Úti að hjóla

Nú þegar óðum er farið að vora þykir Maríu og Huga fátt meira spennandi en að fá að fara út að hjóla. Þau eru bæði orðin alveg eldklár og bruna um Vesturbæinn hvort á sínum fáknum!

Hér þeysir Hugi eftir Bárugötunni. Það er reyndar alveg hræðilegt að sýna svona mynd þar sem sést að hjálmurinn er í skúffunni aftan á hjólinu en ekki á kollnum á drengnum. Ég ber því við að ég var sjálf ekki með þennan umrædda dag og fékk því engu um þetta mál ráðið!

Hugi var með ægilega minnimáttarkennd í fyrra yfir litla þríhjólinu og fannst það mun púkalegra en Maríuhjól. Núna er hann hins vegar alsæll við sitt og sennilega á skúffan góða stóran þátt í því!

Þarna bruna systkinin hvort á eftir öðru! Og María er sem betur fer með sinn hjálm!

Á fleygiferð inn í vorið!