Svipmyndir úr sumarfríi

Hér á Bárugötunni hafa allir verið í sumarfríi að undanförnu, karlar, konur og börn. Dagarnir eru því hver öðrum líkir og einkennast helst af því að sofa fram eftir, leika í garðinum, sötra kaffi og lesa spennandi bækur. Þessar myndir veita smá innsýn í þetta notalega líf!

Nýlega settum við þessa fínu aparólu upp í garðinum, Maríu og Huga til mikillar gleði.

Það er líka gaman að leika með hoppiboltann ... jafnvel þó maður sé ekki að hoppa á honum! Hugi var einn úti í garði með pabba sínum í þetta skiptið þar sem María fór loks í hina svokölluðu „Fimm-ára-ferð“ með ömmu sinni austur fyrir fjall.

Maður verður svo óskaplega þreyttur eftir svona útiveru!

Um daginn hittist Hólafjölskyldan nánast öll og við það tilefni var tekin mynd af öllum frændsystkinunum. Frá hægri: Sólbjört Harpa Sveinsdóttir, María og Hugi, Ester Sveinsdóttir, Gústav Þór Kristjánsson og Brítet Sveinsdóttir. Takið sérstaklega eftir því hvað Gústav og Bríet horfast fallega í augu!!!

Þetta er myndarlegur hópur, fyrst fjórar stelpur og svo tveir strákar ... enn um sinn! Vonandi bætist í barnabarnastóðið sem fyrst! Hver býður sig fram?

Þar sem systkinin hafa gaman af að leika í garðinum hefur bæst nokkuð í útidótasafnið. María er til dæmis orðin einkar leikin með frisbídiskinn ...

... og þessi þyrla hefur líka verið vinsæl!

Hugi hvílir sig í grasinu ...

... eða dundar sér með strá!

Við höfum líka verið svo heppin að fá að fara í nokkrar heimsóknir í næsta garð þar sem Gunni, Eva og Freyja ráða ríkjum. Hér er María í góðu yfirlæti úti á túni þar. Hinum megin við vegginn glittir í okkar hús!

Vinkonurnar í myndatöku ... Freyja hefur þó meiri áhuga á nektarínunni!

Huga finnst æðislegt sport að klifra uppi í trénu sem stendur í miðjum garðinum á Ránargötunni. Hann þarf reyndar smá aðstoð við að komast upp í það og getur svo sem ekki mikið gert annað en að virða fyrir sér útsýnið yfir garðinn ...

... og svo er aðalsportið að renna sér niður trjástofninn og láta sig síðan detta í grasið!

Maríu finnst líka sport að príla í trénu!

Þetta er ótrúlega sæt sumarstelpa!

Í síðustu viku héldum við svo örlitla, óformlega grillveislu í garðinum og buðum mæðgunum úr næsta húsi í heimsókn.

Hugi sprangar um með pulsuna (já, nöldriði bara ... mér finnst pylsa bara eitthvað svo asnalegt!).

María að snæðingi í aparólunni.

Hugi hefur alltaf haft sína eigin sérstöku aðferð við pulsuát. Ég verð nú að segja að þessi hefðbundna er aðeins þægilegri ... að ekki sé nú talað um snyrtilegri!

Einar bara stóla, borð og veitingar út enda dásamleg sumarblíða sem tilvalið er að njóta sem lengst fram á kvöld.

Freyja sat bara í vagninum sínum og var ánægð með það ... svona framan af að minnsta kosti!

Þó enginn sé sólpallurinn og ekkert gasgrillið má alveg hafa það notalegt í bakgarðinum okkar innan um þvottasnúrur og kóngulóarvefi! Pulsurnar runnu ljúflega niður og heimalöguðu hamborgararnir hans Einars líka!

Eva í kvöldsólinni ... Freyja gerir leikfimiæfingar í baksýn!

Það er ótrúlega fallegt þegar sólin skín í gegnum laufið og skuggamyndirnar geta orðið ægifagrar. Ég er sérstaklega ánægð með þessa mynd ...

... sem og þessa.

   

Freyja Gunnarsdóttir með öllum sínum svipbrigðum!

    

Síðastliðinn föstudag brugðum við Einar undir okkur betri fætinum og héldum til Stokkseyrar hvar humar skyldi snæddur og hvítvín drukkið. Það er alltaf gaman við fjöruborðið!