Svíþjóðarferð Bókaklúbbsins Dreka

Bókaklúbburinn Dreki var stofnaður árið 1999. Meðlimir eru aðeins tveir, Guðrún Lára sem gegnir embætti formanns og ritara og Einar Þór sem er gjaldkeri félagsins. Ólíklegt þykir að fleiri meðlimir verði teknir inn í klúbbinn á næstunni. Hefur starfið verið í  miklum blóma frá stofnfundi og bókmenntir af öllum stærðum og gerðum verið rannsakaðar með tilheyrandi umræðum og fundargerðum. Árið 1999 fór bókaklúbburinn í mikið ferðalag um Spán og England en nú á dögunum, nánar tiltekið þann 23. nóvember, hélt Dreki í sína aðra reisu og í þetta sinn var land Svía kannað.

Fyrsti dagur

Farið til Gautaborgar

Við flugum til Stokkhólms en fórum beinustu leið upp í lest til Gautaborgar. Það hafði snjóað töluvert mikið um nóttina (Svíarnir kunna ekkert á snjó og kölluðu ástandið „snekaosen“!) og útsýnið var ótrúlega fallegt. Alla leiðina var alhvít jörð og snjóbarin tré meðfram teinunum. Ég elska lestarferðir, finnst þær skemmtilegur ferðamáti!

Við Einar vorum samt dálítið þreytt enda höfðum við farið allt of seint að sofa og þurft að vakna snemma.

Mér finnst það alveg sjást á þessum myndum!!!

Þar sem þetta var nú einu sinni ferð bókaklúbbsins þá var mikið lesið í ferðinni. Ég er farin að hafa það fyrir venju þegar ég fer í ferðalög að kaupa mér glæpasögu sem gerist á þeim stað sem ég ferðast til hverju sinni. Það kom því ekkert annað til greina en að lesa bók eftir Henning Mankell um spæjarann Kurt Wallander! Bókin var svo ótrúlega spennandi og frábær að ég kláraði hana á nokkrum dögum (hafði ímyndað mér að ég yrði með hana fram að jólum). Þá var ekki um annað að ræða en að fara beint í næstu bókabúð og kaupa aðra bók eftir sama höfund um sömu persónur!

Annar dagur

Ráðstefna og rölt í Gautaborg

Einar átti reyndar annað erindi til Svíþjóðar en bara skemmtiferð með bókaklúbbnum Dreka! Hann var nefninlega að fara á sænska læknaráðstefnu í Gautaborg. Meðan hann hlustaði á fyrirlestra lék ég hins vegar lausum hala í borginni, fór á kaffihús, kíkti í búðir og tók nokkrar myndir. Þessi er tekin á Brunnsparken.

Um kvöldið fórum við út að borða á indverskan veitingastað rétt  við Järntorget. Maturinn var unaðslega góður og við höfðum það notalegt. Hins vegar eru Svíar stilltir eftir einhverri annarri klukku en við, mæta út að borða svona um sjö-leytið og eru löngu farnir heim að sofa um tíu þegar flestir veitingastaðir loka. Við Einar vorum því orðin ein eftir ansi fljótt!

Einar á þeim indverska! Eftir góða máltíð skelltum við okkur svo á kaffihús í nágrenninu sem hafði verið uppáhaldskaffihús Einars þá mánuði sem hann dvaldi í Gautaborg á árdögum okkar sambands. Mér fannst því hálfpartinn eins og ég væri líka að fara á fornar slóðir þegar við komum þangað þar sem Einar hafði oft skrifað mér um það í þeim bréfum sem gengu látlaust milli okkar það sumarið!

Þriðji dagur

Meiri ráðstefna, meira rölt!

Við Einar vorum stundum samferða í bæinn þessa morgna þó Einar héldi svo í ráðstefnusalinn en ég í búðirnar og á kaffihúsin! Þarna er ég að bíða eftir strætó í hverfinu sem hótelið var í, Gårda.

Einar á Brunnsparken. Skyldi jólatré þeirra Gautaborgara líka vera frá Osló?

