Sænskt síðsumar

Enn fleiri myndir af nýbúafjölskyldunni í Vänge!

Eitt af fyrstu verkefnum okkar Einars eftir að við fluttum hingað var að kanna sænska dagblaðamarkaðinn með það fyrir augum að velja okkur eitt blað til að gerast áskrifendur að. Við erum bæði mikið blaðafólk en auk þess eru dagblöð ágæt leið til að þjálfa sig í að lesa tungumálið og auðvitað fylgjast með öllu því helsta sem er að gerast í nýja heimalandinu. Eftir dágóða umhugsun völdum við Dagens Nyheter. Mikil var gleði okkar þegar fyrsta blaðið var dregið upp úr bláa póstkassanum og enn meiri var gleði mín þegar ég áttaði mig á hversu gríðarlega öflug öll menningarumfjöllun er í blaðinu, ekki slæmt fyrir bókmenntafræðinginn! Hér sést heimasætan snemma morguns á leið í blaðaferð í póstkassann fyrir mömmu sína!

Sama dag og Einar byrjaði að vinna fengum við góðan gest í heimsókn. Jódís frænka var í nokkurra daga heimsókn í Stokkhólmi og skellti sér hingað upp eftir til okkar í heimsókn einn daginn. Hér er hún á nýmáluðum ganginum og með glænýja fatahengið og skógrindina í baksýn!

Maríu og Huga fannst ákaflega skemmtilegt að fá þessa miklu uppáhaldsfrænku í heimsókn ... en skildu hins vegar ekkert í því hvar Hrappur væri! Við drógum Jódísi auðvitað í bæjarferð inn til Uppsala og hér eru allir á leið í strætóinn. Það vildi að sjálfsögðu enginn leiða mömmu!

Þarna erum við frænkurnar á sushi stað í miðbæ Uppsala. Ég get borðað endalaust af spicy tuna roll! Jódís hélt svo aftur til Stokkhólms um kvöldið og við erum strax farin að hlakka til að fá hana aftur og viljum þá helst að Hrappur verði með í för!

Frá því bílaleigubílnum góða var skilað inn höfum við verið bíllaus. Ég fór strax að sakna þess að hafa ekki farartæki en aldrei hef ég þó saknað þess eins mikið og þegar þessi mynd var tekin! Við fjölskyldan ákváðum að fara í ærlega búðarferð í stórmarkað sem er í u.þ.b. 10 mínútna akstursfjarlægð frá heimabyggð okkar. Þangað tókum við strætó seint í eftirmiðdaginn og versluðum fyrir næstu vikuna eða svo, fylltum báðar innkaupakerrurnar og vorum þar að auki með stóran poka. Síðan settumst við í lítið strætóskýli alveg ofan í götunni og biðum eftir vagninum okkar. Hann birtist von bráðar og við risum á fætur, gerðum innkaupakerrurnar klárar og gripum í börnin til að geta dregið þau hratt og örugglega inn í strætó. Vagninn renndi hægt upp á að skýlinu ... en skyndilega og skýringalaust gaf bílstjórinn í, sveigði aftur út á veginn og brunaði áfram en skildi okkur eftir í forundran! Þarna stóðum við, niðurrignd, með farangur sem jafnaðist á við millilandaflutninga og tvö úrill börn í eftirdragi ... og klukkutími í næsta strætó! Í stað þess að hanga og bíða í skýlinu ákváðum við að rölta af stað eftir göngustígnum. Eftir töluvert labb kom hins vegar í ljós að í raun og veru hafði bara verið hálftími í næsta vagn. Þar sem við vissum það ekki brunaði hann framhjá okkur þar sem við stóðum við þjóðveginn alveg grunlaus. Næsti vagn þar á eftir var hins vegar klukkutíma á eftir þessum seinni! Þegar upp var staðið gengum við sem sagt eftir þjóðveginum í einn og hálfan tíma og hafði þá búðarferðin allt í allt tekið okkur um þrjár klukkustundir! Það slagar hátt upp í hálfan vinnudag! Þarna erum við nýlögð af stað í gönguna miklu! Takið eftir hvað Hugi er ókyrr á myndinni ...

... þetta var ástæðan!!!

Feðginin reyna að finna góða skapið innra með sér þrátt fyrir að vera strandaglópar á vegum úti!

Húsmóðirin sagði hins vegar „Hingað og ekki lengra, nú kaupum við bíl!“ Daginn eftir hófst líka mikil leit að rétta bílnum sem stendur raunar enn yfir. Þangað til bílamálin eru í höfn hafa allar stórinnkaupaferðir í Maxi verið blásnar af!

