Októberdagbók 2010 

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

3. október 2010

Risaeðla skrifar

Elsku lesendur. Nú haldið þið sjálfsagt að ég sé alveg búin að gefa skít í síðuna og gleyma ykkur, þessum örfáu hræðum sem kíkið hingað inn i von um fréttir og nýjar myndir. En þá get ég fullvissað ykkur um að svo er ekki. Alls ekki. Hins vegar er eitthvað að síðunni sem ég get ekki lagað. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég kann akkúrat ekkert á heimasíðugerð, nema bara setja upp þessa síðu á nákvæmlega þann hátt sem ég hef gert síðastliðin sjö ár. Og þessi síða er sett upp á eins gamaldagshátt og hægt er að hugsa sér, svo að segja næsti bær við að vélrita hana bara upp, líma myndirnar inn og hengja svo blaðsíðurnar upp á ljósastaura. Þannig að þegar eitthvað kemur upp á kann ég ekki að bjarga mér og það sem verra er, starfsfólkið hjá fyrirtækinu sem hýsir síðuna skilur ekki heldur neitt í svona risaeðluvinnubrögðum og kunna ekki að bjarga mér heldur. Ég veit því hvorki hvað er að né hvernig ég eigi að leysa þetta. Og fyrir vikið veit ég ekki alveg hver framtíð elsku litlu heimasíðunnar minnar verður. Ég get ekki sett inn neinar nýjar síður og engar myndir en virðist hins vegar geta uppfært texta á síðum sem fyrir eru (þar af leiðir þessi færsla frá því um miðjan síðasta mánuð hér að neðan sem birtist en þið getið því miður ekki skoðað allar nýju myndirnar). Kannski þarf ég bara að stroka allt út og byrja upp á nýtt? Það þætti mér samt eitthvað svo hræðilegt, að geta ekki sjálf skoðað gömlu myndirnar frá því María og Hugi voru lítil kríli, ekki borið saman aðventukransagerð síðustu ára og svo framvegis. En kannski þætti ykkur það ekki skipta neinu máli? Kannski get ég látið þessa síðu halda sér og byrjað upp á nýtt á nýjum stað? Og kannski, kannski get ég fundið einhvern netsnilling sem getur leitt mig úr vandanum svo ég geti haldið áfram með forneskjulegu skrímslasíðuna mína. Vonum það.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar