September í Uppsölum

Septembermánuður hefur verið viðburðaríkur hér í Uppsölum það sem af er ... enda kannski ekki við öðru að búast þar sem allt er enn nýtt fyrir okkur.

Lautarferðirnar hafa komið sterkar inn hjá Maríu og Huga þennan mánuðinn! Þeim þykir ótrúlegt fjör að láta smyrja samlokur ofan í sig og fá að snæða þær á teppi úti í garði!

Fáklædd „börn“ og kisur eru velkomin í lautarferðir með þessum sætu systkinum!

Mánudaginn 4. september byrjaði Hugi í leikskóla, nánar tiltekið Hemmingsförskolan í Luthagen hverfinu. Við erum öll geypilega ánægð með þennan leikskóla og förum þangað glöð á hverjum morgni þótt við þurfum að keyra dálítinn spotta. Þarna er Hugi í fyrstu ávaxtastundinni sinni undir trjánum í garðinum. Hann er þessi í ljósbláu hettupeysunni lengst til vinstri.

Þarna er hann í nærmynd að borða nektarínu. Það var óskaplega stolt móðir sem tók þessar myndir af duglegum leikskólastrák í nýju landi!

Fyrsta leikskólavikan fór í aðlögun og ég gætti þess vel að vera í nágrenni leikskólans þegar pilturinn fór að vera þar einn þótt allt gengi óskaplega vel. Einn daginn rölti ég um í gamla kirkjugarðinum hér í Uppsölum sem er einmitt bara í nokkurra mínútna fjarlægð frá leikskólanum. Það var ótrúlega gaman að rölta þar ein í sólinni, velta vöngum yfir tilverunni og taka nokkrar myndir.

  

Þar voru til dæmis þessi fallegu snjóber ... og ég sá héra!!! Hann stökk reyndar í burtu um leið og hann sá mig en mér fannst þetta ekkert minna skemmtilegt fyrir því og sendi Einari sms alveg um leið! Ætli innfæddir Uppsalabúar séu jafn æstir yfir hérum og ég?!

Eitt af því sem mér finnst svo skemmtilegt við umhverfið hérna er að á hverju strái eru virkilega falleg fjölbýlishús og þetta ljósbláa er í sérstöku uppáhaldi hjá mér!

Eftir því sem lengra leið á leikskólaaðlögunina fór ég að geta leyft mér að vera lengur í burtu. Einn daginn ákvað ég að skoða mig um í gamla bænum og fór m.a. inn í dómkirkjuna hér í Uppsölum. Ég hef nú skoðað ýmsar merkar kirkjur víða um heim en verð að segja að þessi er ólík þeim öllum. Ég get ekki beðið eftir að skoða hana með ömmu á Sóló!

Hæst í borginni stendur aðalbygging Háskólans. Hún er ægifögur eins og sjá má enda er Uppsalaháskóli eitt elsta og virtasta menntasetur Norðurlanda.

Fyrir framan aðalbygginguna stendur þessi. Ég veit ekki hvað hann gerði sem var svona merkilegt en það er hins vegar nokkuð ljóst að hvað sem það var þá er hann gífurlega montinn af því!

Hann á líka vinkonu sem situr þarna fyrir neðan hann ... nema hvað!

Skyldu þessi hafa verið að breyta skráningunni sinni? Kannski var bara búið að loka Nemendaskránni eða þá að biðröðin hefur verið svo löng (eins og gjarnan vill gerast í upphafi annar) að þau hafa hrökklast frá? Kannski er þessi í hvítu peysunni að segja við hin: Hey, hittumst á Kaffi Kúk eftir tuttugu mínútur, ég þarf aðeins að skreppa! Skyldi yfirhöfuð vera til Kaffi Kúkur í Uppsalaháskóla? Aðalbyggingin ber það alla vega ekki með sér!

Þetta er háskólabókasafnið, Carolina Rediviva. 1. maí ár hvert stígur rektor Uppsalaháskóla út á svalir þessarar byggingar og veifar hvítri stúdentshúfu sinni. Fjöldi stúdenta safnast fyrir framan bókasafnið og allir veifa þeir rektornum til baka með sínum stúdentshúfum ...

... og hlaupa svo niður Carolina-brekkuna sem liggur frá bókasafninu. Þessi atburður markar vorkomuna hér í bæ og samkvæmt hefðinni eiga stúdentarnir að skipta úr vetrarhöfuðbúnaði yfir í sumarhöfuðbúnað á þessum tímamótum (hvernig í fjáranum er vetrarhöfuðbúnaður og sumarhöfuðbúnaður?!?). Ég hlakka brjálæðislega til að fylgjast með þessu öllu saman næsta vor. Finnst ykkur að ég ætti að mæta með mína stúdentshúfu og reyna að lauma mér í fjöldann?

Í Uppsölum eru allir á hjólum. Ég veit að hugmyndin um hjól loðir í hugum okkar Íslendinga við Norðurlöndin almennt enda fólk í Skandinavíu mun duglegra að hjóla en við. Ég get hins vegar alveg lofað ykkur því að í Uppsölum er mun meira hjólað en almennt gengur og gerist enda hjólreiðar algjörlega samofnar ímynd borgarinnar. Þessi mynd er tekin fyrir utan Ekonomikum, eina af háskólabyggingunum. Það er rétt að taka það fram að þetta er aðeins eitt af fjölmörgum hjólreiðastæðum við bygginguna!

Ég á mjög fínt hjól sem ég er algjörlega sátt við. Engu að síður er ég alveg að deyja mig langar svo í svona hjól! Ég stefni að því markvisst að láta stela gamla hjólinu mínu til að réttlæta kaupin á einum svona fák!

Hér hjóla allir, menn, konur ... og börn! Svona lítur hjólastæðið fyrir utan leikskólans hans Huga út á hverjum degi!

Þrátt fyrir allar hjólreiðarnar ákváðum við að fjárfesta í nýjum bíl! Þennan stórglæsilega Saab 9-3, árgerð 2001, keyptum við okkur snemma í september. Öll fjölskyldan gladdist ósegjanlega mikið og það fyrsta sem við gerðum var að fara í rækilega búðarferð (þið munið hvernig þær fóru í öllu bílleysinu). Svo mikil var gleði okkar yfir að geta verslað eins og við vildum að í fyrstu búðarferðinni keyptum við vörur fyrir 23 þúsund íslenskar krónur!!! Reyndar segir það kannski meira um slakt ástand ísskápsins í bílleysinu en verslunargleði fjölskyldunnar!!!

Bíll og bílskúr! Ég er orðin voða dugleg að keyra hérna þótt ég sé auðvitað mest að fara sömu rúntana. Í það minnsta hef ég ekki enn komist í hann krappann á bílnum en ég reykspóla samt óeðlilega mikið enda er ég engan veginn vön svona kraftmiklum bíl!

  

Ótrúlega sætir krakkar á leiðinni í fyrstu bílferðina!

Já það er sko alveg ótrúlega notalegt í bílnum okkar!!!

Einar er rosalega klár ... kann að sleppa höndum af stýri (en auðvitað bara í örfáar sekúndur ... og bara annarri í einu)!

Eftir þessa rosalegu bíl- og búðarferð varð auðvitað að elda eitthvað gott úr öllum varningnum. Við ákváðum að halda síðustu útigrillveislu sumarsins enda vorum við nokkuð sannfærð um að tækifærum til slíks færi óðum fækkandi (við reyndumst ekki sannspá og erum búin að grilla úti nokkrum sinnum síðan!). Boðið var upp á hressandi kjúklingaspjót með unaðslega góðri satay hnetusósu. Spjótin féllu í góðan jarðveg hjá systkinunum ...

... og ekki þótti þeim síðra að fá að drekka úr glösum á fæti en slíkt er ævinlega mikið sport!

Við höfðum það huggulegt í kvöldrökkrinu við kertaljós.

Við erum búin að komast að því að kjúklingaspjót með satay sósu eru um það bil það besta í heimi. Öllum gestum verður boðið upp á þessar dásemdir í framtíðinni!!!

María með sykurkringlu sem hún er sannfærð um að Abbi úr Maddittarbókunum hafi bakað!

Enn ein lautarferðin í garðinum!!!

Fyrisån sem rennur í gegnum miðbæ Uppsala ... takið eftr hjólunum handan við ánna!

Fyrisån í hina áttina! Á góðviðrisdögum hrúgast fólk niður að ánni, situr á litlu bryggjunni sem þarna sést, á bekkjum eða tröppum og nýtur sólarinnar.

Ofan við ánna er svo gamli bærinn með öllum sínum dómkirkjum, háskólum og fallegum húsum sem eru annað hvort bleik eða karrýgul!

Dómkirkjuturnarnir sjást víða að!

  

Maríu var boðið í afmæli til bekkjarsystur um daginn og þangað fór hún fín og sæt með pakka! Pabbinn keyrði hana fram og til baka en skvísan stóð sig eins og hetja ein og óstudd í afmælinu. Hún er aðeins farin að spreyta sig aðeins á að tala sænsku og í afmælinu hafði hún til að mynda sagt við eina stelpu sem henni fannst í glæsilegum sparikjól: „Du är jättefin!“ Hún er dugleg þessi stelpa ... og jättefin sjálf!