Fyrsta Stokkhólmsferðin

Þann 9. ágúst komumst við loksins í langþráða Stokkhólmsferð. Einn af stærstu kostunum við að búa í Uppsölum er að hafa stórborgina innan seilingar. Þannig má með góðu móti skreppa í borgarferð til „útlanda“ jafnvel hverja helgi! Stokkhólmur er farinn að skora ansi hátt á listanum yfir eftirlætisborgirnar mínar ... ástæðuna er kannski að finna á eftirfarandi myndum!

Hér er Hugi kominn á uppáhaldskaffihúsið mitt, Vetekatten. Þeir sem eitthvað hafa fylgst með þessari síðu ættu að vera farnir að þekkja það nokkuð vel! Systkinin smáu voru auðvitað að koma þangað í fyrsta sinn en virtist líka jafnvel og foreldrunum!

Við Hugi nutum þess að sitja úti í garðinum meðan Einar og María sáu um að panta veitingar inni og bera þær í okkur!

Og veitingarnar á Vetekatten svíkja ekki frekar en fyrri daginn. Dásamlegt smörgås ...

... og kaffið og prinsessutertan slær alltaf í gegn!!!

Systkinin sætu í kyssuleik!

Maríu leist líka vel á Vetekatten!

Einar gæðir sér á veitingum og skoðar mini-kort af Stokkhólmi í leit að verkstæði fyrir kaffivélina okkar. Já, þið heyrðuð rétt! Okkar elskaða kaffivél, lífselexírinn okkar, hefur verið biluð frá því hún kom upp úr kassa á Konsulentvägen! Við íhuguðum alvarlega að flytja bara heim aftur og hætta við allt saman þegar þetta kom í ljós enda stöndum við ekki í stórræðum án Magdalenu Pavoni! Við vorum hins vegar svo heppin að hafa nokkrum dögum áður rekist á verslun í Uppsölum sem seldi sams konar kaffivélar og þar gátum við leitað upplýsinga um þjónustuaðila. Í ljós kom að bjargvætt var að finna í Stokkhólmi og þangað var ferðinni heitið!

Hugi valdi sér „svona brúnt og hvítt“ úr gúmmelaðiborðinu á Vetekatten og varð ekki fyrir vonbrigðum. Hann er ótrúlegur súkkulaðikall þessi litli maður!

María fékk líka brúnt og hvítt en var ekki eins hrifin!

Fjölskyldan (mínus mamman) á Sergelstorginu í hjarta Stokkhólms með Kulturhuset í baksýn. Við áttum raunar annað erindi til Stokkhólms en bara að koma kaffivélinni í viðgerð því ætlunin var að kaupa líka stóla við eldhúsborðið (sem við erum reyndar ekki búin að fá enn þá). Í því skyni héldum við í mikla snobbbúð í snobbhverfinu Östermalm (sem er reyndar alveg frábært hverfi, þrátt fyrir snobbið!). Þar tók afar geðstirður afgreiðslumaður á móti okkur og þótti greinilega lítið til fjölskyldufólksins í sandölum og stuttermabolum koma! Hvað um það, stólarnir voru keyptir og koma til okkar, eins og allt annað sem við höfum keypt í Svíþjóð, eftir fjórar til sex vikur!!!

Huga var afar þungt í geði við Sergelstorgið! Við höfðum nefnilega líka farið í uppáhaldsdótabúðina mína í Stokkhólmi (sem er beint á móti uppáhaldskaffihúsinu ... hentugt!) og þar vildi Hugi fá „tvo kalla“! Slík magnkaup á köllum voru hins vegar ekki í boði og uppskáru foreldrarnir þessa miklu fýlu fyrir þau leiðindi!

Það hýrnaði þó heldur betur yfir mannskapnum þegar Humlegården var heimsóttur meðan Einar skrapp til Södermalm með kaffivélina. Einhverjir muna sjálfsagt eftir þessari vaðlaug og fjölda krúttlegra bleiubossa frá Stokkhólmsferð okkar Einars síðasta sumar. Í þetta sinn voru það mínir bossar (þó ekki með bleiu) sem óðu út í laugina. Hugi veðraðist allir upp og tók ekki annað í mál en að fá að vera berrassaður! María var varkárari að vanda!

Systkinunum leist strax vel á sig í Humlegården!

Hugi hefur frá fyrstu vikum lífs síns verið fremur vatnshræddur. Honum er meinilla við að fá vatn í eyrun og í fjögur og hálft ár hafa allar baðferðir verið miklar þolraunir fyrir foreldrana enda hafa öskur drengsins gjarnan hljómað um allt hverfið þegar hárið er þvegið! Það kom mér því pínulítið á óvart að um leið og Hugi steig út í laugina var eins og hann hefði aldrei gert annað. Meira að segja sturtan sló í gegn!

Systkinin í góðum félagsskap lítils bleiubossa! (Takið sérstaklega eftir Huga alveg í trylltu fjöri þarna fyrir aftan!)

Á endanum sá María sér ekki annað fært en að afklæðast líka að mestu enda sturtan ansi lokkandi í hitanum!

María og Hugi ásamt fjölda annarra strípalinga!

  

Hugi varð fljótt alveg rennandi blautur og hin stórkostlega hræðsla við að fá vatn í eyrun virtist allt í einu hafa gufað upp! María var ögn rólegri í tíðinni eins og hún á vanda til!

Hugi í sturtunni!

María hafði miklar áhyggjur af handklæðaleysinu (ferðin í sturtuna í Humlegården hafði ekki verið skipulögð!). Engin þörf var þó fyrir slíkan útbúnað því sólin sá um að þurrka bæði bera kroppa og blaut föt á örskotsstundu.

Þessari dúllu fannst nóg um hávaðann í lauginni!

Hugi var fljótur að læra að kveikja á sturtunni ...

  

... og svo var aðalmálið að hlaupa undir hana og láta vatnið steypast yfir sig ... jafnvel þótt það færi inn í eyrun eða augun!

Tiltækt drasl var notað í fjörið! Við ákváðum þó að yfirgefa Humlegården áður en börnin yrðu blá af kulda og svo vorum við líka boðin í hangikjöt til Alfreðs og Bjarkar á Pilgötuna!

Þessi er fyrir Svanhildi!!! Þessa dásamlegu uppstillingu rakst ég á í skranbúð við hliðina á húsinu sem Alfreð og Björk búa í!

Buhuhu!!!

Hugi var alveg að pissa í sig á leiðinni inn til Alfreðs og Bjarkar ...

... og María líka!!! Því miður gleymdist alveg að draga upp myndavélina í matarboðinu en vonandi dugir munnleg lýsing til að sannfæra ykkur um að þessari frábæru Stokkhólmsferð lauk með allra besta móti með hangikjöts- og pönnukökuáti í góðum félagsskap áður en lestin var tekin heim til Uppsala!