Stokkhólmsferð Guðrúnar og Einars

14. - 19. júní 2005

Í annað sinn á um það bil hálfu ári ákváðum við hjónaleysin að sækja Svíþjóð heim. Líkt og áður sótti Einar ráðstefnu meðan ég fékk það hlutverk að kíkja í búðir og kanna kaffihúsakost Stokkhólms! Í fyrri ferðinni var borgin í vetrarbúningi en í þetta sinn ríkti þar sumar og sól!

Þriðjudagurinn 14. júní

Við komum örþreytt til borgarinnar síðdegis þriðjudaginn 14. júní. Ferðin hafði nefninlega ekki byrjað sem best hjá okkur! Í stuttu máli var bíllinn okkar rafmagnslaus, leigubílstjórinn með startkaplana fékk uppgefið rangt heimilisfang, á flugvellinum lentum við í lengstu biðröð sem skráð hefur verið á spjöld sögunnar og eftir  rúmlega klukkustundar bið höfðum ekki tíma til neins annars en að hlaupa beint út í vél á síðustu stundu! Svona samfellt tveggja og hálfs tíma stress er ekki góður undanfari flugferða ... sérstaklega ekki þegar maður er flughræddur! Mikil ókyrrð er ekki heldur til að bæta stemmninguna! Við lentum þó farsællega í Stokkhólmi þremur tímum síðar og ákváðum að hafa það bara hugfast að fall er fararheill! Það reyndust líka orð að sönnu!!!

Við skelltum okkur beint á hótelið okkar sem var einstaklega vel staðsett í Östermalm, rétt við tónlistarháskólann, tækniháskólann og Ólympíuleikvanginn Stadion. Umhverfið var allt hið fegursta, fuglarnir sungu og greinar runnanna svignuðu undan blómum!

Við drifum okkur beint niður í miðbæinn og settumst á notalegan veitingastað, glorhungruð og örþreytt ... eins og sjá má!

Höfðum ekki einu sinni orku í að reyna að vera sæt fyrir myndavélina!

Vel útilátin og bragðgóð máltíð hressti okkur þó nokkuð en ekki nægilega til að ég hefði orku í að versla ... og er það til marks um hversu gífurlega þreytt ég var eftir hasar morgunsins!!! Við eyddum því þessum fyrsta degi í miklum rólegheitum og fórum snemma að sofa.

Miðvikudagurinn 15. júní

Á miðvikudeginum hófst ráðstefnan og Einar var því fjarri góðu gamni þegar ég skellti mér í bæinn, úthvíld og alsæl, enda a.m.k. fimm H&M búðir að finna í hjarta Stokkhólms!!! Þó í verslununum væri að sjálfsögðu margt fallegt að sjá þótti ekki tilefni til að draga myndavélina oft upp og þar af leiðandi á ég fáar myndir frá þessum degi!

Við Einar mæltum okkur hins vegar mót í eftirmiðdaginn og ákváðum að njóta síðdegissólarinnar í Berzeliigarðinum við Nybroplan. Hér er Einar við garðshliðið með H&M afrakstur dagsins!

Bangsar að knúsast í garðinum!

Þó klukkan væri óðum farin að nálgast kvöldmat var enn hægt að liggja í sólbaði og hafa það gott!

Það var alveg ótrúlega notalegt að halla sér aftur á innkaupapokana þarna í grasinu, draga upp þykka glæpasögu og láta sólina verma sig!

Um kvöldið fórum við á japanskan veitingastað við Nybrogatan. Þar smakkaði ég misosúpu í fyrsta skipti á ævinni. Úff, hvað hún var vond! Á þetta virkilega að bragðast eins og eimaður harðfiskur og bjór?!

    

Einhverjir muna kannski eftir því þegar við fórum á japanskan veitingastað í fyrri Stokkhólmsferðinni ... í öllu falli gekk okkur ekki sem best að panta þá og þjónustustúlkan horfði á okkur í forundran þegar við pöntuðum sushi OG núðlur! Við ákváðum að gera ekki sömu mistökin aftur og pöntuðum BARA sushi núna! Samt sem áður var líka horft á okkur eins og við værum klikkuð í þetta skiptið! Við kunnum greinilega ekki að panta á japönskum veitingastöðum!!! Sushiið bragðaðist hins vegar afskaplega vel svo kannski skipti það ekki öllu máli!

Fimmtudagurinn 16. júní

Á fimmtudagsmorgninum, eftir að Einar var farinn á ráðstefnuna sem haldin var á Huddinge sjúkrahúsinu alveg lengst, lengst í burtu, ákvað ég að skoða garð sem ég hafði séð á fína kortinu mínu að væri ekki langt frá hótelinu. Á leiðinni sannfærðist ég um að Östermal væri hið allra notalegasta hverfi ... enda eitt af þeim fínustu í borginni!

Þessi fíni garður, Kungliega Humlegården, umlykur konunglega bókasafnið. Þó mér þyki dálítið spennandi að koma inn í fleiri bókasöfn en Borgarbókasafnið og Þjóðarbókhlöðuna þorði ég ekki þarna inn enda eitthvað svo óttalega túristaleg ... kannski í næstu ferð!

Ég veit ekki alveg hvað þetta er með mig, styttur og myndavélina ... held að ég hljóti að vera með eitthvað svona styttumyndafetish (og þá væntanlega blómamyndafetish líka)! Eða kannski ég sé bara fegin því að eiga möguleika á svona grafkyrrum fyrirsætum þegar ég er sífellt að berjast við að fá ormana mína til að sitja kyrra í nokkrar sekúndur svo hægt sé að smella af þeim einni sæmilegri mynd?!

Í öllu falli elska ég styttur og þessi stóð þarna rétt aftan við bókasafnið.

Þrátt fyrir að enn væri árla dags voru margir komnir í Kungliga Humlegården (getur það verið að þetta þýði Konunglegi Humlagarðurinn?!!) þar á meðal þessar tvær sem sátu og máluðu og spjölluðu saman!

Í miðjum garðinum var líka að finna þessu fínu buslulaug og þar voru að minnsta kosti tuttugu litlir og sætir bleiurassar að kæla sig niður í góða veðrinu!

Ég hef nú bara sjaldan séð nokkuð eins ótrúlega krúttlegt og þetta!!!

Ég spái því að þarna hafi einhver leikskólinn eða vöggustofan verið í vettvangsferð ... þetta hlýtur nú að vera töluvert skemmtilegra en að fara í rigningu og roki niður að hinni reykvísku tjörn!

Einar ákvað að vera bara stutt á ráðstefnunni þennan daginn og eftir notalega tíma í garðinum dreif ég mig niður í bæ til að hitta hann. Á leiðinni hljóp ég fram hjá Hötorget og Orfeusargosbrunninum. Þó Einar biði eftir mér varð ég að staldra þar aðeins við til að taka myndir því ef eitthvað er í meira uppáhaldi hjá mér en að taka myndir af styttum ...

... þá er það að taka myndir af styttum sem fuglar sitja á!

Ég veit ekki alveg hvers vegna! Held að þetta hafi kannski eitthvað með andstæðurnar lifandi/dauður og hart/mjúkt að gera ... er samt ekki viss?!

Á Hötorginu er þessi fíni blóma- og ávaxtamarkaður. Fyrsta uppskeran af sænskum jarðaberjum var komin í hús (eða tjald!) og voru sölumennirnir óþreytandi við að auglýsa það!

Til að fagna endurfundunum héldum við Einar beint á Vetekatten enda hvergi betra að gera sér dagamun! Þegar við fórum þangað í nóvember var óskaplega kósí að sitja inni í ömmustofunum og gæða sér á bakkelsinu í hlýjunni en yfir sumarið er opnað út í notalegan bakgarð og þar settumst við niður með dásamlegar veitingar!

Einar fékk sér svona fína súkkulaðimús með passionfruit panna cotta fyllingu. Hljómar vel ekki satt?!

Og ég fékk mér að sjálfsögðu prinsessutertu!

Þessi var tekin sérstaklega fyrir Stínu og fjölskyldu ... með kærri þökk fyrir að hafa bent okkur á besta, krúttlegasta og yndislegasta kaffihúsið í Stokkhólmi!

Síðdegis ákváðum við að skella okkur út í Djurgården sem er ein af eyjunum sem Stokkhólmur samanstendur af. Það er miklu skemmtilegra að fara sjóleiðina og þá gefst líka góður tími til að bragða á fyrstu jarðaberjauppskeru Svíanna!

Af ferjunni er líka skemmtilegt útsýni yfir miðborgina. Okkur fannst hins vegar hundleiðinlegt í Djurgården ... höfum greinilega ekki verið rétta fólk, á réttum tíma eða réttum stað!

Um kvöldið fórum við svo á okkar ástsæla Michaelangelo, sætan ítalskan stað í Gamla Stan.

