Septembersumar

Síðustu vikuna í september var dásamlegt veður hjá okkur. Við reyndum að nýta okkur það til hins ítrasta ... enda fá allir sannir Íslendingar illt í magann af tilhugsuninni um að vera inni í góðu veðri! Föstudaginn 29. september voru María og Hugi í fríi frá skóla og leikskóla og þá skunduðum við í  Stadsträdgården til að njóta sólar og hlýju.

  

Systkinin hafa alltaf jafngaman af að príla og hanga í þessari klifurgrind.

Það voru enn blómstrandi rósir í garðinum, mér til sérstakrar ánægju! Reyndar náði ég ekki að taka eins margar myndir af þeim og ég hefði viljað þar sem það komu akkúrat tveir rónar að þegar ég var að taka þessa mynd og ég þorði ekki annað en að forða mér með börnin!!!

Trén voru aðeins farin að bera svip af haustinu. Þetta tré var samt svo fyndið því það var bara komið í haustbúning á annarri hliðinni!

Hugi og María undir eplatrjánum.

Ég settist niður í garðinum og skrifaði nokkur kort (þau ykkar sem fengu kort frá mér í byrjun október sjáið sem sagt hér í hvaða umhverfi þau voru skrifuð!). Á meðan ég dundaði við það voru María og Hugi í feluleik innan um trén og skemmtu sér hið besta. Hér kemur María hlaupandi til baka eftir að hafa fundið Huga sem var reyndar ekki erfitt verk þar sem hann kíkir alltaf fram úr öllum felustöðum til að sjá hvað María er að gera!

Dramakast!!! Ég man reyndar ekki lengur yfir hverju svekkelsið var!

Lítil börn og stór tré!

Fyrisån rennur langsum meðfram garðinum og gefur honum alveg sérstaklega fallegan svip. Á svona yndislegum síðsumardögum speglast bátarnir svo fallega í vatninu.

Hér kemur lítil dugga siglandi inn eftir ánni ... kannski komin alla leiðina frá Stokkhólmi?!

Systkinin sátu á bekk og fylgdust með bátunum ...

... og María notaði tækifæri til að knúsa bróður sinn! Eru þau ekki sæt?!

Eftir allan feluleikinn og friðsældina við ána brugðum við okkur á leikvöllinn í garðinum. Hugi rólaði hátt ...

... en María settist niður og skrifaði kort til ömmu sinnar.

Þessar trjágreinar slúttu yfir bekkinn þar sem við María sátum og skrifuðum kort. En tréð var ekki eins meinlaust og það lítur út fyrir að vera því við og við dúndruðust niður úr því grjótaharðar hnetur sem skoppuðu á borðinu rétt fyrir framan nefið á okkur. Við töldum okkur nokkuð heppnar að hafa enga fengið í hausinn áður en við flúðum.

Einar slóst í för með okkur eftir vinnu og svona í tilefni af því hvað veðrið var gott og við vorum í góðu skapi ákváðum við að fara út að borða. Við fórum aftur á gríska staðinn niðri við ána sem við fórum með mömmu á í ágúst ... ég gat ekki hætt að hugsa um tzatziki-ið þar!!! Feðginin voru alsæl að sitja úti þótt það hafi reynst nauðsynlegt að vera með flísteppin yfir herðunum!

Og við mæðginin vorum líka kát og glöð eftir þennan ótrúlega góða dag!