Septemberdagbók  2006     

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

27. september 2006

Fréttir og veður, auglýsingar og dagskrá

Mér finnst ég einhvern veginn alltaf skulda ykkur, lesendum síðunnar, greinargott yfirlit yfir stöðu okkar hérna í Svíþjóð. Það er kannski ekki beint það að ég geri ráð fyrir að þið bíðið í ofvæni eftir slíku heldur frekar að mér þykir, verandi svona nákvæm eins og ég stundum er, dálítið óþægilegt að ætla að fara að skrifa hér um hversdagslega smáviðburði ef ég er ekki búin að leggja grundvöllinn fyrst! Þannig að:

Uppsalir eru frábær borg! Mér leist reyndar ekkert allt of vel á mig hérna fyrst eftir að við komum og fannst staðurinn eitthvað svo sviplaus. En í lok ágúst streymdu stúdentarnir að og allt í einu lifnaði yfir borginni svo um munaði. Hér þeysa ungmennin um á hjólum, lesa glósur í strætó og á kaffihúsum, kyssast undir kastaníutrjánum og bera með sér svo óendanlega orku! Inn á milli hjóla rosknir prófessorar með skjalatöskurnar á bögglaberunum og höfuðin full af speki. Ég er alltaf að finna fleiri skemmtilega staði í borginni, sætar götur, fallega garða, skemmtilegar búðir og góð kaffihús og hlakka mikið til að halda áfram að kanna nýju borgina mína. Ekki spillir fyrir að hafa Stokkhólm í næsta nágrenni enda án efa ein af skemmtilegustu borgum heims!

Húsið okkar er ótrúlega notalegt. Hér er í raun og veru ekkert mikið meira pláss en á Bárugötunni en börnin fá þó sérherbergi og húsmóðirin fær þvottahús! Okkur hefur gengið vel að koma okkur fyrir á neðri hæðinni en þar er eldhús, stofa og gestaherbergi, ásamt rúmgóðu holi, gestabaðherbergi og þvottahúsi. Á efri hæðinni eru svefnherbergin okkar, lítið hol með vinnuhorni, baðherbergi og fataherbergi. Uppi er enn allt í rúst og allt útvaðandi í veggfóðri. Við stefnum að því að hefjast handa við að útrýma því og koma okkur vel fyrir á efri hæðinni sem allra fyrst ... höfum reyndar stefnt að því í ansi langan tíma! Garðurinn er auðvitað algjör dásemd og mér finnst hann sá fínasti í öllu hverfinu. Hverfið er í raun og veru lítið þorp sem heitir Vänge og er í um það bil 15-20 mínútna akstursfjarlægð frá miðbæ Uppsala. Við þurfum samt að keyra í gegnum sveit ef við ætlum niður í bæ en það er ekkert verra því okkur þykir bara gaman að fylgjast með hveitiökrunum og kusunum í Kristineberg. Hér í Vänge ríkir gífurleg úthverfastemmning, allir eru giftir með 2,5 börn og hund og húsmæðurnar telja sig hafa fundið einfalda leið til að klæðast á bæði þægilegan og smekklegan hátt (þær hafa svoooo rangt fyrir sér!). Meðalmennskustemmningin hér truflar mig þó lítið og það má jafnvel segja að ég hafi lúmskt gaman af því að spranga um í stjörnupilsum og gullskóm innan um allar þessar renndu prjónapeysur og dúnvesti!

Einar er auðvitað löngu byrjaður að vinna og kominn í fullt prógramm á heilsugæslustöðinni. Hann lætur vel af sér og hefur sem betur fer (eða kannski því miður!) ekki lent í mörgum asnalegum uppákomum hvað tungumálið varðar enda talaði hann sæmilega sænsku áður en við komum. Hann verður í ár á heilsugæslunni og svo taka við 3 mánuðir á öldrunardeild Akademiska Sjukhuset en eftir það er allt óráðið. En ævintýri Einars eru langt því frá upptalin því um daginn hlotnaðist honum sá heiður að lenda í úrtaki manna sem boðið er að prófa glæný herranærföt sem er verið að þróa ... ég dó úr hlátri! Við bíðum spennt eftir að fá frekari fregnir af þessu áhugaverða rannsóknarverkefni!

María er núna búin að vera rúmar fimm vikur í skólanum. Hún er farin að segja stöku setningar á sænsku, skilur ótrúlega mikið og er alltaf að bæta við orðaforðann. Henni gengur þúsundfalt betur með tungumálið en okkur óraði fyrir og við erum óneitanlega gífurlega stolt af stelpunni okkar! Við foreldrarnir vorum alveg að farast úr stressi fyrsta skóladaginn ekki síst þegar kom að því að skilja hana eina eftir. Þegar ég kvaddi hana, sjálf með kökkinn í hálsinum hvíslaði hún að mér: Ég veit að þetta á eftir að ganga vel mamma! Og hún hafði rétt fyrir sér, þetta hefur svo sannarlega gengið vel og hún kveður mig kát og glöð á hverjum morgni. Maríu finnst gaman í skólanum en við mæðgurnar erum sammála um að þar mætti vera aðeins meira af lærdómi og minna af leik og hangsi! Hér telst sex ára bekkur reyndar enn forskóli svo þar er skýringuna kannski að finna.

Hugi er búinn að vera í leikskólanum sínum í rúmar þrjár vikur. Hann fékk ekki pláss á leikskólanum hérna í Vänge en við fengum pláss á Hemmingsförskolan sem er inni í Uppsölum sjálfum. Þangað er dálítill spotti en það gerir þó ekkert til þar sem við erum viss um að þetta sé heimsins notalegasti leikskóli með albesta starfsfólkinu. Aðlögunin gekk vonum framar og ég hef aldrei kvatt drenginn öðruvísi en með sólskinsbros á vör. Það gengur hægt með sænskuna en hann hefur þó lært nokkur lykilorð eins og cykla, klättra og glass (hjóla, klifra og ís)! Það skiptir þó ekki öllu því Hugi er ekki kominn á leikskólann til að tala! Ó, nei, hann er þangað kominn til að leika sér, ærslast og borða mat!!! Sem betur fer er nóg framboð af slíku á Hemming!

Ég er auðvitað sú eina sem ekki þarf að kljást við nýtt nám eða nýja vinnu. Ég stefni að því að komast til að vinna í mastersritgerðinni minni sem fyrst en í augnablikinu er hún nú enn á kassabotni úti í bílskúr! Ég er hins vegar ekki með neitt samviskubit yfir því enda hef ég haft nóg að gera. Bæði er ég nú að reyna að klára grein (úff, hvenær er ég ekki að reyna að klára grein?! Hafið það bara hugfast að yfirleitt eru þetta sömu greinarnar sem ég er kannski að endurvinna eftir yfirlestur ritstjóra eða eitthvað þannig. Það er ekki svona rífandi gangur í fræðimennskunni hjá mér!) og svo er auðvitað heilmikið verkefni að koma sér fyrir í nýju landi, í nýju samfélagi og á nýju heimili. Ég get alveg játað að mér hefur ekkert alltaf þótt þetta auðvelt þessa fyrstu tvo mánuði. En sem betur fer er ég langoftast bara spennt að takast á við verkefnin og finnst glíman bæði skemmtileg og þroskandi. Maður sér sjálfan sig í svo allt öðru ljósi þegar maður er búinn að fjarlægja bakgrunninn. Rétt eins og ef maður ætlaði að skoða eitt fallið haustlauf alveg ofsalega vel að þá væri erfitt að gera það þar sem það lægi innan um öll hin haustlaufin í sölnandi grasinu. En um leið og maður væri kominn með það inn, búinn að leggja það á autt og hvítt eldhúsborðið þá myndi æðakerfi laufsins blasa við, allar litabreytingar verða skýrari og útlínurnar skarpar.

Veðrið er búið að vera alveg frábært! Við náðum í restina af hitabylgjunni í sumar þegar við fluttum og haustið hefur hingað til verið dýrðin ein. Í gær var til dæmis 23° hiti og glampandi sól. Ég hlakka samt óskaplega til að fá alvöru haust, sjá öll þessi óteljandi laufblöð verða gul og rauð og appelsínugul og vaða í gegnum þau þegar þau eru fallin til jarðar. Hugsanlega hlakka ég samt meira til að fá veturinn og snjóinn og frostið. Þá ætla ég að kveikja upp í arninum (krákulausum!) og prjóna vettlinga og ullarsokka á fjölskylduna!

Ferðaskrifstofan Konsulentinn auglýsir ódýrar og skemmtilegar ferðir til Uppsala þar sem aðeins er greitt fyrir flugfar en gisting er frí. Dvalið er á hinu notalega gistiheimili á Konsulentvägen í herbergi sem er vel búið með svefnsófa sem tekur tvo en auk þess eru til afnota einstaklega þægilegir beddar ef gestir eru fleiri. Herbergið er búið góðum bókahillum, sjónvarpi (fullt af rásum!), videótæki og dvd- spilara. Gestir hafa sér baðherbergi og frjáls afnot af öllu því sem húsið, sólpallurinn og garðurinn hefur upp á að bjóða. Sérstakur kokkur er á gistiheimilinu sem framreiðir dýrindis krásir og einnig er á staðnum bakari sem hefur sérhæft sig í súkkulaðikökubakstri. Hægt er að velja úr fjölmörgum skoðunarferðum, m.a. til Stokkhólms, um sænska skerjagarðinn, um háskólahverfið í Uppsölum og þannig mætti lengi telja. Ferðir með Konsulentinum eru ákjósanlegar hvort sem fólk vill fara í verslunarferðir (sérfræðingur á staðnum!), afslöppunarferðir eða menningarreisur. Athugið einnig að ókeypis sætaferðir eru til og frá flugvelli. Nú þegar er tekið við pöntunum allt til jóla en vinsamlegast aðgætið að dagarnir 12. - 15. október eru uppbókaðir.

Næst á dagskrá eru fjölmargar myndir:

                     

                          September í Uppsölum                                      Skerjagarðsferð

Góða skemmtun!

 

15. september 2006

Það er eitthvað inni í strompnum!

-æsispennandi hryllingssaga í máli og myndum-

Nýju heimalandi fylgja margar nýjar upplifanir, aðstæður sem maður hefur aldrei áður verið í og vandamál sem maður kann ekkert að taka á. Einmitt þannig ástand skapaðist í gær hér á Konsulentvägen!

Þar sem ég sit í draslhrúgunni á efri hæðinni um hádegisbilið heyri ég undarleg hljóð, eins og einhver væri að skarka með verkfærum í járnflöt. Í fyrstu fannst mér eins og hávaðinn kæmi að utan og datt í hug að þarna hlyti Thomas, píparinn okkar með flöskubotnagleraugun loksins að vera kominn til að aftengja vatsslöngu sem sett var upp til að við gætum lánað nágrannanum vatn (löng saga!). Ég ákvað því að halda mig bara áfram uppi á lofti og þykjast ekki vera heima! (Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þetta eru með eindæmum óþroskuð viðbrögð en þegar maður glímir við tungumálaörðugleika í kringum smæstu athafnir, svo sem að kaupa mjólk út í búð eða panta latte á kaffihúsi, þá er maður ósköp feginn ef maður getur mögulega komist hjá því að endurtaka samtal um brunna, pumpur, vatnsslöngur, leka og krana (sbr. löngu söguna)). Eftir áreiðanlega klukkutíma feluleik á loftinu meðan skarkið glumdi í eyrunum var ég orðin verulega undrandi. Þótt það sé deginum ljósara að Thomas er gríðarlega nærsýnn þá bara gat ekki verið að það tæki hann svona langan tíma að aftengja eina slöngu. Ég ákvað því að taka á honum stóra mínum, opna út og heilsa upp á hann og kanna hvernig gengi. En fyrir utan var enginn Thomas og vatnsslangan á sínum stað! Dularfullu hljóðin höfðu hins vegar bara aukist ef eitthvað var og voru mun greinilegri á neðri hæðinni. Örstutt rannsóknarferð um húsið leiddi í ljós að hávaðinn barst frá arninum ... eða í raun og veru frá skorsteininum. Í fyrstu datt mér í hug að þetta væri sótarinn sem boðað hafði komu sína til okkar 21. september, bara örlítið of snemma á ferðinni ... nú eða jólasveinninn, dálítið ofsalega mikið of snemma á ferðinni! Báðar kenningar voru þó fljótlega slegnar út af borðinu enda engin ummerki um mannaferðir á þakinu! Smátt og smátt rann sannleikurinn upp fyrir mér. Eitthvað var fast inni í skorsteininum bara rétt ofan við arininn! Eitthvað stórt og sprelllifandi! Eitthvað sem klóraði og krafsaði af öllum lífs- og sálarkröftum! Næstu klukkutímum eyddi ég í geðshræringu ýmist á ráfi framan við arininn eða með hausinn hálfan inni í honum. Stundum barst tryllingslegt krafs og klór úr skorsteininum sem nísti merg og bein eða þá að þar ríkti átakanleg dauðaþögn sem virtist þó hvísla að mér: „Morð ... morð ... þú hefur drepið lifandi veru með aðgerðaleysi þínu!“ Þegar Einar loksins sneri grandvaralaus heim úr vinnunni var ég búin að fá Maríu í lið með mér og saman stikuðum við trylltar um framan við arininn með lífið í lúkunum!

Húsbóndinn gekk strax í málið, lýsti með vasaljósi upp arininn og hreyfði við lokum sem þar voru. Niðurstaða hans var afgerandi, eitthvað var þarna uppi, bæði lifandi og dautt! Við mæðgurnar vældum af skelfingu meðan Einar losaði allar lokur og plötur frá þar til þær duttu niður í arininn með brauki og bramli, grillaður smáfugl skoppaði út á mitt gólf ... og risastór, kolbikasvört kráka geystist út úr arninum!!!

Hugi hafði verið salírólegur inni í eldhúsi að fá sér eitthvað í gogginn þegar krákan þaut þangað inn með tilheyrandi vængjaþyt og látum ... henti um koll kryddjurtunum í glugganum og skapaði almennan usla. Drengurinn trylltist úr hræðslu og hljóp öskrandi inn í stofu þar sem við mæðgurnar öskruðum fyrir!

Upphófst nú æsilegur eltingaleikur um alla hæðina þar sem Einar elti krákuna og reyndi að opna dyr og glugga meðan krákan virtist vera að reyna að endurgera Hitchcock myndina Birds alveg ein og óstudd! Við hin þrjú öskruðum!

Að lokum flaug krákan inn í þvottahús og gerði sitt besta til að henda þar niður öllum blómavösunum okkar meða æðisgengnu flögri, krafsi og spóli! (Ég veit ekki hvers vegna hún lítur út fyrir að vera svona yfirveguð á þessari mynd ... hún var það ekki!!!)

Nokkrum andartökum síðar tókst Einari að teygja sig til að opna gluggann og krákan þeyttist út, frelsinu fegin! (Á myndinni sést glitta í annan vægbroddinn hennar ... og fullt af hreinum og óhreinum þvotti ... hehemm!)

Eftir að mesti skjálftinn var farinn úr heimilismönnum var arninum púslað saman aftur og grillaði smáfuglinn fékk viðeigandi útför undir sólberjarunnanum. Eftir situr húsmóðirin á Konsulentvägen með höfuðið fullt af spurningum: Eru krákur í strompum hversdagslegir viðburðir hér í Svíþjóð? Er til einhver viðtekin björgunaraðferð sem allir Svíar þekkja? Áttum við að hringja í sótarann? Meindýraeyðinn? Áttum við kannski bara að kveikja upp í arninum og fara út og fá okkur pizzu meðan verstu ósköpin gengju yfir? Eigum við kannski að hringja í Dagens Nyheter og láta hylla okkur sem hetjur? Og síðast en ekki síst: Hvernig nær maður sóti af hvítum veggjum?!?

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar