Septemberdagbók 2003

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. september 2003

Hér sit ég og reyni að berja saman framsögu um Gerplu fyrir morgundaginn. Þurfti að sleppa bæði kennslustund í dag og kóræfingu í von um að þetta næðist fyrir tilsettan tíma! Úff, af hverju er ég alltaf svona sein að þessu? Mér sýnist þó að þetta gangi sæmilega og ég hef í það minnsta nóg efni og gengur ágætlega að finna flöt á þessu enda frekar hugsað sem svona stutt kynning á verkinu og spjall um helstu þætti þess og þá kannski helst í sambandi við einkenni eftirstríðsáranna. Ég er samt orðin svolítið þreytt á að vera alltaf á síðustu stundu, það tekur hvert verkefnið við á fætur öðru og mun sennilega gera fram undir jól! Sem betur fer þarf ég þó ekki að fara í nein próf á þessari önn heldur bara að skila fullt upp af verkefnum og svo tveimur stórum ritgerðum. Já, það er um að gera að taka bara einn dag í einu þegar ástandið er svona!

Sem betur fer er nú ýmislegt skemmtilegt framundan líka. Sigrún vinkona mín sem býr í Danmörku er til dæmis komin hingað til lands með stelpurnar sínar tvær og ég ætla að hitta þær mæðgur á föstudaginn. Það verður ótrúlega gaman að hitta þær. Svo vonast ég til að geta kannski kíkt til hennar Svanhildar í vikunni, fá að sjá mynd af væntanlegum brúðarkjól og jafnvel plata hana til að máta léreftsprufuna fyrir mig! Ætli það verði ekki ansi löng bið þangað til ég sjálf verð á þeim tímapunkti í lífinu að láta sauma á mig brúðarkjól þannig að ég hlakka sko óstjórnlega til að fá aðeins að hnýsast í þetta hjá henni elsku vinkonu minni á meðan!

Nýr mánuður á morgun, vonandi með fyrirheit um betri tíma ... eða kannski aðallega betra námsskipulag hjá mér!

 

28. september 2003

Búin að eyða deginum að mestu undir feldi ... eða reyndar flísteppi, að lesa Gerplu. Komin vel á veg þó enn sé mikið eftir og þetta er hin besta skemmtun. Alltaf er það þó eins að maður vildi óska að maður hefði byrjað fyrr, þá gæti maður notið þess betur! En í það minnsta er ég búin að vera mjög dugleg í dag. Ég er ekki frá því að ég sé meira að segja pínu skotin í Þormóði!

Þrátt fyrir mikinn lestur gaf ég mér þó tíma til að syngja í messu í morgun og fara út að ganga með Kötu vinkonu í kvöld. Mikið ótrúlega er hressandi að fara svona smá kvöldrúnt ... eða smá ... við fórum reyndar alveg heillangt, maður tók bara ekkert eftir því þar sem það var svo gaman að spjalla. Þetta verður vonandi reglulegur viðburður hjá okkur í framtíðinni, ég get ekki hugsað mér betri heilsubót!

Hugi verður svo sennilega heima á morgun. Hann er enn svolítið lasinn, þó hann sé reyndar nokkuð hress. En hann er með ljóta hálsbólgu, hósta og alls kyns vesen. Mér þykir einhvern veginn ráðlegra að hafa hann heima á morgun í stað þess að taka áhættuna á að honum slái kannski niður og þurfi að vera inni það sem eftir er vikunnar. Þá þyrfti nefninlega bara að byrja aðlögunina upp á nýtt í næstu viku og úff, ég væri sko hvorki að nenna því né hafa tíma til! Ég þyrfti reyndar að nota daginn á morgun til að undirbúa Gerplu fyrirlesturinn en það verða einhver ráð með það. Ég hlakka reyndar líka svolítið til að hafa hann heima! 

 

27. september 2003

Ekkert bólar enn á verðlaununum frá Einari ... undarlegt!

Mér heyrist lesendur mínir hafa samþykkt það einróma að ég eigi skilin verðlaun fyrir ritgerðarskilin! Heyr, heyr! Eitthvað láta þau þó á sér standa og Einar reynir að telja mér trú um að útskriftargjöf sé það sama og verðlaun fyrir að skila B.A.-ritgerð! Ég er honum með öllu ósammála og get engan veginn séð að þetta sé sami hluturinn!!! Hverju svara lesendur?

Þrátt fyrir að hafa langað mest að leggjast í kojufyllerí og annan ósóma eftir ritgerðarskilin tók ég upp Gerplu og hóf lesturinn! Mér líst nú mjög vel á bókina en gengur frekar hægt. Ég er eitthvað voðalega sybbin þessa dagana. Hugi er með hálsbólgu eða barkabólgu og svolítið órólegur á næturnar. Við foreldrarnir því frekar vansvefta þar sem hans helsta iðja á þessum tíma sólarhrings er að fá að koma upp í rúm til okkar, berjast svolítið um þar og sofna svo með andlitið ofan á bringu annars okkar en fæturna uppi í nefinu á hinu!!!

Í dag er svo afmæli hjá Emil frænda sem varð tveggja ára fyrr í mánuðinum. Við María förum sennilega bara tvær og hún hlakkar þessi líka ósköp til, búin að spyrja hvenær við förum eiginlega í afmælið frá því klukkan níu í morgun! Ég hlakka líka til, er í ótrúlegu afmælisstuði, eða alla vega í stuði fyrir kökur, kaffi og spjall við skemmtilega ættingja!

Að lokum nokkrar myndir:

Þessar fallegu liljur gaf mamma mér í tilefni af ritgerðarskilum. Þar er kona á ferð sem kann greinilega að gera greinarmun á útskriftargjöf og verðlaunum fyrir B.A.-ritgerð!!!

Svona kom ég að systkinunum í gær. Þau voru búin að koma sér svona líka huggulega fyrir uppi í sófa með sæng og lásu í uppáhaldsbókinni hans Huga.

 

25. september 2003

Klukkan nákvæmlega 10:45 í morgun smugu þrjú eintök af ritgerðinni „Lokaæfing fyrir byltinguna“ inn í hólf í Nýja Garði. Skömmu seinna heyrðist að einhver gekk hröðum skefum í burtu og töldu nærstaddir sig hafa heyrt niðurbælt fagnaðaróp. Nokkrir rótgrónir prófessorar við heimspekideild sem stukku af stað til að veita eftirför, sáu hvar svartklædd vera stakk sér inn í rauða Toyotu og ók í austurátt. Ekki er enn vitað hver þarna var að verki en talið er líklegast að um höfund ritgerðarinnar sé að ræða. Unnið er að rannsókn málsins.

Hvernig liði þér, kæri lesandi, ef þú hefðir rænt banka og haft eins og tíu milljónir upp úr krafsinu? Þú værir væntanlega feginn að ætlunarverk þitt hefði tekist og ánægður með alla peningana og tækifærin sem þeir gætu veitt þér. En værir þú ekki kvíðinn líka? Myndi ekki efinn naga þig? Efinn um að þú hefðir ef til vill gert einhver lítil en afdrifarík mistök sem gætu leitt lögregluna á spor þitt? Værir þú ekki hræddur um að vera nappaður, stungið inn og dæmdur? Sæir þú kannski eftir að hafa verið að fremja bankarán yfir höfuð? 

Einhvern veginn þannig líður mér! Ritgerðinni skilað ég inn í dag og er að sjálfsögðu óendanlega fegin og glöð. Húrra!!! En efinn nagar mig! Gerði ég einhver mistök, einhver afdrifarík mistök sem koma til með að kosta mig góða einkunn? Munu þeir nappa mig, leiðbeinandinn og prófdómarinn, og dæma mig óhæfan bókmenntafræðing? Hefði ég kannski ekkert átt að fara í bókmenntafræði yfir höfuð?!!!! 

Ég sakna líka! Lokaði Word-skjalinu sem ber heiti ritgerðarinnar áðan og mun sennilega aldrei opna það aftur.Þetta skjal hefur verið fastur punktur í tilverunni undanfarna tvo mánuði. Alltaf verið til staðar og bara beðið þolinmótt eftir að ég haldi áfram vinnunni við það!

