Septemberdagbók 2008

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. september 2008

Í dag er ég glöð yfir

* Kaffi
* Svölum haustmorgnum þar sem næturfrostið hefur hrímað haustlituð trén.
* Núðlusúpum með þurrkuðu chili muldu út í.
* Eldiviði
* Öllum fallegu efnunum og sauma-, prjóna- og heklubókum sem til eru í heiminum.
* Orkideunum í eldhúsglugganum sem eru að koma með nýja blómstöngla.
* Að fá börnin mín heim í hádeginu í dag og geta eytt deginum með þeim.
* Október.
* Haustlaukum, humri, gjafmildu fólki sem langar að gleðja og öðru sem lesa má um í nýjasta myndaalbúminu:

Haustverk og heimsókn

Yfir hverju eruð þið glöð svona mitt í kreppunni?

 

18. september 2008

Fréttaskeyti frá Vänge

* Eins og þið sjáið væntanlega er síðan komin í léttan haustbúning. Ég er sérstaklega ánægð með forsíðumyndirnar af okkur - kíkið endilega á þær ef þið hafið komið bakdyramegin inn.

* Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort ég sé búin að vera bissí. Það hef ég hins vegar ekki verið - ekki nema þið kallið það að skoða skó á netinu og lesa Stieg Larsson undir teppi fyrir framan arininn að vera bissí. Ég hef hins vegar verið afar þreytt á þessari síðu og haft lítinn áhuga á að uppfæra hana. Fyrir nokkrum dögum var ég næstum alveg búin að ákveða að leggja hana niður en einmitt þá skilaði litli verktakinn inn nýju forsíðumyndunum og þá fannst mér síðan aftur pínu skemmtileg! Svo ég verð hér áfram - um sinn.

* Hugi Einarsson er búinn að læra að lesa og skrifa! Við höfum reglulega gert tilraun til að kenna honum stafina en hann hefur fullkomlega skort áhuga og einbeitingu til að ná nokkrum árangri. Ég hafði því fagnað í hljóði að hér í Svíþjóð hæfist lestrarkennsla ekki fyrr en í sjö ára bekk þó ég þættist viss um að það væri ekki annað en gálgafrestur í okkar tilviki. En um daginn þegar ég sótti piltinn í skólann dró hann mig spenntur að hólfinu sínu og fiskaði upp úr skúffunni blað. Hann benti á eitt horn blaðsins þar sem stóð skýrum stöfum HKAL og spurði mig eftirvæntingarfullur hvað stæði þarna. Ég trúði varla mínum eigin augum. Ég þóttist strax sjá hvað hann hefði ætlað að skrifa en spurði hann til öryggis hvort hann hefði ætlað að skrifa eitthvað sérstakt. „Ég ætlaði sko að skrifa hákarl“ svaraði hann þá, dálítið óöruggur. Og auðvitað var augljóst að það var einmitt það sem stóð á þessu merkilega blaði! Ég sem hélt að hann kynni ekki einu sinni stafina!
Skömmu síðar ákváðum við að kanna hvort hann kynni kannski líka allt í einu að lesa og það var eins og við manninn mælt hann þuldi upp úr lestrarbókinni „Mamma á mál. Mamma á lím. Mamma á síma.“. Eitthvað virðist stíll lestrarbókarinnar svo hafa smitast yfir í hans eigin skáldskap því í gær kom hann heim með blað sem hann hafði skrifað á alveg sjálfur: „Mamma á fá sér ís. Mamma á fá sér egg. Ís eme súgulasósu. Mamma á ís“! Stolt? Ég held nú það!

* Fyrir tveimur árum byrjaði María í Vänge skola. Þar þekkti hún engan og skildi ekki einu sinni tungumálið sem allir hinir töluðu. Hún var oft ein þennan fyrsta vetur. Ein að leika í frímínútum, ein að litla og teikna á frístundaheimilinu, ein að borða pönnukökur með sultu í matsalnum. Hún var reyndar ótrúlega brött í þessu öllu saman en ég var oft með ansi krumpað hjarta.
Í byrjun þessa skólaárs átti bekkurinn hennar Maríu að kjósa tvo fulltrúa úr bekknum í Kamratstödjet, hóp krakka sem eiga að styðja þá nemendur sem eru í hvers konar félagslegum vanda. Kennarinn lagði ríka áherslu á að þau kysu ekki bara besta vininn heldur veldu þann sem þau töldu að gæti best sinnt hlutverkinu, gengið á milli í deilum, huggað þá sem væru leiðir, sýnt skilning, veitt stuðning. Að leynilegri kosningu lokinni kom í ljós að flestir í 2A höfðu valið Maríu og Ask sem sína fulltrúa. Litla stelpan mín sem var einu sinni svo ein er nú ekki bara umkringd vinum heldur hafa þeir kjörið hana til að vera í forsvari fyrir hópinn. Stolt? Ég held nú það!

* Einar er orðinn sérfræðingur í heimilislækningum og á meira að segja uppáskrifað plagg um það frá tveimur löndum! Það er að vísu dálítið langt síðan þessum áfanga var náð en mig minnir að ég hafi aldrei verið búin að tilkynna þetta formlega hér. Stolt? Ég held nú það!

* Ég ligg svolítið á eftir með myndaalbúmin en hér koma síðustu ágústmyndirnar:

Nú haustar að

Ég læt þetta duga í bili, ég er svo hrikalega bissí við að lesa blaðsíðu 282 í Flickan som lekte med elden og dást að 35 þúsund króna Chie Mihara stígvélum á netinu!

 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar