Útileikir og alls konar í október

Miðað við þessar myndir mætti halda að við hefðum verið úti að leika meira og minna allan október. Ætli það sé samt ekki nær sannleikanum að svo lítið gerist í lífi okkar að einu tækifærin til að draga fram myndavélina séu þá sjaldan við bregðum okkur augnablik út úr húsinu!

Við byrjum þó inni með þessum fína pilsklædda herramanni!

Pabbi ætlarðu ekki bráðum að opna augun og sjá hvað ég er fínn?!

Það er gaman að vera í pilsi! Það sveiflast svo fínt þegar maður gengur og dansar!

Amma Imba sendi krílunum sínum ægilega fín náttföt sem hún keypti á Írlandi. Hér eru Baldur Tumi og María í sínum ...

... og hér hefur Hugi bæst í hópinn íklæddur músasokkunum sem amma Kata prjónaði á hann fyrir nokkrum árum og hann hefur tekið miklu ástfóstri við.

Fína gluggaskreytingin er horfin úr eldhúsinu enda voru dúllurnar frekar farnar að líkjast notuðum kaffifílterum en brakandi hreinum blúndum! Í staðinn er komin þessi undurfagra flagglína sem hún Inga vinkona mín gaf mér í afmælisgjöf. Næsta sumar á hún að flytja út í garð en þangað til njótum við hennar innandyra.

Og saftið er jafnfallegt og það er gott og sómir sér vel sem gluggaskreyting þangað til það verður drukkið.

Er nokkuð fegurra en smámaður undir gulu laufi?

Það þarf að bardúsa eitt og annað í mölinni.

Svo förum við í feluleik og Baldur Tumi felur sig bakvið sírenurunnann og gægist svo glaður fram þegar mamma nálgast!

Svo er mokað!

Það er sko ekkert grín að moka í sandkassa!

Pomm á bossann!

Það er nauðsynlegur hluti af hverri ferð út í garð að borða smá mold/sand/steina.

Nýjasta æðið hér á Konsulentvägen er að sulla í eldhúsvaskinum! Eða bara hvaða vaski sem er! Sjáiði gleðina?!! (Og sjáiði nýju hrærivélina mína sem mamma mín gaf okkur síðast þegar hún var hér í heimsókn?!!)

Hér er Baldur Tumi með dásamlegu kasmírullarhúfuna sem Svanhildur guðmóðir gaf honum í jólagjöf í fyrra. Okkur finnst hann dálítið eins og mongólskur vígamaður með hana ... mjög sætur mongólskur vígamaður!

         

Maður þarf að klæða sig vel þegar maður er að fara í skógarferð í október!

Feðgar í haustlitum.

         

Það eru náttúrulega bara ekki til nógu mörg eða falleg orð um svona dásamlegar myndir eins og þessar!

Þessi skógarferð var farin að undirlagi Huga sem er búinn að vera að læra um sveppi og villt dýr í skólanum í haust og vildi endilega komast í viðeigandi umhverfi til að láta reyna á nýja þekkingu. Hann virtist helst hafa mynd af sér sem einhvers konar Mjallhvíti, umvöfnum dýrum í skógarrjóðri, fyrir ferðina þrátt fyrir að við foreldrarnir hefðum ítrekað reynt að koma honum í skilning um að það væri ekkert sérstaklega oft sem maður mætti villtum dýrum þar sem þau væru stygg og forðuðust fólk. Hann var alla vega glaðbeittur í gulu úlpunni sinni þegar við lögðum af stað eftir göngustígnum í Hammarskogen.

Gangan nýhafin en Hugi virðist þegar farinn að velta fyrir sér hvar í ósköpunum allir bambarnir, hirtirnir, elgirnir og snákarnir séu!

María sigurreif á stórum steini.

Enn engin dýr sjáanleg en sem betur fer allmargir sveppir!

Tré í kleinu.

Við kveiktum eld í skóginum og borðuðum nestið okkar. Því miður var ekkert brauð á pinna í þetta skiptið, bara Ballerina kex og Mer safi. Það var samt dásamlegt að orna sér við eldinn meðan rökkrið lagðist yfir skóginn.

         

Baldri Tuma þótti þetta hins vegar hinn mesti glannaskapur og reyndi allt hvað hann gat að blása á eldinn!

Foreldrarnir reyndust hafa rétt fyrir sér í þetta sinn og engin villt dýr urðu á vegi okkar. Í næstu skógarferð var Hugi því búinn að stilla væntingunum í hóf og trylltist af gleði yfir hverri holu undir steini (sem hann taldi að væru snákabú öll með tölu) og uppgötvaði líka hvað fuglaskoðun er dásamlegt áhugamál! Nú berjumst við mæðginin um yfirráð yfir fuglabókinni minni góðu!

Loksins drifum við í því að taka niður þessar ljótu hillur og hengja fínu blúndumyndina frá Gotlandi upp. Í leiðinni settum við ný ljós yfir borðstofuborðið. Þetta horn í húsinu hefur heldur betur fengið andlitslyftingu undanfarna mánuði!

Sætasti sæti kominn út í nýjum og glaðlegum útigalla og reynir að klifra í stiganum.

Hann er svo fínn!

Gott ef þessar myndir voru ekki teknar til að festa fínu eplahúfuna sem ég gerði á hann á filmu. Enn eitt sem ég verð þá búin að afhjúpa áður en mér tekst að koma handavinnualbúinu í loftið!

Hér er gott að sitja og hugsa málin.

Svo er hægt að hanga úti við garðshlið og bíða eftir að maður sjái Huga og Maríu koma heim úr skólanum!

Húrra, þau eru komin heim!!!

Fagnaðarfundir á tröppunum!

Baldur Tumi var svo ógeðslega fyndinn þarna! Hugi hafði verið eitthvað smá leiður (yfir að þurfa að bera þungar töskur heim úr skólanum) og alltaf þegar Baldur Tumi sér að einhver er leiður drífur hann í að reyna að hressa viðkomandi við. Oft byrjar hann á að beygja sig svona yfir mann og horfa hlýlega í augun á manni! Ekki er annað að sjá en að það hafi virkað vel á Huga sem hló og hló að uppátækjunum í litla bróður!

  

Svo til að allt verði örugglega í lagi strýkur hann hárið ... og snýr upp á nefið!

Sjáiði, þau dýrka mig!

María og Hugi telja peningana úr hinni svokölluðu geimflaug. Geimflaugin er sparibaukur sem María bjó til handa Huga úr gamalli gosflösku og lituðum pappír fyrir mörgum árum. Allar götur síðan hafa þau systkinin safnað þar í sameiginlegan sjóð sem þau ætla að kaupa sér eitthvað sniðugt fyrir eins og tölvuspil eða trampólín!

         

Baldri Tuma þykir svo gott að knúsa kisuna sem Svanhildur guðmóðir gerði handa honum. Verst að það sést ekki hér hvað hún er fín þar sem bakhliðin snýr að okkur ... en þegar maður er að knúsa getur maður ekkert hugsað út í það hvernig hlutir líta út á mynd!