En ég er glöð! Mjög glöð! Ég er búin með ritgerðina!

 

24. september 2003

Hvað var ég að pæla!?

Ég valdi algjörlega sjálfviljug að fjalla um Gerplu í Eftirstríðsárunum í næstu viku. Bókin sú arna er litlar 500 blaðsíður og þær á ég eftir að lesa auk þess að leita mér heimilda og skrifa fyrirlesturinn! Það erfiðasta af öllu er þó að það hefur náttúrulega verið skrifaður heill hellingur um þessa bók og það gerir hlutina oft svo miklu flóknari. Þá þarf maður að vinsa úr almennilegu heimildirnar og fara yfir helstu strauma og stefnur umræðunnar. En til þess að gera það vel þyrfti náttúrulega að lesa allt sem skrifað hefur verið ... því næ ég hins vegar aldrei! Ef ég hefði verið skynsöm hefði ég til dæmis getað valið að fjalla um fyrstu Þórubókina eftir Ragnheiði Jónsdóttur sem tekin var fyrir í dag! Sú er ekki nema um 150 síður og ég var fullkomlega heilluð af henni! Mikið hefði nú verið gaman ef ég hefði haft vit á því!

Það gekk bara nokkuð vel í aðlöguninni í dag og Hugi náði meira að segja að fara í hvíldina og sofa í næstum einn og hálfan tíma! Hann var eitthvað að malda í móinn í útiverunni og þóttist svo ekki vilja matinn (skipti um skoðun um leið og fyrsti bitinn náði inn fyrir og mokaði í sig eftir það) en það var allt og sumt! Einar fór svo á foreldrafund í kvöld (ég ákvað að vera heima til að byrja á þessari Gerpluklikkun) og leist vel á vetrarstarfið. Það er svo ótrúlega gaman að fara á þessa fundi, hitta foreldra hinna barnanna og spjalla við starfsfólkið í góðu tómi. Þar er hægt að bera saman bækur sínar, heyra hvað önnur börn segja um manns eigin börn og fá fréttir af daglegu lífi þeirra í leikskólanum. Ekki það að ég er nú orðin eins og grár köttur á Drafnarborg og veit því allt sem þar fer fram! En Einar komst til dæmis að því í kvöld að María og besta vinkona hennar eru farnar að plana heimsóknir utan leikskólans og þá helst að María hreinlega gisti hjá henni! Okkur foreldrunum fannst nú ráðlegra að hafa þetta bara smá heimsókn svona fyrst um sinn! Æ, þetta er svo dúllulegt!

Og ég er komin í miðvikufrí! Er ekki í skólanum á fimmtudögum og föstudögum ... en þar sem helgin er ekki komin er auðvitað ekki hægt að kalla þetta helgarfrí! Að þessu sinni verður fríinu eytt í Gerplu ... stun!

 

23. september 2003

Ég er að breytast í algjöran slugsa í skólanum...aftur! Einu sinni lærði ég aldrei neitt, ég mætti örvæntingafull í öll próf, búin að lesa kannski tvær bækur af tíu! Gekk nú reyndar alltaf furðuvel! En á síðustu önn tók ég mig allverulega saman í andlitinu, fór í tvö próf og upplifði það í fyrsta skipti á öllum háskólaferli mínum að vera búin að lesa hvern einasta staf sem var til prófs! Þetta var líka alveg ótrúlega skemmtileg önn og ég uppgötvaði að það er satt sem þeir segja, það er skemmtilegra að mæta í tíma þegar maður er búinn að lesa! Ég ætlaði því tvímælalaust að halda þessu áfram nú í haust! En viti menn, ég mæti í hvern tímann á fætur öðrum án þess að vera búin að lesa! Ekki nóg með að tímarnir gagnist mér takmarkað þegar ég er ekki undirbúin heldur er það líka mjög áberandi í svona litlum hóp! Og núna hellast yfir mig verkefni og fyrirlestrar. Uppgötvaði í dag að fyrirlestur sem ég á að halda um Gerplu er í næstu viku!!! Mér fannst einhvern veginn vera nokkur ár þangað til en vaknaði sem sagt upp við vondan draum í dag! Auk hans þarf ég svo að byrja að undirbúa stóra ævisöguverkefnið, vinna annað minna og svo náttúrulega bara lesa fyrir tíma. Þetta væri kannski allt í lagi ef ég gæti nýtt alla daga allan daginn og ef það væru svona 48 klst. í sólarhringnum! En nú er ég föst á Drafnarborg á morgnana og hef svo verið með drenginn á mínum snærum frá hádegi! Miðað við hvernig aðlögunin gengur á ég svo sem ekki von á að það breytist mikið á næstunni! Úff, púff!

Ég fór annars í litun og klippingu í dag! Reyndar alveg stór galli að fara útúrstressuð í þannig dæmi því það er svo innilega gott ef maður nær bara aðeins að slappa af, lesa kjaftablöðin og sötra kaffi. Ég náði því kannski ekki alveg í dag...EN þetta var samt frábært. Liturinn misheppnaðist nú smá...var svolítið gulur! En það er eiginlega bara betra því þá fæ ég að fara aftur á fimmtudaginn, læt dedúa við mig, fæ höfuðnudd, les nýjustu fréttir af Jordan og blinda syninum OG þarf ekkert að borga!!!

 

22. september 2003

Brrrrrrrrrrrr...!!!!

Vá, hvað það var kalt í morgun! Hugi vaknaði með alveg frosnar tásur enda fæst hann ómögulega til að liggja undir sænginni! Hann verður sko lagður til svefns í ullarsokkum í kvöld! Og það er greinilega kominn tími á útigalla á leikskólann. Talandi um leikskólann þá gekk aðlögunin alveg skelfilega illa í dag. Ég skildi hann eftir um hálf níu og sótti hann fjórum tímum seinna og þá var hann búinn að væla meira og minna allan tímann. Það skar í móðurhjartað og ef einhver hefði mætt okkur Huga á leið út af Drafnarborg eftir hádegið hefur örugglega mátt sjá blika á tár á hvörmum okkar beggja! Æ, mér finnst svo hræðilega leiðinlegt að hann sé eitthvað lítill í sér þarna og óöruggur. Og mér finnst líka leiðinlegt, eða aðallega óheppilegt, að nú mun ég þurfa að vera meira með honum í aðlöguninni sem þýðir að næstu morgna eyði ég drjúgum tíma á Drafnarborg að fylgjast með krílunum að leika. Það er svo sem mjög gaman en þegar maður þarf að vera búinn með tvær skáldsögur, eina hnausþykka ævisögu og skrifa stutta greinargerð á næstu tveimur dögum þá kann maður bara voða vel að meta allan þann tíma sem gefst í friði við skrifborðið! En þetta fer vonandi að ganga betur!

Mætti enn einu sinni ólesin í skólann! Þetta fer að verða ansi vandræðalegt! Ég treysti bara á að eftir svona tvær vikur verði Hugi fullaðlagaður að leikskólanum og B.A.-ritgerðin komin í hendur prófdómara. Þá ætti mér að gefast betri tími til að undirbúa mig fyrir tíma og vinna öll þessi verefni, ritgerðir og fyrirlestra sem á dagskrá eru. 

Við fengum nýjan prentara í dag! Jibbí! Sá gamli gaf upp öndina og það var orðið dálítið þreytandi að þurfa að senda Einari allt sem prenta þurfti út sem viðhengi við tölvupóst í vinnuna. Þegar maður er svona mikill slóði eins og ég hef verið í haust, þá þarf maður sko á því að halda að geta ýtt á print bara fimm mínútum áður en lagt er af stað út úr dyrunum! Þessi prentari á líka að geta prentað út sæmilega fínar ljósmyndir sem verður sko mikið gaman að láta reyna á!

Vona að þið eigið góða viku framundan og munið eftir húfum, vettlingum og treflum!

 

21. september 2003

Ég skil ekki alveg hvernig lögmálið með þessa blessuðu B.A.-ritgerð virkar! Því meira sem ég vinn í henni, þeim mun meira virðist mér eftir! Þegar ég byrjaði að skrifa ritgerðina í sumar, eftir langt og strangt heimildaferli, þá fannst mér ég bara næstum búin! Núna er ég búin að skrifa allan texta og á bara eftir að lagfæra nokkra hluti og mér finnst svo óendanlega langt þangað til þetta verði tilbúið og að ég muni áreiðanlega ekki geta skilað henni inn á þessari öld! 

Fórum í hádegismat til mömmu í dag. Ekta sunnudagssteik með sérstökum haustblæ. Oh, það var svo notalegt. Mig langar alltaf jafnmikið að halda í þá hefð að hafa steik í hádeginu á sunnudögum...strandar einhvern veginn alltaf á því að mér finnst því miður hvorki læri né hryggur mjög gott kjöt. Mér finnst þetta samt svo notalegur siður, helst að hlusta á messuna á undan líka! 

Huga fleygir fram í tali þessa dagana. Farinn að segja alveg sæmilega viðamiklar setningar á borð við: „Attu Maji sidda“ og „Hinna babba siddó“ („Aftur María sitja“ og „Sýna pabba strætó“). Svo er hann líka farinn að hoppa jafnfætis! Alveg ótrúlega fyndin sjón. Hann beygir sig vel í hnjánum og svo bara spojjng, eins og gormur hoppar hann upp! Við höldum svo áfram í aðlöguninni á morgun. Það er ekki laust við að ég kvíði fyrir því. Á morgun á hann að vera í morgunmat, hádegismat og prófa að fara í hvíld. Úff, ég veit nú ekki hvort minn maður samþykkir það! En um að gera að láta á það reyna og vera bjartsýnn.

Myndir úr sunnudagssteikinni hér!

 

20. september 2003

Í morgun dreif ég mig eldsnemma á fætur með herrunum mínum. Ég er nú vön að finna mér einhverja afsökun til að kúra eins lengi og ég get en í morgun var ég svona líka hress að ég dreif mig bara fram úr við fyrsta Hugagal!!! Var því búin að drekka kaffið mitt og ráða krossgátuna áður en ég fór á kóræfingu. Og í þetta sinn fékk ég næstum enga hjálp frá Einari við krossgátuna. Markmiðið var sko að verða jafnklár og hann. Því hefur kannski ekki alveg verið náð en ég er alla vega orðin samkeppnishæf...bara æfa, æfa, æfa!

Það var alveg frábært á kóræfingu. Þetta er dásamlega fallegt verk sem við erum að æfa og ég get ekki beðið eftir að fá disk með upptöku af því í hendurnar svo ég geti notið þess utan æfingatíma. Diskurinn sem við fáum er reyndar með drengjasóprönum, alveg ótrúlega flottur hljómar og mjög fallegt. En voðalega held ég að það hljóti að vera skrítið að syngja með englarödd í einhverjum geðveikt metnaðarfullum kór en vakna svo einn daginn með ískrandi röddu og bara púff, draumurinn horfinn!!! 

Síðdegis skrapp ég svo á opnun á sýningu hjá Hönnu og Birtu (og einhverjum öðrum minna merkilegum listamönnum!). Þær stöllur eru báðar með mjög skemmtileg verk á sýningu í Nýlistasafninu sem allir ættu að kíkja á! Hitti þær svo vonandi aftur á morgun heima hjá Brynhildi sem var einmitt að flytja í nýja íbúð sem ég hlakka mikið til að sjá.

Ritgerðin er bara nánast tilbúin. Held að ég hafi gert sæmilega skynsamlega breytingu á þessum inngangi og hef ekki hugsað mér annað en að fara yfir hana og skella þessu svo í band og skila inn! Mér finnst alveg ótrúleg tilhugsun að þetta sé að hafast. Næg verkefni framundan svo það er líka eins gott!

Hafið það gott í kvöld.

 

19. september 2003

Meira raunveruleikasjónvarp!

Já, nú er íslenska Idolið byrjað. Ég hlakka sko ekkert smá til að fylgjast með því. Reyndar rifjar það upp slæmar minningar frá því í sumar þegar Clay Aiken...nei, ég get bara ekki talað um það! En þetta verður örugglega ýkt skemmtilegt!

Hugi var töluvert lengi einn á leikskólanum í dag, gekk svona upp og ofan, sumt gekk vel en svo var hann líka svolítið að skæla, elsku litli kallinn minn. Ég reyni að knúsa hann eins mikið og ég get þegar ég er búin að ná í hann og við kúrðum okkur aðeins uppi í rúmi og undir sæng að skoða bók í dag svona til að hafa það svolítið huggulegt saman.

Og ritgerðin, já hún er bara alveg að klárast! Ég er búin að vera svo ótrúlega lengi að endurskrifa þennan inngang. Málið er náttúrulega bara að ég átti ansi erfitt með að hrista af mér upprunalega innganginn og var alltaf að reyna að finna leið til að nota sömu hugmynd en breyta þessu samt öllu! Það var frekar glatað, eins og gefur að skila og mér leið einhvern veginn alltaf eins og ég væri að láta þríhyrning fylla upp í hring. Í dag fékk ég svo ágæta hugmynd að alveg glænýjum inngangi. Veit ekkert hvort þetta er eitthvað fínt en ég er þá alla vega ekki að gera sömu mistökin og í fyrri innganginum! Nú á ég bara smá eftir að skrifa og svo bara fara yfir þetta. Gæti sko alveg klárað þetta í kvöld...en ég er að hugsa um að geyma það til morguns. Manjana!!!!!

 

18. september 2003

Aðlögunin gekk bara vel í dag. Hugi var aðeins brattari en í gær, þorði meira að blanda sér í hópinn og spjallaði smá sem er eindregið merki um vellíðun! Ég fór heim á meðan hann var í útiverunni og reyndi að taka smá til. Það er fyndið hvað þetta er greinilega mikil áreynsla fyrir hann að byrja svona á leikskóla. Hann hefur borðað alveg eins og hestur í hádeginu frá því aðlögunin byrjaði og sefur svo lengi og vel á eftir! Eitt var sérlega skemmtilegt við aðlögunina í dag. Ég gat nefninlega fylgst með Maríu að störfum á sinni deild í laumi. Mig hefur svooo oft dreymt um að fá að vera fluga á vegg of sjá hvað hún gerir og hvernig hún hagar sér í leikskólanum. Æ, þau voru algjörar dúllur eitthvað að dansa, María reyndar bara að hoppa upp og niður eins hratt og hún gat!!! Ekki var nú deildarstarfið á litlu deildinni minna dúllulegt. Þar tókum við Hugi þátt í sönstund þar sem fæstir þátttakendurnir kunnu nokkurt lag og tóku því ekki undir. En ein var alveg rosa dugleg og söng MJÖG hátt bara svona það sem hún kunni í laginu, var kannski einni hendingu á undan, bara eftir eigin stemmningu! Þau voru ekkert smá krúttleg!

Var að ljúka við að horfa á fyrsta Bachelor þáttinn í nýrri syrpu! Oh, hvað ég hlakka til þegar allt raunveruleikasjónvarpið byrjar aftur. Ég er svo allt of mikill sökker fyrir því! Alveg skammarlegt að játa þessa lágkúru á sig! En mér leist vel á Andrew Firestone, nýja piparsveininn og dömurnar 25! 

Annað kvöld er ég svo búin að plana alveg æsilegt kósí- og kærustuparakvöld! Hlakka til að borða kannski eitthvað gott og spjalla við Einar, kannski drögum við upp Trukkaspilið sem er í algjöru eftirlæti hjá okkur nú eða við höfum það bara notalegt og horfum á sjónvarpið! Ég hlakka alla vega ótrúlega til!

 

17. september 2003

Hvernig væri nú að uppfæra þessa síðu einu sinni um miðjan dag? Ég er alltaf að gera þetta eftir miðnættið í náttfötunum og með tannburstann uppi í mér!!!

