Vetrarferð til gamla landsins

Síðustu dögum janúarmánaðar eyddum við á Íslandi og áttum góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Myndunum úr þessum ferðalögum fer óðum fækkandi enda erum við yfirleitt að gera sömu hluti aftur og aftur. Einhverjar nokkrar fylgja þó hér fyrir neðan.

Eitt af því sem við höfum oft talað um að gera í Íslandsferðum en aldrei framkvæmt er að fara með Jódísi og Hrappi að borða sushi. Í þetta sinn tókst okkur loks að standa við stóru orðin! Hér eru stóru börnin mín með bestu frænkunni í Iðuhúsinu að velja sér eitthvað girnilegt af færibandinu. Ekkert smá sport!

Frændurnir fengu sér laxabita ...

... og voru sniðugir!

Baldur Tumi mátti hins vegar ekki velja sér neitt af færibandinu og fékk bara að naga prjóna í staðinn. Það var samt líka mikið sport!

Við kíktum við á Þórsgötunni eftir sushiið og Einar þáði kaffibolla en var orðinn alveg ringlaður á þessu öllu saman!

Litli og stóra voru ánægð með að vera komin til Íslands.

Frændurnir stofnuðu búð inni í herbergi og voru kátir eins og sjá má.

Að sjálfsögðu litum við inn hjá ömmu á Sóló enda hún tilefni ferðarinnar! Þar voru fastir liðir eins og venjulega og kubbarnir teknir fram. Að þessu sinni var þó bryddað upp á þeirri nýjung að leyfa Baldri Tuma að leika með.

Sem honum fannst mikið sport!

Hugi byggði blóm ...

... María byggði kall.

Kallinn, María og amma sötruðu svala og gæddu sér á sandköku.

Amma með barnabarn og barnabarnabörn.

Frá Sóló lá leið okkar í Hlíðarhjallann þar sem þessi yndislegi guðsonur tók meðal annars á móti okkur.

Arnaldi Kára þykir gaman að spjalla og leika við Maríu. Eins og sjá má í bakgrunninum voru fréttir af ísbirni hæstar á baugi þennan daginn.

Þessi drengur bræðir mig alveg gjörsamlega, svo duglegur að tala, fyndinn, kátur og skemmtilegur! Og bróðir hans er alveg jafnfrábær!

    

Stóru krakkarnir voru dugleg að spila, sá næstminnsti fylgdist með af áhuga og langaði ógurlega að fá að vera með. Sá allra minnsti borðaði graut og lét hossa sér.

Þann 30. janúar var loks komið að því sem allir höfðu beðið eftir, opnuninni á Þjóðminjasafninu! Því miður gleymdist myndavélin við það tilefni en þeim lesendum sem ekki voru á staðnum getum við sagt að amma var þvílík rokkstjarna, setti aðsóknarmet og gaf eiginhandaráritanir hægri vinstri!!! Og við vorum öll ótrúlega stolt og glöð! Eftir opnunina sjálfa héldum við á Humarhúsið til að fagna.

Ása var auðvitað mætt, sæt og fín eins og alltaf.

Hugi var ánægður með þetta allt saman!

Bjartur var spenntur fyrir Baldri Tuma og kom og skoðaði hann reglulega, strauk honum blíðlega og var algjör barnagæla!

Baldur Tumi umvafinn aðdáendum, Pálu og bræðrunum Bjarti og Orra.

Boðið var upp á stórkostlegan humar og yngri kynslóðin fékk lax. Hugi er alltaf duglegur að borða en lax er uppáhaldsmaturinn hans svo hann lét sitt svo sannarlega ekki eftir liggja!

Baldur Tumi var hins vegar lasinn í fyrsta skiptið á ævi sinni þetta kvöld, með smá hita og kvef, og þótti því notalegt að fá að kúra í fanginu á ömmu sinni.

Það var margt um manninn enda fjölskyldan öll samankomin.

María er orðin svo stór að hún vildi ekkert sitja með okkur á borði heldur var á stelpuborðinu! Þar voru líka Pála, Jódís, Eik og Ragnheiður og þegar þessi mynd var tekin var Bjartur í heimsókn líka.

Ása og Elli voru eldhress og enn að söngla „Ólíver, Ólíver ...“ frá því við höfðum farið í Þjóðleikhúsið kvöldið áður.

Við vildum óska að við hefðum þessi tvö svolítið nær okkur svona dagsdaglega.

Daginn áður en við flugum heim komu góðir gestir á Bakkastaði, þar á meðal þessi kall.

Bróðir minn og bróðir hennar Maríu eru soldið líkir!

Mál málanna þennan síðasta dag okkar á Íslandi var hins vegar handbolti! Hér eru feðgarnir æsispenntir að fylgjast með úrslitaleiknum og Hugi skrifaði langan pistil um þetta í ferðadagbókina sína sem hann las svo upp fyrir skilningssljóa Svía nokkrum dögum síðar. Áfram Ísland!