Um daginn bökuðum við María tígrisdýraköku eftir sænskri uppskrift. Tígrisdýrakökuna þekkjum við Íslendingar undir heitinu marmarakaka en það segir sig auðvitað sjálft að sænska nafnið er miklu meira spennandi!

Hér eru systkinin sætu á leiðinni í enn eina strætóferðina en í dálítið undarlegum stellingum þarna uppi á bekknum!

Hér eru þau hins vegar bara sæt! Förinni var heitið inn til Uppsala þar sem Einar slóst í för með okkur og þaðan var lestin tekin inn til Stokkhólms. Erindið: Að sækja kaffivélina góðu, Magdalenu Pavoni, í viðgerð!

Vélin komst í hendur eigenda sinna skömmu síðar og ákveðið var að halda upp á endurfundina á kaffihúsinu Kladdkakan í Gamla Stan í Stokkhólmi. Ég fékk mér að sjálfsögðu kladdköku með kaffinu mínu ... nema hvað! Við mæðgurnar vorum kátar að vera komnar aftur til Stokkhólms enda eru allir fjölskyldumeðlimir sammála um að þar sé gaman að vera!

Huga fannst ísinn góður ...

... en ísáhugann hefur hann erft frá pabba sínum!

Eftir stutt kaffihúsastopp var ákveðið að rölta aðeins um Gamla Stan. Hér er 3/4 fjölskyldunnar á Stora torget.

Og hér er eldir helmingur fjölskyldunnar á sama stað!

Prinsessuáhugakonan María varð að sjálfsögðu að fá að skoða konungshöllina. Henni fannst nú byggingin ekki mjög tilkomumikil en hafði nokkurn áhuga á varðmönnunum við innganginn. Ekki síst vöktu litlu skýlin þeirra áhuga hennar og spurði hún foreldrana hvort þetta væru klósett fyrir þá. Væntanlega algengur misskilningur! Hér sést hún hlæja hrossahlátri með höll, varðmann og klósett í baksýn!

María lætur sig dreyma um kórónur, glerskó, prinsessur og púffermakjóla!

Þótt hin konunglegu sænsku systkin séu voðalega sæt slá þau ekki þessum systkinum við í fegurð og yndisleika!

Karl Gústaf og Silvía slá okkur Einar hins vegar alveg út!

Ungfrú Pavoni kom með að heimsækja höllina en varð að vera í poka!

Hugi var heillaður af þessum „byssum á hjólbörum“ og stillti sér upp fyrir myndatöku!

Eftir hallarskoðunina settumst við aftur á Stora torget. Hvað skyldi þessi íbúð kosta?!

Hugi fylgist með mannlífinu.

Við mæðginin knúsumst í Gamla Stan. Ég bið ykkur náðarsamlegast um að reyna að líta fram hjá gráu rótinni á myndunum af mér. Eitt af mínum fyrstu verkefnum eftir flutninginn var að leita að réttu hárgreiðslustofunni í nýju landi. Eftir töluverða rannsóknarvinnu valdi ég eina sem mér leist vel á. Tók þá við nokkurra vikna ferli þar sem ég taldi í mig kjark að fara inn og panta mér tíma. Þegar gráa rótin var farin að fikra sig skuggalega nálægt eyrunum greip örvæntingin mig og ég sá að það væri annað hvort að duga eða drepast. Í næstu bæjarferð stormaði ég því inn á hárgreiðslustofuna og pantaði mér tíma á „sænsku“ (ég tala að sjálfsögðu ekki sænsku heldur bara eitthvað bullmál, samsett úr dönsku, íslensku og nokkrum sænskum orðum á stangli). Eftir þetta þrekvirki var ég gríðarlega stolt af sjálfri mér og fannst ég algjörlega hafa sigrað heiminn! Hins vegar fékk ég ekki tíma fyrr en 12. september þannig að það verður mjög gráhærður sigurvegari sem birtist á myndum hér næstu vikurnar!

Eins og allir vita sem komið hafa til Stokkhólms er rölt um Gamla Stan algjörlega óviðjafnanlegt. Ég man hreinlega ekki eftir neinni borg sem ég hef heimsótt þar sem jafnskemmtilegan og sjarmerandi bæjarhluta er að finna! Af og til opnast þröngar göturnar nógu mikið til að það glitt í stórfenglegt útsýni yfir til Södermalm.

Stokkhólmsferðinni lukum við á uppáhaldsveitingastaðnum okkar Einars í Gamla Stan, Michaelangelo. Reyndar tókst þeim að falla nokkuð í áliti hjá mér í þetta sinn og hver veit nema ég setji mér það markmið að finna nýjan uppáhaldsstað í næstu Stokkhólmsferðum! Öll aðstoð vina og skyldmenna frá Íslandi væri vel þegin við það verkefni!

Kvöldinu lauk með ævintýralegum hætti þar sem við misstum næstum af lestinni aftur til Uppsala. Eftir æsilega ferð í Tunnelbananum tóku við hlaup um Central Stationen með börnin í eftirdragi. Eftir dágóðan sprett greip Einar Huga í fangið til að flýta fyrir en stelpan á þessari mynd hljóp hins vegar sjálf og hélt fullkomlega í við okkur fullorðna fólkið ... og það þó að hún væri farin að hágráta yfir tilhugsuninni um að við pabbi hennar myndum kannski ná að stökkva upp í lestina rétt áður en hún renndi úr hlaði en skilja hana eftir á brautarpallinum! Allt fór þó vel að lokum og við smeygðum okkur öll fjögur um borð rétt áður en lestin brunaði af stað!

Nýlega hleypti Einar af stokkunum aðgerðinni Björgum eplunum! Nú keppist hann við að tína eplin af trjánum áður en þau skemmast og er í óðaönn að þróa ýmsar varðveisluaðferðir! Systkinin hafa slegist í lið með honum og aðstoða við eplatínsluna af miklum krafti eins og sjá má!

Huga finnst þó snjallast að borða eplin bara beint ... einföld en áhrifarík leið til að bjarga þeim frá skemmdum!

Ekkert eðlilega sætir eplatínslumenn!

María tekur hlutverk sitt öllu alvarlegar en litli bróðir og er jafnmetnaðarfull í eplatínslunni og öllum öðrum verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur!

María undir eplatrjánum.

Einar sá sem var að ef honum ætti að takast að bjarga eplunum af einhverju viti yrði hann að gjöra svo vel að klifra upp í trén eftir þeim. Og það gerði hann!

Ég tók sjálf lítinn þátt í björgunaraðgerðunum en sá þess í stað um að mynda þær. Tók í leiðinni mynd af þessu fiðrildi sem er það stærsta sem ég hef séð á ævinni. Það sést því miður ekki almennilega á myndinni hvað það er stórt en til viðmiðunar er þó rétt að það komi fram að eplin þarna undir eru ekkert mikið minni en þau sem seld eru í búðum á Íslandi.

Samvinna!

Um daginn varð María alveg friðlaus að fá að hringja í langömmu sína sem kennd er við Sóló. Sú var hins vegar ekki heima á Sóló heldur stödd í sumarbústað sínum í Grímsnesinu. Skömmu seinna þegar Imba amma hringdi til okkar fékk María að tala við hana og hvarf leyndardómsfull með símann upp í herbergið sitt. Að því símtali loknu kom María niður með blokkina sína og hafði þá fengið gsm númer langömmunnar uppgefið og skrifað það á blað alveg sjálf! Mér finnst þetta krúttlegasta niðurskrifaða símanúmer sem ég hef séð og litla daman fékk að sjálfsögðu að hringja í það fyrst hún hafði haft svona mikið fyrir þessu!

Mánudagurinn 21. ágúst var stór dagur í lífi okkar allra. Þann dag byrjaði María í skóla!!! Engin orð fá lýst því hvað ég var stolt af henni þennan dag! Mér hefði sjálfsagt þótt nóg um þótt þetta hefði allt átt sér stað í vesturbæ Reykjavíkur en þegar skólagangan hefst í nýju umhverfi og á nýju og algjörlega ókunnu tungumáli er aðdáun manns á barninu áreiðanlega tíföld! María hefur staðið sig alveg hreint ótrúlega vel og þykir mjög gaman í Vänge skola!

Hér er hún komin heim eftir fyrsta daginn sinn, stóra stelpan mín! Eina umkvörtunarefni hennar vegna skólans er að henni finnst þetta fullmikið líkjast leikskóla ... getur ekki séð að þau séu að læra neitt sérstakt! Hún var mikið hneyksluð þegar Fröken Cecilia, kennarinn hennar, sagði mér að þau hefðu verið að reikna en í ljós kom að í „reikningnum“ fólst að telja upp að fimm! Það kallar ungfrú María nú ekki að reikna enda löngu farin að leggja saman og draga frá og á góðum degi margfaldar hún jafnframt og deilir líka! Sögnin að „räkna“ þýðir reyndar bæði að reikna og að telja á sænsku þannig að ekki er við Ceciliu að sakast!