Þingvellir í september

Það hefur lengi staðið til að fara í fjölskylduferð að Þingvöllum enda hafa börnin hingað til aðeins séð þjónustuskálann og tengja þessar slóðir helst við pulsukaup! Úr þessu var bætt í síðustu viku þegar haldið var með börn og buru á þennan sögufræga stað til að skoða Almannagjá, Öxará og óviðjafnanlega náttúrufegurð!

Vellirnir skörtuðu sínu fegurasta þennan dag! María var reyndar eilítið smeyk þegar við tilkynntum henni að næst á dagskrá væri að halda ofan í gjánna ... í hennar huga tengjast gjár einhverju hræðilegu sem sagt er frá í barnabókum!

Hún var þó fljót að sættast við Almannagjá og þeim Huga fannst spennandi að skoða þennan „helli“ sem við rákumst á á leið okkar þar um.

  

Í gjánni var hægt að tína hundasúrur og ólafssúrur að vild. Maríu þóttu þær súrar en Hugi lét sig hafa það!

Systkinunum þykir ævinlega gaman að spretta úr spori og þótti þessi vegur sem teygði sig svo langt sem augað eygði heldur betur freistandi.

Það væri óskandi að hrútaber væru jafngóð og þau eru falleg!

Hugi tyllir sér í móann. Við reyndum nú eitthvað að fræða þau um sögu staðarins á göngunni en dreg í efa að mikið af því hafi síast inn!

Feðgar á göngu.

Við María vorum óskaplega heillaðar af þessu blómi sem óx þarna víða, bæði þessari fjólubláu útgáfu ...

... og í þessari hvítu.

Það voru fáir gestir á Þingvöllum þennan eftirmiðdag en það var bara betra. Við nutum þess að rölta þarna um, ein í þessari ævintýraveröld. Hér stillir þriðjungur fjölskyldunnar sér upp fyrir myndatöku og hvílir sig dálítið á göngunni sem getur verið töluvert löng fyrir stutta fótleggi.

Hugi öðlaðist nýjan kraft þegar hann uppgötvaði hversu skemmtilegt var að príla í þessum mosavöxnu klettum og var með öllu ófáanlegur til að halda förinni áfram. Mamman ákvað því að nýta tækifærið og taka nokkrar myndir af gróðrinum á meðan hann fengi smá útrás:

Þessi jurt er eins og hún sé sykurhúðuð!

  

Það var enn hægt að finna bláber á stangli í lynginu.

Íslenskir móar og lyng ... best í heimi!

Skuggaleg fjölskyldumynd.

  

María skoðar skýin meðan foreldrarnir reyna að tjónka við Huga sem grenjar af því að honum hefur verið skipað að hætta að príla í klettunum svo hægt sé að halda ferðinni áfram!

Návígið við Öxará minnti Huga á að hann væri alveg í spreng. Það var ekki um annað að ræða en að láta allt vaða á þessum háheilaga stað! Við kjósum þó að líta fremur á þetta sem góðverk fyrir náttúruna en vanvirðingu!

Öxar við ána ... og allt það!

Hugi tíndi einn fífil og eitt strá og gætti svo þessara gersema sinna vel það sem eftir var ferðarinnar!

María mín.

Mæðgur við foss. María hafði mikið gaman af sögunum af því þegar ég kom á Þingvelli sem lítil stelpa og buslaði í ánni þarna við fossinn á sundbol í blíðskaparveðri. Í minni æsku var oft farið á Þingvelli á góðviðrisdögum með teppi og nesti. Er það bara ég eða fara engir þangað í dag nema túristar?

Systkinunum fannst skemmtilegast að kasta steinum í ána.

Svo ég taki mér orð dótturinnar í munn: Það fossaði ...

... og fossaði. Hann var nú stærri í minningunni (samt eru ekki nema nokkur ár síðan ég sá hann síðast)!

Fjölskyldan á Bárugötu.