Svefnherbergið dubbað upp

Í byrjun ársins greip okkur Einar sterk hreiðurgerðarhvöt. Von var á nýjum unga og ekki hægt að bjóða honum upp á að kúldrast úti á miðju gólfi í svefnherbergi foreldranna undir ljótasta veggfóðri heims. Nei, það varð að dubba svefnherbergið upp fyrir komu krílisns og við hófumst handa strax í febrúar.

Það fyrsta sem þurfti að gera var að taka niður ljóta veggfóðrið og veggfóðursborðann með gríska þemanu. Hvern langar ekki að sofa undir Medúsuhöfði?!

Einar er kominn með nokkuð góða tækni sem felst í því að skrapa í veggfóðrið til að opna það, bleyta svo rækilega upp í því og þá er hægt að fletta af stórum flötum í einu.

Á þessu stigi málsins lítur herbergið töluvert verr út en það gerði áður en umbætur hófust og angar af blautum spónaplötum.

Einhverjir spyrja sig kannski hvar við Einar höfum sofið meðan á framkvæmdunum stóð og þá kemur svarið hér. Við tróðum hjónarúminu fram á stigapallinn. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það var lipurt að smella sér framúr á næturnar til að pissa kasólétt! Innihaldið úr fataskápnum okkar settum við svo að mestu inn í Huga herbergi sem varð fyrir vikið algjörlega ónothæft og hann fékk því aðsetur inni hjá stóru systur. Hluti fataskápsins fór svo inn á baðherbergi og þar var því varla hægt að snúa sér við meðan á framkvæmdum stóð. Það má því segja að öll efri hæð hússins hafi verið algjörlega undirlögð.

Hér er búið að rífa allt veggfóður af, heilsparsla alla veggi og Einar er í óða önn að grunna. Enn bara febrúar og allt nokkurn veginn á áætlun.

Komið fram í mars og slípivélin góða komin í notkun. Hér er líka búið að mála veggna með uppáhaldslitlnum mínum, ljósgrábláum. Það tók hins vegar góðan tíma að finna akkúrat réttan litatón og framkvæmdum er þegar farið að seinka, kúlan vex og pissuferðirnar verða erfiðari.

Parketlagning hafin og María og Hugi fylgjast spennt með.

Lok mars, parketlagningu alveg að verða lokið og allir glaðir!

Bara ein spýta eftir!

Einar sagar síðustu fjölina til. Athugið að hann er ekki að flauta svona hressilega við störfin heldur að blása saginu í burtu svo hann sjái hvað hann er að gera.

         

Tadamm! Herbergið orðið svo fallegt og bara eftir að setja upp fataskápinn!

Byrjun maí! Skápurinn ekki enn tilbúinn, við ekki flutt inn í herbergið og ég farin að íhuga að fá Einar bara til að setja upp hjá mér þvaglegg fyrir háttinn!

Ástæðan fyrir því hvað framkvæmdirnar við skápinn töfðust er sú að Einar smíðaði hann svo að segja sjálfur frá grunni. Það eina sem við notuðum frá gamla skápnum var ramminn utan um hurðirnar (sem er hvítur á myndinni) og hurðarnar sjálfar. Einar smíðaði hliðar, bak og hillur sjálfur. Þarna er hann að leggja lokahönd á smíðavinnuna en þá er eftir að lakka allt heila klabbið. Við töldum okkur þó í nokkuð góðum málum þar sem enn var einn og hálfur mánuður í áætlaðan fæðingardag.

Aðeins tveimur vikum seinna var ég lögð inn á meðgöngudeild og ljóst að barnið kæmi þó nokkru fyrr en áætlað hafði verið. Þegar ég var lögð inn var Einar langt kominn með að lakka skápinn sjálfan en hurðarnar voru alveg eftir og við sváfum enn á ganginum. Meðan ég lá inni varð hann því að keppast við að klára lakkvinnuna og koma okkur fyrir í fína herberginu. Ég fékk að vísu heimferðarleyfi einn eftirmiðdag og eyddi því í að skipa Einari fyrir í fataskápsinnröðun. Ég var hins vegar fjarri góðu gamni þegar koma átti húsgögnum fyrir. Mér fannst mjög óþægilegt (svo ekki sé meira sagt!) að geta ekki fengið að velta mismunandi uppstillingum fyrir mér á staðnum og bað því Einar um að stilla hlutunum upp á nokkra ólíka vegu og taka myndir og koma með til að sýna mér á spítalanum. Svona til gamans birti ég eina þeirra hér, aðallega af því að það sést í svo fallegan blómstrandi sírenurunna út um gluggann.

Einhvern veginn hafðist þetta þó allt! Einar raðaði inn húsgögnum, barnið fæddist og við komum heim. Þá voru að vísu engar hurðar á fataskápnum og við alls ekki búin að finna út úr því hvernig best væri að raða húsgögnum inn. Fyrstu mánuðina í lífi Baldurs Tuma hafa því verið gerðar ýmsar breytingar en nú er þetta nokkurn veginn alveg tilbúið, átta mánuðum eftir að framkvæmdir hófust! Hér gægjumst við inn í tilbúið herbergið frá ganginum.

Til að koma sem flestum húsgögnum fyrir færðum við hjónarúmið undir gluggana. Það á að vísu að vera mitt á milli þeirra en ekki svona skakkt eins og á myndinni, ég tók ekkert eftir því þegar ég var að taka þessar myndir! Ég er svo með háleitar hugmyndir um að sauma púða til að punta rúmið með, við sjáum bara til hvort og hvenær eitthvað verður úr því!

Þarna undir súðinni stóð rúmið áður og þá höfðum við ekki pláss fyrir neitt í herberginu nema eina mjóa kommóðu milli glugganna. Með þessu móti fengum við hins vegar pláss fyrir rimlarúm, hægindastól og tvöfalda kommóðu!

Og hér er fataskápurinn glæsilegi!!! Hann tók þvílíkum stakkaskiptum við að hurðarnar og karmarnir voru lakkaðir með hvítu lakki og skipt um hnúða.

Inni í honum er að vísu enn fullt af ljótum fötum sem ég er fyrir löngu búin að fá ógeð á en það er að minnsta kosti gott pláss fyrir þau og öllu komið haganlega fyrir! Bak við skápinn er svo súðageymsla sem opið er inn í í endaskápnum (næst glugganum). Áður var allur skápurinn opinn aftur úr sem skapaði svo sem ágætt aðgengi að öllu draslinu sem við geymdum þar en var afskaplega ólekkert og ruslaralegt. Það var heldur enginn botn í skápnum sem Einar bætti úr og svo færði hann allan skápinn aftur á bak um nokkra sentimetra til að fá sem mest gólfpláss. Algjör hetja þessi Einar!!!

Hér er rúmið hans Baldurs Tuma. Rebbinn felur sig þarna úti í horni og fylgist með lömbunum dansa í fjarska og sleikir út um!

Yfir höfðagaflinum er þessi undursamlega fagra mynd sem hann fékk í skírnargjöf frá ömmu Imbu. Myndin er máluð sérstaklega handa honum og heitir „Drengur með gullhring“ og er eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur. María og Hugi hafa líka fengið verk eftir hana í skírnargjöf frá ömmu sinni og þau vaka líka yfir rúmunum þeirra.

Yfir rúminu okkar Einars er þessi silhouettu mynd sem mér gekk afskaplega illa að mynda í fókus. Þetta er eftirprent af pappírsskurði og okkur fannst hún passa okkur einstaklega vel. Þarna á þessari ævintýraskepnu eru þrjú börn, stór stelpa fremst og svipað stór strákur fyrir aftan og aftast er svo eitt lítið kríli.

Að lokum má ég til með að setja hér inn eina gamla mynd sem ég átti í fórum mínum af herberginu. Þetta er nú svolítið betra núna, er það ekki?!