Sull, sól og Stokkhólmur

Júlí hefur verið dálítið öðruvísi mánuður hjá okkur. Fyrst kom amma Imba í heimsókn í tvær vikur og meðan hún var hjá okkur notaði eilífðarstúdentinn ég tækifærið og vann í mastersritgerðinni minni. Ég var svo heppin að ég fékk að sitja á tómri skrifstofu á heilsugæslunni hans Einars þennan tíma og varð vel úr verki, skrifaði 15 síður! Það tók hins vegar heilmikið á að fara úr því að vera bara að hengslast um heima yfir í níu tíma vinnudag svo ég var alveg uppgefin á kvöldin og um helgar og fyrir vikið tók ég nánast engar myndir þennan tíma, jafnvel þótt við höfum haft það náðugt með ömmu inn á milli, til dæmis tínt þessi reiðinnar býsn af jarðaberjum og soðið bæði sultu og saft. Eftir þessar tvær vikur fór amman aftur til Íslands og tók stóru börnin með sér. Þá vikuna var Einar enn í vinnu svo við Baldur Tumi vorum bara tvö að dóla okkur á daginn og það var ekki fyrr en þá sem ég dró fram myndavélina að einhverju ráði. Nú er fjölskyldan sameinuð á ný og loksins allir komnir í sumarfrí svo vonandi verður aðeins meira líf í myndaalbúmunum á næstunni.

 

         

Þetta eru einu myndirnar sem ég tók fyrri hluta mánaðarins! María burstar tennurnar í litla bróður sínum sem er ánægður með þjónustuna.

Næst var myndavélin sem sagt ekki tekin fram fyrr en við Baldur Tumi vorum orðin ein í kotinu á daginn og datt í hug að tína smultronið í garðinum og þræða upp á strá eins og siður er hér í Svíþjóð.

Þá dró ég ekki bara fram myndavélina heldur líka fínu macrolinsuna mína og reyndi að æfa mig svolítið að nota hana.

Ég held kannski að þetta sé nýja uppáhaldsmyndin mín!

Baldur Tumi var ansi krambúleraður á þessu tímabili. Fyrst fékk hann kúlu á ennið eftir að hafa verið að leika með stóru systkinum sínum úti og svo fékk hann sár undir augað eftir að hann hafði verið dálítið æstur að tala við þau á skæpinu þegar þau voru á Íslandi með þeim afleiðingum að hann klessti utan í sófaarm á fullu stími. Hann er sem betur fer gróinn sára sinna núna - ja, fyrir utan öll myggbitin það er að segja. Herregud hvað það er mikið af mygg hérna núna! Jafnast samt ekkert (sjöníuþrettán) á við myggsumarið mikla 2009!

Kátur Dúlli Einarsson.

Það er búið að vera ömurlegt veður hjá okkur í sumar, mikil rigning, oft skýjað og ekkert sérstaklega hlýtt. Það er því um að gera að nýta hverja sólarstund sem gefst til að njóta lífsins og einn daginn smelltum við Baldur Tumi upp bala með vatni úti á palli. Klassík!

Ég setti spennu í hárið á mér svo ég yrði sólbrún á öllu andlitinu en ekki bara hálfu og þá vildi Baldur Tumi ólmur líka fá „teygju“ í hárið!

Gleðisprengja ...

... og sólskinsbarn!

Daginn eftir keyptum við nýja busulaug þar sem sú gamla var spurngin. Eftir smá sundsprett og selaleiki þar var gott að láta vefja sig inn í handklæði og liggja svo eins og lítil lirfa á sólbekknum og verma sig.

Fyrstu helgina hans Einars í fríi, daginn áður en María og Hugi komu heim frá Íslandi, skruppum við þrjú til Stokkhólms. Hér er Baldur Tumi á ljónsbaki á Drottningargötunni miðri, rétt áður en við stungum okkur inn í uppáhaldsbúðirnar mínar í PUB húsinu.

Í PUB húsinu keyptum við margt og mikið fínt, meðal annars keypti ég afmælisgjöf sem ég var ægilega ánægð með og dásamlega vel ilmandi kókos body lotion í sömu búð. Svo héldum við áfram för okkar, hlustuðum aðeins á þessa hressu jazzara við Sergelstorg.

Næsta stopp var Montis í Gallerian. Besti ísinn í bænum fæst nefnilega þar og úrvalið er endalaust!

Vatnsmelónuísinn sem ég ætlaði að fá mér kláraðist beint fyrir framan nefið á mér en í staðinn fékk ég mér eina kúlu með hvítu súkkulaði og kókos (fimm stjörnur af fimm mögulegum) og eina kúlu af pannacotta ís með kirsuberjasósu (fjórar stjörnur af fimm).

         

Svo settumst við í Kungsan og gæddum okkur á ljúfmetinu. Þessar tvær myndir áttu hins vegar eftir að valda okkur ýmsum vandræðum þegar heim var komið. Þar uppgötvuðum við nefnilega að einn pokann vantaði, þennan með fínu afmælisgjöfinni og kókoskreminu. Við leituðum í öllum pokum og pinklum, rannsökuðum bílinn hátt og lágt og staðfestum að pokinn var horfinn. Fyrst datt okkur í hug að annað okkar hefði hreinlega gleymt honum í næstu búð sem við fórum í á eftir (við segjum ekkert hvort okkar það hefði getað verið) en svo datt mér í hug að skoða myndirnar frá deginum til að kanna hvort ég sæi pokann einhvers staðar. Á þessum myndum sá ég ekki betur en að efst og innst undir kerrunni væri einhver ljósblár poki sem ég var ekki með heima. Þetta hlaut auðvitað að vera umræddur poki! Eftir að hafa gert þá uppgötvun rakti ég mig í gegnum myndir dagsins og þóttist sjá að ljósblái pokinn væri horfinn á næsta stoppi okkar, um það bil hálftíma eftir að þessar myndir voru teknar. Þar sem okkur sýndist pokinn ágætlega skorðaður fannst okkur ólíklegt að hann hefði dottið af kerrunni og gátum því ekki dregið aðra ályktun en að honum hefði verið stolið. Ég var við það að fara að kæra ránið til lögreglunnar, búin að finna skýrsluna á netinu og allt en ákvað sem betur fer að bíða aðeins með það. Morguninn eftir hringdum við í umrædda búð og vorum búin að draga afgreiðslustúlkuna þar inn í þetta dramatíska rán þegar mér datt í hug að spyrja hvort það passaði ekki að pokinn hefði verið ljósblár. Nei, það gat ómögulega staðist, engir ljósbláir pokar í þessari búð! Hmmm ... eitthvað hafði ekki alveg gengið upp í leynilögreglustörfum okkar og sagan um dularfulla ránið á götum Stokkhólms féll um sjálfa sig. Í ljós kom að ljósblái pokinn var sennilega bara innanverða hliðin á dökkbláum poka og afmælisgjöfin og kremið mitt fundust einmitt í næstu búð sem við höfðum farið í á eftir hvar einhver ónefndur hafði skilið hann eftir í hillu!

Feðgar í Kungsträdgården - alveg ómeðvitaðir um meinta ránið sem átti eftir að vera framið 20 mínútum síðar!

Það er erfitt að sitja fyrir á mynd með sólina beint í augun.

Sumarstrákur.

Það er ekki bara hægt að hlaupa upp og niður tröppur og kíkja á gosbrunna, það verður líka að klára ísinn áður en hann bráðnar!

Næsti áfangastaður okkar var fyrirheitnalandið mitt: glænýtt útibú hins franska Ladurée á Grev Turegatan í Stokkhólmi!

Það hefði sjálfsagt nægt mér að fá að skoða þar í glugga og taka myndir af fegurðinni!

En inn fórum við og keyptum litla öskju af alls kyns lituðum makkarónum. Ég mæli með þessum með söltu karamellunni og svo sítrónubragðinu! Baldur Tumi bræddi afgreiðslukonurnar sem vildu endilega fá að gefa honum makkarónu að eigin vali ... sem var heppilegt þar sem hann var búinn að suða um að fá „brúna köku“ frá því við komum inn.

Það er ekkert smá skemmtilegt að fara í fínar franskar kökubúðir!

Meðan litli snúðurinn fékk sér blund settumst við á bókakaffi við Hötorget og fengum okkur hressingu.

  

Síðasti áfangastaðurinn í þessari ferð var núðlustaðurinn Wagamama hvar við gúffuðum í okkur alls kyns woki, súpum og edamame baunum.

Og Baldur Tumi komst að því að það mætti vel nota prjónana sem trommukjuða.

Svo tókum við lestina heim til Uppsala.

         

Og Baldur Tumi hélt uppi fjörinu með alls kyns rostungatanna-bröndörum alla leiðina heim!