunnum því að sjáfsögðu afskaplega vel! Hér er María að ræða við Birnu frænku sína í heldur óþjálum stellingum!

Þegar ég var lítil var ég alltaf alveg svakalega spennt fyrir að flétta hárið blautt og vera svo með fléttuliði daginn eftir. Hins vegar varð ég ævinlega fyrir vonbrigðum með útkomuna en vildi þó alltaf endurtaka leikinn ... aftur og aftur og aftur! María hefur sem betur fer ekki erft þennan vandræðagang minn og henni þótti hún afskaplega fín með fléttuliðina sína og það þótti okkur hinum auðvitað líka! Hér er hún að æfa skrift með því að skrifa upp úr glænýrri bók sem hún fékk senda í póstinum um daginn, Land hinna týndu sokka.

Það var mikið bakað þessa helgi á Konsulentvägen. Mamman prófaði í fyrsta sinn að baka ostaköku (með hvítu súkkulaði ... namm!) og tókst frumraunin ákaflega vel þrátt fyrir að uppskriftin hefði verið margmislesin! Einar bakaði hins vegar bæði kotasælubollur og hafrakex sem Hugi virðir hér fyrir sér rétt áður en því var smellt inn í ofn.

Nú erum við loksins búin að koma öllum þeim munum fyrir í eldhúsinu sem við ætlum á annað borð að hafa þar. Lokahnykkurinn voru myndirnar á veggnum og klukkan fyrir ofan. Myndirnar eru alls 12, ein fyrir hvern mánuð og eru eftir Kerstin Frykstrand. Núna erum við með uppi október, nóvember og desember og svo skiptum við yfir í næstu þrjá mánuði um áramótin og þannig koll af kolli. Klukkan er auðvitað nauðsynleg til að við getum áttað okkur á því hversu lengi við getum hangsað á náttfötunum við morgunverðarborðið. Ég er búin að ákveða að nefna þennan vegg einhverju ótrúlega dramatísku nafni ... hvað finnst ykkur um Veggur tímans? Veggur hringrásarinnar? Eða bara veggur eilífðarinnar? Allar tillögur vel þegnar!

Síðasta dag vetrarfrísins héldum við inn til Stokkhólms. Hér eru systkinin á Norrmalmstorginu að bíða eftir pabba sem var inni í búð að kaupa ótrúlega fína peysu handa mömmunni! Mér finnst einhvern veginn alltaf skemmtilegra að láta Einar sjá um kaupin sjálf og líður þá pínulítið eins og ég hafi fengið gjöf!!! Milli systkinanna er líka poki sem geymir hin kaup ferðarinnar, Ordning och reda dagbækurnar okkar Jódísar fyrir árið 2007. Við frænkurnar erum báðar fullkomlega hjálparvana án dagbókanna okkar og höfum gjarnan verið í heljarmiklum arranseringum við að láta kaupa þær fyrir okkur erlendis um hver áramót. Við gleðjumst því báðar yfir að ég hafi einmitt flutt til heimalands Ordning och reda og því séu hæg heimatökin á næstunni.

Aðalerindi ferðarinnar til Stokkhólms var þó ekki að kaupa gull og gersemar fyrir mömmuna! Nei, tilgangur ferðarinnar var að heimsækja Junibacken á Djurgården! Junibacken er safn sem er tileinkað norrænum barnabókum og fara þar sögur Astrid Lindgren fremstar í flokki. Hér sjást feðgarnir á göngu eftir Strandveginum í átt að Djurgårdsbrúnni.

María bíður spennt eftir að hitta Línu Langsokk, Kalla á þakinu og þau öll hin.

Útsýnið af Djurgårdsbrúnni yfir Nybroviken er ótrúlega fallegt. Mér finnst Stokkhólmur svo óendanlega frábær borg og gleðst alltaf jafnmikið yfir að eiga núna pínu hlutdeild í henni og fá vonandi að kynnast henni nokkuð vel núna þegar hægt er að heimsækja hana reglulega.

Eftir góða gönguferð í frísku vetrarloftinu komumst við loksins á Junibacken! Hér er Hugi á sögutorginu að heimsækja Múmínálfahúsið!

Og hér eru systkinin komin upp í blokkina hans Einars Áskels. Því miður varð myndavélin batteríislaus á safninu og því varð mun minna úr myndatökum en til hafði staðið. En við vonum að munnlegar lýsingar nægi til að sannfæra ykkur um að þetta er eitt það allra skemmtilegasta safn sem við höfum komið á. Sögulestina ber þó hæst og við viljum endilega fá sem flest börn (á öllum aldri!) í heimsókn til okkar til að hafa góða afsökun fyrir því að fara í hana aftur og aftur og aftur!

Eitt rými safnsins er helgað breytilegum sýningum. Reyndar veldur það kannski misskilningi að kalla það sýningar ... í raun og veru er sett upp risastórt leiksvæði sem er tileinkað ákveðinni sögu eða sögupersónu. Fyrir nokkrum dögum opnaði þar sýning sem er helguð Kalla á þakinu. Þar geta krakkarnir þvælst um á þökum Vasastan hverfisins í Stokkhólmi, klifrað inn um glugga og leikið sér þar inni í litlum íbúðum, eldað í eldhúsum og svo kannski prílað aftur út á einhvern mæninn, upp á svalir næsta húss og þar fram eftir götunum! Hér er María í gerfi Kalla og tekur sig nokkuð vel út ... Hugi er hins vegar ekki alveg með á nótunum og er því heldur léleg útgáfa af litla bróður!

Á safninu er líka skemmtilegt kaffihús með frábæru útsýni yfir Nybroviken. Þar fengum við okkur Línu Langsokk pönnukökur en sáum pínu eftir því að hafa ekki valið Kalla á þakinu kjötbollurnar! Við hlökkum mikið til að fara sem fyrst aftur á Junibacken og fá að njóta alls þessa á ný ... og látum þá kannski vaða á kjötbollurnar!

Á mánudeginum var kominn tími til að halda aftur í skóla og á leikskóla eftir vetrarfríið. Þá var líka allur snjórinn bráðnaður og graskerjagaurarnir okkar höfðu heldur betur látið á sjá eftir ágang snjós, frosts og þíðu undanfarinna daga, annar orðinn vita tannlaus og kominn með skúffu, hinn hrukkóttur og gnístandi tönnum! Þeir senda þó sínar allra bestu kveðjur til Íslands og aðrir íbúar á Konsulentvägen taka að sjálfsögðu heilshugar undir þær!