Skrifstofan á stigaskörinni

Þegar við fluttum hingað á Konsulentvägen og hófum að koma okkur fyrir lögðum við mesta áherslu á að gera fínt á neðri hæðinni og í barnaherbergjunum. Þær aðgerðir tóku allt í allt um fjóra mánuði og þótti okkur nú nóg um! Við tókum okkur stutt hlé frá framkvæmdum í kringum jól og áramót 2006/2007 en fyrsta verkefni okkar á nýju ári var að gera fínt á stigaskörinni hvar við hugðumst setja upp litla skrifstofuaðstöðu. Við áætluðum að það tæki okkur nokkrar vikur og vorum svo spennt að halda í næstu verkefni ... hjónaherbergið og baðherbergin tvö sem þarfnast töluverðar andlitslyftingar. Einhvern veginn æxlaðist það þó þannig að vinnan við skrifstofuna á stigaskörinni tók okkur heilt ár og ferlinu lauk ekki formlega fyrr en síðdegis á aðfangadag! Hér fyrir neðan er þessi langdregna og á köflum tíðindalitla saga sögð í máli og myndum!

Verkefnið sem við lögðum upp með í upphafi var að fjarlægja hið ógnarljóta veggfóður sem prýtt hafði rýmið og mála hvítt. Við höfðum jú heyrt hryllingssögur um hver erfitt gæti verið að ná veggfóðri af og í ljósi þeirra höfðum við einmitt valið að mála einfaldlega yfir það í öðrum herbergjum. En veggfóðrið á stigaskörinni var of slitið og með allt of mörg samskeyti til að slíkt gæti gengið þannig að við hófumst handa full af kappi!

Svona var ástandið um miðjan febrúar! Þrátt fyrir að við hefðum talið okkur nægilega vel undirbúin undir það sálrænt að kroppa veggfóðrið af reyndi það óheyrilega á taugarnar! Og neglurnar ... ég var með verki í fingrunum í marga daga eftir að hafa pillað upp lófastóran flöt! Smám saman náðum við þá betri tökum á kúnstinni við að fjarlægja veggfóður og þetta fór að ganga örlítið hraðar. Við lukum við rúmlega einn vegg og fluttum svo skrifborðið (sem hróflað hafði verið upp á stigaskörinni við flutningana) inn í svefherbergi til að komast að þeim næsta. En þá var allt í einu eins og rafhlaðan væri búin og við höfðum okkur ekki í að halda áfram. Við tók nokkurra mánaða hlé þar sem við fengum illt í magann við það eitt að horfa á veggfóðrið og sundurskröpuðu spónaplöturnar!

Eftir að við komum endurnærð heim úr skemmtilegu sumarfríi á Íslandi brettum við þó upp ermarnar á ný! Klárað var að rífa veggfóðrið af að mestu og byrjað að sparsla yfir spónaplöturnar.

Svona var umhorfs á stigaskörinni í lok júlí! En þrátt fyrir að við værum aftur komin á flug í framkvæmdum var enn eftir stórt, óleyst vandamál: Veggurinn fyrir ofan stigann! Að honum var ekki hægt að komast með góðu móti. Mögulega hefðum við getað málað vegginn frá skörinni með rúllu á löngu skafti en það var útilokað að hægt væri að plokka veggfóður af eða sparsla úr þeirri fjarlægð. Við kynntum okkur alla kosti sem í boði voru í Bauhaus en ekkert hentaði almennilega. Vinnupallarnir sem hægt var að stilla fætur á í mismunandi hæð (og hefðu þá getað staðið í tröppunum fyrir neðan) voru allt of lágir og venjulegir stigar með stillanlegum fótum allt of óstöðugir í svona hamagang. Það lá því við að við myndum taka okkur annað margra mánaða hlé!

En þá tók Einar málin í sínar hendur! Einn fagran ágústdag smíðaði hann sér sjálfur vinnupall úr mótatimbri. Hér er pallurinn í vinnslu.

Það sést glöggt á þessari mynd við hvers konar vanda var að etja og eftir á að hyggja var lausn Einars var ekki bara sú allra besta heldur skemmti Einar sér stórkostlega við pallasmíðina! Krökkunum þótti líka ógnargaman að fá að hafa þykjustuhús undir pallinum og það var því bara mamman sem kvartaði þegar hún þurfti að mjaka stórum rassinum upp þröngar tröppurnar!

Eftir að pallurinn var kominn upp tók annað fljótt af, veggfóðrinu var svipt niður og á þessari mynd sést Einar leggja lokahönd á sparslvinnuna. (Mig langar í veðrið sem er þarna fyrir utan gluggann!!!) Loks var svo allt málað hvítt og við vorum óendanlega ánægð með árangurinn! Svo ánægð að okkur þótti forljóti gervi-korkdúkurinn allt í einu engan veginn samboðinn hinum fögru veggjum!

Það var þó ekki fyrr en í byrjun nóvemer sem við ákváðum að drífa okkur í að skipta um gólfefni. Hér eru feðgarnir önnum kafnir við að fjarlægja ljóta dúkinn.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru varla framkvæmdir sem heitið geta að sparsla veggi, mála og skipta um gólfefni, ekki við hliðina á verkum allra þeirra sem gera upp heilu húsin, hringla með herbergjaskipan, saga hurðarop og smíða veggi! Okkur þóttu þessar framvkæmdir hins vegar alveg nógu flóknar enda voru sífellt að koma upp ný og ný áður ófyrirséð vandamál. Þegar dúkurinn var fokinn áttuðum við okkur til dæmis á því að plötumótin á gólfunum voru svo ójöfn að parketið sem við vorum búin að festa kaup á yrði ónýtt eftir árið. Úr varð því að Einar leigði þennan juðara einn dag og tók niður mestu brúnirnar.

Og svo var byrjað að leggja nýtt gólefni. Við vorum æsispennt!

Það var í raun ekki lengi gert en það tók okkur hins vegar margar vikur að fixa lista, þröskulda og leysa þess háttar smávandamál sem samt geta reynst svo flókin.

Við vorum frábærlega ánægð með árangurinn! Ég vildi að ég ætti mynd sem sýnir ástandið á stigaskörinni áður en framkvæmdir hófust til að sýna muninn svart á hvítu en þið verðið bara að reyna að leggja saman myndina af ógeðisveggfóðrinu og gólfdúknum og sjá þetta fyrir ykkur!

Þegar öll vinna við gólfið var búin áttum við bara eftir að koma inn húsgögnum, setja bækur í hillur o.s.frv. Við ákváðum þó að sjálfsögðu að flækja það svolítið og lakka skrifborðið okkar upp á nýtt. Þegar borðplötunni var snúið við kom í ljós þetta skemmtilega graffiti sem María gerði einhvern tímann í frumbernsku! Við ákváðum að varðveita það á mynd áður en lakkað yrði yfir!

Eins og áður sagði var það svo ekki fyrr en síðdegis á aðfangadag að skrifstofan á stigaskörinni var komin í þannig ástand að hægt væri að úrskurða framkvæmdum lokið! Þá leit þetta svona út!

Við splæstum meira að segja í nýja skrifboðrsstól í staðinn fyrir þann gamla sem var alveg eins nema með öðruvísi áklæði sem var orðið afar lúið og slitið.

Finnst ykkur þetta ekki fínt?! Það verður reyndar að viðurkennast að aðventustjörnurnar í gluggunum settu sérstaklega mikinn svip á rýmið og það var mikill missir að þeim þegar allt jólaskraut var tekið niður á þrettándanum.

Í dag, einmitt þegar þessi orð eru skrifuð lítur skrifstofan á stigaskörinni hins vegar svona út!

Hér er notalegt að sitja undir súðinni og skrifa merkilegar bókmenntagreinar um djúp fræði og mikilvæga menn ... eða bara tékka á nýjustu fréttunum af Britney!!!

Einari tókst stórvel upp þegar hann lakkaði skrifborðið og reyndar gólflista og dyrakarma líka. Við höfum lítið notað olíulakk þar sem lyktin af því er ekkert allt of þægileg en ég hugsa að við verðum duglegri við það í framtíðinni miðað við þennan árangur! Maður tekur bara eina Alvedon á dag meðan lyktin er að veðrast burt!!!

Þessi mynd er tekin úr dyragætinni inn í hjónaherbergið. Á hægri hönd er hurðin inn á baðherbergið sem er einmitt næsta stóra framvæmdaverkefni okkar Konsulentanna! Á vinstri hönd er hins vegar stigapallurinn og skrifstofuaðstaðan sjálf. Beint á móti okkur er herbergið hans Huga, hægra meginn við það dyrnar inn í Maríuherbergi og vinstra megin er lítið fataherbergi sem reyndar þjónar hlutverki alhliða ruslakompu og geymslu í augnablikinu!

Það er svo rétt að taka það fram svona í blálokin að þótt ég tali iðulega um okkur í fleirutölu í þessu albúmi þá á Einar allan heiðurinn að þeirri vinnu sem unnin var á stigaskörinni. Ég gerði akkúrat ekkert nema pilla einn lófastóran flöt af veggfóðri, frekjast, skipa fyrir og veita álit! Takk elsku Einar, þú ert snillingur!!!