Skanör

Sumarfríið okkar á Skáni var hreint út sagt dásamlegt! Heil vika í orlofsíbúð sænska læknafélagsins, sjóböð, strandhangs, Kaupmannahöfn, Österlen, Ystad ... er hægt að ímynda sér eitthvað skemmtilegra? Við hér á Konsulentvägen teljum ekki!

28. júlí 2012

Heiman frá okkur og til Skanör eru um 750 kílómetrar svo við þurftum að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni. Hér erum við í Jönköping sem er sætur bær sem stendur fallega við syðri enda stöðuvatnsins Vättern.

Í Jönköping keyptum við okkur slush, nammi og kaffi! Hvað sem er til að halda orkunni uppi og stemmningunni (og bílnum!) gangandi!

Ferðalagið gekk alveg með ólíkindum vel og um sexleytið vorum við komin til Skanör í þessa líka fínu íbúð í fallegu gömlu húsi. Við byrjuðum á að kveikja á sjónvarpinu því það voru jú ólympíuleikar í gangi!

Ég tók afskaplega fáar myndir í þessari fínu íbúð en hér sést alla vega borðstofan, tekið úr eldhúsinu og á vinstri hönd er sófahornið sem sást hér að ofan.

Baldur Tumi hafði lítinn áhuga á sundi og dýfingum en þeim mun meiri á útsýninu út um gluggana. Þetta var hans uppáhaldsstaður þessa viku sem við dvöldum í húsinu og hann sat þar kvölds og morgna, hej-aði á fólkið sem gekk fram hjá og beið spenntur eftir að það kæmi bíll (sem gerðist sjaldan því bærinn er lítill og við í útjaðri hans).

Gluggagægir.

Íbúðin var í gömlu húsi með sögu langt aftur í aldir og með svona líka fallegu porti/garði á bak við. María og Baldur Tumi gera sig klár í fyrstu kynnisferðina um Skanör.

Þessi var sérstaklega tekin fyrir Sollu systur!

Skanör er fallegur bær, þar er hvert litla lágreista húsið á fætur öðru, öllum vel við haldið enda virðist kosta einhvern smá pening að eiga hús á svona dásamlegum stað - að minnsta kosti ef eitthvað er að marka glæsibifreiðarnar sem stóðu í röðum meðfram götunum. Við skömmuðumst okkar pínulítið fyrir skítuga, beyglaða, eldgamla bílinn okkar svona í samhenginu.

Þetta er sjón sem ég átti bara von á að sjá í H. C. Andersen ævintýrum og Royal Copenhagen styttum!!! Gæsahópur og gæsahirðir! Nú veit ég því miður ekki alveg nóg um þessar gæsir en þær virðast vera einkennistákn Skanör, að minnsta kostu voru alls staðar gæsastyttur og -skúlptúrar úti í gluggum og gæsaviðvörunarskilti víða. Við erum auðvitað líka á svipuðum slóðum og hann Nilli Hólmgeirs þegar hann steig á bak gæsinni og upphóf sína miklu ævintýraför. En þessar gæsir virtust alla vega tilheyra gistiheimili staðarins og vera í fæði þar og ekki annað hægtað segja en að þær hafi sett sinn svip á bæjarlífið.

Dásamleg sjón.

29. júlí 2012

Það var skýjað þegar við vöknuðum fyrsta morguninn í Skanör en við létum það ekki aftra okkur frá því að taka okkur gönguferð niður á ströndina.

Þar var dásamlegt þrátt fyrir sólarleysið og krakkarnir nutu þess að vaða berfætt út í sjó.

Meðfram allri strandlengjunni eru svona krúttlegir og litríkir strandkofar eins og sjást þarna á bak við hann Huga.

Baldur Tumi var strax mun sáttari við ströndina en þegar við vorum á Gotlandi fyrir tveimur árum en þá öskraði hann nánast í hvert sinn sem hann sá sjó eða snerti sand!

Eyrarsundsbrúin blasti við frá ströndinni. Eruð þið ekki örugglega öll að horfa á sænsk-dönsku þættina sem eru nefndir eftir þessari brú og mér skilst að Ríkissjónvarpið sé að sýna um þessar mundir? Þetta eru frábærir þættir sem héldu okkur Einari föngnum síðasta haust.

Við Einar enn hugfangin af brúnni - og ströndinni, sjónum, sandinum, bátunum í höfninni, litlu strandkofunum ... bara öllu!

Stóra stelpan mín.

Bræðurnir rótuðu í sandinum ...

... og óðu saman út í sjó.

  

Glaður lítill maður.

Svo þurfti pabbi að bursta sandinn af fótunum áður en hann klæddi í sokka og skó.

Í dag, einum og hálfum mánuði eftir að við fórum þessa góðu ferð, er Baldur Tumi enn að tala um hvað það var gaman að standa á stórum steinum á ströndinni!

Bræður á enn stærri steini.

Systkinin öll.

Þegar ég sagði að glæsibifreiðarnar hefðu staðið í röðum eftir götum Skanör var ég ekkert að ýkja! Þennan sáum við á hinu ofur hversdagslega bílastæði í höfninni.

Mér skilst líka að konungsfjölskyldan leggi stundum snekkjum sínum og skútum hér í höfninni í Skanör á sumrin. Þau voru þó fjarri góðu gamni á Ólympíuleikunum í London meðan við vorum á staðnum.

Kýr á beit við ströndina!

Strandkofarnir litríku sjást þarna í bakgrunni.

Við borðuðum brunch á Hotel Spelabäcken sem er afskaplega fallegt lítið hótel, annað af tveimur í Skanör.

Um kvöldið keyrðum við Ystad sem er lítill bær dálítið austar á Skáni. Ystad er frægastur fyrir að vera heimabær lögreglumannsins Kurt Wallander sem lesa má um í bókum Henning Mankell. Bærinn er miðað við þá seríu fullur af raðmorðingjum, hryðjuverkamönnum og sýkópötum en við sluppum ómeidd inn á pizzeriu í miðbænum.

Baldur Tumi var alls óhræddur og brosti sínu blíðasta.

Því miður stoppuðum við of stutt í Ystad til að upplifa bæinn almennilega og þar að auki var allt lokað þegar við komum svo mér finnst við enn eiga inni almennilega Ystadferð. En gamli bærinn er fallegur og þar stóð allt í blóma þegar við gengum um þröngar göturnar.

Eins og sjá má!

Hvert sem við komum á Skáni stóðu stokkrósir í öllum regnbogans litum í blóma.

Á þessari mynd er eins og María sé stödd í allt annarri borg á brautarpalli 9 3/4!!!

Er þetta ekki undursamlega fallegt?

Hver þarf að fara til Suður-Evrópu þegar hann hefur svona í heimalandinu?

30. júlí 2012

Daginn eftir skein sólin yfir Skanör og við drifum okkur snemma út, gengum fram hjá blómstrandi stokkrósum meðfram götunum og niður á strönd.

Fjölskyldan og póstmaður á hjóli.

Ég gæti alveg hugsað mér að búa í þessu litla bláa húsi.

Við vorum öll sómasamlega klædd á leiðinni á ströndina en það var töluvert algengt að sjá fólk hjóla fram og til baka á baðsloppum! Mig langar ekkert meira en að búa þannig á sumrin að maður geti byrjað alla daga á smá sundsprett í sjónum/stöðuvatninu/ánni.

Gæsaflokkurinn var á sínum stað í nágrenni við Gästgifvaregården. Þessi sem svaf með gogginn svona ofan jörðina var ofurkrúttleg! Gæsirnar komust þó ekki í efsta sæti yfir skemmtileg dýr sem við sáum í þessari ferð. Þann titil hlýtur lítill bolabítur með snuð sem við mættum á leiðinni á ströndina! Já, já, hann var bara að rölta í bandi með eiganda sínum og með duddu í munninum! Því miður gafst ekki færi á að mynda hann en þar hefði svo sannarlega verið verðugt myndefni!

Hugi keyrir kerruna og ströndin er framundan með hvítum sandi og kristaltærum sjó.

Það er fátt sem toppar þetta!

Þar sem það var mið vika og helsti sumarleyfistíminn afstaðinn var fámennt á ströndinni þennan dag þótt veðrið væri dásamlegt, hitastigið alveg fullkomð og sjórinn hlýr.

Ég held svooo mikið upp á þessa mynd!

Bræðurnir undu sér við að róta í sandinum milli þess sem Hugi stakk sér í sjóinn og Baldur Tumi horfði fullur aðdáunar á úr flæðarmálinu.

Einar rölti í búðina og keypti hádegismat fyrir okkkur að borða á ströndinni. Búðin í Skanör var annars alveg frábær og seldi meðal annars ótrúlega gott súrdeigsbaguette sem við dýfðum í rjómaost og borðuðum með bestu lyst við frumstæðar aðstæður. Krakkarnir elskuðu það!

Einar var í smá Lost stemmningu á ströndinni þar sem hann komst að því að stuttbuxurnar hans voru of víðar svo hann rakti eina skóreim úr skónum sínum og hnýtt sem belti í mittið.

Hamingjusamur lítill strákur síðla dags á ströndinni.

Á leið heim rákumst við enn á gæsahópinn.

  

Hugi ætlaði að heilsa upp á þær en var hrakinn í burt af forystugæsinni okkur öllum til mikillar skemmtunar!

31. júlí 2012

Næsta degi eyddum við líka á ströndinni en ég ákvað að gefa myndavélinni frí í það skiptið. Þótt maður geti aldrei átt of mikið af myndum af glöðum börnum með heiðbláan himin og tæran sjó í bakgrunni þá taldi ég óhætt að njóta alls þessa með berum augum og án þess að þurfa að stressa mig á því hvort það hefði farið sandur inn á linsuna svona í eitt skipti! Um kvöldið slógum við hins vegar upp tapasveislu með ýmsum kræsingum úr búðinni góðu og einni af litlu fiskbúðunum við höfnina. Börnin voru í litasétteringu en það var alveg óvart!

Gott brauð, ostar, salami (mig dreymir enn um chili salami-ið þarna vinstra meginn), rækjur og aioli var meðal þess sem boðið var upp á. Þetta var svona kvöld sem maður vildi að maður hefði getað tappað á brúsa til að fá sér sopa af af og til yfir allan veturinn.

1. ágúst 2012

Næsta dag héldum við yfir brúnna til Kaupmannahafnar. Við byrjuðum á að finna Royal Copenhagen outlet hvar ég missti nánast vitið af fegurð og framboði. Ákvað eftir langa mæðu að taka með mér heim eina Mussel Mega salatskál og stóra könnu sem gleðja mig ósegjanlega hér heima á Konsulentvägen. Eftir þau góðu kaup héldum við inn í bæinn og enduðum á hamborgarastaðnum Sporvagninum við Grábræðratorg.

Stóri strákurinn minn ...

... og sá litli (og skítugi!).

Hugi hárprúði.

Hugi tók þessa fínu mynd af okkur foreldrunum.

Og María tók þessa af báðum bræðrum sínum ...

... og þessa af míní.

Eftir góða hamborgara og steikta kartöflubáta (sem eiga heima í sögubókum!) héldum við áfram bæjarferðinni.

Hér erum við fyrir utan stóru Royal Copenhagen búðina á Strikinu hvar ég féll nánast í yfirlið yfir musseli í annað skiptið þennan dag! Því miður leið dagurinn allt of hratt og við náðum aldrei að fara antíkbúðarúntinn minn góða svo ég þarf helst að komast sem fyrst aftur til Kaupmannahafnar!

Við komum við á róló þar sem Baldur Tumi var ekki nærri eins glaður og ókunnuga barnið á myndinni!

Í dótabúðinni í Illums voru þó allir glaðir, sérstaklega Hugi sem hreifst mjög af þessum Hulk búning!

2. ágúst 2012

Baldur Tumi á sínum uppáhaldsstað á náttfötum árla morguns.

Þennan dag ákváðum við að keyra um Österlen sem er eitt rómaðasta svæðið á Skáni - já og Svíþjóð allri! Þar ákváðum við að heimsækja sögufrægt kaffihús lengst úti í sveit, eins fjarri alfaraleið og hægt var að hugsa sér. Þar rétt hjá rann falleg á og í sól og 30° hita var freistandi að stökkva þarna út í og svamla í köldu vatninu í skugga trjánna.

Við létum það þó ekki eftir okkur heldur héldum áfram í áttina að Alunbruket kaffestuga!

Kaffestugan hefur verið rekin á þessum stað frá 1930 en húsið er frá 18. öld! Kaffestugan er ekki bara fræg fyrir heimabakað bakkelsi heldur dásamlega fallegan garð.

Hér má sjá allt það sem einkennir týpísk skánsk hús, krossvirkið í veggjunum og þetta lágreista langa form sem heiti svona húsa er dregið af, Skånelängor.

Það er áreiðanlega afskaplega notalegt að sitja þarna inni og drekka kaffi á veturna ...

... en þar sem það var sumar og sól ákváðum við að setjast undir eplatrén í bakgarðinum.

Einar rýndi í girnilegan matseðilinn ...

... meðan María ástundaði undarlegt fingrajóga.

Allar myndir verða sjálfkrafa fallegar í þessu dásamlega umhverfi ... og svo getur auðvitað fátt klikkað þegar fyrirsæturnar eru svona sætar!

Hugi kominn með matseðilinn og Baldur Tumi hendist um þarna á bak við ...

... og heilsar upp á hund á næsta borði.

Sprelligosi.

Það gerist eitthvað stórkostlegt þegar maður er í svona fallegu og rólegu umhverfi - það er bara eins og allt sem maður annars hafði áhyggjur af verði svo agnarsmátt og ómerkilegt og höfuðið fyllist í staðinn af fuglasöng og flugnasuði.

Baldur Tumi kom auga á bíl sem honum leist á og þarna lengst í burtu er ég að virða fyrir mér afleggjarana sem hægt var að kaupa ef mann langar að rækta sinn eigin paradísargarð.

Baldur Tumi og bíllinn.

Og svo komu veitingarnar! Rauða jarðaberjasaftið, köflótti dúkurinn og græna grasið - þetta var allt svo fallegt!

Mitt brauð var með hráskinku, brie og paprikumarmelaði! Allt sem boðið er upp á í Alunbrukets kaffestuga er heimabakað og eftir því gott.

Í eftirrét fékk ég syndsamlega góða rabarbaraköku sem ég vildi að ég ætti uppskriftina að.

Mosavaxið þak og blóm í túni.

Þótt maður sé lítill langar mann samt að geta prílað upp í há tré eins og stóru systkinin.

Ó hvað ég elska þessa mynd! Einar tók hana óvart þegar hann var eitthvað að fikta í stillingunum á myndavélinni og þetta er algjörlega uppáhaldsmyndin mín frá þessum annars frábæra degi. Litirnir, stemmningin, formið ... ég kemst ekki yfir hvað hún er fullkomin!

Baldur Tumi æfir jafnvægisgöngu.

Einar virðir afleggjarasöluna fyrir sér.

Ég hefði nú verið til í að taka svona fallegt með mér heim!

Það var líka hægt að sitja í garðinum fyrir framan húsið. Annars kom mér á óvart hvað það var mikið af fólki þarna á sama tíma og við, þrátt fyrir að þetta væri í miðri viku og kaffihúsið, eins og áður sagði, staðsett leeeengst úti í skógi.

Stokkrósir og annað stórkostlegt.

Rós og fluga.

Eitthvað fallegt sem ég veit ekki hvað heitir.

Riddarasporann ber við hálmþakið.

Stokkrós, gluggi, útiljós og lampi inni.

Haustanemónur.

Ég held að þetta sé síðasta blómamyndin í bili - ég vona að þið hafið staðið þetta af ykkur!

Viðbúnir, tilbúnir ... nú! Baldur Tumi var auðvitað inspíreraður af Ólympíuleikunum!

Næsta stopp var í Simrishamn en þá vorum við orðin svolítið þreytt og ég hætti eiginlega alveg að taka myndir.

Hér er falleg skúta og Borgundarhólmsferjan ... en svo fórum við aftur í bílinn, komumst að því að einhver Johan Svensson hafði keyrt á bílinn okkar og skilið eftir miða með broskalli og þaðan héldum við á margrómaða súrdeigspizzeriu lengst úti í sveit sem átti ekkert laust borð handa okkur svo þessi góða ferð um Österlen endaði á eilítið súrum nótum!

3. ágúst 2012

         

Síðasta heila deginum okkar í Skanör eyddum við á ströndinni - og myndavélin fékk aftur að fylgja með.

Þetta var föstudagur, veðrið dásamlegt og aðeins fleiri á ströndinni en dagana á undan. Ég elska að það sé röndótt sólhlíf í bakgrunninum á þessari mynd!

María og Hugi svamla og vinka til lands.

Við mæðginin með sólargrettu.

Einar í langþráðu sumarfríi eftir kreisí sumar á heilsugæslunni ... kreisí!

Ég setti nokkrar myndir inn á Facebook í gegnum nýja fína símann og var spurð að því nokkrum dögum eftir að við komum heim úr fríinu hvort við hefðum ekki verið á Krít. Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvers vegna maður þarf að fara til suðrænna sólstranda þegar maður hefur alveg jafngóðar strendur svo miklu nær! Ég efa að Skanör gefi Krít nokkuð eftir!

María með sjóblautt hár ...

... og Hugi líka.

  

Elsku bestu strákarnir mínir.

Sandkast (sem er auðvitað stranglega bannað).

María teygir úr sér og nýtur lífsins.

Ef maður bara gæti fengið eins og tvær vikur á svona stað á hverju ári þá myndi maður alveg þola hláku, fótboltamót í Örebro, mygluð handklæði í leikfimipokum, kreisí vinnutarnir og hvað sem er.

Sandkast er ekki alveg eins bannað þegar það beinist ekki að neinum!

Sko, þetta var ein af ástæðunum fyrir að ég sleppti myndavélinni einn stranddaginn - ég enda bara með ótal dásamlegar myndir sem ég tími alls ekki að sleppa en hef akkúrat ekkert að segja við!

Hér kemur ein dásamleg sería af Baldri Tuma sem lýsir lífi hans á ströndinni í hnotskurn. Hér er hann salírólegur að moka í sandinum ...

... þegar hann sér eitthvað á hreyfingu útundan sér ...

... áttar sig á að það er Hugi á leiðinni að sjónum ...

... og reykspólar af stað ...

... til að fylgja honum eftir!

Baldur Tumi + Hugi = Sönn ást!

María lætur hvítan sand renna um lófann.

Nestisstund á ströndinni ...

... sem því miður er svo yfirlýst að kræsingarnar sjást ekki!

Við Baldur Tumi fórum aðeins fyrr heim af ströndinni en þau hin og áttum stefnumót á Spelarbäcken yfir latte og ávaxtasafa Við fórum líka í konubúðir og keyptum fínerí - nánar tiltekið fínu, fínu luktina sem var á afmælisóskalistanum mínum í upphafi ársins.

Um kvöldið var pizzukvöld eins og alltaf á föstudögum hjá okkur.

4. ágúst 2012

Komið að heimferð - sem þó er bærilegra ef maður getur byrjað ferðalagið á morgunmat í garðinum við Hotel Spelarbäcken.

Haustflox í blóma.

Reiðhjól og rósir.

Við fylltum okkur vel af pönnukökum, eggjum, beikoni, kjötbollum, heimabökuðu brauði, jógúrti, múslíi, frönskum hornum, ávaxtasafa og KAFFI svo við hefðum næga orku fyrir löngu bílferðina sem við áttum fyrir höndum.

Meira fallegt í hótelgarðinum.

Það mætti alveg samþykkja að búa á svona stað í einhverja daga!

Og með þessari mynd af Maríu í hótelgarðinum kveðjum við Skanör og lokum albúminu með semingi.