Örfáar afmælismyndir

Þann 9. febrúar varð húsmóðirin á Konsulentvägen 32ja ára. Að vanda hófst dagurinn með heitu kakói og kaffi og pakkaopnun. Í kjölfarið fórum við fjölskyldan svo í hátíðarreisu til Stokkhólms en þá var myndavélin reyndar bara hema að hlaða batteríin (í bókstaflegri merkingu!) . Hér eru því örfáar myndir frá morgninum ... aðallega bara til að ég geti montað mig af fínu gjöfunum mínum!

Afmælisbarnið og afmæliseiginmaðurinn. Ég bara skil ekkert í mér að hafa ekki málað mig um morguninn svona fyrst þetta var afmælisdagurinn minn og nokkuð ljóst að myndavélin yrði eitthvað á lofti!!!

María var að sjálfsögðu búin að útbúa afmælisgjöf handa mömmu sinni og pakka henni svona fínt inn og búa til þetta óskaplega fína englakort.

Í pakkanum voru þrjár fínar myndir sem hún hafði nú reyndar teiknað fyrir nokkuð löngu síðan. Það er nú bara eins og þetta er hjá alvöru listamönnum, þeir eru ekkert alltaf að búa til nýtt! Þessi mynd finnst mér fínust. Hún er samsett ur tveimur fjölskyldumyndum og svo þesari fallegu kveðju!

Frá Einari fékk ég þessi ógurlega fínu antikglös sem okkur þykja tilvalin undir serrí- og púrtvínsdrykkju sem við stundum stíft á síðkvöldum!

Glös, pakki, María og O'boy!

Aðalgjöfin var hins vegar þessi flotta saumavél! Og rætist þar með áralangur draumur bæði ömmu og Einars um að ég eignist slíkan grip! Sjálf er ég líka himinsæl en svolítið uggandi þar sem afrek mín á saumasviðinu verða seint talin mér til tekna. Ætli hápunktinum hafi ekki verið náð þegar ég hugðist í flýti ætla að gera við gallabuxur áður en ég færi í skíðaferð í Hagaskóla og tókst að brjóta nálina þrisvar og einu sinni að sauma buxurnar saman í svona kuðl!!! Um leið og ég hef lokið við að setja inn þessar myndir hef ég hins vegar hugsað mér að stökkva í bæinn og kaupa efnisbút og tvinna og prófa gripinn. Áður en þið vitið af verð ég áreiðanlega farin að sauma samkvæmiskjóla og sófaáklæði hægri vinstri!!!

Um það leyti sem ég á afmæli eru blómabúðir fullar af túlípönum í öllum regnbogans litum. Það er sjálfsagt ástæðan fyrir því að túlípanar eru uppáhaldsblómin mín. En hér í „heitu löndunum“ er þetta líka tíminn þar sem blómstrandi kirsuberjagreinar fást á hverju götuhorni, mér til mikillar gleði!

Afmæliskirsuberjablóm!