 

Þó við höfum alveg fallið fyrir þessum litla veitingastað í fyrri ferðinni var sjarminn enn meiri svona yfir hásumarið þegar búið var að opna risastóra gluggana alveg út á götu og hægt að fylgjast með mannlífinu fyrir utan. Fjögurra osta pizzan með rucolanu og kirsuberjatómötunum er líka óviðjafnanleg!

Á rölti í Gamla Stan eftir matinn skemmti ég mér heilmikið yfir útstillingunni í þessari nærfatabúð. Það fer stundum dálítið í taugarnar á mér þegar aðeins allra minnstu fötin rata út í búðarglugga ...

... en Svíarnir eru ekki feimnir við að hampa stórum brjóstum!!!

Föstudagurinn 17. júní

Það fór lítið fyrir hátíðahöldum í tilefni þjóðhátíðardags Íslendinga í Svíþjóð! Við hjónaleysin vorum meira að segja einstaklega ómeðvituð um þennan hátíðisdag sem Einar eyddi á ráðstefnunni meðan ég ákvað að láta nú búðirnar og visakortið finna almennilega fyrir því! Þar af leiðandi eigum við engar myndir fyrr en um kvöldið. Það kvöld fórum við hins vegar út að borða á fínan stað í hjarta borgarinnar (mundum hins vegar ekkert hvaða dagur var svo það er varla hægt að segja að það hafi verið í tilefni 17. júní!).

Þar höfðum við það notalegt og sötruðum kokteila meðan við biðum eftir borði.

Í fínu túristabókinni minni um Stokkhólm er að finna þessar upplýsingar um veitingastaðinn, Bistro Jarl: „Small luxurious restaurant, a favorite spot for the hip crowd. [...]The city's only champagne bar.“ Við vitum náttúrulega ekkert hverjir eru hip og kúl í Svíþjóð en fylgdumst af áhuga með þessum manni sem sat rétt hjá okkur. Þarna sat hann vatnsgreiddur í hvítu jakkafötunum sínum með kældar kampavínsflöskur til taks við borðið. Hann leit svo sannarlega út fyrir að tilheyra „the hip crowd“. Samt vorum við Einar ekki alveg sannfærð. Einhvern veginn fannst okkur vel geta verið að hann væri bara nýbúinn að fá útborgað, hefði keypt sér hvítan jakka í H&M og splæsti í allra ódýrasta kampavínið í þetta eina sinn. Hvað haldið þið? Gestaþraut vikunnar ... er hann hip eða wannabe?!

   

Við Einar vorum hins vegar alveg áreiðanlega ekki hip og kúl!!! Við vorum bara alveg ótrúlega hallærisleg í H&M fötunum okkar innan um alla pinnahælana og hvítu jakkana!!! Okkur fannst það hins vegar bara fyndið og þetta var alveg frábært kvöld með virkilega, virkilega góðum mat, góðu rauðvíni og miklum hlátri!

Áður en við fórum á Bistro Jarl fannst mér ég hins vegar fínust í heimi í nýju skónum mínum ...

... og með nýju töskuna mína!

Okkur gekk einstaklega illa að ná að hitta Alfreð, vin okkar sem búsettur er í Stokkhólmi. Þrátt fyrir að sms-in flygju fram og til baka rétt misstum við alltaf hvert af öðru. Líka þetta ágæta kvöld. Okkur tókst þó að ákveða þá að hittast daginn eftir enda fengum við tilboð sem við gátum ekki hafnað þegar Alfreð bauð okkur í siglingu á nýja bátnum sínum!

Meðan Einar sms-aði og hringdi í Alfreð tók ég mynd af þessari fínu en skrýtnu styttu fyrir utan Konunglega leikhúsið. Þetta hlýtur að vera eftirmynd einhvers brjálaðs leikara! Þeir eru náttúrulega alltaf svo skrýtnir!

Laugardagurinn 18. júní

Síðasta heila daginn okkar í Stokkhólmi ákvað ég að fara aftur í notalega garðinn minn enda Einar upptekinn á ráðstefnunni til hádegis. Í garðinum var þessi yogahópur búinn að koma sér þægilega fyrir og gerði æfingar af miklum móð. Þetta var svo huggulegt að mig langaði mest að spyrja hvort ég mætti vera með ... held samt að maður hafi þurft að vera óléttur til að fá inngöngu svo mér hefði sennilega verið neitað!

Enn ein styttan ... ég veit samt ekkert af hverjum hún er!

Í garðinum var líka þetta rosalega töffaragengi. Þeir voru með græjur með sér og risa hátalara og hlustuðu á hvert lagið á fætur öðru ... með Bítlunum! Mér fannst það krúttlegt! Er reyndar mikill Bítlaaðdáandi sjálf þannig að þetta kom sér sérdeilis vel fyrir mig!

Vitiði ... þetta augnablik í garðinum var bara svo dásamlegt að ég varð að festa það á filmu! Sólskin, fuglasöngur, góður bolli af latte við höndina og sænsk glæpasaga ... ég held að það sé varla neitt svona fullkomið!

Ég elska fugla!

Útsýnið yfir garðinn var nú ekki til að spilla fyrir þessum unaðslega morgni!

Dvölin í Kungliga Humlegården tók þó snöggan endi þegar ég var kölluð út til að fara í siglinguna sem skipulögð hafði verið kvöldið áður. Eftir að hafa mælt okkur mót við Alfreð, Jón Ásgeir og Siggu á Östermalmstorginu keyrðum við beinustu leið til Nacka að Fisksätrabryggjunni þar sem báturinn beið okkar.

Meðan Alfreð gerði allt klárt og startaði bátnum ...

... beið ég spennt ...

... og Einar líka!

Við vorum í öruggum höndum Alfreðs ... sem reyndar var bara að fara þriðju ferðina sína á bátnum góða! Einar og Alfreð eru bekkjarfélagar úr læknisfræðinni ...

... og Jón Ásgeir var í þeim ágæta bekk líka. Hann var í stuttri heimsókn, ásamt Siggu, frá Noregi.

Við byrjuðum á að sigla eftir kanalnum til að komast út á sjó. Meðfram bökkunum stóð hvert yndislega húsið á fætur öðru og ég var nánast farin að gráta yfir hvað þetta væri dásamlegt allt saman! Í hvert sinn sem ég var búin að koma myndavélinni niður í tösku birtist nýtt og nýtt hús sem ég varð að eiga mynd af til að ég gæti haldið áfram að ímynda mér að ég ætti heima þarna eftir að ferðinni lyki!

Það var mikil umferð eftir kanalnum enda fullt af fólki sem langaði að njóta þessa fallega dags á siglingu.

Við vorum svoooo sæl og glöð!

Flest húsanna eru með einkabryggjur og þar eru lítil bátaskýli. Raunar eru tvö til þrjú svona smáhús í kringum hverja villu, eitt eða tvö gestahús, kannski lítið garðskýli og svo bátaskýlin! Ég myndi nú alveg sætta mig við að fá bara að hreiðra um mig einum svona litlum kofa!

Á mörgum bryggjanna var búið útbúa nokkurs konar sólpall og koma fyrir stóru borði þar sem fólk sat og snæddi miðdegisverðinn í rólegheitum og naut þess að fylgjast með lífinu við kanalinn! Á sléttum klöppum í kring höfðu líka margir komið sér fyrir með nesti og sleiktu sólina þar í mestu makindum.

Þegar ég verð flutt inn í þetta hús þá megið þið öll koma að heimsækja mig!!!

Þegar kanalnum sleppti tók fjörðurinn við. Það sést kannski ekki alveg nógu vel á myndinni en þar sigldu líka seglskútur í tuga, ef ekki hundraða, tali. Að sjálfsögðu var siglt undir sænskum fána.

Einar fékk að prófa að stýra bátnum og var ægilega montinn með sig ... honum fórst það líka býsna vel úr hendi!

Þetta er bara of fallegt til að vera satt!

Við í sólinni!

Svo gerðum við stuttan stans á bátabensínstöð!!!

Jón Ásgeir var tilbúinn að stökkva í land.

Skipstjórinn Alfreð var svona líka fínn í nýju, appelsínugulu skyrtunni!

Einar undir sænskum fána. Á þessum tímapunkti var ég orðin svo fullkomlega og gjörsmlega heilluð af sænsku mannlífi og umhverfi að ég vildi gera allt til að binda mig og mitt tryggilega við þetta fyrirheitnaland ... þar með talið að taka mynd af fjölskyldumeðlimum með fánann í baksýn!

Við tókum svo land í Saltsjöbaden. Þar tók á móti okkur bátastæðisvörður (svona eins og bílastæðisvörður) sem benti okkur á hvar hægt væri að koma bátnum í laust stæði meðan við stoppuðum! Já, Svíarnir hugsa fyrir öllu ... líka vatni fyrir voffann!

Í Saltsjöbaden settumst við niður, fengum okkur bjór, spjölluðum og fylgdumst með mannlífinu.

Þessi mynd var sérstaklega tekin svo hægt væri að bera saman augnlit okkar Alfreðs! Svo þótti peysan mín og appelsínugula skyrtan hans  líka tóna einstaklega vel saman!

Noregsvíkingarnir Jón Ásgeir og Sigga.

Við sigldum svo sömu leið til baka og gengum frá bátnum aftur eftir frábæra ferð!

Gengið frá borði!

Alfreð yfirgaf skipið síðastur manna, eins og öllum góðum skipstjórum sæmir!

Þarna við bryggjuna er ýmislegt hægt að gera sér til dundurs ... til dæmis að dytta að bátnum sínum á nærbuxunum ...

... eða busla í flæðarmálinu!

Eftir frábæran dag ákváðum við að skella okkur til Södermalm og fá okkur að borða þar. Þangað hafði hvorugt okkar komið þó flestir Stokkhólmsbúar nefni það sem sitt eftirlætishverfi í borginni.

Við Mariatorget stóð þessi fallega stytta!

Og eftirlætismyndefnið ... styttur og fuglar saman!

Einar settist bara á bekk og beið meðan ég lauk mér af í styttumyndatökunni!

Við erum greinilega ekki eins og fólk er flest því okkur fannst alveg ótrúlega leiðinlegt í Södermalm!!! Reyndar hefur kannski sitt að segja að það féllu nokkrir dropar úr lofti og við óttuðumst mjög að það myndi senn fara að hellirigna á okkur. Því gáfum við okkur ekki mikinn tíma til að leita að skemmtilegum götum og stöðum heldur drifum okkur beint aftur niður í tunnelbanann og brunuðum aftur til Östermalm ... voða heimakær eitthvað!!!

    

Það varð hins vegar ekkert úr rigningunni þó örlítið svalara hafi verið í lofti en kvöldin á undan. Það var því ekkert því til fyrirstöðu að setjast út til að njóta síðasta kvöldsins í Svíþjóð ... svona í bili alla vega!

Alfreð hafði fyrr um daginn leitt okkur í allan sannleikann um Östermalmsdrengina! Östermalmsdrengina má þekkja á vatnsgreiddu hárinu, bleikum skyrtum, Calvin Klein gallabuxum og brúnum támjóum leðurskóm. Þeir vinna sama sem ekki neitt en njóta hins vegar lífsins út á kreditkortið hans pabba! Eins og nafnið gefur til kynna er þennan sérstaka ættflokk helst að finna í Östermalm og við þóttumst sjá þá ófáa á ferðum okkar um hverfið (ekki síst minntumst við margra frá kvöldinu áður á Bistro Jarl). Við þykjumst til dæmis viss um að þessir tveir séu Östermalmsdrengir (ertu ekki sammála því Alfreð?). Bleiku skyrtuna vantar reyndar ... en kaðlapeysan með bleiku röndinni er náttúrulega bara tilbrigði við stef!

Einar er enginn Östermalmsdrengur ... enda hefur hann ekkert hár til að vatnsgreiða!

    

Desert og kaffi! Einar var ánægður með konsentreraða dótið sitt, trufflu og espresso ... en ég var líka mjög ánægð með útþynnta dótið mitt ... crême brulée og latte!

Á leiðinni heim á hótel í síðasta sinn ákvað ég að sýna Einari garðinn minn góða við bókasafnið. Fridrika Bremer hefur verið einstaklega ófríð kona!!!

Íslendingar eru ekki þeir einu sem geta státað af björtum nóttum ... það var enn ágætlega bjart í garðinum þó komið væri undir miðnætti!

Sunnudagurinn 19. júní

Á Arlandaflugvelli var ákveðið að veita þeirri flughræddu bjór í umtalsverðu magni til að róa taugarnar! Það hafði sitt að segja og flugið heim var mun skárra en það á leiðinni út! Reyndar langaði okkur alls ekkert að fara heim og hefðum alveg verið til í að senda bara eftir börnunum, hvíta húsmóðurstólnum og einhverjum fatalörfum og byrja að koma okkur þægilega fyrir undir sænskum fána!

Það var nú samt ótrúlega gaman að koma heim og hitta krílin! Við vorum líka búin að kaupa fullt af gjöfum handa þeim, til dæmis þessa prinsessu-brúðarkórónu og ótrúlega flottu drekahúfuna.

Og þetta fína tréhús fengu þau líka! Svo fluttum við líka með okkur fullt, fullt upp af léttum og ljósum sumarfatnaði á börnin enda stutt í næstu utanlandsferð og í það sinn verða bæði krúttin og amma og Elli með!

Fyrsta stopp Stokkhólmur, næsta stopp Barcelona!