Októberdagbók 2008  

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

24. október 2008

Ég ætlaði að skrifa hér einhverja langloku um fallegt líf en fattaði allt í einu að ég er orðin allt of svöng til að sitja við skriftir. Þannig að, án allra væminna formála, bendi ég ykkur á að skoða glænýjar myndir:

Þytur í laufi, bálið brennur

 

15. október 2008

Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarna daga hvort ég eigi að segja eitthvað um ástandið á Íslandi hér á þessum vettvangi. En ég hef eiginlega komist að þeirri niðurstöðu að það gagnlegasta sem ég hafi til málanna að leggja séu krúttmyndir af börnum, fallegum haustlitum og blómum, svona til að minna okkur öll á að þrátt fyrir allt lifum við flest með hagnaði. Þannig að:

Gulur, rauður, grænn og blár

 

 

10. október 2008

Dregið úr hatti

Elsnemma í morgun skrifaði ég sjö nöfn á jafnmarga miða, rúllaði þeim upp og setti í morgunverðarskál. Til að gæta fulls hlutleysis bað ég Einar að draga með lokuð augun og nafnið sem stóð á miðanum sem hann fiskaði upp var:

Sirrý!!!

Ég kem buddunni í póst til hennar síðar í dag. Við hérna á Minni síðu óskum henni hjartanlega til hamingju og stingum upp á því að hún noti budduna undir skömmtunarseðla!

Takk fyrir þið hinar sex sem voruð með ... hver veit nema ykkar bíði nóvemberglaðningur?

Góða helgi!

 

6. október 2008

Októberglaðningur

Ég var að spá í hvort ég mætti kannski gefa einhverju ykkar þessa litlu buddu sem ég saumaði í gærkvöldi. Það eina sem þið þurfið að gera ef ykkur langar í budduna er að segja mér það í kommentakerfinu og ef fleiri en einn gefa sig fram þá dreg ég númer úr hatti!

Ástæðurnar fyrir þessari óvæntu gjafmildi af minni hálfu eru nokkrar og flestar mjög eigingjarnar! Fyrir það fyrsta verð ég að fara að koma einhverjum af þessum ótal efnabútum sem ég er búin að kaupa mér út. Mig langar nefnilega svo að kaupa mér fleiri en fer eiginlega að vanta pláss! Í öðru lagi vil ég gjarnan æfa mig sem mest við saumavélina en stúlka þarf jú bara svo og svo margar buddur/töskur/pennaveski til eigin nota! Ef ég er dugleg að æfa mig verður því óhjákvæmilega nokkurt yfirflæði og það er þá kannski eins gott að einhverjir aðrir njóti góðs af en að þetta rykfalli allt hjá mér. Í þriðja lagi er ég, eins og ég lýsti um daginn, orðin svolítið þreytt á þessari síðu og þess vegna langaði mig að prófa að gera eitthvað alveg nýtt á henni. Í fjórða lagi er ég auðvitað bara að reyna að fá ykkur til að skrifa komment hjá mér og ef til vill lokka einhverja laumulesendur út úr skúmaskotum! (Ég sé til dæmis alveg fram á að allir þeir fjölmörgu sem ramba inn á síðuna mína í leit að prjónauppskriftum gætu vel þegið svona buddu undir málband, saumaskæri og nálar!) Og að lokum er þetta auðvitað bara aðeins þroskaðri leið til að kaupa sér vini en að bjóða upp á nammi!

Buddan er um það bil 15 cm á hæð og 18 cm á breidd. Hún er úr 100% bómullarefni bæði að innan sem utan en til þess að hún formist betur og haldi lögun sinni er eitthvað svona gerviefnisstífelsi straujað innan í hana. Ég elska þetta munstur með trjám, blómum og fuglum en reyndar sé ég að óþarflega mörg trjánna hafa lent á hvolfi hjá mér þegar ég sneið efnið (þau eru sitt á hvað upp eða niður).

Buddan er alls ekki gallalaus. Saumarnir þarna við rennilásinn eru dálítið skakkir og skældir og hornin beygluð. Um tíma festist rennilásinn líka alltaf í fóðrinu en eftir góða törn við straujárnið tókst að útrýma því vandamáli. Sem sagt langt í frá fullkomin en algjörlega nothæf. Ég sé alveg fyrir mér að huggulegar dömur gætu notað hana undir snyrtidót, ungbarnaforeldrar undir snuð og servéttur, námshestar undir blýanata og strokleður já og svo var það þetta með málbandið og nálarnar.

Ég verð að játa að ég er alveg skíthrædd við að birta þessa færslu! Er svo hrædd um að enginn setji nafn sitt í kommentakerfið og að það endi kannski með því að Svanhildur aumki sig yfir mig á þriðja degi, skrái sig og þykist ofsa spennt til að hughreysta mig! Ó mæ, hvað mér á eftir að líða kjánalega þá! En ég ætla samt að láta vaða!

Gleðilegan október!

 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar