Septemberdagbók 2005  

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. september 2005

Með hjálm.

Mig óar stundum við því hvað ég get talað hræðilega mikið! Af og til leyfi ég mér að trúa því að flestir aðrir tali nákvæmlega jafnmikið og að ég hafi svo sannarlega ekkert að skammast mín fyrir. Af og til fæ ég áþreifanlegar sannanir fyrir að það sé aðeins sjálfsblekking af verstu gerð.

Um daginn sagði ég skólabróður mínum að ég hefði verið langt komin með að skrifa honum tölvupóst um tiltekið efni en hefði þótt bréfið orðið svo langt að ég hefði hætt við að senda það og ákveðið að ræða við hann í eigin persónu. Svar hans var á þessa leið: „Vá, fyrst þér fannst þetta langt bréf þá hlýtur það að hafa verið langt! Ég fæ ekki eins löng bréf frá neinum eins og þér!“ Fyrir kurteisissakir bætti hann því reyndar við að hann hefði gaman af þessum löngu bréfum mínum.

Klukkið er nýjasta sönnunin á málæði mínu. Meðan öðrum nægja u.þ.b. 10 línur í að tjá sig um nokkrar staðreyndir þarf ég alla vega fjórum sinnum það! Afleiðing af því er sennilega að staðreyndirnar eru nær því að vera fimmtíu en fimm. Ég skammast mín ótrúlega!

Á tilteknu aldursskeiði hafa börnin mín fengur óstöðvandi munnræpu. Hugi er einmitt að taka sína út um þessar mundir. Hann talar og spyr viðstöðulaust og það er bara rétt yfir blánóttina að hann þegir. Eitt kvöld í vikunni var hann að bardúsa með víkingahjálminn sinn, fræða okkur um hann, spyrja okkur um hann, tala, tala, tala ... og tala meira! Í miðjum orðaflaumnum spurði ég: „Ertu með munnræpu?“ Drengurinn þagnaði í örskotsstund og horfði undrandi á mig. Svaraði svo hneykslaður: „Ég er ekkert með munnræpu ... þetta er hjálmur!“ Hvað er þetta kona, þekkir þú ekki hjálm þegar þú sérð hann?!

Ég er ekki heldur með munnræpu. Þetta er bara hjálmur!

p.s. 

Nokkrar septembermyndir

 

26. september 2005

Klukk!

Í lengri tíma er ég búin að fylgjast með þessu klukki ganga um bloggheima en aldrei virtist neinn ætla að klukka mig. Minnti illþyrmilega á að vera valinn síðastur í lið í leikfimi! En á ögurstundu komu Björg og Stína mér til bjargar. Hér koma fimm staðreyndir um mig, algjörlega út í loftið:

*Ég gerði tvær árangurslausar tilraunir til að reyna við Einar áður en hann leit við mér. Þegar mér loksins tókst að fanga athygli hans seint og um síðir var hann hins vegar á leið til sumardvalar í Gautaborg. Í tvo eftirminnilega mánuði skrifuðum við hvort öðru hnausþykk bréf á um það bil fjögurra daga fresti. Ég reiknaði alltaf út hvenær von væri á næsta bréfi og þá daga hljóp ég heim af strætóstoppistöðinni eftir vinnu. Það brást aldrei, á þeim dögum beið þykkt bréf með sænsku frímerki. Stundum teiknaði Einar litlar myndir í bréfin til mín, ég man eftir mynd af héra í sænskum skógi, annarri af feitum kalli að spila á saxófón á jazzbúllu og stundum teiknaði hann gamla fólkið sem hann annaðist á elliheimilinu. Hann var líka duglegur að gefa mér skýrslur um alla þá froska sem hann sá ... ég hef alltaf verið mikil áhugakona um froska. Á þessum tíma höfðum við ekki hugmynd um hvort við yrðum kærustupar þegar Einar kæmi heim. Við hlökkuðum bæði til að hittast aftur en vissum ekkert hvað þá tæki við. Þaðan af síður grunaði okkur að innan tveggja ára myndum við eiga bíl, íbúð og barn saman. Mánuði eftir að Einar sneri aftur til Íslands fékk ég mitt fyrsta netfang og þar með lauk tímabili handskrifaðra sendibréfa í ljósbláum umslögum með Par Avion merki klesstu á. Í dag er ég svo óendanlega þakklát fyrir að geta sótt þessi bréf ofan í lítinn kassa, leyst utan af þeim bleiku slaufuna, brotið þau sundur, rýnt í párið og horfið mörg ár aftur í tímann!

