Sex ára afmælisstrákur

Ofur-Hugi Einarsson varð hvorki meira né minna en sex ára þann 7. janúar 2008. Þetta þykir öllum heimilismeðlimum ótrúlegt, nema þá helst hetjunni sjálfri sem lengi hefur vitað að hann væri orðinn stór!

         

Það var þreyttur afmælisstrákur og þreytt afmælissystir sem settust við borðstofuborðið að morgni 7. janúar. Þurfti að eyða góðum tíma í að geispa, teygja sig og nudda stírur úr augum! Hið hefðbundna afmæliskakó var óvenjusnemma á ferðinni þennan dag þar sem Einar er að vinna svo langt í burtu og þarf að leggja snemma af stað. Það er algjör óheppni að 3/4 afmælisdaga innan fjölskyldunnar munu hitta á þetta Enköping-tímabil hans!

Þegar heita kakóið og kaffið var komið í bollana mátti fara að huga að afmælisgjöfunum. Hvað skyldi vera í þessum?!

Jú, amma Imba (eða amma Spól eins og hún kýs að kalla sig!) gaf Huga hvorki meira né minna en sex Tinnaspólur. Eins og gefur að skilja vakti þessi gjöf mikla lukku!

Næst var komið að pakka frá Maríu stóru systur sem búin var að hafa mikið fyrir því að föndra gjöf, pakka inn, skreyta umúðapappírinn með bréfum utan af konfektmolum ...

... og útbúa þetta fína Pirates of the Caribbean kort! Ég vildi óska að þið gætuð heyrt Huga segja Pirates of the Caribbean, það er svo ógeðslega krúttlegt! Hljómar einhvern veginn eins og Pás Karibín en alveg með tilheyrandi útlenskum hreim og allt!

Upp úr pakkanum frá Maríu kom svo þessi fína heimagerða litabók með myndum af ýmsum farartækjum!

Innsta opnan hefur að geyma sett af heimatilbúnum límmiðum í stíl við þemað!

Að lokum var komið að stóra græna pakkanum frá mömmu og pabba!

Pabbi las á kortið.

Spenntur og mjög sætur afmælisstrákur!

Hvað er þetta eiginlega?!

Tússtafla og litir!!!

En engin venjuleg tússtafla samt því það er hægt að kveikja ljós inni í henni og litirnir eru sjálflýsandi! Hér er fyrsta myndin í sköpun!

Það kemur auðvitða ekkert annað til greina en að teikna eins og eina góða StarWars mynd á svona flotta töflu! Annar geimkallanna er með svo langar hendur að hann getur teygt sig upp í geimflaugina!

Stóra systirin fylgist spennt með öllu saman og sötrar kakóið sitt!

Hádegisverðurinn var snæddur á náttfötunum! Boðið var upp á hinar sívinsælu mexíkönsku kökur sem Maríu þykja svo góðar að hún er löngu búin að ákveða að hafa þær í kvöldverð á afmælisdaginn sinn. Ykkur er kannski farið að þyrsta í uppskriftina að þessum vinsæla rétti en hún er nokkurn veginn svona: Takið tvær mexíkanskar hveitikökur og smyrjið aðra þeirra með tómatsósu. Rífið ost yfir og leggið svo að lokum hina kökuna ofan á svo samloka myndist. Setjið í ofn þar til osturinn er bráðinn! Fyrir fullorðna mæli ég reyndar með að maður skipti tómatsósunni út fyrir bragðmikið tómatsalsa! Ég veit ekki hvað ég er að barma mér yfir að kunna ekkert að elda þegar ég get sjálf hannað svona stórkostlega rétti?!!

Eftirmiðdagskaffið var líka snætt á náttfötunum!!! Á boðstólum var súkkulaðikakan góða, A Little Trip to Heaven, að ósk afmælisbarnsins.

Hátíðarkvöldverðurinn var sem betur fer snæddur í hefðbundnum fatnaði! Hugi óskaði sér Silfurpasta í matinn og ekki nóg með það heldur eldaði hann það mestmegnis sjálfur með örlítilli aðstoð frá pabba sínum! Já, það er munur að vera orðinn sex ára!!!