Septemberdagbók

                                                                                                     2011

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

Fimmtudagurinn 29. september

Fjársjóður

Þegar María og Hugi voru lítil tók ég stundum stutt vídeóbrot af þeim. Yfirleitt þóttu mér þetta algjörlega misheppnuð vídeó. Þau höfðu kannski verið að gera eitthvað extra krúttlegt en auðvitað hætt um leið og ég var búin að ná í myndavélina og stilla hana rétt. Ég tímdi samt aldrei að henda þessum misheppnuðu vídeóum, safnaði þeim saman í eina möppu en kíkti afar sjaldan á þau. En núna er ég svo fegin að eiga þau! Og get að sjálfsögðu ekki séð neitt misheppnað við þau, finnst þau þvert á móti alveg fullkomin og það ganga kraftaverki næst að ég geti eitt augnablik horfið aftur í tímann og rifjað upp hvað þau voru lítil og sæt og frábær. Þetta eru dýrgripir sem ég nýt þess að taka stundum upp úr fjársjóðskistunni, handleika, jafnvel fella eitt og eitt tár af söknuði, gleði og stolti. Og þótt ég viti að þið hin séuð kannski ekki beint að fara að skæla yfir því hvað María og Hugi voru mikil krútt datt mér í hug að þið hefðuð samt svolítið gaman af að rifja þetta tímabil upp og sjá hvað þau hafa stækkað mikið. Hér kemur því uppáhaldsmyndband okkar heimlismanna, tekið haustið 2004 þegar María er fögurra og hálfs árs og Hugi tveggja og hálfs. (Bara rétt til útskýringar: María er ítrekað að stinga upp á því við Huga hvort hitt og þetta séu „brækur“. Málið er að Hugi vissi ekkert hvað „brækur“ voru en notaði orðið gjarna þegar honum datt ekkert annað í hug!)

Æ, þau eru svo dásamleg! María alveg að lifa sig inn í stóru systur hlutverkið, með vísifingurinn á lofti og hvað eina! Við erum búin að hlæja endalaust að þessu með svínið! Og Hugi, hvað getur maður sagt, hann er náttúrulega bara svo mikil rúsína að það nær ekki nokkurri átt! Æ, nú er ég farin að þurrka tárin hérna!

 

Sunnudagurinn 18. september 2011

Góðar fréttir og slæmar fréttir

Vill maður ekki alltaf byrja á slæmu fréttunum? Nú er nýja tölvan mín komin og þótt ég sé enn að nota þá gömlu meðfram (meðal annars til heimasíðugerðar) erum við að vinna af krafti í því að setja þá nýju upp. Ég hafði lengið vitað af því að síðan mín liti ekki alveg rétt út í öllum vöfrum en ákveðið að láta eins og ekkert væri meðan hún væri fín á mínum eigin tölvuskjá. En með nýju tölvunni fylgdi nýr vafri og ég neyddist til að horfast í augu við vandann. Rósa Munda kom mér enn og aftur til hjálpar og ég vona að frá og með þessari uppfærslu sé ég laus við hoppandi hlekki á forsíðunni. Ég komst hins vegar líka að því að það birtast ekki réttar leturgerðir í fyrirsögnum og undirfyrisögnum í öllum vöfrum. Ég veit ekki alveg hvort og hvenær ég get lagað það en þið sem sjáið bara eitthvað hlunkalegt Times New Roman verðið bara að trúa því að þetta á að vera miklu fínna! Enn verra er þó að ég finn ekki diskinn með vefsíðugerðarforritinu og það er svo gamalt og úrelt að það er hvergi hægt að fá það! Ég veit enn síður hvernig ég leysi það og þar með ekki alveg hvað verður um litlu síðuna mína á næstunni. Ég er töluvert örvæntingarfyllri yfir þessu en ég læt það hljóma!

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ég er búin að sitja sveitt yfir myndaalbúmunum og er búin að setja inn svo að segja allar myndir sem biðu birtingar:

Pínulitla júlíalbúmið

Danmerkurferð

Síðsumar í Vänge

Þið krossleggið svo fingurna með mér að þessi tölvumál reddist, er það ekki?

 

Forsíða     Um okkur     Mín síða     Myndirnar okkar     Hafðu samband     Gestabókin okkar