Síðasta baðferðin

Ég var alveg ótrúlega löt að taka myndir í sumafríinu, fyrir utan náttúrulega í ferðinni til Skanör og svo í þessari stuttu ferð okkar til Fjällnora þar sem við böðuðum í síðasta skiptið þetta sumarið.

Litla stöðuvatnið í greniskóginum var ekki alveg eins heillandi svona eftir alla dagana á hvítu sandströndinni á Skáni - en auðvitað er það samt voða krúttlegt!

María skellti sér alla vega á bólakaf en komst að því, sér og okkur hinum til mikillar undrunar, að vatnið var muuun kaldara en sjórinn sem við höfðum baðað í tveimur vikum áður! Hún var því fljótlega komin upp úr og í bolinn aftur - og lætur hún þó ekki að sér hæða þegar böð í köldu vatni eru annars vegar!

Baldur Tumi fann sér fljótlega stóra steina að príla á!

         

En þurfti aðstoð pabba svo hann dytti ekki út í!

Hopp!

Hér er hann eins og selur á klöpp í sólskininu!

         

Krúsídúlla!!! (Með súkkulaðikex út á kinnar!)

Stóru börnin nutu síðustu frídaganna áður en skólinn byrjaði. Nú eru þau komin í 4. og 6. bekk (sem er sama og 5. og 7. á Íslandi). Ótrúlegt hvað tíminn líður! Hugi var bara einu ári eldri en Baldur Tumi er núna þegar við fluttum hingað!

Dásamleg mynd af Huga mínum sæta og góða.

Á leiðinni aftur í bílinn kíktum við dálítið á dýrin sem búa í Fjällnora.

Hænsnin vöktu sérstaka athygli Baldurs Tuma sem langaði að kíkja nánar á þau.

Hann elti hanann ægilega spenntur (ó hvað mér finnst þetta skondin mynd!) ...

... en sá var ekki ánægður með eltihrellinn og sneri sér leiftursnöggt við og goggaði í áttina að Baldri Tuma sem brá heldur betur í brún.

  

Þá var nú skárra að skoða geiturnar og grísina sem voru í öruggri fjarlægð og bak við grindverk!

Geiturnar skoðuðu mannfólkið forvitnar á móti.

Feðgar í lok sumarfrís. Nú er haustið farið að rúlla af stað með öllum sínum rútínum (og fótboltamótum og mygluðum handklæðum og því öllu) og við komum endurnærð til leiks eftir gott frí!