Septemberdagbók

                                                                                                     2012

                   

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

Þriðjudagurinn 11. september 2012

Ég er í smá stressi hérna ...

að reyna að setja inn sumarmyndirnar okkar áður en pósturinn kemur og sækir tölvuna mína til að flytja hana í viðgerð. Jebb, það er önnur viðgerðin á einu ári - því fyrsta í lífi tölvunnar. Hrmpf! Ég sit því hér á náttfötunum með magapíndan Baldur Tuma að skottast í kringum mig og læt fingurna fljúga yfir lyklaborðið í von um að koma öllu inn í tæka tíð.

Skanör

Síðasta baðferðin

Þegar tölvan kemur aftur úr viðgerð þurfum við hins vegar að ræða um kommentakerfið sem hverfur 1. október og framtíð þessarar litlu síðu sem ég er svona pínulítið að gefast upp á að halda gangandi með öllum sínum tæknilegu örðugleikum. Ef ég hins vegar skyldi ekki ná hingað inn fyrir 1. október vil ég bara segja eitt. Dagana áður og eftir að Baldur Tumi fæddist þá bjargaði þetta kommentakerfi sem hverfur brátt lífi mínu. Ég skrifaði í færslunni þar sem ég tilkynnti fæðingu hans að kveðjurnar frá ykkur hafi og muni áfram veita okkur styrk og gleði og það var svo sannarlega sannleikanum samkvæmt. Ég fer enn reglulega inn á þessa síðu og les þær yfir, finn ylinn í hjartanu og fæ tár í augun. Ég er svo óendanlega döpur yfir að þetta gufi allt upp á næstu vikum og vildi alla vega segja einu sinni enn: Takk! Takk fyrir þessi komment og öll hin sem þið hafið skilið eftir hér í næstum því áratug! Án ykkar væri þetta ekkert gaman!

 

Forsíða     Um okkur     Mín síða     Myndirnar okkar     Hafðu samband     Gestabókin okkar