Skógarferð í nágrenni Vänge

Allt í kringum Vänge eru skógar. Við fjölskyldan höfðum lengi hlakkað til að fara í skógarferð að hætti Ronju ræningjadóttur og létum loks drauminn rætast!

Fyrst fórum við í dálítinn plat-skóg! Þetta er í raun og veru bara pínulítil skiki innan Vänge og ef maður fer of langt út af stígnum þá endar maður bara í bakgarðinum hjá næsta nágranna! Þetta var þó ágætis upphitun fyrir það sem koma skyldi!

Inni í plat-skóginum höfðu einhverjir byggt hús uppi í tré. Huga leist vel á það og prílaði strax upp.

Hefur nokkur séð svona sætan skógarpúka?!

María var dálítið smeyk og vildi ekki fara hærra upp en þetta.

Eftir stutt rölt í gegnum platskóginn ákváðum við að ganga í gegnum Vänge og skoða skóginn sem tekur við handan bæjarmarkanna. Á leiðinni rákumst við á þetta fína kirsuberjatré.

María og Hugi þurfa alltaf að stoppa og skoða alla snigla, maura, bjöllur eða margfætlur sem við göngum fram hjá! Stígurinn sem við stöndum á er hjóla- og göngustígur sem liggur alla leið frá Vänge inn til sjálfra Uppsala. Það tekur okkur um það bil 20 mínútur að fara þá leið með strætó þannig að maður er ansi lengi að fara þetta hjólandi. Einar er reyndar búinn að prófa að hjóla í vinnuna og það tók hann um 45 mínútur. Ég efast hins vegar um að ég láti á þetta reyna í bráð ... finnst alveg nægur hjólatúr að hjóla í Ekeby by!

ÍÍ gegnum skóginn sem liggur handan Vänge liggur merktur stígur sem er upplýstur á kvöldin. Við ákváðum að ganga hann þrátt fyrir að hafa ekki hugmynd um hvað hann væri langur né hvar hann endaði. Skömmu eftir að við komum í alvöru skóginn settumst við niður og fengum okkur nesti. Tinna, nýja dúkkan hennar Maríu, fékk að koma með í ferðalagið ... hún fékk samt ekkert nesti að borða!

Huga óx ásmeginn eftir nestið og tók fram úr okkur öllum og skokkaði eftir stígnum langt á undan.

Eftir heillangt labb voru systkinin orðin dálítið þreytt en við foreldrarnir gátum því miður engu lofað um hvenær við yrðum komin á leiðarenda né hversu langt ferðalag tæki þá við heim á Konsulentvägen. Þetta var því mikil óvissuferð! Til að létta gönguna (en þó aðallega lundina!! útbjó Einar göngustafi fyrir liðið ... Maríu og Huga þótti það mikið sport!

Litlir göngugarpar í stórum skógi!

Inni í miðjum skógi rákumst við á ansi skondna líkamsræktarstöð sem var öll búin til úr trjádrumbum sem falla til í skóginum. Einar reynir sig hér við kraftlyftingar og börnin horfa á í forundran!

María og Hugi vildu fá að prófa bekkpressuna líka!

Hér er aðstaða fyrir litla sem stóra til að hífa sig upp!

Við höldum að þetta sé til að æfa kálfvöðvana. Hins vegar hefur hvorugt okkar stigið fæti inn í alvöru líkamsræktarstöð í fjölmörg ár þannig að það er lítið að marka!

Hvern langar ekki að gera magaæfingar úti í skógi?!

Þrátt fyrir að við værum orðin dálítið stressuð yfir því hvenær við kæmumst eiginlega út úr skóginum fór ekki fram hjá okkur hvað hann var fallegur!

Allt fór þó vel að lokum og skógarstígnum lauk á nokkurn veginn sama stað og hann byrjaði. Miðað við allt sveitta og spandex klædda fólkið sem við mættum á leiðinni og trédrumba-æfingatækin drógum við hins vegar þá ályktun að stígurinn væri fyrst og fremst notaður til líkamsræktar en væri síður ætlaður fjölskyldum í Ronju-leik!!!