Vardagslyx á Konsulentvägen

Hugtakið „hversdagslúxus“ er Svíum mjög hugleikið. Hér í landinu þar sem þær systur sparsemi og skynsemi ráða ríkjum er venjulegur ekta lúxus greinilega ekki í boði heldur bara þessi hógværa útgáfa, „vardagslyx“. Ég er reyndar ekki alveg viss um að ég átti mig á því hvað felst í svona hversdagslúxus (ekki frekar en ég átta mig almennilega á hvað venjulegur lúxus er!) en ég er alla vega búin að ákveða að hér á Konsulentvägen þýði vardagslyx meðal annars dalíur í potti á sólpallinum, óvænt frí frá skóla og leikskóla þegar hitinn er kominn upp í 28°, cashewhnetur og sódavatn undir sólhlíf og sykurköku með kaffinu í þrumuveðri!

Um daginn vorum við Einar tvö heima í kotinu í fyrsta sinn frá því við fluttum hingað út!!! María og Hugi voru nefnilega bæði boðin í heimsókn til bekkjarsystur Maríu og bróður hennar sem er einmitt jafngamall Huga. Meðan þau busluðu þar í sundlaug og snæddu lunch með fjölskyldunni vorum við Einar í reiðileysi hér heima og vissum ekki almennilega hvað við áttum af okkur að gera! Úr varð að Einar tók að sér það metnaðarfulla verkefni að líma stigaengilinn saman eftir síðustu byltu. Engilinn fengum við í jólagjöf frá Ella fyrir nokkrum árum og var strax ákveðið að stilla honum upp í stiganum á Bárugötunni og fela honum það verkefni að vernda þá sem þar um færu fyrir hvers kyns slysum og óhöppum (enda stiginn bæði háll og brattur). Engillinn hélt sama hlutverki eftir að við fluttum á Konsulentvägen þar sem stiganum hér svipar hættulega mikið til þess á Bárugötunni. Það er skemmst frá að segja að hingað til hefur enginn (7, 9, 13) dottið og slasað sig í stigunum okkar. Hins vegar hefur engillinn dottið margoft, brotið á sér fætur, hendur og vængi, fengið alvarleg höfuðkúpubrot og þannig mætti lengi telja! Við erum viss um að hann er í raun að taka á sig öll þau slys sem ella hefðu getað orðið á mannfólki og erum honum afskaplega þakklát, reynum að gæta hans vel og líma hann vandlega saman aftur eftir hverja byltu! Það var reyndar þrautinni þyngri í þetta skiptið enda meiðslin alvarleg en hófst að lokum!

Ég er búin að gera þrjár tilraunir til að vera með dalíur í potti úti á tröppum/palli í sumar. Fyrst setti ég sjálf niður lauka sem ég keypti í Hollandi í vor en þeir voru étnir af einhverjum óargardýrum um leið og græn blöð fóru að stingast upp úr moldinni. Næst keypti ég tilbúnar plöntur í gróðrarstöð en þær voru orðnar sundurétnar á þriðja degi! Nú síðast keypti ég þessa undurfögru dalíu og hef gætt hennar eins og sjáaldurs auga míns, vaktað hana og vökvað af mikilli natni. Árangurinn virtist ætla að verða góður, sífellt fleiri knúmpar opnuðu sig og ég var himinsæl. En fyrir nokkrum dögum fór ég að taka eftir skemmdum krónublöðum sem líta grunsamlega mikið út fyrir að hafa verið nörtuð! Baráttan virðist töpuð ... nema einhver grænfingraður lesandi geti gefið mér góð ráð!

Eftir heldur tíðindalítið veðurfar undanfarnar vikur var loksins spáð sól og sumaryl í Uppsölum. Einar ákvað af því tilefni að gera við sólhlífina sem brotnaði í roki fyrr í sumar (þið munið, brandarakeppnin góða). Eins og sjá má var hún ansi illa farin!

Inni sat María og las í bók. Daman sú arna er nýbúin að uppgötva hinn dásamlega unað sem fylgir því að kúldrast uppi í sófa og lesa góða bóka! Hingað til hefur hún verið heldur treg til þess að lesa sjálf þótt hún kunni það vel, hefur þótt þetta eitthvað óspennandi og þreytandi og kannski óttast að hún myndi þá missa þjónustu foreldranna á kvöldin ef við sæjum að hún gæti orðið séð um þetta ein og óstudd! En allt í einu var eins og það hefði lokist upp fyrir henni hvað það er ótrúlegt frelsi að geta lesið sjálfur. Bókinni (119 blaðsíður!) lauk hún á tveimur til þremur dögum en þann tíma sáum við hana líka ekki öðruvísi en með bók í hönd!

Það sem helst virtist hafa aftrað dömunni frá lestri var að við foreldrarnir vorum alltaf að ýta að henni svo leiðinlegum bókum til að æfa sig á, typ Litlu gulu hænunni! Í aulaskap okkar héldum við að það sem þyrfti til að koma henni af stað væri nógu einfaldur texti en í ljós kom að það þurfti bara að vera eitthvað nógu spennandi ... til dæmis hinn magnaði bókaflokkur Ostaspennandi!

Þessa sumarmánuði finnst mér skordýralífið hér í Svíþjóð full fjölskrúðugt! Ég er alls ekki pödduhrædd en ég verð að játa að ég kann því ekkert sérstaklega vel að vera með riiisa hrossaflugur sveimandi yfir höfði mér með danglandi lappir þegar ég fer að sofa eða vakna og stara beint í smettið á kónguló. Stundum eru pöddurnarnar hérna hins vegar alveg ótrúlega krúttlegar, eins og þessi litli skalbagge sem settist á gluggapóstinn fyrir utan rúðuna einn morguninn.

Síðustu daga hefur verið frámuna veðurblíða hjá okkur og ég hef því sótt krakkana snemma í skólana og við eytt eftirmiðdeginum saman í sól og sulli úti á palli. Hér eru systkinin að gera laugina klára!

Á meðan sló ég upp veislu þar sem hindberja og rabarbara-pæj var í aðalhlutverki. Sólhlífin góða var komið í gagnið aftur eftir vel heppnaða viðgerð Einars!

  

Aðalskemmtunin í lauginni þessa dagana er skvettuleikurinn. Þá hleypur annað systkinanna hringinn í kringum húsið og þegar það er að hlaupa meðfram pallinum reynir hitt að skvetta á það úr lauginni. Ótrúlega spennandi!

Systkinin í kjánastuði!

Ég held að mér finnist hvergi betra að vera þessa dagana en í skugganum undir sólhlífinni minni.

Það er sem ég segi, saltaðar cashewhnetur og ískalt sódavatn undir sólhlífinni er hversdagslúxus sem ég kann að meta!

Þessir tveir fetuðu sig eftir pallinum og stefndu vongóðir í átt að hnetuskálinni og vatnsglasinu!

Það er svo ótrúlega skönt og mysigt að lesa góða bók undir sólhlífinni á svona dögum ... og leyfa sólinni bara að skína á eina tá!

María komin upp úr.

María er mikil stemmningskona og henni þykir jafnæðislegt og mér að lesa í bók og narta í hnetur undir sólhlíf! Ég er óskaplega þakklátt fyrir að hún tekur þátt í öllu svona með mér því Guð veit að Huga gæti ekki staðið meira á sama um þess háttar hluti! Hann vill bara fá að hlaupa, róla, tala um sjóræningja og þylja upp hvaða Harry Potter spólur hann á í réttri röð! Hans vegna mætti það alveg eins fara fram í skorpnuðum elfjallagíg í hávaðaroki!!!

Bara eina enn af þessari sætu stelpu!

Á þessum tímapunkti var María búin að klára heila bók úr bókaflokknum Ostaspennandi og var byrjuð á annarri!

Ísbíllinn kemur til Vänge á fimmtudögum og þar er hægt að kaupa sjóræningjaíspoka fullan af frostpinnum og rjómaís! Nauðsynlegt í sumarhitanum!

Einar fór beint í matjurtagarðinn þegar hann kom heim úr vinnunni. Nú er búið að taka upp allar kartöflurnar og bara beðið eftir að chiliin, paprikurnar og tómatarnir verði rauð!

Það þarf auðvitað að fylgjast vel með framgangi mála í matjurtagarðinum og kanna stöðuna á tómötunum í lágmark korter á hverjum degi!!!

Sem fyrr sagði er pöddulífið hérna ansi öflugt yfir sumarmánuðina! Hér á Konsulentvägen eru allir búnir að fá nóg af geitungum, mygg og hlussukóngulóm en af og til finnum við hins vegar skordýr sem eru ákaflega forvitnileg! Þennan grasmaðk (eða ég veit eiginlega ekkert hvað þetta er!!!) fiskaði Einar upp úr grasinu við pallinn. Hann var ótrúlega vel dulbúinn og leit út eins og upprúllað laufblað! Það er verst að það sést ekki alveg nógu vel á myndinni hvað þetta loftnet upp úr hausnum á honum var flott, það var nefnilega svona blásanserað einhvern veginn!

    

Daginn eftir var aftur farið í laugina en færri myndir teknar ... enda eru lesendur þessarar síðu sjálfsagt alveg komnir með nóg af myndum af börnunum í buslulauginni! Hugi er búinn að finna upp rosalega sniðugan sundlaugardans þar sem hann dillar sér í mjöðmunum, hreyfir hendurnar eins og í fugladansinum og setur svo upp þennan óborganlega svip sem þýðir mjög greinilega „Vá hvað ég er fyndinn“! María er hins vegar öll í kaf„sundinu“!!!

Hér er mynd handa ömmu Imbu! María fékk dálítið sólarexem á hálsinn um daginn og til að hárið væri ekki að strjúkast utan í það og auka á kláðann brá ég á það ráð að setja það upp í hnút. Maríu fannst þetta ægilega flott og bað mig að taka mynd svo hún gæti sýnt ömmu sinni hvað hún væri fín!

Þennan dag var skýjað og við og við drundu þrumur og skúrir féllu. Það var því ákaflega notalegt að vera inni og baka eins og eina köku!

Hugi sæti sá um að bræða smjörið.

Ungfrú María hrærði deigið.

    

Skömmu seinna hafði stytt upp úti og meðan kakan bakaðist í ofninum var gráupplagt að bregða sér í róluna ...

    

... eða æfa bogfimina! Bogann fékk Hugi í síðbúna afmælisgjöf frá Jenný frænku sinni og hefur hann vakið mikla lukku hjá systkinunum sem eru nú loksins búin að læra að skjóta rétt úr honum þannig að örin fari frá þeim en ekki að!

María sagðist hafa séð myndir af englum í nákvæmlega þessari stöðu og vildi stilla sér upp fyrir myndatöku!

Kakan kom út úr ofninum í heilu lagi, diskar, glös og gafflar voru lögð á borðið ásamt saftkönnunni og þá var ekki eftir neinu að bíða ... nema pabba!

Kakan sem við bökuðum heitir sockerkaka (sykurkaka altso) og ég er mikið búinað leita að uppskrift að svoleiðis án árangurs. Hins vegar rak ég augun í pakka-sockerköku úti í búð um daginn og kippti með mér einum kassa sem við bökuðum sem sagt úr þennan dag. Kakan var ægilega vel heppnuð og ég er að hugsa um að hætta bara alveg að leita að uppskriftinni og notast við Kungsörnen héðan í frá! Því það er nokkuð ljóst að þetta var langt því frá eina skiptið sem sockerkaka er bökuð hér á Konsulentvägen! Þetta er ekta kaka til að smella í ofninn á köldum vetrardögum áður en maður skellir sér út í snjóinn til að sækja börnin í skólana, koma svo heim rétt mátulega til að taka hana úr ofninum og borða volga með ískaldri mjólk í kaffitímanum!

María kaus að bíða eftir pabba sínum berfætt við garðshliðið.

Loksins kom hann og við gátum átt notalega stund saman við eldhúsborðið! Underbart!

Að lokum er hér ein mynd af glænýja gullsímanum mínum sem margir hafa nú þegar fengið sms úr (það er alveg ótrúlegt hvað nýi síminn er eitthvað æstur í að senda sms, þetta er bara eins og að sitja mjög viljugan gæðing!). Einn af göllunum við að búa í útlöndum langt frá öllum vinum og ættingjum er að það er voða erfitt að monta sig af nýju dóti! Ég nota því bara síðuna til þess og set hér inn myndir af öllu sem ég vil að þið dáist að með mér! Finnst ykkur síminn ekki ótrúlega pæjulegur og flottur?!