Páskar 2011
Páskanornir, súkkulaðiegg, hjólaslys, sumarblíða og margt, margt fleira.

Skírdagur

María fór í tvo páskanornaleiðangra þetta árið, þann fyrri með Isabellu vinkonu sinni sem hér sést og svo síðar um daginn með Huga, Linneu vinkonu og litla bróður Linneu. Heimtur voru góðar þetta árið eins og þau fyrri!

Páskadagur

Ég var ægilega ánægð með páskaskrautið mitt þetta árið! Það samanstóð af þessum riiiisastóra Musselmalet bakka sem ég keypti um daginn, hvítum pappapáskaeggjum, cappucino-súkkulaðieggjum, blómum og sírenugreinum úr garðinum og svo eggjum sem ég musselmálaði sjálf.

   

Eggin voru í nokkrum mismunandi útfærslum og þótt skreytingin hafi verið langt í frá fullkomin virkaði þetta bara vel þegar öll eggin voru komin saman. Ég hefði reyndar alveg mátt vanda mig meira til dæmis við að mála hvítt undirlag svo ljóti bleiki stimpillinn sæist ekki svona vel (sjá mynd lengst til vinstri!) en ég var allt of óþolinmóð og nennti alls ekki að grunna nógu vel.

Fatið stóra er annað af tveimur fötum sem mér áskotnuðust nýlega, bæði ákaflega fögur og keypt á fáránlegu verði! Ég hef ekki enn fundið sambærilegt fat á netinu en rakst á eitt aðeins minna sem hafði verið boðið upp á danskri antíksíðu fyrir skömmu. Það hafði verið selt á fjórum sinnum hærri upphæð en það sem ég keypti mitt á!

Þessar dásamlega fögru páskaliljur setti ég niður bara síðasta haust og þær komu upp svona líka ótrúlega hressar og frísklegar í vor! Ég veit fátt betra en að geta lífgað upp á heimilið með blómum úr eigin garði. Svo er líka með ólíkindum hvað þau standa alltaf betur en blóm keypt út úr búð sem mér finnst undantekningalaust farin að fölna verulega á þriðja degi hvað sem ég dekra við þau.

Það er svolítið síðan ég valdi myndirnar í þetta albúm og ég sé núna að ég hef sett inn alveg vandræðalega margar af þessari páskaskreytingu minni! Hún var vissulega mjög fín - en kannski ekki alveg svona rosalega!

Í þessu hvíta pappaeggi leyndust nokkrir konfektmolar handa Einari í staðinn fyrir páskaegg.

Þetta er sú síðasta - lofa!

Annan daginn í röð var fjölskyldan mynduð við morgunverðarborðið og annan daginn í röð var boðið upp á pain au chocolate.

Eftir morgunverðinn var komið að páskaeggjunum sem amma Imba sendi frá Íslandi.

Þetta var frumraun Baldurs Tuma í páskaeggjaáti en eins og sjá má bar hann sig fagmannlega að!

María er orðin svo stór og þroskuð að hún sætti sig við að fá eggið sem brotnaði í pósti. Á móti fékk hún líka allra sætasta páskaungann!

Hafið þið einhvern tíma séð svona sætan páskaeggjaunga? Æ, hvað veit ég annars, útlendingurinn, kannski var annað hvert egg með gleraugnastrumpsunga í ár!

Þetta er líka mjög sætur ungi og ég veit alla vega fyrir víst að hann var ekki á hverjum bæ um páskana!

Baldri Tuma þykir mjög gaman að fara í bað. Svo gaman að við þurfum að passa okkur að stafa orðið b-a-ð ef við þurfum að nota það í einhverju samhengi þegar ekki stendur til að skola af honum. En á páskadegi er að sjálfsögðu farið í bað!

Hafið þið smakkað jógúrt með köku? Það er einn af uppáhaldsréttunum mínum. Eins og þið kannski munið var rabarabara- og hindberjapæ í eftirrétt á afmælisdegi Maríu sem var einmitt daginn fyrir páskadag. Ef maður á afgang af einhverju svona pæi er tilvalið að moka því út í hreina jógúrt daginn eftir og útkoman er ákaflega huggulegur og bragðgóður hádegisverður!

María kaus að borða hádegisverðinn uppi í tréhúsi íklædd nýja kjólnum.

Baldur Tumi virti fyrir sér páskaliljurnar undir plómutrénu.

Er þetta krúttlegasti baksvipur sem sést hefur eða hvað!

Á hlaupum. (Í bakgrunni sést greinahrúgan sem við lentum í vandræðum með og sagt er frá í þessu albúmi!)

Einar bakaði sitt fyrsta súrdeigsbrauð í hádegismat á páskadag. Við erum búin að gera margar tilraunir til að búa til súrdeig að undanförnu og loksins náði það ásættanlegu útliti og áferð! Og brauðið var dásamlega gott og voða mikið „ekta“. Nú er súrdeigið okkar komið í svo mikið stuð að ef við geymum það ekki í ísskápnum leggur það á flótta upp úr krukkunni og út á gólf! Súrdeigskúltúrinn hérna í Svíþjóð er annars merkilegur og stundum þegar ég les blogg eða bækur eftir eldheita súrdeigsbakara veit ég ekki alveg hvort er verið að grínast eða ekki. Margir virðast alla vega leggja líf og sál í baksturinn. Til marks um alvarleika málsins er til súrdegishótel í Stokkhólmi þar sem maður getur sett deigið sitt í pössun ef maður þarf að fara burt!

Mér finnst þetta svooo sæt mynd af Huga mínum!

