Pínulitla júlíalbúmið

Fyrir utan ferðalagamyndir tók ég næstum engar myndir í júlí. Þær örfáu sem til eru virðast næstum allar eiga það sameiginlegt að vera af mat! Ég tímdi samt einhvern veginn ekki að skilja þær eftir svo hér kemur minnsta albúm í sögu þessarar síðu!

Það gerist ekkert sérstaklega oft að Baldur Tumi detti út af svona óvænt. Okkur finnst það því alltaf jafn fyndið og dúllulegt þegar það gerist! Maður verður líka alveg óskaplega þreyttur af að vera á 10 daga bílferðalagi um Svíþjóð!

Hún Rósa vinkona mín sem býr í Järlåsa er með risa risa risastórt kirsuberjatré í garðinum sínum. Það er svo stórt að það er ekki hægt að tína nema svona 10% af berjunum á því þótt maður noti stiga! Og það er enn fremur til marks um hvað það er risastórt að hún leyfði mér að tína góðan slatta af þessum 10%! Úr kirsuberjunum gerðum við saft og svo reyndi ég mig við kirsuberjaböku að hætti Twin Peaks!

Ekki sem verst!

Í júlí byrjaði ég alla morgna á að trítla berfætt og á náttkjólnum út í garð til að tína fersk hindber út á morgunjógúrtina og heimagerða múslíið! Himneskt!

Ég var ekki ein um að þykja berin góð!

Þann 26. júlí voru fimm ár síðan við fluttum til Svíþjóðar. Við höfum nú gjarnan gert okkur einhvern pínulítinn dagamun að þessu tilefni og í ár var það María sem stóð fyrir veitingunum og bakaði ljúffenga perutertu sem hún skreytti með sænska fánanum með áletruninni „5 ár“.

Æ, æ, æ, ekki skemma!

Að lokum kemur svo eitt myndband sem María tók á sína myndavél af Baldri Tuma að dansa við uppáhaldslagið sitt! Eins og áður hefur komið fram er Baldur Tumi mikið dansfífl og hefur ýmsa dansstíla á takteinum. Þetta er stuðdansinn hans! Við getum enn hlegið okkur máttlaus að þessu!

 

Við „So you think you can dance“ aðdáendurnir hljótum alla vega að vera sammála um að hann noti gólfið einstaklega vel!