Páskar 2006

Eins og endranær voru páskarnir hér á Bárugötunni hrein dásemd ... páskaskraut, súkkulaði, messusöngur, páskalamb, og að sjálfsögðu nokkur falleg blóm eins og sjá má á meðfylgjandi myndum!

 

Skírdagur

Á skírdegi skreyttum við kínagullsgreinarnar okkar. Mér hafði tekist að brjóta nær öll máluðu eggin sem við höfum hengt á greinarnar síðustu páska og því var ekki um annað að ræða en að Einar blési úr eins og tveimur eggjabökkum og síðan málaði hver eftir eigin höfði. Hér er undirbúningur í fullum gangi og systkinin fylgjast spennt með þegar pabbi hrærir upp í litunum.

Huga fannst ógurlega gaman að mála en fékk smá aðstoð frá mömmu sinni!

María sýndi enn og sannaði listræna hæfileika sína ... hér sýnir hún okkur egg sem hún er í miðjum klíðum með að skreyta.

Þrátt fyrir eggjamálunin hafi almennt vakið lukku á Bárugötunni var sjálfsagt enginn sem hafði eins gaman af og húsmóðirin sem málaði fram á nótt og morguninn eftir líka (en þá var hún reyndar bara að mála yfir eggið frá kvöldinu áður sem hafði mistekist hrapallega!).

   

Upprennandi Kjarval?

Þegar María verður orðin heimsfræg listakona munum við Einar svo selja eggin hennar á uppsprengdu verði og kaupa okkur sumarhús í Toscana fyrir ágóðann ... snjallt plan, ekki satt?

Einar situr einn í ruslinu eftir að aðrir fjölskyldumeðlimir hafa misst áhugann á eggjunum!

Afraksturinn af málningavinnunni var svo hengdur upp á blómstrandi greinarnar og gladdi bæði augu og hjörtu yfir hátíðina.

   

Hér er hluti af eggjunum okkar Maríu. Við vorum báðar nokkuð drjúgar með okkur eftir föndrið og fannst okkar eigin egg bera af ... á næsta ári erum við því jafnvel að spá í að kaupa bara sér greinar fyrir Huga og Einar svo þeirra egg þurfi ekki að skemma svona heildarútlitið!!!

   

Þeir áttu þó ágæta spretti piltarnir eins og þessi egg bera með sér!!!

 

Hér eru fleiri mæðgnaegg. Eggið mitt með fuglunum er einmitt það sem ég sat við fram á nótt að mála en sá svo í dagsbirtunni daginn eftir að það var herfilega ljótt og neyddist til að mál yfir allt og byrja upp á nýtt!

 

Föstudagurinn langi

Á föstudeginum langa kom ofurhetjan Daldur Drings í heimsókn til okkar. Daldur Drings er nokkurs konar hliðarsjálf Huga Einarssonar og birtist helst þegar drengurinn sá arna er í miklu klifur- og hoppstuði! Hér sést Daldur Drings í miðju kafi við að klifra upp lóðrétta vegg ...

... og hér flýgur hann ofan af sófaborðinu!

 

Páskadagur

  

María og Hugi vöknuðu eldsnemma á páskadagsmorgun og leituðu að eggjunum sínum. Um leið og þau komu í ljós var hafist handa við að láta þau hverfa smám saman aftur!

Líkt og aðra páskadagsmorgna hélt húsmóðirin þó til messusöngs fyrir allar aldir og eftir morgunmessuna mætti afgangurinn af Bárugötufjöskyldunni líka í Hallgrímskirkju til að drekka súkkulaði og gæða sér á kræsingum ásamt öðrum kórfélögum og fjölskyldum þeirra. Hér er María við hefðbundna páskaeggjaleit í kirkjunni.

Afraksturinn var síðan borðaður með bestu lyst!

Hann er súkkulaðisætur þessi gaur!

Eftir notalegan morgunverðinn þurfti kórinn að æfa fyrir seinni messuna. Einar og börnin settust út í kirkju og fylgdust með.

Hugi var heilagur á svip!

Það tekur dálítið á að þurfa að bíða svona rosalega lengi!!!

María vinkar mömmu sinni og hvetur hana áfram við æfingarnar!

Eftir yndislegan morgun í kirkjunni var haldið á Bakkastaði. Hugi var sybbinn enda hafði hann rifið sig upp fyrir allar aldir til að komast í langþráð páskaegg!

Bjartur var mættur í páskaveisluna ásamt mömmu, pabba og litla bróður. Hann var fljótur að finna einu gröfuna sem til er í húsinu!

Guðmundur frændi tekur myndir af Pálu og Bárugötufrúin fylgist með snúllunni af mikilli aðdáun!

Veitingarnar voru unaðslegar en að öðrum ólöstuðum verður að segjast að þetta girnilega ávaxtasalat sló öll met!

Stórfjölskyldan gæddi sér á ávöxtunum, heimalagaða ísnum og karamellusósunni með bestu lyst!

Amma á Sóló

Kári platfrændi

Gísli platfrændi

Gunndís og Steini

Einar reyndi sig við blómamyndatöku á la Guðrún ... sýnist ykkur honum ekki hafa tekist nokkuð vel upp?

„Já, nei, það þýðir ekkert að spyrja mig, þú verður að tala við hana þessa!“

Krúttsprengjan Orri Guðmundsson!

Maður fær bara ekki nóg af honum!

Úr páskaveislunni var haldið á myndlistarsýningu til Brynhildar í næsta húsi! María og Hugi voru til í að knúsa mömmu sína aðeins á leiðinni þangað!

Á vinnustofunni hennar Brynhildar var að finna þennan ljómandi fína lyftara sem yngri karlmönnum fjölskyldunnar leist sérdeilis vel á!

Frænkurnar Jódís og Guðrún við eitt eldfjallanna.

María fékk að leggjast inn í kuðung.

Eftir að komið var aftur í ömmuhús rifjaði Einar upp gamla takta!

María við reiknistörf.

 

Annar í páskum

Páskaliljurnar voru enn í fullum blóma á annan í páskum (og þessi mynd er gerð af meistarans höndum!).

María brá sér í blómálfakjólinn og var ansi sannfærandi í hlutverkinu þarna innan um túlípanana.

Hugi kátur með páskagreinarnar í baksýn.

Þar sem vorið virtist loksins vera að koma (héldum við þá!) var ákveðið að fara út að hjóla. Hugi vígði nýja hjólið sitt sem hann fékk í afmælisgjöf og var ótrúlega töffaralegur. Honum leist þó ekkert sérstaklega vel á þetta sjálfum og langaði mest að fá bara litla, rauða þríhjólið aftur!

María er hins vegar farin að þjálfa sig í að hjóla án hjálpardekkja og tók stórstíg framfaraskref í þá átt þennan dag eins og sjá má á myndinni. Það allra fyndnasta við þessa mynd er að rétt eftir að ég var búin að smella af heyrði ég að Hugi var farinn á hágráta en hann hafði brugðið sér inn á róluvöllinn við hliðina á. Milli ekkasoganna gat hann stunið upp að hann hefði dottið þegar hann var að príla í netinu sem aðskilur vellina. Þegar ég fór að skoða myndirnar sem ég hafði tekið seinna um daginn sá ég hins vegar að óvart hafði ég fest augnablikið þegar Hugi datt á filmu! Þið sjáið hann þarna grænklæddan í lausu lofti til vinstri! Æ, er ég hræðileg mamma að finnast þetta pínu fyndið?!

En Hugi jafnaði sig á örskotsstundu og eftir það hélt María æfingunum áfram. Úr svip hennar má lesa allt í senn ótrúlegt stolt, mikla gleði, dálitla hræðslu við að hún sé alveg að fara að detta og líka hvað hún er hissa á sjálfri sér í þessu öllu saman!!! Það er nokkuð ljóst að daman þarf að fá stærra hjól hið bráðasta!

  

Hugi lét það hins vegar ekki stoppa sig þó hann hefði dottið einu sinni og hélt ótrauður áfram að príla.

Sætasta og duglegasta hjólastelpan!!!

Mæðgurnar kátar í lok páskafrísins.

Á leiðinni heim var aðeins komið við á leikvellinum.

Þegar heim var komið tók við mikið súkkulaðikökuát! Þar sem húsfreyjan vill ekki setja páskaegg inn fyrir sínar varir bakaði hún í staðinn eina væna uppskrift af hinni sívinsælu súkkulaðiköku A Little Trip to Heaven og gæddi sér á yfir hátíðirnar. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru reyndar líka sólgnir í kökuna ... enda eins gott að konan borði þetta ekki allt sjálf!

Einar kátur með köku og kaffi!

Fína afmælisskrautinu frá Ingu var snarlega breytt í vorskraut og gleður nú augað í borðstofunni okkar!

Ég vona að lesendur mínir hafi átt notalega páska og óska ykkur öllum gleðilegs sumars!