Tár, bros og sumarskór

Seinni skammturinn af júlímyndum!

Það er ekkert smá ríkidæmi að eiga tvö stór systkini sem finnst maður æðislegur, nenna að spjalla við mann endalaust og jafnvel lesa fyrir mann múmínálfabækur þar sem maður liggur út af og hefur það gott!

Á ég að treysta þeim?

Amma Imba kom og dvaldi í Uppsölum í tvær vikur. Hún fékk lánað hús í Håga og þótt við höfum oft heimsótt hana þangað gleymdist myndavélin ævinlega. Hér er það hún sem heimsækir okkur á Konsulentvägen og borðar með okkur hindberja og rabarbara pæj með rjómaís.

En ég var bara látinn sitja á gólfinu og fékk EKKERT!!!

Það má vart á milli sjá hvor er hrifnari af hinum, sá litli eða sá stóri.

Ólíkt hafast þeir við, ömmustrákarnir tveir. Annar svo afslappaður að hann getur sig vart hrært, hinn á fleygiferð svo hann festist vart á filmu. Huga þótti annars ómögulegt að litli væri ekki kominn með neitt „ömmunafn“, María er jú „ömmustelpa“ og hann sjálfur „ömmustrákur“. Til að bæta úr þessu stakk hann upp á að sá stutti fengi nafnið „ömmudraumur“! Var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum enda stórkostlegt ömmunafn á stórkostlegan dreng!

  

Það hlýtur líka hver maður að sjá að Lilli Einarsson er algjör draumur! Þessar brosmyndir eru vissulega hreyfðar og úr fókus en samt ó svo sætar! Ég finn bara hvernig hjartað hoppar upp í háls af gleði þegar ég skoða þær!

Hugi bróðir er bara svooo skemmtilegur!

Hvað ætla þau eiginlega að fara að gera við mig núna?

Jú, fara með mig í mína fyrstu ferð í Hammarskogen!

Við ætluðum í fyrstu að borða nestið okkar niðri við vatnið en leiðin þangað lá um haga þar sem kýr voru á beit og við vildum ómögulega trufla þær með að fara að arka þarna um með vagninn. Og svo verð ég líka að játa að það fór dálítið um mig að eiga að keyra fína, fína vagninn minn yfir kúamykju!

Við heilsuðum því bara aðeins upp á kýrnar áður en við snerum við.

Sá stutti var heldur órólegur þegar við lögðum hann í vagninn eftir bílferðina en sofnaði eftir snarpan göngutúr á malarvegum og grasbölum. Okkur grunaði þó að skjótt yrði friðurinn úti þannig að við ákváðum að spóla mjög hratt í gegnum þetta pikknikk! Hér rífur Einar kardimommulengjuna upp og skvettir kaffi í bollana og María og Hugi svolgra í sig saft úr glösunum!

María blés nokkrar sápukúlur yfir okkur til að skapa stemmningu! (Ég hef vissulega ekki verið klippt frá því ég gaf fyrirheitið þarna um daginn en þetta var svo fín mynd með sápukúlunum inn á og sætri Maríu að ég ákvað að gera undantekningu frá reglunni!)

Feðgarnir gleypa í sig kræsingarnar því ...

... eins og okkur grunaði var sá litli vaknaður innan skamms og virtist ekki þykja mikið til Hammarskogen koma!

Og þó? Það má kannski láta sig hafa þetta?

Strákarnir í fjölskyldunni framan við leynihurðina í lautinni.

Mér líkar þessi nýi staður bara ljómandi vel! En til öryggis ætla ég samt að vera svolítið efasemdafullur á svipinn svo þau haldi ekki bara að þau geti farið með mig hvert sem er og haldið að ég sætti mig við það. Það er nú einu sinni ég sem er sjeffinn á heimilinu!

Hvar er Valli? Hvar eru María og Hugi?!

Meðan Lilli fékk sopann sinn á garðbekk í lautinni blésu stóru systkinin sápukúlur af miklum móð.

  

Sætasti Hugi!

Sætasta María!

Þetta eru ekki amalegar kringumstæður til að gefa brjóst: fuglasöngur, glitrandi stöðuvatn og sápukúluregn!

Útsýnið í Hammarskogen er alltaf jafnfallegt!

Ropað í guðs grænni náttúrunni.

Eftir máltíðina var litli lagður aftur í vagninn sinn en ég bjóst ekki við að hann hefði áhuga á löngum dvölum þar! Mig langaði samt svo að ná smá pikknikk stemmningu svo ég svolgraði í mig einn kaffibolla og ákvað að lesa eins og fimm línur í fallegu bókinni minni ...

... meðan María puðaði upp og niður brekkurnar með vagninn. Þeim litla hefur þó greinilega líkað að láta keyra sig á svona fallegum stað eftir grænum grasbölum undir léttskýjuðum himni og með Mälaren og kusur í næsta nágrenni því hann steinsofnaði!

María var skiljanlega mjöööög stolt af sjálfri sér!

Það var nú samt svolítið átak að koma vagninum upp þessar bröttu brekkur.

Og svo bara svaf hann, litli unginn! Sólin braust fram úr skýjunum og við fengum letilegar stundir í skóginum, fjölskyldan. Lásum og skrifuðum og höfðum það svo undur gott!

Svona á lífið að vera þegar það er verst!

Ekki minnkaði gleðin eftir að heim var komið því þá var komið að því að Lilli prófaði nýja leikteppið sitt!

Hann er svolítið sniðugur þessi græni fiskur!

Undurfríður ungur maður.

Þessi rauði skór er mjög sniðugur! Ef ég baða út öllum öngum slæ ég stundum óvart í hann og þá hringlar í honum!

Skyldi Lilli vera með svona miklar áhyggjur af draslinu sem sést þarna fyrir aftan hann?!

Einlæg aðdáun!

Að lokum sendir Lilli lesendum síðunnar koss með ósk um að þeir eigi skemmtilegan ágústmánuð í vændum!