Þrír kettlingar

Nokkrar októbermyndir, aðallega af kettlingum heimilisins, Maríu, Huga og Baldri Tuma.

Við kveiktum upp í arninum í fyrsta sinn í byrjun október þetta haustið. Baldri Tuma fannst eldurinn stórmerkilegur og fylgdist jafnvel með logunum af meiri áhuga en sjónvarpinu sem hann er annars mjög hrifinn af!

Gagntekinn af sjónarspilinu!

Hann er orðinn svona líka duglegur á maganum ...

... meira að segja svo duglegur að hann rúllar yfirleitt á bakið!

Við Baldur Tumi förum gjarnan í göngutúra hér út í nærliggjandi sveit og datt í hug að sýna ykkur helstu vörðurnar á leið okkar.

Að vísu missir Baldur Tumi yfirleitt af þessu öllu sjálfur!

Tré í haustlitum.

Þetta hús langar okkur svolítið að flytja í. Það væri alveg fullkomið ef það stæði við vatn eða sjó í staðinn fyrir akur. En fallegt er það, jafnvel þótt vinnupallurinn þarna vinstra meginn við tröppurnar skemmi svolítið fyrir.

Hlaða framundan.

Undarlega vaxið tré og „kindahús“ í baksýn (ég hef ekki hugmynd um hvað þetta heitir en hef séð kindur fá sér að borða þarna!).

Annað fallegt hús sem myndi líta stórkostlega út á fasteignavefnum. Sannleikurinn hins vegar sá að járnbrautateinarnir liggja 10 metrum frá húsinu og ég hefði því alla vega sjálf ekki nokkurn áhuga á að búa þarna!

Baldur Tumi er orðinn ægilega flinkur með hringluna og finnst fátt eins spennandi og að naga hana.

Fátt hins vegar eins ömurlega spælandi og að missa hana út úr höndunum.

Sjáið mig! Ég er í peysu sem amma Imba prjónaði handa mér!

         

Hvernig er hægt að vera svona mikil krúsídúlla?!!

Dreyminn ungur maður.

Hmmm ... hvað átti aftur að gera næst?

Loksins, loksins fékk Baldur Tumi sitt eigið silkisett! Ekki er annað að sjá en að hann hafi kæst mjög við það.

Kettlingarnir þrír.

Baldri Tuma finnast frábærast í heimi að vera hjá Maríu stóru systur. Þegar hún er nálæg getur hann ekki einu sinni einbeitt sér að því að drekka því hann þarf svo mikið að vera að ná sambandi, brosa og spjalla! Hér er hann sæll og glaður í fangi átrúnaðargoðsins.

Svo er Hugi bróðir líka frekar frábær!

Eitt haustkvöldið ákváðum við að fá okkur sushi. Hugi lét sitt ekki eftir liggja og pantaði sér vænan skammt af laxabitum. Hann er ótrúlega flinkur með prjónana og er búinn að skora á Inga Björn vin okkar í prjónakeppni næst þegar þeir hittast.

Úrslitin úr þeirri viðureign munu væntanlega ekki koma á óvart miðað við þessa tækni!

María fékk sér hins vegar bara pizzu frá veitingastaðnum sem er við hliðina á sushistaðnum.

Baldur Tumi fékk hins vegar hvorki sushi né pizzu og lék sér bara á leikteppinu meðan við hin borðuðum.

Eins og þið sjáið er Baldri Tuma margt til lista lagt þrátt fyrir ungan aldur. Hér steikir hann grænmetisbuff og hristir pönnuna af mikilli fagmennsku.

Honum finnst hins vegar vafasamt að ljósmyndarinn trufli hann við eldamennskuna.

Systkinin, vinirnir og krúttin María og Baldur Tumi. Okkur Maríu þykir voða leiðinlegt að muna ekkert eftir þessum tíma þegar manni var pakkað inn í sæng og vaggað mjúklega. Verst er þó eiginlega að á þeim tíma kunni maður áreiðanlega ekkert að meta þjónustuna og fannst eilíflega að hlutirnir gætu verið aðeins betri!

María kemur sér fyrir á teppinu með litla bróður og rifjar upp hvernig það var að vera smábarn! Fyrst er að prófa að troða höndinni upp í sig ...

... næst baðar maður út öllum öngum ...

... og svo hlær maður brjálæðislega að eigin fyndni!!!

Það er endalaust hægt að dást að litla bróður (sem er ekki búinn að vera í þessu dressi allan mánuðinn þótt annað mætti halda af þessu myndaalbúmi).

Að hugsa sér að María hafi einu sinni verið svona lítil líka. Og að hugsa sér að Baldur Tumi eigi einhvern tímann eftir að verða svona stór!

Ég held að Baldur Tumi fái grænu augun hans pabba síns. Hvað segja lesendur?

Þessi er kannski frekar einhver tegund af nagdýri en kettlingur?!

Um daginn kom viðurinn okkar fyrir veturinn. Einar og Hugi sáu um að tæma kerruna og hlaða stafla inni í bílskúr. Hér eru þeir um það bil hálfnaðir með verkið.

Við höfum lengi látið okkur dreyma um viðarskýli í garðinum en þangað til við hrindum því í framkvæmd fer ágætlega um hann í bílskúrnum.

Stæða.

Hugi var ekkert smá duglegur og vann eins og berserkur!

Á meðan drengnum var þrælað út fór ég hins vegar með hin börnin, Maríu og Baldur Tuma, í nýlega opnaða búð tileinkaða Hello Kitty. Þið megið geta hvert okkar var hvatamaðurinn að þeirri ferð!