Páskar í Hollandi

Þetta árið eyddum við páskunum í  Hollandi hjá Ingu, Vigni, Björtu Ingu og Ísleifi Elí. sem búa í Den Haag. Fimm unaðslegir dagar undir blómstrandi trjám í góðra vina hóp ... er hægt að hugsa sér nokkuð betra?!

 

Miðvikudagurinn 4. apríl

Flugferðin frá Stokkhólmi til Amsterdam tekur innan við tvo tíma (afar þægilegt fyrir flughrædda!). Börnunum tókst báðum að sofa nánast alla leiðina ... ég man ekki hvenær það gerðist síðast í flugi! En falleg voru þau og friðsæl og skelkaðri móður sinni til mikillar hughreystingar!

Inga og Björt sóttu okkur á flugvöllinn og saman tókum við lest og tramma heim á Buijs Ballotstraat. Þar biðu barnanna litlir pakkar, einn playmokall á mann! Gjafirnar vöktu að sjálfsögðu mikla lukku og vinirnir fóru strax að leika sér saman enda þó nokkuð langt síðan þau hittust síðast.

  

Við komum líka með gjafir með okkur, meðal annars færðum við Ingu þessa geysifallegu hárspöng/hatt sem Jódís frænka framleiddi í heimsókn sinni á Konsulentvägen fyrir skemmstu. (Ég minni á að hattarnir fást í Gyllta kettinum!!!) Ísleifur tók gestunum með mikilli ró, hann var hins vegar afar kátur að sjá mömmu sína aftur eftir sirka tveggja tíma aðskilnað! Það er nú ekki margt sem jafnast á við svona litla og sæta mömmustráka!!!

Skírdagur, 5. apríl

Á skírdegi þurftu Björt og Ísleifur að fara í skólana sína en við hin borðuðum notalegan morgunverð í rólegheitunum. Ég held að það skemmtilegasta við að heimsækja vini í útlöndum sé að borða letilegan morgunverð saman, helst þannig að hádegismaturinn taki bara við í beinu framhaldi. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að drekka mikið af góðu kaffi á þessu tímabili!

Ég á næstum alveg eins mynd af Ingu frá því fyrir nákvæmlega tveimur árum (það skeikar bara þremur dögum!). Það er bara eitthvað við þessa grænu skápa og steinvaskinn sem ég elska svo mikið!

Vignir og Hugi velja sér af gnægtarborðinu.

Eftir þennan fyrsta letilega morgunmat fylgdi Inga okkur Konsulentunum niður í miðbæ Haag. Á einu torginu var lítill fornmunamarkaður, meðal annars með gömlum bókum. Ég heillast alltaf jafnmikið af barnabókum frá því í kringum miðja síðustu öld ... hefði áreiðanlega getað keypt þær allar en stóðst samt mátið þar sem þær voru jú flestar á hollensku, tungumáli sem ég bara fatta ekki hvernig nokkur maður getur skilið!!!

Inga leitar að vænlegum stað til að hvíla lúin bein og fá sér hressingu. Mér finnst Haag óskaplega sæt borg og þetta litla torg er ágætt dæmi um notalega stemmninguna sem þar ríkir.

Einar hafði aldrei komið til Hollands áður (ekki eins brjálæðislega vanur og eiginkonan sko!) en heillaðist af landinu alveg eins og ég.

  

Maríu og Huga fannst líka gaman að vera komin til útlanda. Ég er þó ekki frá því að það sé pínu minna framandi að vera erlendis núna þegar við höfum sjálf búið í „útlandi“ í níu mánuði. Hugi fékk þetta fína bakarasett í bænum þennan dag sem sló heldur betur í gegn. Hann hefur lengi haft mikið dálæti á gamaldags handþeytara sem við eigum og vill helst að hann sé notaður frekar en sá rafknúni (við foreldrarnir erum ekki alveg sammála honum um það). Mikil var því gleði hans að hafa nú eignast sitt eigið „hræriprik“.

Á miðju torginu stóð þessi virðulegi náungi með mjög óvirðulegan máf á kollinum.

Marglitar ljósaseríur héngu í trjánum á torginu og það hefði án efa verið skemmtilegt að sjá það að kvöldi til. Hollendingar eru dálítið skreytióðir held ég ... sem er mér að sjálfsögðu mjög að skapi!!!

Við vinkonurnar glaðar að vera saman á ný!

María fékk að taka þessa mynd af kisunni sinni og heimtaði að hún yrði birt á síðunni! Ég get að sjálfsögðu ekki neitað barninu um það!

Það kom auðvitað ekkert annað til greina en að við fengjum okkur hvítan bjór með sítrónu og stappara!

Fallegt útsýni yfir síki ... eitt af mörgum. Við vorum ákaflega heppin með veður í ferðinni, það var bjart og sólríkt allan tímann.

Hressir ferðalangar ásamt leiðsögumanninum. Eitt af því allra mikilvægasta við Hollandsferðina var að komast í hina dásamlegu búð Hema! Eins og sjá má á farangrinum voru greipar látnar sópa þar enda er þetta held ég, ein af uppáhaldsbúðunum mínum í öllum heiminum! Við bættum aðeins á Jip og Janneke lagerinn okkar þar, keyptum smádót í barnaherbergin, sumarleg glös með fuglum og ýmislegt fleira! Ég vildi óska að ég hefði Hema alltaf innan seilingar!!! Sænska vöruhúsakeðjan Åhléns kemst þó býsna nærri og ég reyni bara að seðja Hemasöknuðinn með reglulegum heimsóknum þangað.

Franskar kartöflur eru eftirlætisréttur Hollendinga. Við gengum fram hjá á einum af eldri frönskustöðunum í Haag og dáðumst að þessu flotta skilti!

En það var ekki nóg að skoða skiltið, við urðum auðvitað að prófa frönskurnar líka. Hér bíða systkinin meðan pabbi pantar ... María er geysispennt en henni virðist þykja Hugi eilítið of daufur miðað við hvað tilefnið er gleðilegt!

Þjóðarrétturinn féll heldur betur í kramið hjá systkinunum og María vildi endilega að pabbi sinn fengi uppskriftina að frönskum með mæjónessósu!

Hefðbundin uppstilling á nýjum stað!

Mér tókst að kaupa mér páskakjól í þessari bæjarferð og hér má sjá draumapáskadressið hennar Ingu!

Að kvöldi skírdags héldum við þrjár, Inga, Guðrún Hrund og ég, á árlega Matteusarpassíutónleika í smábænum Naarden (á myndinni erum við Inga um það bil að fara að leggja í hann). Eitt af meginmarkmiðum ferðarinnar var að komast á slíka tónleika og við vorum svo heppnar að fá þrjá síðustu miðana á þessa! Myndavélin var skilin eftir heima þannig að ég verð bara að láta nægja að lýsa þessu ótrúlega kvöldi með orðum. Tónleikarnir voru haldnir í bæjarhluta sem er innan nokkurs konar borgarvirkis. Staðurinn er umlukinn múrum og síki en innan þeirra eru litlar sætar götur þar sem kaffihús, gamaldsagskrár og -gistihús standa í röðum og inn á milli eru litlar spennandi antikbúðir með gömlum dúkkum og plötuspilurum í gluggum. Á miðju svæðinu stendur kirkjan og í henni voru tónleikarnir. Matteusarpassían tekur á fjórða tíma í flutningi þannig að tónleikagestir koma gjarnan með sessur með sér og vel útilátið nesti. Í hlénu dregur fólk svo upp kaffibrúsa eða hvítvínsflöskur, samlokur og kofekt eða röltir út í kvöldsólina og kaupir sér veitingar á kránum í kring. Óviðjafnanleg semmning!!! Yfir tónleikana sjálfa á ég ekki nógu stór orð! Þarna var úrvalalið listamanna, guspjallamaðurinn Gerd Türk var frábær (ég mæli með því að þið farið öll til að hlusta á hann í H-moll messunni á Kirkjulistahátíð í ágúst), sópranarían Aus Liebe guðdómleg, andlátsorð Jesú á krossinum, „Eli, Eli, lamasabathani“ flutt á svo maganaðan hátt að hrollur hríslaðist eftir bakinu á manni. Þetta var sem sagt frábært kvöld og það gerði ekkert til þótt við höfum sennilega verið með verstu sætin í öllu húsinu! Næst ætlum við Inga þó að panta miðana með ársfyrirvara, eyða nóttinni á einhverju af litlu gistiheimilinum og fara á tónleika ásamt hollensku konungsfjölskyldunni snemma föstudagsins langa! Ég er strax farin að hlakka til!!!

Á meðan við mæðurnar skemmtum okkur á tónleikum gættu Vignir og Einar bús og barna. Fóru þau meðal annars á róló sem við afmæli er kenndur og skemmtu sér þar hið besta. Huga finnst skemmtilegast af öllu að klifra upp eftir svona köðlum!

Ung kona á uppleið.

Þessi drengur er óviðjafnanlegt krútt!

3/4 af Buijs Ballotstraat fjölskyldunni skemmtir sér í rennibraut!

Konsulentsystkinin undir heiðum himni.

 

Föstudagurinn langi, 6. apríl

   

Músíkölsk stemmning að morgni dags: Ísleifur með „bebisgítarinn“ (Hugi kennir allt sem tengist litlum börnum við bebis, sænska orðið yfir smábarn!) og Hugi með trommuna.

   

Mér finnst alltaf ótrúlega gaman að sjá Einar með lítil börn og reyni yfirleitt að troða öllum þeim smábörnum sem við umgöngumst í fangið á honum! Ég þurfti þó lítið að hafa fyrir því að koma þeim Ísleifi saman enda varð þessum tveimur mjög vel til vina! Þeir eru líka sætir saman, litli og stóri!

   

Meðan við biðum eftir að allir yrðu ferðbúnir blésu börnin sápukúlur úti á stétt. Björt Inga og María voru sérstaklega afkastamiklar en Huga og Ísleifi fannst skemmtilegra að elta kúlurnar og sprengja.

Það verður seint sagt að við höfum tekið föstudaginn langa mjög hátíðlega þetta árið enda héldum við í mikla skemmtiferð til Amsterdam. Hér er hersingin samankomin í þessari frábæru borg, albúin að eiga þar skemmtilegan dag.

Mér finnst hreint út sagt ævintýralegt að rölta eftir götum Amsterdam, bara það eitt að skoða þessi skökku hús er ótrúleg skemmtun ... hvað þá þegar maður nýtur þess að virða fyrir sér nýútsprungin lauf trjánna og sér sólina glampa á síkjunum. Ég veit ekki alveg hvort það er hægt að sjá á myndinni hvað þetta hús var ótrúlega skakkt, það hallaði alveg sitt á hvað í allar áttir og maður varð pínu sjóveikur af að virða það fyrir sér lengi!

Við rákumst á lítinn leikvöll í einni götunni og þar fengu börnin smá útrás. Finnst ykkur þetta ekki fín mynd? Það finnst mér!

Flest trén voru komin yfir mesta blómatímann og ljósgræn laufblöð óðum að ryðja litríkum krónublöðum úr vegi. Þó mátti finna eitt og eitt tré sem átti hápunktinn eftir, þar á meðal þetta dásamlega bleika sem hér sést. Ég veit samt ekki hvaða tré þetta er. Liturinn minnir jú á kirsuberjatrén en ég hélt að blómin á þeim væru ekki svona margkrýnd eins og þetta. Er einhver þarna úti sem veit þetta?

Leið okkar í Amsterdam lá beint í dýragarðinn Artis. Þar tóku þessi hressu kameldýr á móti okkur.

Það er nóg úrval af leikvöllum í Artis og hér er Ísleifur kominn í hann krappan!

Þetta er nokkuð örugglega kirsuberjatré ... er það ekki? Ég var svolítið spæld yfir að hafa misst af blómahápunktinum í Hollandi en er ótrúlega glöð að eiga alla þessa fegurð eftir hér í Svíþjóð!

Æ, það sést kannski ekki nógu vel á myndinni hvað þessi var ótrúlega sætur. Hann lá þarna í mestu makindum, japlaði á hálmi og fylgdist með gestunum af jafnmikilli athygli og þeir fylgdust með honum. Sem stærðarviðmið getið þið séð mig með myndavélina speglast í rúðunni neðst til hægri ... apinn var riiiisastór!

Hugi, Björt og María að príla á eðlustyttu fyrir utan skriðdýrahúsið.

   

Það verður seint sagt að krókódílar séu mjög hressar skepnur! Þeir lágu að vanda grafkyrrir og ekki að finna lífsmark með þeim. Við komum hins vegar við hjá þeim aftur á leiðinni út úr dýragarðinum og þá höfðu orðið stórtíðindi: sá með opna munninn var búinn að loka honum og sá minni á hægri myndinni var búinn að opna munninn í staðinn. Hlunkurinn var hins vegar hvorki meira né minna en búinn að færa sig um marga metra ... ég er óskaplega spæld að hafa misst af allri þessari hreyfingu hjá þeim!

Risaskjaldbaka að bíta gras.

Tíguleg ljónynja í sólbaði.

Þótt ég sé mikill aðdáandi dýragarða þótti mér næstum skemmtilegra að skoða og mynda blómin í Artis.

Við vorum mætt í tæka tíð til að sjá mörgæsunum gefið ... hér eru þær allar á harðahlaupum í átt að starfsmanninum. Svolítið fyndið að sjá þennan stórstíga gráhegra innan um allar stuttfættu mörgæsirnar!

Blómstrandi runni.

Kínagullsgreinar settu páskalegan blæ á dýragarðinn ...

... sem og þessar fallegu hvítasunnuliljur.

Við vorkenndum ísbirninum óskaplega. Mér finnst almennt eins og ísbirnir séu einu dýrin sem maður sér hvað þjást óskaplega í svona dýragörðum. Þeim líður sjálfsagt illa í hitanum og þessi gekk fram og til baka í búrinu sínu og unni sér engrar hvíldar.

Blómarósin María.

Þessar tvær eru góðar vinkonur ...

... og þessir tveir eru góðir vinir!!!

Sko, ég er alveg handviss um að þetta er kirsuberjatré! Er það ekki annars?

Það er svo ótrúlega fallegt að sjá blómagreinarnar bera við heiðbláan himininn og skrýtið að sjá allan þennan gróanda bera við lauflausu trén sem líta svo lífvana út.

Þrár sætar með ís.

   

Smá Ísleifssería (bráðn!).

   

Smá Hugasería, hann færist nær og nær og nær!

Mér fundust gíraffarnir allra skemmtilegastir í Artis. Þeir hlupu um allt, sérstaklega þessir yngstu, og af og til skvettu þeir út fótunum líka. Ég hef aldrei áður séð gíraffa hlaupa og þetta var alveg ótrúleg sjón. Það heyrist ekkert hófatak og þótt þeir hlypu nokkuð hratt hreyfðu þeir sig samt einhvern veginn eins og í slow motion, tignarlegir og fjörugir í senn. Við ætluðum að taka vídeó af þessu en að sjálfsögðu hættu þeir að hlaupa um leið og við vorum búin að stilla myndavélina rétt og klár í slaginn!

Í þetta sinn er ég 100% viss, þetta er hvít magnolía!!!

 

Einar gaf börnunum þremur kandíflos en við þrjú fullorðnu fengum ekki neitt og urðum mjög fúl! (Mér sýnist ég hafa verið sú eina sem tók þessa fýlumynd mjög alvarlega!)

