Ömmudagar

Dagarnir 12. - 15. október voru sannkallaðir ömmudagar hér á Konsulentvägen! Þá voru hér hjá okkur tvær ömmur, Imba amma og amma á Sóló. Mæðgurnar komu til okkar seint á fimmtudagskvöldi og fóru þremur sólarhringum síðar eftir ótrúlega skemmtilega dvöl eins og sjá má á eftirfarandi myndum:

Föstudagurinn 13. október

María og Hugi voru ákaflega glöð að vakna á föstudagsmorgninum og finna tvær ömmur í stofunum! Imba amma hafði komið með rosalega fínt krossaumsdót handa Maríu sem féll heldur betur í kramið. Stelpan stakk sér undir sæng hjá ömmu og saumaði með henni fram eftir morgni!

Hugi fylgdist spenntur með saumunum. Systkinin fengu að vera í fríi frá skóla og leikskóla þennan dag til að hægt væri að nýta tímann með ömmunum sem best. Ekkert ömmufrí var þó í boði fyrir Einar sem hélt á heilsugæsluna snemma morguns bæði slappur og kvefaður!

Eftir hádegið héldum við í skoðunarferð um Uppsali. Við byrjuðum í dómkirkjunni undir þessari fagurlega skreyttu hvelfingu.

María og Hugi kveiktu á kertum með Imbu ömmu.

Innst í kirkjunni stendur þetta listaverk sem heitir Endurkoman ef ég man rétt. Maður er reyndar smá stund að átta sig á að um listaverk sé að ræða en ekki raunverulega konu í þungum þönkum!

Prestur á þönum eftir kirkjuskipinu! Eins og mér finnst þessi kirkja falleg þá á ég alltaf pínulítið erfitt með að koma þangað því kórsöknuðurinn hellist yfir mig eins og alda í hvert skipti. Einu sinni þegar ég ráfaði þarna inn var einhver að æfa sig á orgelið og þá gat ég ekki annað en hugsað um kirkjuna mína, alla fallegu tónlistina og Mótettukórinn minn og langaði mig mest að fara að gráta! Ég sakna ykkar!!!!

Amma Guðrún og María settust inn í eina af litlu kapellunum og virtu fyrir sér listaverk sem María kaus að kalla Englahúsið hans Guðs!

Kertakróna og steindur gluggi.

Þetta er hluti af uppáhaldslistaverkinu mínu í kirkjunni, veggteppi sem segir sögu kirkjunnar í nokkrum myndum. Við María höfum nefnilega báðar erft hannyrða-áhugann frá ömmunum!

Eftir að dómkirkjan hafði verið skoðuð í krók og kring lögðum við leið okkar í háskólagarðinn. Þegar þessi mynd var tekin var Hugi reyndar enn að jafna sig eftir sýningu sem við sáum fyrir utan kirkjuna þar sem tvær manneskjur á stultum léku galdrakarl og norn. Hann varð svo hræddur að hann hágrét þangað til flúið var með hann í öruggt skjól bak við næsta hús. Þá óx honum hins vegar skyndilega ásmeginn og þóttist mest sjá eftir því að hafa ekki bara verið með sverðið sitt í bænum því þá hefði hann barist við nornina!

  

Þegar ég var að taka myndir af Maríu stakk hún sjálf upp á að hún myndi þykjast vera rosalega hrædd á einni myndinni ... hún er gefin fyrir drama þessi dama!!!

Í háskólagarðinum var eitt stórt og fallegt tré orðið næstum alveg gult ... svo ótrúlega fallegt! Þau eru líka falleg þessi börn sem standa undir því!

  

Ég varð svo heilluð af þessu eina tréi og undursamlegri haustbirtunni að ég gat ekki hætt að taka myndir!

Þarna erum við nöfnurnar undir trénu góða!

Hugi undir trénu ... sætur eins og alltaf!

Einbeittur að skoða haustlaufin í grasinu.

Það er orðið haustlegt um að litast á götum og stígum Uppsala.

Enn ein af trénu!!!

Hugi fékk langþráð ömmuknús á bekk í háskólagarðinum ...

... meðan María og amma á Sóló tíndu hnetur og lauf í náttúrudýrgripasafn þeirrar fyrrnefndu.

Elli þessi er fyrir þig: Mamma fann loksins alvöru táknstein!!!