*Ég er endalaust heilluð af hugmyndinni um að á bak við hvað eina megi finna einverja sögu. Ég get til dæmis skemmt mér endalaust við að horfa einhvern hlut í umhverfi mínu og ímynda mér söguna á bak við hann. Kannski handfjatlaði einhver önnur kona kaffibollann minn í Ikea áður en ég keypti hann? Kannski tók hún hann upp og ætlaði að kaupa hann en hætti svo við? Kannski var hún reið út í manninn sinn? Kannski var maðurinn hennar nýbúinn að biðja um skilnað svo hann gæti flutt inn til hjákonunnar? Kannski tók konan í Ikea upp tvo bolla, minn bolla og annan, en mundi svo skyndilega eftir því að maðurinn hennar væri að fara frá henni og hún hefði því ekkert við tvo bolla að gera? Kannski keypti hún bara annan bollann og borgaði fyrir hann með tárin í augunum? Kannski kom ég svo tíu mínútum seinna og keypti þann bolla sem hún lagði frá sér?

*Þegar María fæddist vorkenndi ég dálítið hinum nýbökuðu mömmunum á fæðingarganginum að þurfa að horfa upp á þetta óendanlega fallega barn mitt sem að sjálfsögðu bar af öðrum hvítvoðungum á deildinni. Sá fyrir mér að þær yrðu kannski pínu leiðar þegar þær litu ofan í glæru vögguna mína og svo í sína og sæju að þær ættu bara ekki séns! Ég vorkenndi líka pínulítið strákamömmunum. Þar sem ég var himinsæl með mína dóttur gat ég bara ekki ímyndað mér annað en að þær sem hefðu fengið strák væru svona dálítið leiðar yfir því! Hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það! Þetta var þó fljótt að brá af mér og ég er töluvert raunsærri í dag, þykir alveg frábært að vera strákamamma og finnst öll nýfædd börn alveg yndisleg!!!

*Þegar ég var níu ára vann ég teiknisamkeppni í Austurbæjarskóla og fékk 1001 nótt að launum. Myndin mín var svo send í einhverja aðalkeppni ásamt myndum úr fullt af öðrum skólum. Í verðlaun var utanlandsferð fyrir þann sem teiknaði bestu myndina og einn fullorðinn með. Þennan vetur bjó ég hjá pabba og Gittu og ég var búin að tilkynna þeim að við ættum fyrir höndum erfitt val, það þyrfti að ráða fram úr því hvort þeirra færi með mér út og hvort yrði heima að passa Ella. Ég vann ekki. Vinningsmyndin var ljót, asnaleg og alls ekki í takt við þemað!

*Þegar ég var lítil óttaðist ég fátt meira en að ganga fram hjá Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg. Ég var alveg sannfærð um að fyrr en varði kæmi einhver lögga hlaupandi út og setti mig í fangelsi. Ég var líka dálítið hrædd við Bjarnarbófana ... en bara þegar það var komið myrkur! Ég hef alltaf verið einstaklega löghlýðin manneskja.

Voru þetta ekki örugglega bara fimm staðreyndir?

Það eru fáir eftir til að klukka en þeir sem lesa þetta og hafa ekki enn verið klukkaðir mega taka það til sín (Anna Þorbjörg, Kjartan, Sylvía og Fanný eru nöfn sem koma upp í hugann). Ég skil það hins vegar vel að fólk láti þetta fram hjá sér fara ... það er náttúrulega ömurlegt að vera valinn í lið á eftir mér í leikfimi!

 

13. september 2005

Upphaf mannúðarstefnu*

Nýlega tók María upp á því að vilja biðja bænir á hverju kvöldi. Eins og mörg börn á hennar aldri þjáist hún af hræðslu við eitt og annað, allt frá flugum og upp í fellibyli. Þegar lítið fólk leggst til hvílu á kvöldin og finnst allt í einu töluverðar líkur á að bófar, barnaræningjar eða brennuvargar láti til sín taka yfir nóttina getur verið svo ósköp notalegt að treysta því að einhver þarna uppi muni redda málunum. Til að aðstoða hana meðan hún væri að fóta sig á bænabrautinni stakk ég upp á að hún bæði Guð að passa sig, Huga, mömmu og pabba og alla sem okkur þykir vænt um (sá fyrir mér seinkun háttatíma um næstum hálftíma ef það ætti að fara að telja upp alla ömmu-, afa-, frænda-, frænku- og vinasúpuna). Henni fannst alveg ómögulegt að heimiliskötturinn Bjartur væri ekki innifalinn í upptalningunni og bætti honum snarlega á listann. Síðan hef ég að mestu leyft henni að sjá um þetta sjálf og bara setið við hlið hennar meðan hún muldrar þetta af sannfæringu inn í spenntar greiparnar með samanklemmd augu. Fyrir skömmu heyrði ég þó að listinn hafði lengst örlítið. Aftan við „alla sem okkur þykir vænt um“ hafði hún bætt við ósk um að Guð passaði líka „dýrin og alla í heiminum“. Mér fannst þetta svo undurfallegt. Að hún, rétt fimm ára, skyldi gera sér grein fyrir því sem svo margir, jafnvel miklir heimsleiðtogar, gleyma allt of oft ... að það er ekki nóg að hugsa bara um sitt nánasta umhverfi og það fólk sem tengist manni sjálfum (hvort sem um er að ræða fjölskyldubönd, landafræði, trúarbrögð stétt eða litarhátt) heldur þurfum við að hugsa í víðara samhengi. Kannski hefði margt farið öðruvísi í veröldinni ef það hefðu ekki alltaf allt of margir hugsað: Hjúkk að þetta var ekki ég! 

Í fyrrakvöld varð ég vör við það, í gegnum muldrið, að enn einn nýr liður hafði bæst á listann yfir þá sem Guð er náðarsamlegast beðinn um að vaka yfir. „ Góði Guð viltu passa ... alla sem okkur þykir vænt um, dýrin, þjófana og alla í heiminum“. Það skal tekið fram að af öllum hræðilegum hlutum í veröldinni veit María fátt ógnvænlegra en þjófa. Samt sem áður gerði þetta litla stýri sér grein fyrir að kannski þyrftu einmitt þeir mest af öllum á aðstoð þessa góða kalls sem öllu gæti bjargað, að halda.

Lausnin er svo ofur einföld að jafnvel fimm ára barn getur komið auga á hana. Ef öllum líður vel og enginn þarf að þjást þá eru öll vandamál sjálfkrafa úr sögunni. Hitt er svo annað mál hvernig hægt sé að koma því til leiðar að allir menn geti lifað í sátt og samlyndi ... gefum henni svona tíu ár í viðbót til að finna lausnina á því!

Ég er svo búin að setja inn fullt af myndum af þessum litla mannréttindafrömuði og fjölskyldunni hennar. Hér eru myndir af okkur ...

               

                              ... á Þingvöllum                                                   ... og í Heiðmörk.

*Titillinn er fengin að láni frá þeim manni sem á hug minn allar um þessar mundir, Halldóri Laxness.

 

7. september 2005

Haustið er komið ...

... og með því haustlegt útlit á síðuna okkar og fullt af nýjum haustmyndum í þremur albúmum:

           

       Septembersvipmyndir                             Ber og sulta                         Aftur haust í kirkjugarðinum

Ég vek líka sérstaka athygli ykkar á nýjum hlekk ... Kjartan og Sylvía halda til náms í London innan skamms og ég hlakka til að fylgjast með þeim þar í vetur. 

Ég vona líka að með haustinu komi andinn yfir mig ... ekki seinna vænna.

Annars er ég alveg fullviss um að í hönd fer frábær vetur uppfullur af hnausþykkum vettlingum; heitu kaffi með þykkri froðu; rjóðum eplakinnum; fallegum trjágreinum, fyrst með marglitu haustlaufi og svo með tindrandi, nýföllnum snjó; flöktandi kertaljósum á dimmum vetrarkvöldum; mjúku prjónadóti; hrímuðu grasi og fullt, fullt, fullt af rifsberjahlaupi!!!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar