Stóru börnin á Bárugötu

María og Hugi eru orðnir stórir krakkar! Þó foreldrarnir hafi kannski vitað það lengi varð það fullljóst í síðustu viku þegar ráðist var í löngu tímabæra geymslutiltekt! Út úr litlu geymslunni var eitt og annað dregið sem minnti á þau pínulitlu krútt sem hjöluðu og slefuðu en hafa hins vegar steingleymst núna þegar börnin lesa dagblöðin og hafa sjálfstæðan vilja!

  

Hér eru María og Hugi með fötin sem þau fóru í heim af fæðingadeildinni. Þau hafa nú stækkað töluvert síðan þá, lært helling og þroskast ... en eru enn jafnmiklar dúllur! Þessi föt eru í einna mestu uppáhaldi hjá nostalgískri mömmunni og voru því ekki meðal þess sem Rauði krossinn græddi úr Bárugötugeymslunni (sem þó var hellingur!)!

Um daginn var Hugi veikur heima í tvo daga (og hrósa foreldrarnir happi þar sem það eru einu veikindadagarnir það sem af er vetri). Hann hefur nýlega fengið gífurlegt æði fyrir dagblöðum og nýtir hverja stund sem hann er heima til að kynna sér efni þeirra og þá eru bíóauglýsingarnar sérstaklega vinsælar! Veikindadagarnir voru því vel nýttir til að sinna þessu áhugamáli!

Kubbarnir eru líka sívinsælir ... en myndavélin ekki að sama skapi! Í það minnsta virðist voða erfitt að setja upp huggulegt bros þegar hún er nálægt!

Eftir heilan dag heima með mömmu og pabba fattaði Hugi að María hafði hvergi verið sjáanleg. Þegar hann spurði eftir systur sinni fékk hann þau svör að hún væri hjá ömmu á Bakkastöðum sem hefði sótt hana á leikskólann. Ekki var ungi maðurinn sáttur við þetta ... María að skemmta sér með ömmu meðan hann þurfti að húka heima með mömmu og pabba?! Ó, nei!!! Eftir mikinn grát í nokkrar mínútur sá pilturinn fram á að ekkert myndi gerast nema hann tæki málin í sínar hendur. Hann vatt sér því í skó, úlpu, húfu og vettlinga og kvaðst ætla á Bakkastaði!

Bæði foreldrarnir og amman fundu sárt til með þessum svikna strák og þegar hitamælirinn hafði staðfest að allar pestir væru á bak og burt var gefið grænt ljós á að Hugi fengi líka að fara á Bakkastaði. Ekki þó fyrr en hann væri búinn að borða súpu heima! Það hefur sjaldan verið jafnlítið mál að fá hann til að taka hraustlega til matar síns. Hann hafði þó ekki fyrir því að fækka eitthvað fötum áður en hann skóflaði í sig ...

... tók ekki einu sinni af sér vettlingana! Aldrei að vita nema mamma og pabbi drægju ákvörðunina til baka ef hann gæfi einhvern höggstað á sér með því að taka af sér húfuna eða fara úr úlpunni!!!