Septemberdagbók 2007

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

29. september 2007

Blessað barnalán

Ég hef stundum velt því fyrir mér að setja á laggirnar sérstaka undirsíðu til þess að segja fréttir og sögur af Maríu og Huga enda hafa sjálfsagt margir af föstum lesendum hérna mun meiri áhuga á þeim en mér! Ég veit hins vegar að ef ég færi að bæta enn einni síðunni á mína könnu myndi ég endanlega fara yfir um og neyðast til að leggja upp laupana í heimasíðugerð. Í staðinn verð ég bara að fá að setja sögur af þeim hingað inn svona af og til, ekki síst til að muna þær sjálf seinna meir.

Hugi - Fyrir Huga var Babelsturninn að falla bara núna rétt í þessu. Það er eins og hann hafi allt í einu, eftir árslanga búsetu í nýju landi, fattað þetta með ólík tungumál og þjóðerni. Núna er hann uppfullur af vangaveltum um þessi mál, misgáfulegum þó:

Hugi (spekingslega): Pabbi, í Tælandi ... er ekki töluð norska þar?

_______________

María - Okkur þykir hin litræna sýn Maríu á tilveruna alltaf jafnfyndin! Um daginn átti að vera skemmtidagskrá hér úti í Ekeby by og þar átti meðal annars að sýna leikrit sem bekkjarbróðir Maríu lék í. Maríu langaði þessi ósköp að sjá leikritið en vandinn var að það var hvergi að finna tímasetta dagskrá yfir viðburðina og því vonlaust fyrir okkur foreldrana að átta okkur á því hvort sýningin átti að fara fram klukkan 10 eða 16. María reyndi aðstoða:

María (æðislega hjálpfús): Sko mig minnir að það hafi átt að vera klukkan hálftvö ... það var alla vega klukkan eitthvað svona ljósgult!

_______________

Hugi - Annað sem Hugi hefur mikinn áhuga á þessa dagana er að spyrja aðra fjölskyldumeðlimi spurninga sem hann veit sjálfur svarið við. Yfirleitt er það honum ekkert sérstakt kappsmál að reka okkur á gat heldur virðist aðalmarkmiðið að hann geti dæmt svör okkar rétt eða röng og upplifi þannig þessa „já-en-ég-vissi-það-fyrst-tilfinningu“! Hann er þó svoddan kjánaprik að spurningarnar verða á köflum ansi skondnar:

Hugi (með æðislegri viltu-vinna-milljón-rödd og lymskufullu glotti): María, hvort heldur þú að þú sért strákur ... eða stelpa?

María (hneyksluð): Stelpa auðvitað!

Hugi (sigrihrósandi): Rétt!!!

_______________

María - Myndræn hugsun Maríu nær ekki bara yfir liti. Stundum lýsir hún hlutunum svo skemmtilega að orðatiltækin fá umsvifalaust fastan sess í orðræðu fjölskyldumeðlima. Um daginn þegar við vorum úti að borða með Svanhildi kjaftaðist til dæmis upp að einn bekkjarbróðir hennar væri skotinn í henni:

Ég: Og hvað, sagði hann þér bara svona hreint út að hann væri skotinn í þér?

María: Já, svona eiginlega. En sko þótt hann hefði ekki sagt það þá hefði ég samt alveg vitað það!

Ég: Nú, hvernig þá?

María: Sko einu sinni þegar við vorum á fritids þá var hann alveg bara á eftir mér ... bara alveg eins og sprengja!!!

_______________

Hér eru annars nokkrar myndir af þessum krúttum:

Haust á Konsulentvägen enn á ný

Ég verð annars að hætta núna, Einar er hérna á eftir mér alveg eins og sprengja! Iiii djók!!!

 

19. september 2007

Fyrir ömmuna sem telur dagana ...

 

 

17. september 2007

Köngulóarkonan

Mér finnst ég stundum dálítið ein í heiminum á daginn. Meðan ég sit ein á Konsulentvägen og les í bókum eða skrifa ritgerðir þeysir Einar um ganga Akademiska sjukhuset, ræðir við dr. Alvarez eða skemmtir sér yfir framburði samstarfsmanns síns Mustafa. María aðstoðar Madicken vinkonu sína við að skrifa ástarbréf eða spilar lúdó með krökkum og kennurum í Vängeskola og Hugi stundar pöddurannsóknar á Hemmingsförskola milli þess sem hann hjólar hlæjandi hring eftir hring með Liam og Olle. En ég, ég sit bara hér ein í svefnbænum allan liðlangan daginn og hitti ekki sálu. Það er kannski þess vegna sem ég hef þróað með mér djúpa vináttu við könguló sem býr í vef utan á svefnherbergisglugganum sem ég sit við alla daga. Einmitt þegar ég rekst á eitthvað bitastætt í greininni sem ég er að lesa sé ég út undan mér hvar hún skýst háfætt yfir vefinn sinn í áttina að girnilegri flugu og þegar ég er löt og nenni ekki að gera neitt af viti sé ég að hún kúrir sig bak við gluggapóstinn og sinnir því ekki einu sinni þótt einhver hlussan festist í netinu hennar. Stundum rek ég nefið alveg upp að rúðunni til að fylgjast nákvæmlega með atferli þessarar stórvinkonu minnar en nærvera mín virðist valda henni sviðsskrekk þar sem henni fipast þá gjarnan með flugurnar, missir þær úr örmum sér og snýr snúðug aftur upp í hornið sitt en gætir þess að senda mér eitrað augnaráð á leiðinni. En jafnvel þegar við erum ósáttar þykir mér ósköp gott að vita af henni hérna hinum megin við rúðuna.

Sem betur fer er ég nú ekki allaf ein í heiminum á daginn því ég á nefnilega nokkrar enn betri vinkonur en köngulóna sem eru duglegar að heimsækja mig frá Íslandi. Nú síðast dvaldi Svanhildur mín hjá okkur í fimm dásamlega daga og myndir frá þeim eru hér:

Vinkonudagar

P.s. Þótt ég bæti yfirleitt bara inn nýjum tenglum á árstíðaskiptum brýt ég regluna núna og bendi ykkur á hana Laulau sem með stöðugt nýjum og skemmtilegum innleggjum í kommentakerfið mitt, stuðlar að því að ég held mig enn innan skynsemismarka í samlífi mínu með köngulóm. Ef hennar (og nokkurra annarra) nyti ekki við væri ég sjálfsagt löngu farin að spinna vef hérna undir hjónarúminu úr afgangs garni!

 

9. september 2007

Hefðbundin hauststörf

Um svipað leyti og bændurnir í kringum Vänge eru í óðaönn við að þreskja korn á ökrum og binda hálm í bagga situr húsmóðirin á Konsulentvägen dögum saman reytt við tölvuna, föndrar bakgrunna úr haustlaufum og akörnum og neyðir aðra fjölskyldumeðlimi í fosíðumyndatökuna óvinsælu. Afraksturinn er, eins og ævinlega, haustútlit á síðunni okkar.

Hefðbundum útlitsbreytingum fylgir líka endurskoðun á tenglalistanum og í þetta sinn hefur einum nýjum hlekk verið bætt við. Linda er fyrrum Herranætursystir mín sem flutti til Stokkhólms með manni og tveimur börnum á nákvæmlega sama tíma og við fluttum hingað til Uppsala. Þessi litla fjölskylda býr í Vasastan eins og Kalli á þakinu og allt hitt fræga fólkið og málar bæinn rauðan með ævintýralega fallegu hári!

Hér eru annars laufin farin að gulna og roðna og úti í bílskúr bíða þrír pallar af ilmandi birki sem verður byrjað að brenna í kamínunni um leið og hitastigið dettur niður fyrir 10°. Ég elska haustið.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar