Októberdagbók 2007  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. október 2007

Frá því ég skrifaði síðast inn á þessa síðu hef ég:

* Fengið ritrýnina sem ég sagði frá í fyrri færslu til baka og lagfært hana eftir athugasemdum ritstjóra og eigin endurmati.

* Fengið greinina sem ég sagði frá í fyrri færslu til baka og nánast lokið við að lagfæra hana eftir athugasemdum ritstjóra og eigin endurmati.

* Orðið aðeins of geðvond en góðu hófi gegnir þar sem ég veit bara ekki um leiðinlegri iðju en að lagfæra greinar og ritrýni eftir athugasemdum ritstjóra og eigin endurmati.

* Prjónað í akkorði milli allra lagfæringanna á barn sem á að fæðast eftir aðeins bara sex vikur ... gúlp!

* Drukkið kaffi í ómældu magni.

* Lært margt um lífið og tilveruna og meðal annars komist að því að ég er búin að gleyma alveg ótrúlega miklu frá lífinu á Íslandi ... ekki beint hvernig hlutir líta út eða neitt slíkt heldur meira hvernig mér leið og hvað hafði áhrif á mig.

* Verið stressuð, glöð, tregafull, hamingjumsöm ... og með ótrúlega mikið samviskubit yfir að hafa ekki sinnt þessari góðu heimsíðu minni betur. Klóra því í bakkann með skammti af myndum og loforði um bót og betrun í nóvember.

Konsulenthaust

Gleðilega hrekkjavöku á morgun og nóvember á hinn!

 

18. október 2007

Æ, æ ...

hvað ég er nú búin að vera ömurlega ódugleg við að uppfæra þessa síðu. Allt á þetta sér þó eðlilegar skýringar. Fyrst skrifaði ég nefnilega grein og svo skrifaði ég ritrýni og svo kom mamma í heimsókn. En nú skulum við ekki tala meira um hvað ég er léleg í netskrifum heldur ætla ég að segja ykkur frá sænskunámskeiðinu sem ég er á.

Í lok sumars skráði ég mig sem sagt á sænskunámskeið. Ég byrjaði á að taka nokkur próf á netinu til að átta mig á því hvaða stig væri heppilegast fyrir mig að skrá mig á. Niðurstaðan var sú að ég ætti heima á stigi B2 en af kvenlegri minnimáttarkennd ákvað ég auðvitað að lækka mig um eitt stig. Ég væri nú svo hræðilega léleg að ég réði örugglega ekkert við þetta, taldi prófin meingölluð og þar að auki víst að allir myndu hlæja að mér sama á hvaða stigi ég væri. Svo mætti ég í fyrsta tímann. Mjög fljótlega kom í ljós að ég var eina manneskjan á svæðinu sem gat haldið uppi samræðum á sænsku. Eftir ársbúsetu í Svíþjóð þar sem ég hef markvisst pínt mig til að tala ekkert annað en eitthvað skandinavískt samsull fer ég sem sagt námskeið til að bæta kunnáttu mína í sænsku en enda með því að tala eiginlega bara ensku! Það er þó bráðnauðsynlegt. Hér er dæmi um það hvað gerist ef samræður innan veggja kennslustofunnar fara fram á sænsku:

Mahdi frá Íran: Så, Island ... det är nära här?

Ég: Ja, Island är er ett nordiskt land, en ö ... här uppe (bendi í norður).

Mahdi frá Íran: Ö?

Ég: Jebb.

Mahdi frá Íran: „Ö“ ... och har ni också „Ä“?

Ég: Öhh ... uhhh ... (ákveð að þetta sé vonlaust) ... ja precis!

Þetta atvik varð til þess að ég ákvað að ég yrði líka að fara á annað námskeið! Ég stend sjálf fyrir því námskeiði og er bara með einn nemanda, sjálfa mig. Námskeiðið heitir „Sjálfstraust 101 - hættu þessu djöfulsins væli og aumingjaskap“!                                                                  

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar