Stórborgarferð og fleira

Nokkrar myndir frá síðustu dögum ágústmánaðar.

Baldur Tumi ætlar að sækja um hlutverk bangsadrengsins í komandi uppfærslum á Dýrunum í Hálsaskógi!

Fyrsti skóladagur Maríu og Huga var 18. ágúst. Þau lögðu hress og kát af stað um morguninn og komu alsæl heim eftir fyrsta daginn í 3. og 1. bekk.

Garðvinnu- og ruslaflokkunardagur á Konsulentvägen ...

... og Baldur Tumi stýrir aðgerðum úr vagninum.

Stóra systir og litli bróðir kúra saman að morgni dags.

Þar kom að því að Baldur Tumi fór í fyrstu stórborgarferðina sína. Hann þurfti að fá passa eins og hver annar heimsborgari og því var ekki um annað að ræða en bruna til Stokkhólms og heimsækja sendiráðið. Hér eru strákarnir í fjölskyldunni um borð í lestinni.

María og Hugi þurftu líka að láta endurnýja sína passa. Aumingja María hafði hins vegar verið svo óheppin tveimur dögum áður en fá hiksta og þegar hún ætlaði að losna við hann með hinu óbrigðula ráði að drekka vatn úr glasi á hvolfi sogaðist glasið fast við hökuna á henni! Undan þessu fékk hún húðblæðingar og leit því pínulítið út eins og hún væri með skeggbrodda! Það sést þó sem betur fer fremur lítið, bæði á þessari mynd og þeirri í passanum!

Á leiðinni í sendiráðið komum við við í Monti's í Gallerian og keyptum okkur ítalskan kúluís sem við borðuðum í Kungsan.

Mikið á ég sæta stelpu!

Eftir heilmikið þramm vorum við loksins komin í sendiráðið. Þar var okkur boðið út á svalir og upp á kaffi meðan við biðum eftir að vegabréfsgræjan væri ræst. Hugi stillti sér upp enda klæddur við hæfi Östermalm.

Vel gekk að sækja um passa fyrir og mynda Maríu og Huga og við Einar vorum gríðarlega ánægð með hversu vel ferðalagið og erindi okkar í stórborginni gengu.

Séra Baldur Tumi saddur og sæll og klár í myndatöku! En viti menn, nokkrum augnablikum eftir að þessi mynd var tekin kom í ljós að vegna bilunar í tölvubúnaði Hagstofunnar var Baldur Tumi ekki enn kominn inn í þjóðskrá og því ekki hægt að sækja um passa fyrir hann!

Niðurlútir feðgar í fýluferð!

Við vorum send út í göngutúr í von um að bilunin yrði lagfærð og hægt yrði að sækja um passann fyrir lokun í sendiráðinu. Bræðrunum fannst það ágætt plan.

Við fengum okkur hressingu í Tössebageriet við Karlavägen en þar er hægt að fá besta rækjubrauð í heimi!

Við gengum og gengum og hér er María fyrir utan Hedvig Eleonora kirkjuna.

Eftir langa mæðu var ljóst að ekkert gat orðið af passaumsókn fyrir Baldur Tuma þennan dag. Einar hringdi því í snarheitum í vinnuna sína og fékk frí í vikunni á eftir til að hægt yrði að reyna aftur. Við héldum því aftur til Stokkhólms nokkrum dögum síðar, aftur með lestinni, aftur þramm í gegnum borgina, aftur rosalega fegin að vera komin í sendiráðið ... og aftur var bilun í tölvubúnaði! Að þessu sinni var það sjálf vegabréfagræjan sem bilaði og komst ekki í lag! Til að ekki þyrfti að fara enn eina ferðina fengum við neyðarpassa fyrir piltinn og höfum ákveðið að hafa það í huga að fall er fararheill!

Baldur Tumi er ekkert alltaf til í að vera í vagninum en sem betur fer var hann vel stemmdur fyrir slíkt í báðum Stokkhólmsferðunum.

Hortensía við Hedvig Eleonora.

Stóri og litli með undarlegan munnsvip í lestinni á leiðinni heim.

Hugi var hins vegar alveg uppgefinn eftir daginn og steinsofnaði.

         

Koss og knús frá stóru systur ...

... meðan pabbi heldur orgeltónleika í stofunni!