Sírenur og sumarsól

Ýmsar júnímyndir!

Tíminn þegar sírenurnar blómstra í garðinum mínum er minn uppáhaldsárstími! Hvernig gæti annað verið?

Og þetta borð er bara uppáhalds allskonar! Fjóra græna reiddi ég fram fyrir það í Åkes sakförmedling (Hlutamiðlun Áka!). Við María erum sammála um að það sé nánast sama hvað lagt sé á þetta borð, allt öðlist umsvifalaust einhvern dýrðarljóma!

Maríu og Baldri Tuma þykir gaman að dansa saman. Fyrst þarf að bjóða upp ...

         

... og svo dansa þau hring eftir hring eftir hring ...

         

Að róla úti í sólinni er líka skemmtilegt.

Og svo fær maður sér smoothie með tilþrifum!

Draumadísin mín.

En aftur yfir í sírenurnar! Í garðinum mínum vaxa þær í þremur litum. Flestir runnanna eru svona fallega lillabláir ...

... svo eru nokkrir hvítir ...

... en bara einn dökk fjólublár.

Feðgarnir við kartöflugarðinn. Það er til marks um hvað ég er sein með myndirnar að grösin sem þarna eru nokkurra sentimetra há urðu auðvitað eins og meðalstór regnskógur og við erum löngu búin að borða snemmsprottnu sortina (uppáhaldskartaflan okkar, ástarkartaflan Chérie) og langt komin með þá síðsprottnu (Sparris). Og takið eftir blómstrandi sírenurunnunum þarna á bak við.

Það er sem ég segi, allt tekur sig vel út á borðinu góða!

María systir finnur upp á skemmtilegustu leikjunum!

Það fæddust margir Íslendingar hér í Uppsölum árið 2009 og nokkrir þeirra komu í kaffi á Konsulentvägen í júní ásamt mömmum sínum. Við hlið mér situr Elín, við borðsendann er Eiríkur, honum á vinstri hönd er mamma hans Lilja og lengst til hægri eru mæðgurnar Inga Sif og Gerða María (sem fæddist að vísu 2010).

  

Baldur Tumi sýnir Bjarka hvernig á að gera þetta!

Eiríkur kominn með á teppið, ógnarglaður!

Bjarka og Eiríki virðist ekki alveg lítast á athafnasemi Baldurs Tuma!

Síðasti skóladagurinn fyrir sumarfrí og ég loksins búin að ná þessu almennilega með spari-/sumarfötin!

         

Vöfflukaffi í eldhúsinu að skólaslitum loknum. Húrra fyrir sumarfríi!!!

Fyrsta morguninn í sumarfríinu sátum við María með þreyttan Baldur Tuma í sófanum þegar sá stutti heimtaði að fara til Maríu sinnar og þegar þangað var komið lokaði hann bara augunum og fór að sofa. Stóra systir var heldur betur stolt!

Nú svo fórum við til Gotlands og svo þegar við komum heim lærði Baldur Tumi að labba. Ég var því miður allt of upptekin við að dást að honum til að muna eftir myndavélinni á þessum stóru stundum en þessi mynd er tekin fyrsta eða annan göngudaginn. Svo krúttlegt hvernig hann hysjaði axlirnar upp að eyrum í allri einbeitingunni!

Á Midsommarafton skelltum við okkur út í Ekeby by. Við misstum að vísu af dansinum í kringum stöngina en María og Hugi önduðu léttar þar sem þeim finnst fátt vandræðalegra en að syngja „Små grodorna ...“ og dansa í kring. Það er annars dálítði merkilegt að Svíar borða ekki bara sama matinn á jólum og midsommar heldur syngja þeir alveg sömu lögin hvort sem þeir ganga í kringum jólatré eða midsommarstång.

Kökur og bulla í sól og hita á Midsommar.

Baldur Tumi fékk eitthvað að narta í líka.

Við reyndum nokkrum sinnum við súkkulaðihjólið en fengum því miður engan vinning.

Hér er gamla drängstugan í Ekeby by. Það er spurning hvernig maður færi að því að selja svona eign í nútíma fasteignaauglýsingu?

Kátir Konsulentar.

Á leið heim.

Verðandi hveiti meðfram göngustígnum.

Við látum nú þessar kjötbollur og síld Svíanna sem vind um eyrun þjóta á Midsommar en viljum samt endilega eiga huggulega máltíð saman í kvöldsólinni. Ég sá sjálf um borðskreytingar að þessu sinni.

Ég hef orðið vör við að fólk veit yfirleitt ekkert hvar það á að sitja í þessari fjölskyldu svo mér þótti rétt að merkja þetta bara skýrt og greinilega!

Og að sjálfsögðu voru sjö sortir af blómum í vösum á borðinu. Hjátrúin segir að ef maður leggi sjö sortir af blómum undir koddann sinn á midsommar dreymi mann þann sem maður á eftir að giftast.

Ég get að vísu ekki fyrir mitt litla líf munað hvað við vorum með í matinn þetta kvöld ...

... en það er skjalfest að það var næstum-því-holla-jarðaberjatertan í eftirrétt. Maður yrði örugglega settur í fangelsi ef maður bæri ekki fram jarðaberjatertu á Midsommar!

Eru sundlaugar ekki staðalútbúnaður fyrir framan sjónvarpið á flestum heimilum?

Ég átti víst í fórum mínum mynd af fína borðstofuborðinu þar sem það sést aðeins betur. Uppáhaldsatriðið mitt sést þó ekki en það er ægilega fín skúffa á annarri hliðinni.

Við Einar, Hugi og Baldur Tumi fórum og tíndum jarðaber einn fagran júnídag. 10 lítra tókum við með okkur heim.

Og nú þegar farið er að líða á sumarið erum við enn sammála um að þetta hafi verið langbestu jarðaberin sem við höfum fengið í ár. Ég gerði jarðaberjaís úr hluta þeirra (sem tókst að vísu ekki alveg nógu vel) og svo gerðum við tvær flöskur af jarðaberjasafti með vanillu en restina tíndum við bara upp í okkur dagana á eftir.

Verið velkomin í fyrstu baðferð Baldurs Tuma! Það er mikið að maður fær að gera eitthvað annað við þessa laug en horfa á sjónvarpið í henni! Það fyrsta sem maður þarf að gera fyrir baðferðir er að athuga hitastigið á vatninu.

En bíði nú við, hvað er nú að gerast?!

Það lekur úr mér!

Ehemm, við gleymum nú bara þessari uppákomu, er það ekki?

Á maður ekkert að fá að fara út í eða hvað?!

Ahhh hvað þetta er notalegt!

Halló allir, langar ykkur að koma út í?

Busl og skvett!

Öndin frá Jódísi frænku er fullkomin fyrir svona busl.

Þar sem Baldur Tumi fær volgt vatn í sína laug er hún yfirleitt vinsælasta laugin á svæðinu! Og svo finnst Maríu og Huga eiginlega alveg jafnskemmtilegt að leika við litla sæta bróður sinn og að skemmta sér í 8/10 ára stíl!

Glaðir bræður.

Eftir allt þetta busl í sólinni þarf maður að kæla sig niður með djungel smoothie ...

... og naga ískalda ananasstöng (sem er sem sagt kjarninn úr ananas skorinn í strimla, barnið elskar þetta!).

Meira busl í næsta albúmi!