Við lukum deginum í Amsterdam á japönskum veitingastað í nágrenni Artis. Það er vandasamt að borða með prjónum þegar maður er lítill!

Þjónustustúlkunum lá töluvert á að fá okkur út af staðnum enda var borðið pantað seinna um kvöldið. Hún bauðst þó til að smella einni mynd af okkur öllum saman ... eða reyndar tveimur myndum en á hinni myndinni var Inga bara hálf!

Einar og Inga gæða sér á sushi.

Hugi var lunkinn með prjónana þó tæknin væri ekki alveg hárrétt!

 

Laugardagurinn 7. apríl

Föndurstund á Buijs Ballotstraat.

Á laugardeginum fórum við á markað sem haldinn er árfjórðungslega í hverfinu sem Inga og Vignir búa í. Þar komust börnin í feitt enda tvær hringekjur á staðnum, hægt að fara í reiðtúra á hestum og ponyhestum og margt fleira!

Björt og Hugi skemmta sér hið besta í hringekjunni en María einbeitir sér að því að verða ekki bílveik!

Hjónin.

Síðdegis á laugardeginum klæddu krakkarnir sig í búninga. María var indversk prinsessa með brúðarslör og Björt spænsk prinsessa.

Ísleifur var dásamleg lítil álfadís með flugfreyjuslæðu.

Krakkarnir fengu að sofna saman á stórri vindsæng á kvöldin og voru svo flutt hvert í sitt horn áður en við fullorðna fólkið fórum að sofa. Þau voru ótrúlega sæt í svona krakkaklessu og þetta fyrirkomulag veitti okkur foreldrunum tækifæri til að spjalla í rólegheitunum yfir rauðvíni og ostum eftir að börnin voru sofnuð vært.

 

Páskadagur, 8. apríl

  

María páskaungi á aukaafmælisdag á páskunum eins og ég hef margoft greint frá áður (hún er sum sé fædd á páskadegi). Hér er hún komin í páskakjólinn og bíður eftir að morgunverðurinn verði borinn á borð.

Pabbarnir voru á náttfötunum í eldhúsinu að baka pönnukökur og laga kaffi ...

... meðan börnin fjögur voru böðuð og klædd í sparifötin. Þeim fannst nú heldur undarlegt að setjast svona fín til borðs meðan foreldrarnir voru enn úfin á náttfötunum!

Huga þótti rétt að binda á sig skikkjuna sem Inga hafði útvegað honum daginn áður og umbreyttist snarlega í prinsinn af Hawaii!!!

Eftir dásamlegan morgunverð leituðu börnin að páskaeggjunum sínum. Eggin voru falin á stofugólfinu undir potti, bundið fyrir augun á hverju barni fyrir sig og síðan skreið það um og bankaði með sleif þar til pottaglamur heyrðist.

Eggin voru svo að sjálfsögðu snædd af bestu lyst.

Má ég ekki fá smá bita hjá þér Björt systir?

Hugi spjallar við ömmu sína í símann og óskar gleðilegra páska.

Eftir notalegan morgun var aftur haldið út á afmælisrólóinn. Á bökkum lítillar tjarnar þar hjá voru tveir feðgar og einn gráhegri við veiðar!

Páskastelpan María komin út á róló.

Við komum okkur þægilega fyrir undir stóru tré, breiddum út teppi og drógum upp veitingar.

Á páskadegi fyrir sjö árum urðum við tvö foreldrar, púluðum og strituðum á fæðingardeildinni meðan Inga söng páskamessu í Hallgrímskirkjunni hinum meginn við hornið. Skömmu eftir að stóru kirkjuklukkurnar hringdu messuna út fengum við svo litla ungann okkar í hendurnar. Það er alltaf jafngaman að rifja þetta upp!!!

Vinkonur á appelsínuteppi.

Inga opnar hvítvínsflöskuna.

Hugi Einarsson ... fer að þarfnast í klippingar!

Vinkonurnar fengu lítil súkkulaðiegg í páskatösku hjá Ingu og tóku að sér að dreifa þeim til annarra barna á rólóinum eða fela þau í umhverfinu, á gluggasyllum, bílrúðum og hjólum, öðrum til óvæntrar gleði. Hér eru þær að leggja af stað í páskahéraleiðangurinn ...

... að sjálfsögðu með krúttlegan páskahérasvip! Ég man enn hvað ég hélt að ég væri ótrúlega krúttleg þegar ég setti upp svona naggrísa-, kanínu- eða músasvip þegar ég var lítil! Komst að því mörgum árum síðar mér til mikillar undrunar að maður er hreint ekkert sætur þegar maður brettir upp á nefið, skýtur tönnunum fram og dregur kjálkann aftur!!!

Vinkonur gæða sér á ostum, sötra hvítvín og sódavatn í páskasólinni. Við gleymdum alveg að syngja Sigurhátíð sæl og blíð eins og planað hafði verið.

Sjáiði hvað við erum ótrúlega mikil krútt með páskahérasvipinn okkar!!!

Huga fannst grafan spennandi.

Það þurfti einu sinni eða tvisvar að sækja Ísleif áður en hann fór sér að voða með því að vaða út í tjörn eða gera annan óskunda!

Ísleifur gerir tilraun til að grafa sig til Ástralíu!

Á leiðinni heim af afmælisrólóinum komum við við hjá ítölskum íssala og keyptum kúluís og kaffi.

Um kvöldið borðuðum við svo dásamlegt páskalamb öll saman sem Inga hafði látið senda sér frá Íslandi og Vignir og Einar hjálpuðust að við að matreiða. Ótrúlega ljúffengt!

 

Annar í páskum, 9. apríl

Buijs Ballotstraat er voða sæt gata og þar sem bakgarðarnir eru fremur litlir og ekki öllum íbúum aðgengilegir hafa margir brugðið á það ráð að nýta stéttina fyrir framan húsin í staðinn. Nokkrir hafa tekið upp hellu til að geta gróðursett sumarblóm og einhverjir hafa komið fyrir bekk til að sitja á og njóta sólarinnar. Hér er María komin út á stétt og situr ein á bekk nágrannans.

Það fjölgar á bekknum! Hér eru vinkonurnar Björt og María í sumarkjólum í stíl, keyptum á markaði í Amsterdam.

Og enn fjölgar á bekknum! Hér er það Áróra, dóttir Guðrúnar Hrundar (systur Ingu) og Gunnars, sem bæst hefur í hópinn.

Og nú er bekkurinn hreinlega að bresta undan barnaskaranum! Litlu bræðurnir Hugi og Ísleifur hafa bæst í hópinn.

Skyldi það hafa verið flugvél? Þyrla? Fugl? Fiðrildi? Fluga?

Við komum okkur vel fyrir á stéttinni og börnin fengu að skreyta páskakökur með glassúr og nammi.

Svart og hvítt, dökkt og ljóst.

Inga kemur með kaffið út ...

... en gekk ekki alveg jafnvel með mjólkina!!!

Það er nú notalegt að drekka kaffi úti á stétt og gluggasyllan hjá barnalækninum Dr. F.A.J. Enschedé er ágætis standur undir könnu og bolla.

María búin að skreyta sína köku.

Og sjáðu hvað mín er fín líka!!!

Hjónaleysin Guðrún og Gunnar á spjalli við Einar undir grænu tré.

  

Frænkurnar sætu með kökurnar sínar.

Síðustu klukkustundunum okkar í Hollandi (í þetta skiptið!) eyddum við á græna rólónum að borða kebab í sólinni.

  

Björt Inga og Hugi eru ekkert smá góð í þessu, sterkir og duglegir krakkar!

Í síðasta sinn undir bleikum blómum áður en við kvöddum yndislegu gestgjafana okkar og héldum heim á Konsulentvägen okkar góða. Elsku Inga, Vignir, Björt og Ísleifur, takk fyrir okkur!!! Við hlökkum til að sjá ykkur á Íslandi í júní!