Þessi gata, Vallgatan, var í næst mestu uppáhaldi hjá mér af þeim götum sem ég þræddi í Gautaborg. Við hana stendur t.d. búðin sem ég var nýbúin að kaupa mér ægilega fínan jakka í þegar þessi mynd var tekin! Þarna voru margvíslegar litlar búðir með fatnaði, húsbúnaði og hinni margrómuðu skandinavísku hönnun! Og að sjálfsögðu nokkur kaffihús!

Dómkirkjan í Gautaborg. Það var svo fallegt hvernig fíngerðar greinarnar og þau fáu laufblöð sem enn tórðu á þeim mynduðu næstum eins og tjald fyrir kirkjuna frá þessu sjónarhorni.

Þar sem ég var ein alla daga voru sjálfsmyndirnar nokkrar! Þarna er ég við skurðinn sem liggur þvert í gegnum Gautaborg!

Og hér er skurðurinn sjálfur, séð í átt að Brunnsparken!

Jólaeplin voru komin til Gautaborgar og seld í stórum stömpum úti á götu!

Þessi gata, ef götu skyldi kalla, var hins vegar í mestu uppáhaldi! Victoriapassagen! Þetta var pínulítið sund milli tveggja gatna og við það stóðu nokkrar skemmtilegar búðir og eitt alveg yfirnáttúrulega dásamlegt kaffihús! Stemmningin var alveg ólýsanlega notaleg þarna þegar rökkva tók ...

... eins og sjá má á þessari mynd! Svo ótrúlega jólalegt og yndislegt! Myndin er einmitt tekin á kaffihúsinu góða ...

... og þarna sit ég í góðu yfirlæti í litlu skoti úti í sundinu! Við Einar hittumst sem sagt þarna þegar ráðstefnu lauk og fengum okkur það allra besta kaffi sem ég hef fengið!

Fjórði dagur

Enn meiri ráðstefna og rölt en líka farið til Stokkhólms

Um morguninn pökkuðum við dótinu okkar saman og kvöddum það allra minnsta hótelherbergi sem við höfum nokkru sinni dvalið á (hótelið var samt mjög fínt!). Við geymdum töskurnar okkar á Aðaljárnbrautastöðinni en Einar fór svo aftur á ráðstefnuna og ég inn í miðbæ.

Á leiðinni í strætóinn varð ég samt að taka mynd af þessu húsi! Þarna áttu nefninlega nokkrir sporvagnar heima og ein áhrifamesta sjón sem ég hef séð í langan tíma var þegar þessar stóru dyr opnuðust og trammarnir sigldu hægt og hljóðlega þarna inn. Svo var hægt að sjá þá silast um þarna fyrir innan gluggana! (Ég get reyndar ekki enn skilgreint hvað mér fannst svo óstjórnlega skemmtilegt við þetta ... verð bara að vona að þið skiljið mig!) Ég var reyndar með á stefnuskránni að taka mynd af öðru húsi í Gautaborg en náði því ekki. Það var Slussvaktstugan (alveg möguleiki á að hér séu bollur eða tvípunktar yfir einhverjum sérhljóðum!!!), lítill kofi sem stóð niðri við kanalinn og mér fannst alveg hreint ótrúlega skemmtilegur.

Eftir að ráðstefnu lauk áttum við Einar enn eitt stefnumótið á kaffihúsi í Gautaborg. Í þetta sinn á Espresso House á jarðhæð NK vöruhússins.

Þar var gaman að sitja og fylgjast með iðandi mannlífinu út um risastóra gluggana.

Við gátum þó ekki kvatt Gautaborg án þess að fara aftur á litla kaffihúsið við Victoriapassagen!

Var ég búin að segja hvað kaffið þar var gott?!

Einar í litla skotinu þar sem stór hitari vermdi þeim sem kaffið náði ekki að ylja.

Og kaffið var gott ... var ég búin að segja það?!

Ég fékk þessa eyrnalokka í verðlaun fyrir hvað ég var þæg meðan Einar var á ráðstefnunni. Spurning hvort ég verði svipt þeim verðlaunum þegar visa-reikningar koma í hús í janúar?! En lokkarnir eru fínir, gerðir af einhverri sænskri konu og minna mig á flugelda!

Eftir tíðindalitla lestarferð (fyrir utan undarlega konubarnið sem sat á móti okkur!) tékkuðum við okkur inn á Frey's hótelið í miðborg Stokkhólms. Þar var sem betur fer aðeins rýmra um okkur en í Gautaborg!

Fimmti dagur

Gamli Stan og búðarráð í Stokkhólmi

Ég fyrir utan hótelið. Takið sérstaklega eftir fína nýja jakkanum sem var vígður þennan dag!

Við hjónaleysin á brúnni sem liggur yfir í Gamla Stan um Ríkisgötuna (mér finnst fyndið að það sé til Ríkisgata!). Enn einn kanallinn í baksýn og hinar ótrúlega fallegu byggingar sem setja svip sinn á miðborg Stokkhólms.

Enn á brúnni ... ég veit nú ekki nákvæmlega hvaða bygging þetta er í baksýn en spái því að það sé þinghúsið ... alla vega hlýtur þetta að vera eitthvað tengt ríkinu fyrst það stendur við Ríkisgötu! Á þessari mynd bendi ég ykkur sérstaklega á nýju vettlingana ... ég er greinilega veik fyrir sænskri hönnun!

Einsi kaldi í ísköldum Stokkhólmi!

Stór stund í mínu lífi! Við vorum búin að sjá að ákveðin kaffihúsakeðja bauð upp á Tomte Latte (sem sagt jólasveinalatte!). Ég var alveg æsispennt, ekki síst þar sem mér finnst tomte alveg rosalega fyndið orð (mér finnst bókstaflega öll sænska fyndin). Ég var því búin að suða um að fá svona kaffi í marga daga þegar það var látið eftir mér. Það fer engum sögum af bragðgæðum Tomtalattesins ... en þetta var mjög skemmtileg kaffihúsaferð!

Ég get samt alveg játað fyrir ykkur að Einari fannst Tomtaletteinn mjög vondur!

Ég með aðra langgötuna í Gamla Stan í bakgrunni. Við höfðum rölt þarna um kvöldið áður og átt alveg ótrúlega notalegar stundir en ákváðum að geyma allar myndatökur þar til í dagsbirtu. Það kom okkur hins vegar í opna skjöldu hvað það var ótrúlegur mannfjöldi sem náði að troða sé þarna um daginn eftir og ekki séns að ætla að draga upp myndvélina og ná skemmtilegum myndum í þrönginni!

Einar á torgi í Gamla Stan. Þarna var allt uppfullt af litlum kofum þar sem ýmiss varningur var seldur og mjög skemmtileg jólamarkaðsstemmning. Og húsin allt í kring ótrúlega falleg!

Eins og sjá má!

Einar var alltaf að leita að Tomtanum og varð að vonum kátur þegar hann sé heila Tomtahljómsveit leika fyrir markaðsgesti!

„Her kan man fika och ha det roligt“ sagði einhver kona á jólamarkaðnum okkur Einari til ómældrar ánægju (af því að okkur finnst allt svo fyndið á sænsku). Þarna er ég einmitt að snarla og skemmta mér ... sem er nokkurn veginn það sama og að fika och ha det roligt! Glögg og piparkökur ... ummmm!

Í hádegismat fengum við okkur svo gúllassúpu í einhverjum eldgömlum kjallara.

Við vorum dálítið glötuð um kvöldið og fórum aftur á sama veitingastað að borða og kvöldið á undan, reyndar eftir mikið þramm um alla borg í leit að öðrum! Þetta var notalegur ítalskur staður með góðum mat og skemmtilegu andrúmslofti ...

... og fullt af berrössuðum styttum!

Einar varð að láta sér þær nægja fyrst Tomtinn var ekki á staðnum!

Sjötti dagur

Vete-katten og verslunarferð

Einar við lestur á hótelinu. Hann var voða ánægður með þessa Noam Chomsky bók sína sem hann keypti í Stokkhólmi!

Við byrjuðum daginn á dálítili gönguferð út í Kungsholmen. Við áttum svo sem ekkert sérstakt erindi þangað nema að eyða tímanum þangað til opnað yrði á kaffihúsinu Vete-katten en þangað átti að halda eftir ábendingum frá Stínu og fjölskyldu.

