Síðsumar í Vänge

Sull, svefn og fyrsti skóladagurinn

Þetta albúm byrjar, eins og svo mörg önnur sumaralbúm, á sullmyndum!

 

Þegar ég var að taka myndirnar af þessum grallaraspóa komst ég ekki hjá því að bera þær í huganum saman við myndirnar sem ég tók af honum í byrjun sumars og hvað hann hefði nú stækkað og þroskast ótrúlega mikið á þessum stutta tíma. Eruð þið ekki sammála?

Hann er samt alltaf jafnmikill englabossi!!!

  

Litli spékoppur!

   

Baldur Tumi tók það upp á sitt eins dæmi að tína eins og 13 rifsber í box! Svo verður maður auðvitað að loka vel og vandlega svo gersemarnar tapist ekki og öll vinnan sé fyrir gýg!

Systkin í sitt hvorri rólunni. Einar smíðaði litla rólu fyrir Baldur Tuma sem María sést hér róla sér í. Það er nefnilega alveg sama hversu oft við höfum sagt henni að þetta sé róla fyrir smábörn, hún stenst ekki mátið!

         

Baldir Tuma þykir miklu skemmtilegra að ýta öðrum en að láta ýta sér!

Hér er önnur sjaldgæfa sófa-svefnmynd af þessari litlu rúsínubollu. Ó hvað mig langar að kúra þarna hjá honum!

Meðan Baldur Tumi svaf komum við Hugi okkur vel fyrir í hinum sófanum og lásum bækur, bæði Harry Potter og frásagnarfræði!

Hér er nýi skápurinn minn sem hýsir óðum stækkandi musselmaletsafnið! Næsta færsla í dagbókina verður um skápinn og gersemar hans!

Það heimsótti okkur drekafluga einn daginn í ágúst. Við krakkarnir vorum í eldhúsinu og skildum ekkert í því þegar við heyrðum þyrluhljóð úr stofunni! Í ljós kom sem sagt að drekafluga hafði villst inn úr garðinum og var illa áttuð í þessu nýja umhverfi. Sennilega sést ekki nógu vel á myndinni hvað hún var stór en vá, þetta var bara eins og að vera með litla fjarstýrða flugvél í stofunni!

Svo fórum við til Danmerkur og á meðan byrjaði skólinn hjá stóru krökkunum. Það var því engin miskunn, daginn eftir heimkomu þurfti að vakna um sjöleytið og hella sér út í haustrútínuna og hversdagsleikann. Ég held að ég eigi einhvern veginn svona mynd frá fyrsta skóladegi síðustu ára - alla vega vona ég það!

        

Og þetta var stór dagur í lífi Baldurs Tuma Einarssonar sem hélt á leikskólann í fyrsta skipti í fylgd lítils rauðs bíls (og mömmu auðvitað!).

Á fjórða degi í aðlögun fékk Baldur Tumi fyrstu leikskólapestina! Sem betur fer var hann fljótur að jafna sig og þetta setti lítið strik í aðlögunarferlið. Leikskólastráknum líkar þetta nýja líf bara nokkuð vel. Hann fór að skæla þrjá morgna eftir að ég byrjaði að skilja hann eftir og var pínulítið leiður þann fjórða en síðan hefur allt gengið vonum framar. Að vísu hefur hann lítið viljað borða, tínir bara í sig grænmetið og borðar hrökkbrauð og svo vill hann heldur standa á haus eða fara í kollhnís í hvíldinni en að sofa! Við leikskólakennararnir vonum að þetta komi allt saman með haustinu!

Fyrst Baldur Tumi var veikur heima og frásagnarfræðin varð að sitja hjá fannst okkur mæðginum tilvalið að baka köku. Hér er sítrónukaka með valmúafræjum á la Leila.

Við höfum aldrei fengið eins rosalega plómuuppskeru og í ár. Eins og vanalega er erfitt að taka myndir svo þetta sjáist en ef þið rýnið á skjáinn ættuð þið að sjá ótal litlar fjólubláar plómur hanga á greinunum.

Kannski sést það betur hér?

  

Við Einar höfum verið að skipta um grindverk hjá okkur í ágúst. Það gamla var ekki bara að hruni komið, það var hrunið! Við keyptum ódýrt og imbalegt grindverk í Bauhaus sem þó reyndist þrautinni þyngra að setja upp svo vel væri. Alla vega ef maður er nákvæmur og vandvirkur eins og við Einar erum held ég bæði. Baldur Tumi nýtt tímann meðan mamma og pabbi negldu og skrúfuðu og svæfði voffa í vagninum. Ég efast samt um að það hafi verið mjög afslappandi fyrir voffa að hann láti vagninn prjóna svona!

Einar með járnkarlinn að koma staurunum niður í beina línu. Ég held að það hafi verið ansi fáir staurar, ef einhverjir, sem ekki voru teknir upp aftur tvisvar eða þrisvar í þessu ferli!

Hluti af haustuppskerunni. Plómurnar okkar eru alveg ótrúlega ljúffengar svona beint af trénu en því miður finnst mér koma svolítið beiskt bragð af þeim ef maður eldar þær, setur í bakstur eða býr til sultu. Einar gerði reyndar nokkuð vel heppnaða tyrkneska plómusósu úr hluta af uppskerunni en restina tróðum við bara í okkur án nokkurra fyrirhafnar, maður þarf varla að skola þær einu sinni því þetta er jú eins lífrænt ræktað og hugsast getur!