Verslunarmannahelgin 2004

Við á Bárugötunni áttum ákfalega náðuga daga um verslunarmannahelgina líkt og þessi mynd sýnir. Feðgarnir fengu sér lúr í sófanum og María æfði sig að skrifa við sófaborðið. Það er eiginlega ekki hægt að ímynda sér rólegri stund!

         

Þessi gamla prjónaklukka sem María er í er upphaflega gerð á mig af Margréti ömmu minni og var í miklu uppáhaldi hjá mér á sínum tíma. María fann hana heima hjá ömmu sinni og vildi ólm taka þennan kostagrip í sína umsjá. Síðan þá hefur þetta verið eitt af vinsælustu dressunum og hún er gjarnan komin í þennan búning fyrr en varir. Hvaðan hún hefur fyrirsætutaktana veit ég hins vegar ekki ... en hún má ekki sjá myndavél á lofti án þess að setja sig í einhverjar flottar stellingar!!!

Á sunnudeginum var haldið í heimsókn í sveitina til afa. Hann býr að Hólum í Reykhólasveit sem er nokkurn veginn fyrir botni Breiðafjarðar. Þangað er rétt um tveggja og hálfs tíma akstur og við mættum þessum kindum á leiðinni.

María varð því miður dálítið bílveik á leiðinni og við urðum því að stoppa bílinn og fara út til að viðra okkur svo ekki færi illa. Þessi mynd er reyndar alveg frábær þó það sjáist kannski ekki þegar hún er svona lítil ... en María er þarna að horfa á fiðrildi sem þið sjáið kannski á flugi rétt undir nefbroddinum hennar.

Krækiberin voru orðin fullþroskuð þarna í Svínadal ...

... en María kunni þó ekki að meta þau og skyrpti hratinu út úr sér.

Smám saman fékk daman lit í kinnarnar aftur og eftir stutt stopp í Svínadalnum var hægt að ljúka ferðinni að Hólum.

Þegar komið var í sveitina hans afa var byrjað á að skoða dýrin. Hundarnir tveir á bænum vildu ólmir koma með þó Maríu og Huga þætti nærvera þeirra ekkert sérstaklega æskileg.

Það eru enn nokkrar kusur í sveitinni en engar mjólkurkýr, bara kvígur, kálfar og bolar ... sem Hugi kallar reyndar vola!

Maríu leist vel á þetta allt saman.

Rauða kvígan var með tvo kálfa með sér og leist alls ekki á að við værum að snuðra í kringum þá. Hún gerði sig því líklega til að fara í hart við okkur og ákvað að ráðast á þann minnsta, Huga! Honum varð þó ekki meint af en við ákváðum að láta hana í friði eftir þetta.  Þarna er bærinn hans afa, Hólar, í baksýn.

Þetta var svo sannarlega fallgur dagur í þessari fallegu sveit. Þarna sést yfir fjörðinn og Borgarlandið í baksýn.

Afi á líka endur ... sjáið þið hvað þær eru krúttlegar, það er eins og þær séu allar alveg skælbrosandi!

Við tylltum okkur svo í bakkana niðri við fjöruna og horfðum yfir fjörðinn sem skartaði sínu fegursta.

Hugi var kátur með þetta og fannst rosalega gaman að bjástra í þúfunum!

Feðginin í sólinni.

Við kíktum líka aðeins inn í hlöðu því þar er alltaf svo notalegur ilmur og falleg birta.

Huga fannst ekki leiðinlegt að hoppa aðeins í pollunum!

Og svo ein af ljósmyndaranum í lokin!