Þetta er dálítið trend hérna í Uppsölum, ámálaðir gluggar!!! Ég er ekki enn alveg búin að fatta tilganginn en mér finnst þetta samt eitthvað svo voðalega fallegt!

Á leið okkar niður í miðbæinn rákumst við inn í aðra kirkju sem er mun eldri en dómkirkjan. Loftið í henni var ekki síður fallegt ...

... og þessi litli hurðarhúnn, í laginu eins og hönd haldi utan um handfangið, heillaði mig líka.

Á göngugötunni kíktum við í búðir og amma á Sóló sá til þess að enginn færi tómhentur heim! Eftir allt þetta þramm var gott að tylla sér niður á Landings konditori og fá sér prinsessutertu, kanilbulla og kaffi!

Laugardagurinn 14. október

Á laugardeginum tókum við lestina inn til Stokkhólms og fórum á Skansen, eins konar Árbæjarsafn Svía og eitt af fyrstu útisöfnum í heimi. Svæðinu er í raun skipt upp í þrjá hluta, bæjarhlutann þar sem búið er að endurgera lítinn kaupstað með bakaríi, smíðaverkstæði, glerverkstæði og fleiru; dýragarð með norrænum dýrum og svo sveitahluta þar sem búið er að endurreisa gamalt sveitaþorp með bæjum, kirkju, skóla og fleiru. Hér eru fjórar kynslóðir í beinan kvenlegg ásamt einum litlum Huga fyrir utan bakaríið í bæjarhlutanum og ég er með nýbakaðar kanilbulla og annað kruðerí í bréfpoka!

Fyrir utan bakaríið var þessi ótrúlega sæti íkorni!

Má ég eig'ann?!?

Fjórar kynslóðir dást að íkornakrúttinu sem er um það bil að stökka í burtu á þessari mynd.

Nokkrir tíugulegir páfuglar spranga um á Skansen.

Einar keypti sér þurrkað kjöt í litlum bás sem seldi matvæli frá grannþjóðinni Finnum.

María og Hugi trylltust af gleði þegar við komum í dýragarðshlutann! Við byrjuðum á hreindýrunum.

 

Elgirnir voru risastórir, afslappaðir ... og dálítið skondnir.

Þessa þekkjum við nú vel úr Húsdýragarðinum!

Otrarnir eru ógurlegar dúllur!

Einar var hálflasinn alla helgina greyið en druslaðist þó með okkur í þetta allt.

Þessi ugla var voðalega undarleg. Hún var algjör hlunkur og andlitið á henni var svo ótrúlega skringilegt og flatt. Það var næstum eins og hnakkinn á henni og vængirnir mynduðu kufl og stóra hettu utan um hana. En hún var ótrúlega flott, fylgdist haukfránum augum og grafkyrr með íkornunum sem skoppuðu fyrir neðan. Mér hafa alltaf þótt uglur svo æðislegar og krúttlegar en þessi var eiginlega frekar óhugnaleg en um leið ótrúlega falleg.

Haustlegt á Skansinum.

Bjarnargryfjan er ein helsta perla staðarins. Svæðið þeirra er risastórt og ótrúlega flott. Þrátt fyrir víðáttuna valdi þessi bangsi að fá sér blund klesstur upp við glerið sem skilur milli gryfjunnar og æstra áhorfenda! Maríu fannst gaman að skoða bangsann í návígi ...

... en Hugi vildi helst sjálfur fá sér blund á bekk við glerið.

  

Maríu og Huga fannst þessi „bjarnarhellir“ það allra skemmtilegasta á öllu svæðinu!

  

Þessi skógarbjörn var að leita sér að góðum stað til að fá sér blund á ... og fann sem betur fer þennan þægilega stein að halla höfðinu á!

Notalegt!!!

Bangsarnir voru eins og bestu fyrirsætur ... ég er ekki frá því að þessi sé að brosa í vélina!

Við bjarnagryfjuna var líka svona stór og skemmtilegur trébangsi sem leyfir öllum krökkum að príla á sér.

Það búa víst líka gaupur á Norðurlöndunum.

Amma og María náðu að knúsast mikið þessa helgi!

Þessi fallegi dagur var eiginlega kaldasti dagurinn sem við höfum upplifað frá því við fluttum hingað. Við hjónaleysin drógum því fram ullarjakka og trefla fyrir ferðina.

Mér finnst ógurlega fallegt hvernig berjaklasarnir ríghalda sér enn í greinar reynitrjánna þrátt fyrir að öll laufblöð hafi fyrir löngu sleppt takinu.

Efst á hæðinni sem Skansen stendur á eru nokkur leiktæki, meðal annars þessi fína bílabraut sem systkinin fengu auðvitað að prófa. Við hin hlógum og hlógum því það var svo ótrúlega krúttlegt að fylgjast með þeim svona mannalegum á fleygiferð í pínulitlum bílnum!

Þarna koma þau brunandi undir japanska hlyninn!

Sjáið þið hvað María er dásamlega einbeitt á svipinn á þessari mynd ...

... hún þorði ekki annað en að ríghalda í stýrið hjá Huga og uppástóð að hann hefði bara viljað snúa því og snúa fram og til baka og að hún hefði orðið að grípa í taumana ef þau hefði ekki átt að bruna beinustu leið út af veginum!!!

Þótt Skansinn sé opinn allan ársins hring er starfsemin takmörkuð yfir vetrartímann. Það var þó opið í skólahúsinu og þetta ímynda ég mér að gæti verið skrifstofa skólastjórans.

Inni í skólastofunni sjálfri var hins vegar voðalega góð kennslukona. En hverjir eru þessir áhugasömu nemendur á fyrsta bekk?

Það eru alla vega einhverjir krakkar sem telja sig vita öll svör við spurningum kennslukonunnar!!!

 

María reiknaði meira að segja dæmi uppi á töflu: 2+3=5 ... sjáið þið þessa ótrúlega krúttlegu fimmu hennar á töflunni á seinni myndinni!

Það voru enn rósir í blóma á Skansinum þótt komið væri fram í miðjan október.

Systkinin heimtuðu að fara úr úlpum og jökkum en varð kalt fyrir vikið!

Hugi og amma á Sóló koma hlaupandi eftir stígnum! Það var reyndar töluverð bílaumferð um þenna hluta Skansins þar sem brúðkaup fór fram í Seglora kirkjunni á þessari stundu.

Á Skansinum er frábært útsýni yfir Stokkhólm sem þessar dúfur nutu til hins ítrasta.

Eftir Skansinn skoðuðum við okkur um í Gamla Stan og fórum út að borða. Á leiðinni heim í lestinni dunduðum við María okkur við að rannsaka hnetur sem hún hafði tínt yfir daginn og stungið í vasann (það sem þetta barn treður ekki í vasana!).

Amma á Bakkastöðum og Hugi voru ánægð með góðan dag í lestinni.

Sunnudagurinn 15. október

Á sunnudeginum skelltum við kellurnar  okkur þrjár saman á orkideusýningu í gróðrarstöð í Uppsölum. Amma var alveg heilluð af úrvalinu og fannst agalegt að geta engar tekið með sér heim! Hér er hún með einni fjólublárri sem henni fannst svo falleg.

Blóma- og ekki síst blómamyndaáhugann hef ég án nokkurs vafa erft frá ömmu minni!

Mæðgurnar með ýmsar gerðir af orkideum á bak við sig.

Ég átti mjög erfitt með að stilla mig innan um allar þessar fallegu orkideur og naut þess að vera sú eina af okkur sem gat tekið eitthvað af úrvalinu með sér heim. Á endanum fyllti ég innkaupavagninn af orkideum af öllum stærðum og gerðum!

Hér sést úrvalið mitt aðeins betur! Þetta voru fimm gerðir, hver annarri fegurri! Svo er aftur á móti spurning um hvernig mér tekst að halda þeim á lífi því þrátt fyrir að ég hafi erft blómaáhugann frá ömmu hafa grænu fingurnir eitthvað skolast til í framleiðslu!

Ömmu á Sóló fannst þessi fallegust af öllum ...

... en þessi var í mestu uppáhaldi hjá mömmu.

Eftir orkideusýninguna skelltum við okkur á kaffihús og fengum okkur prinsessutertur og kaffi. Amma skemmti sér vel!!!

Um kvöldið höfðum við svo læri sem amma kom með handa okkur frá Íslandi í matinn og ís með hindberjum úr garðinum í eftirrétt.

María og amma náðu að sauma smávegis áður en mæðgurnar þurftu að rjúka út á flugvöll.

  

María og Hugi kvöddu ömmurnar með tárum og sárum söknuði. Við vonum öll að þær komi sem allra fyrst aftur í heimsókn til okkar!!!