Það snjóaði á okkur í þeirri gönguferð! Þarna er ég og hvað haldið þið að sé í baksýn ... jú, mikið rétt, enn einn kanallinn!

Við skoðuðum svo Statshuset (eða eitthvað svoleiðis) en þarna eru Nóbelsverðlaunin m.a. afhent. Þetta er ég sem er þarna eins og þvara úti í horni á myndinni!!!

Skraut á þakinu!

Einar lét sig dreyma um að hann ætti kannski eftir að koma þarna til að taka á móti Nóbelsverðlaunum fyrir störf í þágu læknavísinda einhvern daginn! Meðan við vorum að skoða Statshuset tóku nærstaddar klukkur að gefa til kynna að klukkan væri orðin 12 og því kominn tími til að hlaupa á Vete-katten.

Mikil urðu þó vonbrigðin þegar þangað var komin. Engin prinsessuterta til í húsinu!!! Ég fór í fýlu ...

  

... og varð að gera mér þessa köku að góðu! Það gerði þó ekkert til enda var þetta það allra bragðbesta fyrirbæri sem ég hef nokkru sinni sett inn fyrir mínar varir ... vildi bara að ég vissi hvað þetta hefði verið nákvæmlega! Já og fýlan ... hún var bara fyrir myndavélina!

Einari fannst líka gaman á Vete-katten enda eru þarna kisulórur að sniglast um á hverju strái!

Stemmning á Vete-katten! Finnst ykkur þessi bakari ekki ótrúlega krúttlegur? Og alveg í stíl við hann að hafa kisuna þarna fyrir ofan!

En Einar fékk ekki nóg þrátt fyrir Lúsíuketti á Vete-katten og lét langþráðan draum rætast og fékk sér korv!

Það reyndist líka fullástæða fyrir næringarríka máltíð enda ferð í ofvaxna vöruhúsið NK framundan!

Um kvöldið borðuðum við á japönskum veitingastað. Ef ég er eitthvað skrýtin á svip á þessari mynd þá er það bara vegna þess að við Einar vorum búin að gráta úr hlátri áður en hún var tekin. Þetta var fyndnasti veitingastaður sem ég hef komið á! Held kannski að ég geti ekki endursagt brandarann en læt þó fylgja með að bjórinn sem ég held á var sá eini sem var til í húsinu (hvers konar veitingastaður á bara einn bjór!!!). En sushiið var gott!

Það var líka klárað upp til agna!

Einar mundar prjónana! Hann heldur að hann sé rosalega klár með þá og vildi endilega kenna mér að halda rétt á prjónum. Skömmu seinna rákum við þó augun í leiðbeiningar sem gáfu sterklega til kynna að mín aðferð hefði verið rétt allan tímann!

Einar drekkur bjórinn (sem var reyndar enginn bjór heldur eitthvað glundur upp á 2,1% styrkleika!) en starfsfólkið hafði lítið að gera enda við einu gestirnir. Ég held að því hafi fundist  við Einar alveg roooosalega vitlaus!

Við á japanska síðasta kvöldið í Svíþjóð!

Til að slá botninn í ferðinna enduðum við kvöldið á belgískum bar sem var samvaxinn hótelinu (morgunverðurinn borðaður þar ... alveg skrýtið að borða morgunmat með allar þessar vínflöskur uppi á vegg!). Við fengum okkur að sjálfsögðu belgískan bjór ... ekki þó Leffe enda er kanilbragð af honum eins og allir vita!!!

„... eyðileggja gjöf til manns ...“ (Verðlaun veitt fyrir þann sem getur sagt mér hvaða íslensku bíómynd þessi mynd og tilvitnun tengist!).

Sjöundi dagur

Farið heim!

Síðustu klukkustundirnar í Svíþjóð nýttum við Einar í að lesa uppi í rúmi eins og góðum bókaklúbbsmeðlimum sæmir! Reyndar áttum við líka í baráttu upp á líf og dauða við að troða öllum varningnum ofan í töskurnar! Við héldum síðan aftur heim á Bárugötu þar sem María og Hugi tóku á móti okkur. Ekki amaleg heimkoma það!