Þriðji dagur í aðlögun hjá Huga. Gekk nú nokkuð vel. Hann er töluvert lítill í sér en var aftur alveg tilbúinn til að kveðja mig þegar kom að útiverunni. Ég fór þá bara heim að dunda mér eitthvað og Einar kom svo til að leysa mig af á bakvaktinni. Reyndar var hann ekki nema rétt kominn inn úr dyrunum þegar hringt var frá Drafnarborg og þá var Hugi orðinn svolítið þreyttur og svekktur þannig að Einar fór bara og sótti hann! Það gengur sem sagt bara vel en svona eðlilega eru þetta viðbrigði fyrir hann ... og okkur öll! Sannast sagna þá finnst mér þetta ógeðslega erfitt. Mig langar mest að láta orðabók fylgja honum því mér finnst eitthvað svo hræðileg tilhugsun að enginn á leikskólanum skilji þetta babbl hans. Það eru reyndar hæg heimatökin að sækja túlk...María er þarna í næsta herbergi og skilur auðvitað allt sem litli bróðir kann að segja!

Ég fór sjálf á fund með kennurum Ævisögunámskeiðisins skömmu fyrir hádegið. Mikið lifandis, skelfinar, ósköp var ég fegin að hafa rætt við kennarann eftir tíma í gær og geta því mætt sæmilega undirbúin til leiks í dag. Ég var ekki vör við annað en að þeim litist vel á þetta, Vitringunum þremur, og ég er því byrjuð að viða að mér heimildum. Sótti mér eina grein í dag og öll þrjú bindin af ævisögu Steingríms Hermannssonar! Svolítið skondin bókasafnsferð, lítur örugglega út eins og ég sé alveg geggjaður aðdándi Denna! En ætli ég verði það ekki annars áður en yfir lýkur...ég á það alla vega til að taka ástfóstri við viðfangsefni mín í bókmenntafræðinni!

Í dag ætla ég svo að skrópa í skólanum! Vonandi í fyrsta og síðasta skipti á þessari önn. Þarf að klára þessa ritgerð og finnst ágætt að taka daginn í það. Það er þá líka eins gott að ég standi við það í þetta skipti!!!

 

16. september 2003

Snúinn þriðjudagur að baki!

 Byrjaði hann á því að fara með Huga í aðlögun á Drafnarborg. Það gekk nú bara nokkuð vel. Hann er svolítið óöruggur og lítið hjarta í þessu öllu saman en á móti kemur að honum finnst líka alveg óstjórnlega gaman að fara út að leika og því samþykkti hann með semingi, en táralaust, að fara út með einni fóstrunni án mín! Ekki lítið skref það!

Ég reyndi svo að bruna í gegnum eina grein áður en ég fór í maraþontíma í Ævisögunum. Samkvæmt nýju skipulagi er kennt einu sinni í viku frá 3-7 og ég verð að játa að ég hef ekki alveg hæfileikann í að einbeita mér svona lengi! Reyndar var ákaflega gaman í þessum tíma í dag, vorum eiginlega bara að spjalla! Nýr kennari kominn til leiks (þ.e.a.s. einn af þremur sem sjá um námskeiðið) og mér leist ákaflega vel á hann. Króaði hann af eftir kennslustund til að vandræðast með ritgerðarefni og fundum við í sameiningu alveg glæsilega lausn á því, þó ég segi sjálf frá (en segi ykkur kannski frá því seinna!). Þegar því var lokið var ekki um annað að ræða en að bruna heim, gleypa í sig plokkfiskinn, knúsa börnin og Einar og hlaupa svo út aftur á kóræfingu. Það er vissulega endurnærandi eftir langan og strangan dag að syngja svolítið en það er samt svolítið eins og heilinn á mér sé enn á einhverju „over-drive“ eftir að hafa setið svona lengi í skólanum og reynt að einbeita mér, hugsa og skilja. Finn að ég upplifi kóræfingarnar á alveg nýjan hátt. Eftir kennslustundina er ég enn bara  innstillt inn á að reyna að kryfja allt sem ég heyri til mergjar og fer því á fullt í að reyna að skilja og skilgreina tónlistina...sem ég hef hins vegar ekki nokkurn hæfileika til!!! Þetta er ný reynsla og ekkert slæm!

Annar langur dagur framundan á morgun þar sem ég ætla að reyna að klára fjandans ritgerðina! Stóð sem sagt ekki við gefin heit um að ljúka henni síðustu helgi. Er búin með akkúrat allt nema að endurskrifa þennan inngang. Ég bara kann ekki svoleiðis. Mínar vinnuaðferðir við ritgerðarskrif miðast að því að þegar ég sé búin sé ég bara búin og endurskoði nánast ekkert nema innsláttarvillur! Það að eiga að koma að verkinu aftur og breyta einhverju er bara ný reynsla fyrir mig...nauðsynleg reynsla náttúrulega en alveg glæný! 

Góða nótt!

 

15. september 2003

Vandræðalegur dagur í skólanum!

Úff hvað ég átti eitthvað glataðan dag í skólanum. Þegar langt var liðið á fyrri tíma í Eftirstríðsárunum fann ég að sessunautur minn var farin að krafla eitthvað í hárinu á mér! Ég kann nú óskaplega vel við þessa stelpu en fannst þetta kannski svona svolítið undarleg vinahót í miðri kennslustund þannig að ég lít á hana spurnaraugum (eins og eiginlega allir viðstaddir þar sem þetta er svo fámennt að það fer ekki fram hjá neinum þegar einhver fer að róta í hárinu á öðrum). „Það var bara kónguló“...segir hún í senn útskýrandi og afsakandi!!! KÓNGULÓ... í hárinu á mér!!!!!!!!!!! Já, já, hún hefur setið þarna í hárinu á mér ósköp róleg og fylgst af áhuga með umræðum um Herstöðvarsamninginn, Beinamálið og Atómstöðina! Ég er nú ekkert hrædd við kóngulær en finnst svona kannski miður að það litla sem samnemendur mínir þekki til mín sé að ég gangi um með kóngulær í hárinu! Ég veit ekki hvað fólk heldur um mig eftir þetta! Sem betur fer var þó enginn bekkjarfélagi viðstaddur seinna neyðarlega atvikið (því annars hefði ég beinlínis þurft að hætta að mæta!). Mér verður nefninlega yfirleitt óendanlega mikið mál að pissa þegar líður á seinni kennslustundina í skólanum! Ástæðan er einföld, ég kaupi mér kaffi bæði fyrir tíma og í frímínútum og yfirleitt kaupi ég sódavatn líka af því að ég á aldrei klink og finnst svo vandræðalegt að borga með krítarkorti fyrir einn kaffibolla! Ég er því oftast alveg í spreng þarna undir það síðasta og dagurinn í dag var engin undantekning, nema hvað ég var eiginlega verr haldin en nokkurn tíma fyrr! Þegar kennslustundinni lauk þakkaði ég mínum sæla fyrir að ég hafði gengið þá þrautargöngu að leita að klósetti í Odda vikuna áður! Í dag vissi ég því nákvæmlega hvar það var að finna og hljóp beinustu leið þangað, inn á klósettið og þar inn í svona klósettklefa (æ þið vitið hvað ég meina)! Ég varð hins vegar svolítið hissa þegar ég opnaði aftur dyrnar á klósettklefanum og við mér blasti löng röð af pissuskálum! Velti fyrir mér hvurslags eiginlega arkitekt hefði hannað þessa byggingu; í fyrsta lagi alveg glatað að finna klósett þarna og í ofan á lag að hafa svo ætlað aumingja karlkynsnemendum HÍ að spræna bara þarna fyrir framan okkur stelpurnar......þangað til ég fattaði mér til mikillar skelfingar að það hafði að sjálfsögðu ekki verið ætlunin heldur var ég inni á vitlausu klósetti...karlaklósettinu!!! Guði sé lof og dýrð fyrir að það var sem betur fer enginn annar inni á klósettinu en ég! Og hugsið ykkur ef kannski kennarinn í Eftirstríðsárum eða gamli íslenskukennarinn hefðu nú líka verið í spreng eftir tíma og staðið þarna berskjaldaðir þegar ég kom stormandi út úr klósettklefanum...nei, ég get ekki hugsað þá hugsun til enda!!! Ég meina, það er ekkert svo skelfilegt að skella sér á karlaklósettið á skemmtistöðum í skjóli nætur og jafnvel áfengisvímu...en um hábjartan dag í Háskólanum...það er ekki hægt!!! Ég þarf varla að taka það fram að ég var fagurrauð á leið út úr Odda í dag!

Hugi minn gerðist svo leikskólastrákur í dag! Við fórum í smá heimsókn á Drafnarborg í morgun. Það gekk bara vel en kannski ekki komin mikil reynsla á þetta, ég var náttúrulega með honum allan tímann! Kemur betur í ljós þegar líður á vikuna hvort hann sættir sig við breytingarnar eða reynir að mótmæla. Ég var óskaplega angurvær yfir því að litli unginn minn væri að fljúga úr hreiðrinu og smellti af honum nokkrum myndum áður en við lögðum af stað, svona rétt til að skrásetja síðustu augnablikin hans áður en haldið var út í hinn stóra heim! Endilega kíkið á myndirnar af leikskólastráknum!

 

14. september 2003

Helgin að verða búin!

Mikið vildi ég óska þess að það væri helgi áfram í svona viku! En það þýðir ekki að fást um það! Skemmtilegur dagur framundan, skírn hjá Ástþóri og svo verður gaman að fá fréttir af Maríu í leikhúsinu!

Ritgerðin mjakaðist vel áfram í gær. Fer samt svolítið í taugarnar á mér að það sem ég átti eftir að gera var ekki nema svona tveggja tíma vinna ef maður héldi vel á spöðunum. Ég fer hins vegar svo varlega í þessu að það tók mig allan daginn að ljúka við helming þeirrar vinnu! Í kvöld er svo markmiðið að klára dæmið! Ég mun samt þurfa að mæta nánast ólærð í alla tíma í næstu viku...sem er svolítið glatað því ég hef ekki getað lært mikið hingað til og mér sýnast kennararnir alveg hafa tekið eftir því! En er ekki alltaf málið að maður bæti sig?! Þegar Hugi verður kominn á Drafnarborg og ég búin að skila B.A.-ritgerðinni inn mun ég hafa allan tímann í heiminum til að læra! Eða það finnst mér núna! Um að gera að enda ekki í tómri sjálfsblekkingu og hanga svo bara á kaffihúsum og á bæjarrápi af því ég „hef hvort eð er svo mikinn tíma“!

Ég var að setja inn nýjar myndir, kíkið á þær hér!

 

13. september 2003

Allt bilað?!!

Netið datt út aftur! Ég var alveg ógeðslega fúl. Það er náttúrulega bara alveg glatað að hafa ekkert til að tefja sig frá náminu! Í dag var ég alveg búin að fá nóg og ákvað að prófa gamla góða ráðið að slökkva bara á tölvunni og kveikja aftur...viti menn, það hreif!!! Netið komið aftur og allt eins og það á að vera!

Ég sit hér og hái lokaorrustuna við B.A.-ritgerðina. Þetta verður löng orrusta og mun án efa teygja sig fram á morgundaginn. En ég er fullviss um að sigur náist í síðasta lagi annað kvöld! Þá á reyndar eftir að lesa allt draslið yfir, Einar er búinn að lofa mér að taka þátt í því! Svo þarf að fara með þetta í hina sívinsælu Háskólafjölritun þar sem hlutirnir gerast sko hratt!!! Ég reikna með degi bara í það!

Við förum svo í skírn hjá Ástþóri Erni á morgun. Fór í dag og keypti skírnargjöf, var bara dálítið ánægð með valið, svo ég segi sjálf frá! Vonum að pilturinn verði jafnkátur með þetta og ég! María kemst reyndar ekki með í skírnina þar sem hún verður á frumsýningu á Línu Langsokki með Imbu ömmu og Andrési frænda. Ég hlakka svooo til þegar við Einar förum með þau Huga í leikhús! Stefnan er tekin á Mikka ref og félaga og María er strax farin að hafa áhyggjur af að hún verði kannski hrædd (sem hún verður alveg ábyggilega!).

Það er skömm að því að mánuðurinn sé að verða hálfnaður og ekki hafi enn verið útbúið september albúm á heimasíðunni. Ég mun koma því í gagnið um leið og þessi #$%&#" ritgerð er frá! Úff hvað ég hlakka til!

 

11. september 2003

Hér hefur ekkert netsamband verið í rúman sólarhring...úff, mér fannst það sko vera eins og vika! Það er sem sagt ástæðan fyrir leti í dagbókarskrifum! Annars hefur svo sem ekki margt gerst. Búin að fara í skólann, kóræfingu og kíkja aðeins meira á þessa bókmenntahátíð.

Hugi mun svo byrja í aðlögun á Drafnarborg eftir helgi! Það er nú svona bæði kvíði og tilhlökkun tengd því. Ég hef nú fulla trú á að þetta eigi eftir að ganga vel, honum finnst svo gaman að leika innan um aðra krakka. Og það er nauðsynlegt fyrir mig að geta lært á öðrum tímum sólarhrings en bara á kvöldin! En það er svooo margs að sakna. Við höfum náttúrulega haft það undurgott saman hérna mæðginin. Hugi er alltaf svo þægur,  getur endalaust dundað sér við að skoða bækur, kíkja út um glugga og æfa sig að segja öll orðin sem hann kann! Það er voða gott að hafa svona lítinn böggul að knúsa og kyssa á daginn! En það verður skemmtilegt fyrir hann að vera í meiri aksjón og ég get þá vonandi nýtt tímann í smá bókmenntafræði aksjón hér heima á meðan! Mikið á ég samt eftir að sakna þess að enginn bendi mér á dóh bíli (stór bíll), dóh hetti (stór hestur) eða ís-epli (sem þýðir bara ís) á síðum barnabóka heimilisins, daginn út og daginn inn!

Ég verð að fara að klára þessa blessuðu B.A.-ritgerð. Skólinn byrjaði bara með svo miklum hvelli að ekki vannst tími til annars en að sinna Eftirstríðsárum og Ævisögum. Ég hafði því hugsað mér að taka næstu daga frá til að ljúka ritgerðinni. Reyndar held ég að ég sé að verða veik...ó, nei, vonum ekki!

 

8. september 2003

Hvað gerir maður við penna sem bókmenntahetja hefur haldið um?!

Ég sá Haruki Murakami augliti til auglitis í dag, horfði á hann, hlustaði á hann, átti við hann fánýt orðaskipti og lánaði honum penna! Ótrúleg upplifun, en byrjum á byrjuninni. 

Ég dreif mig sem sagt í Norræna húsið í hádeginu til að hlusta á Silju Aðalsteinsdóttur spjalla við Murakami. Bersýnilega er hann uppáhaldsrithöfundur fleiri Íslendinga en mín því þarna var troðið út úr dyrum! Einhver guðleg forsjón útvegaði mér þó sæti á besta stað meðan margar stórar hetjur sem riðið hafa um ritvöllinn þurftu að standa upp á annan endann. Viðtalið var með afbrigðum skemmtilegt og ég var oft við það að skella upp úr bara yfir æsingnum að ég væri að horfa á þennan mann sem ég dáist svo að. Nú svo skellti maður nú oft upp úr bara út af því að hann var svo fyndinn! Hann sagði til dæmis frábæra sögu af því þegar hann byrjaði að skrifa, þá 29 ára gamall eigandi jazzbars í Tókýó. Hann fór á hafnarboltaleik, drakk bjór og allt í einu laust því niður í hugann á honum að hann ætti að skrifa, fór í næstu ritfangaverslun og keypti penna og blokk og skrifaði eina bók sem hann fékk verðlaun fyrir árið eftir! Svo einfalt var það nú!!! Svo fannst mér líka einstaklega gaman að heyra hann tala um hvað hann elskaði að strauja, sérstaklega skyrtur! Viðtalinu lauk þó allt of snemma, tók bara um hálfa klukkustund. Sem betur fer hafði ég haft vit á því að lauma einni bókanna hans ofan í tösku þegar ég fór að heiman ef einhver stemmning skyldi vera fyrir eiginhandaráritunum! Þegar nokkrar hræður röðuðu sér upp fyrir framan hann með bækurnar sínar slóst ég í hópinn! Æ, mér finnst dálítið dónalegt að vera að heimta það af uppteknu og heimsþekktu fólki að það sé að pára nafnið sitt í bækurnar manns...en fyrst aðrir létu þetta ekki stoppa sig sá ég ekkert því til fyrirstöðu að gera slíkt hið sama. Reyndar var ég nú ekki eins kræf og drengurinn sem var á undan mér! Sá var með alls konar óskir um að láta aumingjans manninn stíla bækurnar á hin og þessi íslensku nöfnin og tróð upp á hann einhverjum sögum af sjálfum sér í leiðinni. Hann hefði betur sleppt því, bókin sem átti að vera stíluð á „Braga“ varð til „Brag“ og fyndast af öllu var bókin sem hann bað um að yrði stíluð á sjálfa sig „To Mummi“  endaði sem „To Mimi“...ég hló hátt innan í mér, svona fer þegar maður fer fram á of mikið! Þegar kom að mér var penni Murakamis bilaður svo ég lánaði honum minn til að skrifa í nokkrar bækur þar á meðal mína! Nú á ég sem sagt bæði áritaða bók og penna sem uppáhaldsrithöfundurinn minn hefur haldið á og skrifað með! Veit ekki alveg hvað ég á að gera við pennann...á ég að setja hann niður í skúffu eða í ramma og upp á vegg? Á ég að nota pennan sjálf eða ekki? Kannski ég noti hann ef ég ákveð að skrifa einhvern tíman stórkostlega skáldsögu!!!

Fór svo í skólann á eftir í tíma í Eftirstríðsbókmenntum. Það var virkilega gaman og það hefur einhvern veginn myndast góð stemmning í þessum litla hóp, allir frekar opnir og ræðnir, bæði í kennslustund og frímínútum! 

Verkefnið sem ég þarf að flytja á morgun er nánast lokið. Enda eins gott því mig langar að komast í Iðnó í kvöld þar sem hetjan sjálf mun lesa úr eigin verkum, ásamt einhverjum öðrum! Er að velta fyrir mér hvort ég eigi að taka með mér fleiri bækur til áritunar ef stemmning myndast í þá áttina...eða ætli ég sé þá of kröfuhörð, líkt og „Mimi“ í dag?! Þá gæti farið illa!!! 

 

7. september 2003

Ég er í stresskasti að reyna að klára þetta bévítans verkefni! Á reyndar ógnarlangt í land enn! Stefnan er nú eiginlega samt að klára þetta í kvöld. Ég á reyndar ekki að skila þessu af mér fyrr en síðdegis á þriðjudag en á morgun langar mig að geta verið laus við svo ég geti farið að sjá átrúnaðargoðið mitt, Haruki Murakami, bæði í hádeginu og um kvöldið! Svo verð ég örugglega svo stressuð eftir þetta verkefnakapphlaup að það steinlíður yfir mig þegar hetjan mætir á svæðið! Það væri nú viss stemmning yfir því!!!

 

6. september 2003

Byrjaði daginn á að sofa dásamlega út! Ég var fyrst á fætur um níu leyti, afar sjaldgæfur atburður þar sem ég er nánast alltaf langseinust að drattast fram úr! Ég þurfti reyndar að hafa mig alla við svo ég kæmist á kóræfingu á réttum tíma, hafði náttúrulega gert ráð fyrir að litla vekjaraklukkan á bænum (enginn off eða snooze takk þar!!!) væri búin að koma mér á lappir löngu fyrr! 

Kóræfingin var dásamleg. Ótrúlega gott að koma aftur. Verkefni vetrarins hljóma öll afar spennandi og við byrjuðum á messu fyrir tvo kóra eftir Frank Martin (æ, nóturnar eru niðri þannig að ég nenni ekki að tékka hvort þetta sé rétt skrifað hjá mér!). Þetta verður án efa skemmtilegur vetur, ekki alveg jafnþétt prógramm og í fyrra sem er bara gott. Og þessu starfsári mun væntanlega ljúka með reisu. Mér skilst að Frakkland og/eða Þýskaland séu á dagskránni. 

Við fengum svo góða gesti eftir að ég kom heim. Afi Bíbí og „Birgitta Haukdal“ kíktu í heimsókn ásamt syninum! Það var alveg rosalega gaman að hitta þau og Maríu og Huga finnst alveg æði að fá afa í heimsókn! Þegar þau voru farin skelltum við okkur í Kringluna að hitta ömmu Imbu sem hafði hug á að gefa börnunum föt til vetrarins. Ég hefði náttúrulega átt að vera heima að læra en ákvað að skella mér með. Ég meina, hvenær í ósköpunum hef ég neitað verslunarferð, hvað þá þegar ekki stendur til að ég borgi neitt!!! Þetta var líka hin skemmtilegasta ferð og börnin dressuð upp. María fékk rosa sæt föt úr nýju stelpudeildinni í NoaNoa og svo fengu þau bæði alveg fullt úr Polarn&Pyret sem er frábær búð (föt fyrir skandinavísk börn og skandinavískar aðstæður!). Svo var að sjálfsögðu endað á ís (ís-epli skv. Huga). 

Ég held að ég hafi haft alveg óstjórnlega gott af að eiga svona skemmtilegan dag og að árangurinn hafi verið mun meiri en ef ég hefði setið fyrir framan tölvuna með kvíðahnút í maganum. Ég finn að núna þegar ég er búin að fá útrás í söng, hitta vini í kórnum, hitta fjölskylduna, rölta í búðir og hugsa um fánýta hluti eins og barnafatatísku...þá er ég bara mun betur í stakk búin til að takast á við verkefni og ritgerð. Ég var farin að mikla þetta svolítið mikið fyrir mér áður! Kvöldinu í kvöld verður þó að einhverju leyti eytt í að vinna útdrátt úr hinin frábæru bók Genre! (Sem betur fer er aðeins hluti hennar á minni könnu, ég er í verkefnahóp með fleira fólki þ.á.m. íslenskukennaranum umtalaða! Gaman að vinna með honum á jafningjagrundvelli!) Síðari hluta kvöldsins ætla ég þó að setjast niður og horfa á Vanilla Sky í sjónvarpinu og gæða mér á gulrótarkökunni sem mér tókst að plata Einar til að baka fyrir mig. Ég á besta mann í heimi!!!

 

5. september 2003

„Heitir ekki Gitta amma Birgitta Haukdal?“

Að þessu spurði María mig áðan og vakti með því skelfingu mína! Gat verið að litla, þriggja ára dóttir mín væri orðin svona mikill unglingur!? Nei, varla! Í dag hefur hún nefninlega líka algjörlega neitað því að hún sé María og kynnt sig í staðinn sem Línu Langsokk! Það eru hörð viðurlög við því að kalla hana Maríu! „Lína“ hefur sem sagt verið heima bæði í dag og í gær vegna starfsdaga á leikskólanum! Henni leiðist nú svolítið, greyinu, sérstaklega þegar Hugi leggur sig og hún hefur engan félagsskap af honum. Þá verður mamma gamla að hlaupa í skarðið. Mér var útlhlutað hlutverkinu „litla barnið“ og það hefur sko verið séð til þess að ég haldi mig við efnið í því en lærdómur orðið að sitja á hakanum!

Enginn skóli hjá mér í dag en af nógu er að taka í heimalærdómnum. Ég þarf að skila inn verkefni á þriðjudaginn og hef verið að reyna að byrja á því í dag. Það hefur gegnið afar illa, svo ekki sé meira sagt, því sem „litla barninu“ hefur mér verið skipað í rúmið, að morgunverðarborði eða í bað!!!

Fyrsta helgarfrí þessarar annar er framundan. Ég væri alveg til í að ég þyrfti ekki að keppast við bæði BA-ritgerð, verkefni og að lesa eins og tvær skáldsögur, allt á næstu dögum! En það verður nú eitthvað pláss búið til fyrir notalegheit. Á morgun er svo fyrsta kóræfing vetrarins. Ég er t.d. meira en til í að búa til pláss fyrir hana. Hlakka til að hitta félgana aftur og hefja upp raust mína. Mikið verður gott, eftir undanfarna viku, að vera innan um fólk sem maður þekkir! Ekki þó alla því væntanlega verða komnir einhverjir nýir félagar líka! En ég þarf algjörlega á því að halda að komast í burtu í nokkra klukkutíma og hætta að hugsa um ritgerðir, verkefni og framtíð mína sem bókmenntafræðingur!!!

Góða helgi öll!

 

4. september 2003

Mér er eitthvað að svelgjast á þessari viku!!! Ég er í það minnsta búin að vera í nettu óstuði undanfarna daga! Nenni alveg bara ómögulega að klára það litla sem upp á vantar til að BA-ritgerðin verði tilbúin, er óendanlega lítil í mér í þessu nýja námi og finnst bara allt eitthvað fúlt! Svona tímabil koma víst alltaf inn á milli, því miður! Vonum bara að þetta verði stutt! Þetta haust skall bara eitthvað svo voðalega harkalega á. Á einum og sama deginum byrjaði ný vika, nýr mánuður, ný árstíð og ég byrja í nýju námi! Og eins og það hafi ekki verið nóg fengum við nýtt veður líka! Eftir alla sumarblíðuna undanfarið eru viðbrigði að geta varla verið úti án þess að pilsið fjúki upp um mann og hver vindhviðan á fætur annarri komi mann til að súpa hveljur!

Til að hressa mig við skrapp ég í Kringluna undir kvöld og fékk svo Svanhildi til að hitta mig þar. Við röltum um og fengum okkur kaffi og höfðum það notalegt. Enduðum svo kvöldið á að sitja í einn og hálfan tíma í bíl á stæðinu við Kringluna og spjalla! Ekki kannski mest kósí staðurinn en alveg óendanlega notalegt að eiga bara skemmtilega kvöldstund með góðri vinkonu...svona eftir undanfarna daga í samvistum við alla stórlaxana í HÍ!!!

 

3. september 2003

Ég held ég hljóti að hafa vaknað með kreppta hnefa á lofti eftir þessa átakamiklu daga í vikunni! En dagurinn reyndist svo hinn ljúfasti. Ég stormaði í skólann og náði að hitta Svanhildi stuttlega á kaffistofunni í Árnagarði. Það er nú alveg frábært að við náum að vera einu sinni í skólanum á sama tíma og í sömu byggingu og getum fengið okkur svona eins og einn kaffibolla saman! Ég dreif mig svo upp í tíma í Eftirstríðsárunum. Það voru aðeins fleiri nemendur mættir en síðast eða sex! Það bólaði hins vegar ekkert á kennaranum! Mér fannst það ágætt. Það gaf gott tóm til að spjalla við samnemendurna og kynnast fólkinu sem er nú eiginlega alveg nauðsynlegt í svona litlum hópi. Enn bólaði ekkert á kennaranum þegar tíu mínútur voru liðnar af tímanum og þá tók óneitanlega að rifjast upp fyrir manni „tíu-mínútna-reglan“ úr menntaskóla.Þá stóðu allir nemendurí viðbragðsstöðu og biðu eftir að fyrstu tíu mínúturnar liðu án kennara! Ef það gerðist var síðan hlaupið út eins hratt og fætur toguðu því reglan sagði jú að tíminn félli niður væri kennarinn ekki mættur eftir fyrstu tíu mínúturnar! Já, það er skömm frá því að segja að hafa á þessum tíma óskað þess daglega, jafnvel oft á dag, að einhver væri veikur!!! En í dag biðum við hins vegar bara róleg þó hinar umtöluðu tíu mínútur væru liðnar. Þegar þær voru orðnar tuttugu var þó ákveðið að líta við á skrifstofu kennarans og reyna að afla upplýsinga um hvað tefði! Skýring var ósköp einföld: kennarinn hélt að tíminn væri á morgun!!! Kennslustundin var því með aðeins öðru sniði en til stóð en mjög skemmtileg samt. Vorum svona að fara yfir bókaútgáfu á bæði stríðsárunum og eftirstríðsárunum sem var allt saman mjög fróðlegt! 

Í dag er ég svo búin að vera að reyna að paufast eitthvað áfram í þessari ritgerð minni. Er nú að verða komin með alveg nóg, satt best að segja. Nú á ég bara eftir að troða þarna inn örfáum heimildum og búa til nýjan inngang. Ég stefni að því að ljúka þessu í vikunni, ekki seinna vænna þar sem ég á að skila verkefni í Ævisögukúrsinum strax á þriðjudag! Úff, púff...best að snúa sér að einhverju öðru en þessu heimasíðudútli!

Svona að lokum er ein mynd af fína blóminu mínu sem ég hef hér á skrifstofunni. Ég fékk það til að blómstra aftur og með helmingi stærri blómum en þegar ég keypti það! Ég er viss um að það er með þessu móti að hvetja mig á lokaspretti ritgerðarinnar!

 

2. september 2003

Lífið er lygasögu líkast!!!

Í dag fór ég í erfiðustu kennslustund sem ég upplifað á allri minni skólagöngu. Mætti hress og kát til leiks á námskeiðið „Ævisögur - sjálfsævisögur - skáldsögur“ en það leið ekki á löngu þar til það fóru að renna á mig tvær grímur. Líkt og í kúrsinum sem ég fór í í gær var námsefnið gríðarlegt en í ofan á lag verða ekki hefðbundir fyrirlestrar heldur þurfa nemendur að stýra umræðum sem gerir það að verkum að það er nánast ómögulegt að koma ólesinn í tíma. Auk þess eru öll verkefni gríðarlega þung og mikil. Ég var orðin heldur svartsýn þarna þegar kennararnir, í ofan á lag, stungu upp á að flytja kennslustundirnar til og kenna fjóra tíma að kvöldi í staðinn fyrir tvo tíma tvisvar í viku!!! Ég veit ekki hvort ég get nokkurn tíman lýst því hvað það var mikill höfðuverkur fyrir mig að setja saman skynsamlega stundaskrá sem ég þurfti svo að bera undir Birnu sem aftur á móti þurfti að bera hana undir yfirmann sinn í vinnunni og biðja um frí á tilteknum tímum! Það að flytja til tíma er því ekkert grín frá mínum bæjardyrum séð! Ég er fullkomlega háð vaktstýrunni á Vogi með alla mína skólagöngu í haust!!! Ég get eiginlega ekki lýst því hvað ég varð ólýsanlega reið og leið þarna í dag! Allt sem sagt var fór inn um annað eyrað og út um hitt þar sem ég gat ekki hætt að velta fyrir mér hvað ég ætti eiginlega til bragðs að taka. Fljótlega áttaði ég mig á því að ég ætti svo sem að geta sótt alla þessa fjóra tíma sem nýja kennslufyrirkomulagið gerir ráð fyrir...en enn var eftir óleyst hvernig ég ætti mögulega að geta sinnt öllu þessu heimanámi með litla herrann minn hér með mér allan daginn, alla daga. Þegar ég strunsaði heim í rigningunni hefur sennilega mátt heyra brakið í hausnum á mér víðsvegar um borgina þegar ég bræddi með mér hvort ég ætti að taka báða þessa kúrsa, vitandi að ég gæti aldrei gert mitt besta eða hvort ég ætti að taka bara annan og fórna námslánunum. Hvorir tveggja afar slæmir kostir!!! Ég hugsaði og hugsaði og hugsaði en komst ekki að neinni niðurstöðu og var orðin ansi niðurdregin hér undir kvöld. Ekki nóg með að ég vissi hvað ég ætti eiginlega til bragðs að taka í stöðunni heldur var ég að sjálfsögðu einhvern veginn búin að sannfæra mig um að ég væri einn glataðasti bókmenntafræðinemi sem skráður hefði verið til leiks í Háskóla Íslands og að það væri kannski eins gott að ég hætti bara í námi og færi að vinna á Subway!!! Á svona þunglyndislegum nótum leið dagurinn. Ég var rétt að setjast við kvöldverðarborðið, döpur í bragði, þegar síminn hringdi....og nú fer að draga til tíðinda!!! Á línunni var leikskólastjóri Drafnarborgar sem tilkynnti mér umbúðalaust að aðstæður hefðu breyst og Hugi fengi pláss á Drafnarborg!!!!!!!!!!!!!!! Ég hef aldrei orðið eins hissa á ævi minni! Og glöð! Ef Hugi fer á leikskóla get ég nefninlega nýtt daginn í lærdóm, sinnt þessum áhugaverðu námskeiðum af eins miklum myndugleik og þau eiga skilinn en án þess að varpa fjölskyldunni á heljarþröm sem ég óttaðist óneitnalega að myndi gerast ef ég hefði þurft að loka mig af til að læra allar stundir sem Einar væri heima en samt án þess að ná að komast yfir allt efnið. Og hvílík tilviljun að þetta símtal hafi akkúrat komið þennan dag, á þessari stundu þegar ég var u.þ.b. að fara að hætta við námið í vetur!!! 

Já lífið er sko stundum lygasögu líkast...og stundum er eins og lífið sé hreinlega að segja manni eitthvað, færa manni skilaboð. Ég kýs að líta á það sem svo að í þessu tilviki hafi lífið ekki einungis sagt mér að ég ætti að taka námskeiðið „Ævisögur - sjálfsævisögur - skáldsögur“ heldur líka að ég sé bara fjári gott efni í bókmenntafræðing!!!

 

1. september 2003

Nýr mánuður eða ný öld?

Mér líður frekar eins og dagurinn í dag marki upphaf nýrrar aldar en nýs mánaðar! Frá og með deginum í dag er ég orðinn mastersnemandi! Auk þess markar þessi dagur þáttaskil að mörgu öðru leyti. Ég hitti leiðbeinandann vegna ritgerðarinnar í síðasta skipti áðan, Einar er að byrja nýtt fyrirkomulag í vinnunni og nýir nágrannar eru að flytja inn í kjallarann. Eitt er þó því miður ekki að breytast, ég er enn heimavinnandi húsmóðir sem gerir allt hitt svolítið erfitt.

En byrjum á byrjuninni! Eftir yndislegan morgun í samvistum við þær Judith og Ingu tók við mesta stress sem ég hef upplifað síðan ég veit ekki hvenær! Birna kom til að vera með Huga og ég fór að taka til kerruna svo þau gætu spókað sig úti við. Þar sem ég átti að vera mætt á fund til leiðbeinandans kom óþægilega á óvart að þurrkherbergið í kjallaranum, þar sem kerran er geymd, skyldi vera yfirfullt af þvottavélum! Ein þeirra er nú á okkar ábyrgð en svo var þar fyrir þvottavél nýju nágrannana og þvottavél stelpunnar sem er að flytja! Ég þakkaði mínum sæla fyrir að Judith og Inga voru enn með mér og gátu hjálpað mér að lyfta kerrunni yfir þessi ósköp. En þetta tafði mig nógu mikið til að vera orðin allt of sein!!! Ekki góð leið til að byrja fyrsta skóladaginn og sló svo sannarlega tóninn fyrir það sem á eftir fylgdi. 

Ég byrjaði sem sagt á fundi hjá kennaranum. Ritgerðin er á lokasprettinum en ég þarf víst enn að betrumbæta þennan inngang minn! Æ, ég verð að játa að ég er orðin ósköp svartsýn yfir þessu öllu saman og er  komin á stigið að-klára-þetta-og-fá-fimm!!! Já, það hlaut að koma að því að metnaðarleysið tæki völdin! Það var ýmislegt sem þurfti að fara yfir á þessum síðasta fundi okkar sem þó tók allt of skjótan enda þegar ég leit á klukkuna og áttaði mig á að ég átti að vera mætt í fyrstu kennslustundina mína sem mastersnemandi ... og ég átti eftir að finna út í hvaða stofu ég átti að vera og fara niður með leiðbeinandanum að ljósrita nokkur blöð!!! Þegar því var lokið hljóp ég út í  rigninguna og veðjaði sem betur fer á rétta stofu! Kom þangað inn rigningarblaut, móð og másandi og settist niður. Blasir þá ekki við mér gamli íslenskukennarinn minn úr menntaskóla, kominn þarna í námsleyfi og verður samnemandi minn í vetur!!! Mér brá nú svolítið fyrst og gat ekki hætt að hugsa um stolnu ritgerðina sem ég skilaði inn til hans þarna um árið eða sexuna sem ég fékk á einu skyndiprófinu hjá honum!!! En þetta er allra vænsti kall og eftir á að hyggja fór ég að líta á það sem svo að þarna væri þó a.m.k. kominn einn nemandi sem ég þekkti!!! Já, verður án efa skemmtilegt að hafa hann með! Þetta er fámennt námskeið en mjög spennandi þar sem fjallað er um bókmenntir eftirstríðsáranna á Íslandi! Mér fannst ógnargaman í þessum fyrsta tíma en frekar stressandi. Mér sýnist á öllu að það verði teknar fyrir svona 3-4 skáldsögur á viku! Og ætli það verði ekki annað eins tekið fyrir í hinum kúrsinum sem þýðir að það verður nóg að gera fyrir heimavinnandi húsmóðurina með soninn á handlegg allan daginn!!! En ég tek á því þegar þar að kemur! Enn eitt stresskast dagsins byrjaði svo þegar ég áhugasamir kennararnir voru enn að fimm mínútum eftir að kennslustund hefði átt að ljúka. Heima beið nefninlega Birna frænka, orðin allt of sein í vinnuna! Ég reyndi að líta á klukkuna á áberandi hátt og allt sem fram fór þessar síðustu mínútur fór fullkomlega fyrir ofan garð og neðan! Ég slapp þó loks út og flýtti mér heim til að leysa Birnu af og bruna út á Drafnarborg eftir Maríu! 

Ég játa það að líkaminn er enn fullur af adrenalíni eftir þennan dag! Ég kom því heim og sauð fisk og kartöflur á met hraða, stappaði á diska eins og ég ætti lífið að leysa, sprautaði tómatsósu í stríðum straumum yfir allt saman! Eins hefur þessu dagbókarfærsla orðið til á mjög ofsafenginn hátt!!!Átta mig innst inni á því að ég þurfi ekkert að vera stressuð lengur, hér heima er jú lítið að gerast og sjaldan ástæða til að flýta sér mikið! En einhvern veginn tekst ekki að koma þeim skilaboðum frá heila og út í líkama. Auk þess er Einar á nýrri gerð af vakt á heilsugæslustöðinni. Hann hafði búið sig undir rólegar stundir enda átti fæstir von á að mikið yrði að gera fyrst um sinn. Þegar ég heyrði hins vegar í honum fyrr í dag var hann þegar búinn að afgreiða 5 skjólstæðinga og 17 biðu!!!! Og vaktin ekki hálfnuð!!! Ég á því ekki von á honum heim í bráð!

Í þessum skrifuðu orðum var ég að uppgötva að ég er ekkert búin að borða í dag nema eitt croissant fyrir hádegið þó komið sé fram að kvöldmat! Það skyldi þó ekki vera að þessi staðreynd hafi haft einhver áhrif á andlegt ástand mitt í dag...?!!!! Ég held í það minnsta að ég vendi nú mínu kvæði í kross, fái mér góðan kvöldverð og nýti kvöldið í gríðarlega afslöppun eftir þennan strembna dag!!!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband       Gestabókin okkar