Sumarhátíð hjá Huga og útskrift hjá Maríu

Í júní voru mikil tímamót hjá Konsulentsystkinunum þar sem þau luku formlegu vetrarstarfi í skólunum sínum. Fyrsta eiginlega skólaárið þeirra hér í Svíþjóð er því liðið og ekki annað hægt en að líta yfir farinn veg og dást að því hversu vel þau hafa leyst þetta verkefni sem lagt var fyrir þau síðasta haust: Að byrja í nýjum skólum í nýju landi innan um nýja félaga sem tala nýtt tungumál. Það var því voteyg móðir sem sótti sumarhátíð í leikskólanum hans Huga og útskrift í skólanum hennar Maríu og tók þessar myndir:

Hin árlega sumarhátíð hjá Hemmings förskola markar lokin á vetrarstarfinu og er hápunktur skólaársins. Í þetta sinn var hún haldin föstudaginn 1. júní. Börn og fóstrur voru búin að skreyta allan garðinn, hengja upp myndir, setja blóm á borð og öll börnin höfðu búið sér til hatta út frá náttúruþema. Hátíðin hófst á því að börnin gengu í halarófu inn á „sviðið“, settust niður og sungu nokkur lög. En hvar er Hugi?!

Þarna var hann! Hugi var með rosalega fínan kóngulóarhatt og við hlið hans er Olle með aldeilis glæsilegan fiskahatt! Hugi var reyndar ekkert allt of öflugur í söngnum ...

... en það voru þessar dömur hins vegar og ákváðu meira að segja að standa upp til að það heyrðist betur í þeim!

    

Eftir nokkur falleg sumarlög röðuðu börnin sér upp í „trjágöng“ og sungu „Uti gröna lunden där dansar et par, den ena var vännen den andra var jag“ meðan hvert parið á fætur öðru fetaði sér leið um göngin. Hér eru Hugi og Ruben á sínu ferðalagi. Fóstrurnar Britt og Elisabeth fylgjast með að allt fari vel fram og spila undir sönginn.

Þetta var flott atriði með duglegum krökkum!

Næst á dagskrá var útskriftarathöfn skólabarnanna. Það eru ansi mörg börn að hætta í haust og byrja í forskóla og verður þeirra án efa sárt saknað á Hemmings. Ég skil ekki hvernig dagmömmur, leikskólakennarar og kennarar komast yfir allar þessar kveðjustundir því ég var næstum farin að gráta á þessari hátíðlegu stundu!

Allir fengu útskriftarskírteini og kram!

Því næst sungu börnin lokasönginn og þá stóð Hugi við hliðina á Ellen sem honum finnst svo sæt! Ellen var sem fyrr einbeit í söngnum en Hugi var mjög annars hugar með hendurnar ofan í buxum og mamman sat rauð og blá í framan úti í „sal“ og reyndi að gefa honum laumulegar bendingar um að hætta þessu athæfi á stundinni!!!

Eftir að börnin höfðu lokið sínum atriðum sungu frökenarnar eitt lag.

Mamman var ótrúlega stolt af þessum sæta sumarstrák sem hún á og er búinn að standa sig svo vel í vetur!

Eftir sönginn voru frökenunum færðar gjafir frá börnum og foreldrum til að þakka þeim fyrir veturinn. Hér í Svíþjóð er mikil hefð fyrir því að gefa kennurum og fóstrum gjafir bæði í tengslum við jóla- og sumarhátíðir ... mér finnst það voðalega huggulegt!

Foreldrahópurinn á Hemmings er einstaklega vel samsettur og þetta góða fólk lét sér ekki nægja að færa gjafir heldur höfðu nokkrir úr hópnum tekið sig til og samið lag fóstrunum til heiðurs (eða réttara sagt samið nýjan texta við þekkt lag) sem var sungið við gítarleik eins pabbans. Textinn fjallaði í stuttu máli um hvað starfsfólk leikskólans væri frábært og sinnti börnunum vel. Ég söng reyndar ekki mikið, bæði af því að ég þekkti ekki lagið en ekki síst þar sem ég var alveg með kökkinn í hálsinum yfir þessu uppátæki! Ég held við hljótum að hafa lent á heimsins besta leikskóla!

Sumarhátíðinni lauk svo með ís og ávaxtasalati í boði hússins. Namm!!!

Fimmtudaginn 14. júni voru svo skólaslit hjá Maríu. Þá fengu foreldrarnir að koma í skólann og fylgjast með duglegu börnunum sínum taka við útskriftarskírteini, syngja nokkur lög og borða ís og jarðarber. Þarna er fröken Kajsa að lesa börnin upp. Kajsa er reyndar nýtekin við starfinu sem umsjónarkennari FA þar sem Cecilia sem séð hefur um bekkinn í vetur fór í sjúkraleyfi. Kajsa verður hins vegar kennari bekkjarins á næsta ári og það hefur því verið ákaflega skemmtilegt fyrir börnin að fá góðan tíma með henni núna í vor til að aðlagast breyttum aðstæðum þegar þau byrja í fyrsta bekk í haust. Kajsa er Maríu reyndar að góðu kunn því hún hefur verið með dömuna í sænskukennslu í allan vetur en hennar sérgrein er að kenna sænsku sem annað tungumál. Þar vorum við aldeilis heppin!

Þarna er okkar skvísa sæt og fín! Það eru margir nýir siðir sem maður þarf að læra inn á þegar flutt er í nýtt samfélag og eitt af því sem hefur reynst mér hvað snúnast þennan fyrsta vetur er að átta mig á hvenær er tilefni fyrir spariföt og hvenær ekki! Svíar eru almennt mikið hversdagsfólk og því hef ég mun oftar lent í því að vera of fín við ákveðin tilefni eða látið börnin vera uppstríluð innan um ósköp venjuleg skólasystkin sín. En það hefur þó ekki brugðist að þegar tilefni hefur þótt til að klæða sig upp á hér þá hef ég ekki kveikt á perunni og sent mín börn af stað eins og ruslakarla! Mér fer þó smátt og smátt fram og tókst að átta mig á því fyrirfram að sennilega yrðu öll börnin mjög fín við skólaslitin. Bæði hafði ég nú lært það af biturri reynslu þar sem Hugi greyið var einn af fáum í algjörum druslufötum á sinni sumarhátið og eins fleytir áratugalestur á Madditt mér nokkuð langt í þessum efnum!!!

Hér tekur María á móti útskriftarskírteininu sínu og þiggur „sommarkram“ frá Kajsu! Ó hvað ég var stolt mamma!

Því næst sungu börnin nokkur af stafrófslögum Maju. Hér er þau einbeitt að syngja um A og askinn!

Allir prúðbúnir við söng ... líka Kajsa.

Maríu þykja þessar vísur sem börnin sungu svo skemmtilegar að hún hefur raulað þær látlaust undanfarna daga. Á endanum sá ég mér ekki annað fært en að fara sjálf og kaupa þær á geisladisk til að gefa dömunni til að hún geti lært þær sem hún ekki kann og sungið með undirspili! Eins og sjá má á myndinni lifir hún sig mikið inn í sönginn og hreyfingarnar.

Og þannig lauk veru Maríu í Förskolaklass A í Vängeskola. Eftir tvo mánuði tekur alvara lífsins við þegar þessi duglega, fallega og góða stúlka byrjar í 1A!