Októberdagbók 2009   

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. október 2009

Til að sýna það og sanna að mér er full alvara með því að ætla að vera duglegri að sinna þessari ágætu síðu birti ég allar mánaðarmyndirnar sem ég skulda ykkur:

Hér kemur ágústmyndin. Hér eru systkinin þrjú hvergi sjáanleg en þeirra í stað fullt af litlum berjabörnum. Takið sérstaklega eftir hressa graskerskarlinum þarna í horninu!

Septembermyndin er svo sæt! Hér er stóri bróðir á leiðinni í skólann og bíður eftir að epli detti af trénu svo hann geti tekið það með sér í nesti. Systurnar eru enn of litlar til að fara í skólann en fylgja honum úr hlaði.

Októbermyndin er sú fyrsta af þessum myndum sem ég komst í tæri við. Skömmu eftir að við fluttum hingað rakst ég á póstkort með þessari mynd í búð og vissi þá að ég yrði að komast yfir þær allar með einhverjum hætti. Bókina góðu með öllum þessum teikningum fann ég svo í sömu búð tveimur árum síðar.

Nóvembermyndin er svo væntanleg innan skamms. Þangað til haldið þið bara áfram að láta til ykkar taka í kommentakerfinu!

 

27. október 2009

Markmið

Héðan af Konsulentvägen er allt gott að frétta þótt augljóslega gefist fremur lítill tími til að greina frá hversdagævintýrum fjölskyldunnar á heimasíðunni. Það sem efst er á baugi þessa dagana er eftirfarandi:

María er að safna sér fyrir bleiku glimmer jólatré. Við sáum þannig ófögnuð í Plantagen um daginn og stúlkan spurði hvort hún mætti fá svona jólatré til að hafa í herberginu sínu. Ég hélt að ég væri ótrúlega snjöll þegar ég svaraði að það mætti hún gjarnan ef hún keypti tréð fyrir eigin peninga. Það voru afdrifarík mistök. Jólatréð kostar 129 krónur og hún á svo að segja fyrir því nú þegar!

Hugi ætlar að skrifa kvikmyndahandrit. Hann er alveg búinn að ákveða hvað á að gerast í myndinni og hvernig hún á að enda og allt. Hann hefur aðeins áhyggjur af einu atriði í ferlinu að fullbúinni kvikmynd. Hann er nefnilega svolítið hræddur um að þegar hann hringi í kallana sem búa til bíómyndir þá tali þeir bara ensku. Annað sér hann nú ekki til fyrirstöðu!

Baldur Tumi er líka metnaðarfullur þótt hann sé hvorki að safna fyrir jólatré né skrifa kvikmyndahandrit. Nei, markmið hans er að koma báðum höndum upp að úlnlið og einni hringlu upp í munninn á sama tíma. Æfingar ganga vel og hann virðist furðu nálægt takmarkinu þótt hann hafi erft munn frá röngu foreldri. Hann er annars fimm mánaða í dag og verður stórkostlegri með hverjum deginum.

Mitt markmið er hins vegar að vera duglegri að sinna þessari heimasíðu. Í því skyni hef ég nú sett inn hvorki meira né minna en fjögur ný myndaalbúm:

Svipbrigði í september

Haustferð til Íslands

Þrír kettlingar

Svefnherbergið dubbað upp

Annað markmið er að reyna að veiða fleiri komment og kveðjur í gestabókina. Við viljum endilega heyra frá ykkur öllum sem oftast!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar