Páskar 2008

Við áttum afskaplega notalega páska hér á Konsulentvägen, uppfulla af súkkulaði, eggjum, ungum og öðrum dásemdum eins og sjá má á páskamyndunum okkar!

Við byrjuðum páskadaginn sjálfan með notalegu morgunkaffi. Ég er vön því að syngja tvær messur í kirkjunni á þessum morgni með dásamlegri páskaveislu á milli. Það kemur því ekki annað til greina á mínum bæ en að taka daginn snemma með almennilegu morgunkaffi!

Þessar litlu kökur sem ég bakaði voru því miður ekki alveg eins góðar og þær voru fallegar!

Þessar eru hins vegar bæði góðar og fallegar!

Hér í Svíþjóð virðist því miður engin stemmning fyrir skreyttum kínagullsgreinum því ég fann þær hvergi. Í staðinn keypti ég fallegar kirsuberjagreinar og svo stóðst ég ekki þessa krúttlegu unga. Við fjölskyldan komumst því miður ekki í það að mála egg þetta árið og létum því þau sem við gerðum árið 2006 duga (í fyrra eyddum við páskunum í Hollandi og máluðum því engin egg þá). Þegar við fluttum hingað til Svíþjóðar keyptum við flutningsþjónustu. Í því fólst sem sagt að það komu menn (og kona!) heim til okkar og pökkuðu ÖLLU dótinu okkar (ég ákvað reyndar að pakka nærbuxunum okkar sjálf og það var með naumindum að mér tókst að vera á undan pökkunarmönnunum sem annars fóru eins og stormsveipur um íbúðina!). Þegar ég sá þá stinga máluðu páskaeggjunum okkar ofan í kassa þóttu mér þeir hins vegar heldur bjartsýnir. Skildi ekki í þeim að halda að þeir gætu flutt eggjaskurn heila milli landa! Ég ákvað hins vegar að þetta yrði ágætis mælikvarði á gæði þjónustunnar. Það er skemmst frá að segja að hvert eitt og einasta egg kom óbrotið upp úr kössunum hér á Konsulentvägen! Ég held að það sé því alveg óhætt að mæla með flutningsþjónustu P. Árnason en það vill svo skemmtilega til að lógóið þeirra er einmitt mynd af eggjum í hreiðri!

Fjölskyldan sest við morgunverðarborðið!

Páskahérinn sá til þess að allir fengju nýja bók til að lesa í páskafríinu! Hugi fékk barna-atlas ...

... Einar fékk vampírubók (páskahérinn hefði nú reyndar sennilega ekki valið hana ef hann hefði vitað að hún fjallaði um vampírur!) ...

... og María fékk þriðju bókina í flokknum um Aramintu Spookie en það eru einmitt uppáhaldsbækurnar hennar Maríu og varð hún því ákaflega glöð eins og sjá má! Sjálf fékk ég glæpasögu sem gerist á Gotlandi en þangað langar okkur einmitt að fara í sumarfríinu!

Svo var það páskaeggjaleitin! Hér eru krúttin komin af stað með fyrstu vísbendinguna.

Vísbendingarnar leiddu þau á ýmsar vafasamar slóðir ... hér eru þau að leita innan um pabba-táfýlu!

         

Að lokum fundust þó eggin og súkkulaðiátið mikla gat hafist!

Þetta er ein af fimmtíu páskaliljum sem ég keypti fyrir páskana!

Nýi atlasinn var lúslesinn yfir páskaeggjátinu og kaffidrykkjunni!

Hreiður á grein í eldhúsglugganum! Ég held að ég hafi aldrei skreytt svona mikið fyrir páskana eins og núna! Reyndar eru páskarnir í miklu uppáhaldi hjá mér. Þótt ég sé mikið jólabarn verð ég að játa að oft er ansi mikið stress fyrir jólin, væntingarnar kannski fullmiklar og svo er alls ekki hægt að ganga að því sem vísu að maður fái gott frí. Páskarnir eru hins vegar mun afslappaðri, alltaf hægt að ganga að því sem vísu að maður fái fimm daga samfellt frí (á Íslandi, hér í Svíþjóð er skírdagur vinnudagur) og svo er líka svo skemmtilegt að vita að vorið sé á næsta leyti. Eins og sjá má á þessari mynd hefur reyndar verið vetrarlegra hjá okkur núna í kringum páskana en alla undanfarna mánuði til samans!

Skömmu fyrir hádegið tók Einar til við að undirbúa páskamáltíðina. Hér í Svíþjóð er auðvelt að nálgast alls kyns villibráð og við ákváðum að tími væri kominn til með að prófa okkur áfram á því sviði og ákváðum því að vera með innbakað hreindýrafillet í páskamatinn.

Meðan Einar verkaði kjötið lagði ég á borðið. Ég er alveg búin að komast að því að borðskreytingar eru nýtt áhugamál hjá mér!

Ég elska þessi eggjakerti!

Fjólubláir túlípanar og vorgreinar með loðnum mjúkum kúlum (sem ég hef talað um áður hér á þessari síðu en hef ekki hugmynd um hvað heita!).

Skrautið sem hangir í loftinu yfir borðinu keyptum við í Hollandi í fyrra. Ég veit ekki hvort það sést nógu vel en þetta eru dúfur að kyssast!

Ég má til með að sýna ykkur þessa mynd af nýju hortensíunum mínum. Ég hef ekki átt hortensíu í fjöldamörg ár enda lauk síðasta hortensíutímabilinu mínu með skelfilegum hætti! En núna rúmlega 15 árum síðar taldi ég mig aftur tilbúna í slaginn og keypti mér þessar ótrúlega fallegu hvítu hortensíur til að hafa í stofuglugganum mínum. Þær lifa að minnsta kosti enn núna þremur dögum síðar!

Páskamaturinn tilbúinn og kominn á borðið. Mér fannst nú kannski fullmikill '89 fílingur yfir því að vera með steikina innbakaða í smjördeigi en því er þó ekki að neita að þetta var einstaklega, ákaflega gott! Undir smjördeiginu var hreindýrafilletið í afskaplega ljúffengum kantarelluhjúp. Villibráðartilraunin tókst því afar vel og nú stefnum við að því að prófa eitthvað enn annað næst, kannski mömmu hans Bamba?!

Við komumst að því um páskana að Hugi kann enga borðsiði ... jafnvel enga mannasiði! Okkur leið hálfpartinn eins og við hefðum í góðgerðarskyni boðið róna að borða hátíðarmatinn með okkur þegar Hugi grúfði sig yfir diskinn og þeytti mat í allar áttir og rumdi bara þegar við reyndum að tala við hann. Hér er því ærið verkefni að takast á við!

Eggjakertin mín fínu eru gul að innan.

Páskakakan okkar var afskaplega falleg og glæsileg en einstaklega vond á bragðið. Meira að segja litli róninn gat ekki borðað nema nokkra bita og er þó þekktur fyrir ást sína á súkkulaðikökum!

Eftir matinn spiluðum við dýra-bingó í dágóða stund!

Um kvöldið komu börnin sér vel fyrir við náttborð okkar foreldranna og teiknuðu páskamyndir. Ekki höfum við hugmynd um hvers vegna þessi undarlega staðsetning varð fyrir valinu en krúttleg voru þau! Gallabuxur Einars fá hér óvæntan heiðursess á myndasíðunni ... kannski bara kominn tími til!!!

Afrakstur teiknistundarinnar var meðal annars þessi fína mynd eftir Maríu.

Ég ákvað hins vegar að kominn væri tími til að spreyta mig við saumavélina. Frá því ég fékk hana að gjöf á afmælisdaginn minn hef ég smám saman verið að viða að mér bæði efnum og áhöldum, sniðum og uppskriftum og nú var sem sagt komið að því að sýna sjálfri mér og öðrum fram á að saumavélin gæti framkallað eitthvað annað en kaupæði! Hér er fyrsta verkefninu sem var smekkur handa Arnaldi Kára lokið!!! Ég var ekkert eðlilega stolt ... og það þótt ég hafi óvart snúið efninu á hlið!!!

Eftir smekkinn var ég auðvitað komin í stuð og ákvað því að sauma litla mynd úr sama efni á bol handa drengnum! Blessunarlega tókst mér nú að snúa henni rétt!

Og hér er settið tilbúið! Ég finn hvernig stoltið vellur upp í mér þegar ég skoða þessa mynd!!!

Góður endir á frábærum páskadegi!