Mér leið reyndar svolítið eins og við værum Amish fjölskylda þegar við sátum þarna úti og borðuðum. Algjör tilviljun stýrði því nefnilega að Hugi og Einar voru báðir í hvítri skyrtu og svörtum buxum, María í hvítum kjól með svörtum doppum og ég í hvítum kjól! Í ofan á lag er páskadagur mjög hversdagslegur dagur hér í Svíþjóð þar sem páskunum er fagnað á laugardeginum og Svíar kannski almennt lítið fyrir að klæða sig upp á eða vera hátíðlegir yfir höfuð. Við höfum því áreiðanlega litið út fyrir að vera mjög virk í einhverjum sértrúarsöfnuði þar sem við sátum prúðbúin í hvítu og svörtu úti á stétt!

         

Baldur Tumi er óþarflega áhugasamur um myndavélar!

Hann er líka gríðarlega áhugasamur um nýju hjól stóru systkina sinna sem þau fengu í sumargjöf frá ömmu Imbu.

Talandi um nýju hjólin! Aumingja María lenti hjólaslysi síðla páskadags og fékk djúp sár á olnbogann sem voru full af möl og sandi. Einar þurfti að gera hlé á eldamennskunni til að fara út í apótek að kaupa saltlausnir, umbúðir og áhöld til að hreinsa og svo var sett upp aðgerðarstofa við eldhúsborðið. Þrátt fyrir deyfikrem var aðgerðin sársaukafull svo María fékk að hringja til ömmu sinnar þar sem nokkrir fjölskyldumeðlimir voru samankomnir í páskaboði og spjalla við þau meðan það versta gekk yfir.

Við vorum samt fegin að geta bjargað þessu heimavið í stað þess að þurfa að eyða öllu kvöldinu á slysavarðsstofunni. Og nú er sárið sem betur fer nánast gróið og lítur vel út að mati læknisins!

Við borðuðum því ekki fyrr en seint og síðar meir en það gerði auðvitað ekkert til. Á boðstólum var piparsteik ... kannski ekki mjög páskalegt en það er nú hvort eð er eiginlega orðin hefð hjá okkur að vera með ópáskalegan mat á páskadag!

Huga fannst maturinn líta stórkostlega út þegar á diskinn var kominn og óskaði eftir mynd af herlegheitunum!

Annar í páskum

Veðrið um páskana var dásamlegt og náði algjöru hámarki á annan í páskum þegar hitinn fór yfir 25 stig. Við vorum fegin að Baldur Tumi fékkst til að vera með þessa fínu derhúfu til að vernda kollinn fyrir sólinni.

Við ákváðum að nýta daginn vel og skella okkur í Stadsträdgården, njóta sólarinnar og leyfa Baldri Tuma að leika á róló. Þegar þangað var komið var garðurinn yfirfullur af fólki og þeim litla, sem er vanur að vera bara heima með mömmu, stóð ekki alveg á sama um öll lætin!

Hann vildi ekki prófa nein leiktæki og fannst öruggast að loka sig bara inni í litlu húsi með Maríu systur!

Enn öruggara var þó að sitja bara á bekknum hjá pabba og fylgjast með öllum þessum krökkum ólmast og æpa úr fjarlægð.

Lítill maður í stórum heimi.

Það var engin stemmning fyrir því að sitja á þessum rugguhesti. Og yfirhöfuð var hann ótrúlega fyndinn þegar að leiktækjunum kom og var alls ekki til í að láta setja sig í aðstæður þar sem hann hafði ekki sjálfur stjórnina. Hann var til dæmis alls ekki til í að sitja í rólu og láta ýta sér en skemmti sér hið besta við að ýta sjálfur tómri rólu! Stundum er hann eins og lítil, gangandi félagsfræðitilraun!

Búinn að koma sér í öruggt skjól!

Einstaka bros slapp þó í gegnum öryggisgæsluna!

Í Stadsträdgården stóðu magnolíutrén í blóma.

Magnolían blómstrar meðan næstum allar aðrar trjágreinar eru berar og oft finnst mér eins og þessi tré líti út eins og á þau hafi verið hengdar hvítar eða bleikar pappírsstjörnur.

Eins og í ævintýri.

Ég þarf að setja niður magnolíutré í garðinum mínum svo ég geti notið þeirra enn betur!

Bræður á steinum og stóra systirin situr á bekk fyrir aftan og skoðar myndavélina sína!

Hugi hefur alltaf verið frekar lítið fyrir myndatökur og átt dálítið erfitt með að einbeita sér að því að horfa í vélina og setja upp sparisvipinn. En undanfarið finnst mér ég hafa tekið hverja stjörnumyndina af honum á fætur annarri.

Litli og stóri leiðast.

Baldur Tumi var ekki alveg með pikknikk-stemmninguna á hreinu og breiddi teppið yfir sig í staðinn fyrir að sitja á því!

Það var boðið upp á kúkkú!!!

         

Það hefur aldrei verið neitt mál að ná góðum myndum af henni Maríu!

Hugi drekkur svaladrykk í sólinni.

Fátt finnst okkur Einari skemmtilegra en þegar öll börnin okkar leika sér saman þrátt fyrir aldursmun. Hér eru þau í eltingaleik í garðinum og gleðin skín af þeim.

Það þarf varla að taka það fram að Baldri Tuma finnst æði að leika við systkini sín!

Kirsuberjatrén voru rétt að byrja að springa út.

Blómin minna helst á nammi!

Ég þarf líka að fá kirsuberjatré í garðinn minn!

Hmmm ... ég hef greinilega líka farið offari í blómamyndum þegar ég setti upp þetta albúm!

Hugi lagðist í grasið og slakaði á ...

... og um leið og Baldur Tumi kelirófa sá að það var hægt að hafa það kósí einhvers staðar tróð hann sér við hliðina á honum!

Og að lokum ein svona.