Septemberdagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

28. september 2004

Setti inn nokkrar myndir af Maríu og Huga ... biðu ekki einmitt allir spenntir eftir nýjum myndum af þeim að gera akkúrat ekki neitt?!!!

 

25. september 2004

Ég er skotin í Tarzan! Er að skrifa færslu um hann fyrir nýtt, íslenskt alfræðirit um bókmenntir og féll kylliflöt fyrir frumskógarhetjunni. Annað af námskeiðunum sem ég er í á þessari önn gengur út á að skrifa fróðleik í þetta rit og þessari helgi deili ég með apabróðurnum og höfundi hans. Ég er reyndar vön því að verða skotin í viðfangsefnum mínum í verkefnum og ritgerðum ... en aldrei áður hafa þau íklæðst lendaskýlu, barist við ljón og sveiflað sér milli trjágreina með mittisgranna mey í fanginu! Meðan ég sit hér við tölvuna og reyni að berja allt of þurrum staðreyndum um útgáfusögu hetjunnar inn í færsluna læt ég mig dreyma:

Ég er Jane og í sterklegum örmum Tarzans sveiflast ég úr einu trénu í annað allt þangað til að við komum í litla tréhúsið okkar. Þar mötum við hvort annað á ferskum ananas og bergjum á tæru lindarvatni. Seinna leggjumst við til hvílu í rúm gert úr pálmalaufum og hetjan mín býr sig undir að kyssa mig eldheitum kossi. En rétt í því að varir okkar mætast grípa brúnir og loðnir handleggir um mig ... Cheeta!!! Helvítis apafíflið sem Tarzan dregur á eftir sér hvert sem hann fer! Þið sem haldið að fyrrverandi kærustur séu vandamál ... bíðið bara þangað til þið þurfið að deila makanum með simpansa! Eftir að apinn hefur verið lokkaður burt með banana höldum við Tarzan áfram þaðan sem frá var horfið. Ég lygni aftur augunum og bý mig undir kossinn. Ég gref hendurnar í dökkum og óklipptum lubba elskhugans og reyni að láta lýsnar ekkert á mig fá, þær eru jú einn af fylgifiskum þess að búa úti í fruskógi án nútíma þæginda. Ég finn lendaskýluna strjúkast við læri mín og undir henni iðar ílangt villidýrið! Villidýr ... guð minn góður, þetta er kyrkislanga af stærstu gerð!!! Og ég sem er ekki eins hrædd við neitt eins og slöngur!!! Í því að hún læsir sig lævíslega um háls minn kemur Tarzan mér til bjargar, þrífur slönguna og sveiflar henni fimlega yfir trjákrónurnar. Ég er dálitla stund að jafna mig en um leið og frumskógarmaðurinn minn dregur mig að sér gleymast allar áhyggjur af slöngum (og risaköngulóunum sem ég sé útundan mér að skríða upp veggi tréhússins). En einmitt þá heyrist reiðilegt urr að neðan. Við gægjumst niður og sjáum risavaxna skepnu brýna klærnar á trénu okkar. Gullna ljónið hefur þefað Tarzan uppi og hann neyðist til að draga hnífinn úr slíðurum, sveifla sér niður úr trénu og reyna að koma því fyrir kattarnef. Ég fylgist með að ofan hvernig æsispennandi bardaginn berst um skóginn allt þar til ljónið stingur af út fyrir sjóndeildarhringinn með Tarzan óðan á bakinu! Eins og vanalega mun bardaginn sennilega standa fram undir morgun og eins og vanalega mun konungur apanna snúa heim í morgunsárið, dauðþreyttur og úrillur eftir eftir erfiða viðureign. Hann mun án efa fleygja sér úrvinda í pálmarúmið okkar og vera farinn að hrjóta þar örfáum mínútum seinna. Meðan rökkva tekur sit ég ein í tréhúsinu, vanrækt og einmana, horfi á villisvínasteikina kólna á disk Tarzans. Ég græt og hugsa um þau örlög mín að hafa fallið fyrir manni sem elskar vinnuna meira en mig!!! 

Einmitt þá hrekk ég upp úr dagdraumum mínum. Mikið er ég guðslifandi fegin að vera ekki Jane! Hver gæti þolað svona líf?! Ekki ég, það er eitt sem víst er! Þá er nú lífið hér á Bárugötu betra. Og hver segir svo sem að við getum ekki skapað smá frumskógarstemmningu hér. Börnin klifra hér í öllum húsgögnum og minna ósjaldan á apa þar sem þau sitja uppi á stólbökum og klína banana í áklæðið. Þau öskra líka oft eins og ljón og baráttan við að sofa í sama rúmi og þau minnir eilítið á átök við risastór villidýr. Einar gæti líka sem best sprangað hér um á lendaskýlu þegar hann kemur heim úr vinnunni. Jane ... ég þarf ekki á henni að halda!

 

22. september 2004

Tapað/fundið

Ég lýsi hér með eftir vitneskju um mann að nafni Erling Brunsborg, þarf að vera upp á 40 orð eða þar um bil. Hvorki alheimsnetið né bókasafnskerfið Gegnir vilja kannast við að maður með þessu nafni hafi nokkurn tíman gert eitthvað af viti en það vill hins vegar prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands meina. Fundarlaun í boði!

Á sama stað fundust þessar ótrúlega hressu myndir úr haustfagnaði Mótettukórsins ... ég varpa af mér allri ábyrgð á þeim!

 

19. september 2004

Símsölumenn afhjúpaðir og afvopnaðir

Símsölumenn eru klókir andskotar ... eða það halda þeir alla vega! Fyrir það fyrsta virðast þeir allir með tölu hafa áttað sig á hvað rauði krossinn í símaskránni þýðir. Í staðinn fyrir þennan kross gæti nefninlega alveg staðið: Ég get aldrei sagt nei við sölumenn og því set ég þennan kross hér í veikri von um að þeir hætti bara alveg að hringja í mig og plata mig til að kaupa eitthvað drasl!!! Já, fólkið með krossinn er nefninlega fólkið sem kaupir! Ég er með kross, sem þýðir einungis það að hingað er hringt að meðaltali fjórtán sinnum í viku og mér boðið að kaupa allt frá geisladiskum með Magnúsi og Jóhanni (hef látið glepjast a.m.k. tvisvar), allt upp í tryggingar og viðbótarlífeyrissparnað af öllu tagi. 

En ég er líka búin að sjá við símsölumönnum og uppgötva þeirra helsta sölubragð! Ég er nefninlega handviss um að í leiðbeiningum sem öllu fólki í þessu starfi eru afhentar, stendur eftirfarandi setning: Þú verður í það minnsta að þykjast hafa gaman af vörunni sem þú ert að selja, ef þú hefur ekki gaman af henni mun enginn kaupa af þér! (Athugið að þetta er bersýnilega ekkert annað en sérstakt undirafbrigði af annarri speki, nefninlega: Ef þú elskar ekki sjálfan þig gerir það enginn annar!) Þetta var augljóst í síðasta samtali sem ég átti við slíkan sölumann. Í mig hringdi kona frá barnabókaklúbbi sem vildi ólm fá mig í áskrift. Eitt vita nefninlega símsölumenn og það er að nútímaforeldrar eru afskaplega veikir fyrir að kaupa eitthvað drasl handa krökkunum sínum enda með krónískt samviskubit yfir að vera alltaf í vinnu eða að læra og geyma börnin á leikskólum landsins á meðan! Ég er engin undantekning þar á og hafði því, merkilegt nokk, töluverðan áhuga á þeim varningi sem einmitt þessi sölukona var að reyna að fá mig til að kaupa. Ég hóf því að spyrja hana nánar út í vöruna, verðið, hversu oft bækurnar kæmi o.s.frv. Hún hefur greinilega fundið að ég var u.þ.b. að bíta á agnið því hún æstist öll upp og tók að vaða áfram í handritinu sem henni hefur sennilega verið afhent áður en hún byrjaði að hringja út. Í staðinn fyrir að upplýsa mig um verðið hóf hún óðamála að segja mér frá öllu því úrvali af bókum sem mér byðist að velja úr sem gjöf ef ég gerðist áskrifandi. Ég reyndi að stoppa hana af til að fá svör en konugreyið var augljóslega komin á yfirsnúning, óð áfram og þuldi upp lýsingar á eins og tólf barnabókum: Svo er hér ein um fílinn Krúsa ... hann er svolítið líkur fílnum Dúmbó sem allir þekkja nema þessi er með risastóran rana ... Ég reyndi eitthvað að troða mér inn í romsuna: Og kemur þá ein bók á mánuði? En hún hélt áfram: Næsta bók sem þú getur valið um er um Snar og Snögg ... kannastu við þá? Þetta eru krúttlegu íkornarnir úr Andrésblöðunum, svona brúnir og sætir! Í þessari bók ætlar Andrés Önd að fara að taka til í garðinum sínum en Snar og Snöggur gera honum heldur betur erfitt fyrir með alls konar uppátækjum ... Hér kom svona lítið fliss eins og henni þætti þetta sjálfri svo ótrúlega krúttaralegt og fyndið að hún gæti ekki annað en skellt upp úr! Hjarta mitt varð kalt sem ís og einmitt þetta litla fliss varð til þess að ég ákvað ég að ég myndi fyrr gerast áskrifandi að fréttabréfi lífeðlisfræðinga en kaupa þessar barnabækur!!! Ég meina, þarna vorum við, tvær konur á þrítugsaldri að tala saman í símann ... hélt hún virkilega að við myndum alveg skellihlæja saman að því hvað einhverjir bjánalegir íkornar væru miklar dúllur!!! Já, nei góða mín, jafnvel þó þú þykist hafa gaman af vörunni sem þú ert að selja þá læt ég ekki gabbast!!! Þegar kerlingarálftin var búin að ryðjast í gegnum allt handritið á mettíma og beið með öndina í hálsinum eftir hvort ég ætlaði að láta tilleiðast svaraði ég með bláköldu nei-takki! Börnin verða bara að sætta sig við þessar 2683 barnabækur sem nú þegar eru inni í hillu hjá þeim!!!

Næst þegar ég er með símsölumenn á línunni ætla ég að bregðast öðruvísi við. Ég er búin að sérhanna nokkur svör sem ég tel að muni á endanum losa mig við öll leiðinda sölusímtöl! Þegar hringt er frá trygginafélögum eða mér boðinn viðbótarlífeyrissparnaður ætla ég að fara að snökta og tilkynna viðmælandanum að ég hafi nýlega fengið þann úrskurð að ég eigi aðeins fjóra mánuði eftir ólifaða. Lýsi því svo í löngu máli, hágrátandi, hvað ég vildi óska að ég hefði eitthvað tilefni til að þiggja þessi kostakjör og eiga langt og heilbrigt líf framundan! Þegar hringt er og mér persónulega boðin áskrift að tímaritum og bókaklúbbum ætla ég að spyrja hvort það fylgi lestrarkennsla með í pakkanum. Ég hafi nefninlega því miður ekki getað lært að lesa á sínum tíma og geti því ekki nýtt mér tilboðið nema þeir sendi lestrarkennara með bókunum/blöðunum ... eða bara einhvern til að lesa þau fyrir mig! Og að lokum, þegar hringt er til að selja mér barnabækur eða -geisladiska ætla ég að segja að ég þoli ekki þegar börnin mín séu með eitthvað kjaftæði og vilji láta lesa fyrir sig eða spila einhverja viðbjóðslega barnatónlist, ég sé vön að rota þau bara ef þau eru með eitthvað svoleiðis rugl og þurfi því ekkert á þessu drasli að hada!!! Við Magnúsar og Jóhanns geisladiskunum á ég hins vegar engin svör og neyðist því til að halda áfram að kaupa þá!!!

 

16. september 2004

Ég er alltaf að kíkja inn á þessa síðu í von um að ég sé búin að skrifa eitthvað meira! Ég er það aldrei, skrýtið?!

 

13. september 2004

Fyrstu septembermyndirnar!

 

12. september 2004

Á þessari önn í skólanum var ég búin að ráðgera að taka námskeiðið Shakespeare og kvikmyndir. Einhvern veginn rámaði mig í það í vor þegar ég stóð í að skrá mig og velja námskeið, að ég hefði heitið því síðast þegar ég sat svona kvikmyndafræðinámskeið að það myndi ég aldrei gera aftur. Mundi samt engan veginn hvers vegna og skráði mig því til leiks alls óhrædd! En í fyrsta tímanum tók gömul ónotatilfinning að láta á sér kræla og skyndilega rifjaðist upp fyrir mér ástæðan fyrir því að ég gerðist afhuga öllu sem tengist kvikmyndanámi! 

Fyrir það fyrsta þá þarf að eyða að meðaltali tólf klukkustundum á viku í að horfa á bíómyndir meðan svona námskeið er setið. Það er mér algjörlega ofviða því ég er nákvæmlega engin bíókelling og ég skil ekki hvernig ég gat gleymt að það er ákveðin ástæða fyrir því að þær myndir sem eru allra nýjastar í mínum huga reynast yfirleitt vera nokkurra ára gamlar og löngu hættar að vera uppi við á vídeóleigum! Í öðru lagi (og hér komum við að nokkuð mikilvægum punkti) virðist ég gjörsamlega hætta að skilja ensku þegar horft er á ótextaðar bíómyndir. Það skal tekið fram að ég les nær allt á ensku, það er ekki nema í undantekningatilfellum að ég les á okkar ástkæra og ylhýra! Sé um fræðitexta að ræða vel ég yfirleitt frekar að lesa þá á ensku en íslensku, sé þess kostur! Ég þekki fullt af fólki sem er enskumælandi og á ekki í minnstu erfiðleikum með að ræða við það! En þegar kemur að því að horfa á ótextaðar bíómyndir þá gæti ég allt eins verið að hlusta á búlgörsku!!! Einhvern veginn svona berst allt tal ótextaðra mynda mér til eyrna:

Humphrey Bogart: Snerfing has the forste of bersin? Holson is around in the krestin?

Ingrid Bergman: Frestó ... serlid of the armadon bersin, going in the prestin of gesting.

Humphrey Bogart: I fresto!

Ég horfi á leikarana þjóta um á tjaldinu, skjóta úr byssum, kyssast eða rífast ... en skil samt ekkert í því sem er að gerast. Þegar samnemendur mínir engjast um af hlátri verð ég að velja milli þess að glotta yfirlætislega í von um að þau haldi að ég sé bara með svona ótrúlega frábæran húmor að mér finnist það yfir mína virðingu hafið að hlæja að þesssu ... eða ég verð að taka þá áhættu að út úr steinrunnum svip mínum megi lesa hversu lítið ég skilji. Í þetta sinn ákvað ég að hafna báðum kostunum og skrá mig bara úr námskeiðinu! Með því losna ég ekki eingöngu við óskiljanlegar bíómyndir heldur líka þá ókennilegu lykt af úlpum og sveittum kvikmyndanördum sem gjarnan vilja loða við tíma sem þessa!

Ég kveð ykkur svo bara að hætti Humphrey Bogarts, en ég hef sko séð margar, margar myndir með honum á svona námskeiðum: Presting of the fortens by mosting!!!

 

3. september 2004

Skólinn

... byrjar á mánudaginn! Undanfarna viku þegar ég hef keyrt fram hjá háskólasvæðinu hef ég fengið stóran kvíðahnút í magann og það er ekki laust við að ritgerðarkúlan ógurlega hafi líka látið á sér kræla! Allt þetta þó skólinn sé ekki einu sinni byrjaður! Í hvert sinn sem ég sé Þjóðarbókhlöðuna finnst mér að ég sé að svíkjast um því í rauninni ætti ég að vera þar inni að grúska eftir heimildum og ljósrita blöð í þúsundatali. Ég þarf stöðugt að minna sjálfa mig á að skólinn sé enn ekki byrjaður og það sé bara eitthvað skammhlaup í heilabúinu á mér sem geri það að verkum að ég er nú þegar komin með krónískt samviskubit.

Í ár hef ég enn einu sinni sett mér það markmið að gera ekki allt á síðustu stundu í náminu. Nú skal lesið fyrir hvern einasta tíma frá fyrsta degi og byrjað á ritgerðum með a.m.k. mánaðarfyrirvara! Á mánudaginn ætla ég að reyna að hafa í huga að á prófatímabilum síðustu anna hef ég grafið höfuðið í höndum mér og velt því fyrir mér hvers konar eiginlega heimska það sé að ætla að vinna þriggja mánaða vinnu á tveimur vikum! Já, í vetur sný ég við blaðinu og verð tímanlega í öllu sem að náminu snýr. Það er því kannski alveg í takt við það markmið að byrja að vera með samviskubit löngu áður en skólinn byrjar! Já, það hlýtur að veita á gott að vera tímanlega í því líka. Kannski ég verði þá bara búin með samviskubitspakkann þegar versta hrinan gengur yfir! Sennilega!!!

Að lokum er ég að hugsa um að leyfa þessari blómamynd að fleyta mér inn í síðustu fríhelgina mína:

Góða helgi öllsömul!

 

1. september 2004

Hreiðurgerð!

Á hverju hausti hellist yfir mig einhver hreiðurgerðartilfinning. Þá langar mig voðalega að fara að punta á Bárugötunni, kaupa nýtt dót til heimilisins og helst umraða öllu því gamla. Einhvern veginn held ég að þetta tengist allt Ikea bæklingnum ... en ég er raunar farin að hallast að því að hann sé sendur af hinum ljóta sjálfum!!!

Á hverju ári fer sama ferli í gang hjá mér. Ikea bæklingurinn rennur glóðvolgur inn um lúguna hjá mér og þegar ég skoða hann sé ég að það er bara ekkert flott eða huggulegt heima hjá mér! Sé þó alltaf fyrir mér að ég geti bjargað þessu fyrir horn með því að kaupa eitt og annað smálegt sem í bæklingnum má finna. Í kjölfarið fylgir árviss ferð inn að sundunum bláu þar sem alls konar dóti og drasli er troðið í gula tuðru. Þegar komið er á kassann er ég alltaf jafn gapandi hissa á að þetta skuli ekki kosta bara þúsundkall eða svo ... því það er jú allt svo ódýrt í Ikea, er það ekki? Þegar heim er komið með allt góssið ný ég höndunum saman af spenningi yfir því að senn ljúki hallæristíð á heimilinu og í hönd fari glæst Innlits/Útlits tímabil. Á hverju einasta ári hefst ég handa við að koma Ikea varningnum nýja fyrir, vasi hér, púði þar, jafnvel lítill lampi einhvers staðar! Þegar umbyltingin er afstaðin lít ég í kringum mig með öndina í hálsinum af eftirvæntingu eftir að berja nýtt og fegurra heimili augum! En viti menn ... enn eru símreikningar á víð og dreif um eldhúsborðið, dagblöðin vella enn upp úr blaðastandinum, stofan er enn allt of lítil, enn þarf að ryðja sér leið um íbúðina gegnum barbiedúkkur og legokubba og börnin eru alls ekki hætt að klína skyri í hvað sem á vegi þeirra verður!!! Undur og stórmerki ... ekki eitt einasta herbergi er neitt í líkingu við þau sem sýnd eru í bæklingnum góða!!! Það eina sem hefur gerst er að enn hefur nýtt Ikea drasl bæst við inn í áður yfirfulla íbúðina!

Þetta árið ætla ég að læra af mistökum mínum! Í ár blaðaði ég bara áhugalaus í gegnum vörulistann, hnussaði lítillega þegar ég sá flotta kertastjaka og hét sjálfri mér því að láta ekki sjá mig í Sundaskrímslinu a.m.k. næsta árið!!! Jafnvel næstu tvö! En er kannski einhver þarna úti sem er til í að láta mig vita þegar flottu kaffiglösin og bollarnir með stóru undirskálinni sem líka má nota sem disk eru komnir í búðina? Þá reyni ég kannski að kaupa í gegnum síma og fá sent með póstkröfu! Er viss um að þetta gerir alveg gæfumuninn í innanhússkreytingum á Bárugötunni!

p.s. nokkrar nýjar!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar