Októberdagbók 2006

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

31. október 2006

Við ljúkum dagskránni þennan mánuðinn með nokkrum hrekkjavökumyndum.

Sjáumst í nóvember!

 

27. október 2006

Litla ljósið

Fyrr í vikunni sátum við fjölskyldan í skammdegisrökkrinu á einu uppáhalds kaffihúsinu okkar hér í Uppsölum þegar María fór að rifja upp síðustu kaffihúsaferðina okkar á Íslandi. Staðurinn var Kaffitár í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, stundin var 6:30 að morgni 26. júlí og við vorum um það bil að fara að flytja úr landi. Skyndilega helltist yfir mig sama skrýtna tilfinningin og ég hafði upplifað einmitt þarna. Ef ég á að vera alveg hreinskilin efast ég um að ég hafi nokkru sinni verið eins óörugg og óttaslegin og einmitt þá. Áreiðanlega dálítið svipað og að standa í opinu á flugvél um það bil að fara að stökkva út með fallhlíf á bakinu. Maður veit svo sem að það eru allar líkur á að fallhlífin opnist á endanum, að allt verði í lagi og að þetta verði, þegar öllu er á botninn hvolft, ótrúlega skemmtileg lífsreynsla. Staðreyndin er engu að síður sú að maður er að fara að stökkva út í tómið og hefur í raun og veru ekki hugmynd um hvernig manni á eftir að líða en getur þó gert ráð fyrir að augnablikin í frjálsu falli verði þrungin ótta og spennu. Mér lék forvitni á að vita hvort María hefði upplifað þessi tímamót með svipuðum hætti þannig að ég spurði hana hvernig henni hefði liðið í þessari umræddu kaffihúsaferð í Keflavík.

„Mér leið svona eins á litinn og ljósið sem kemur frá ljósaperu sem er kveikt á“ svaraði sú stutta eftir smá umhugsun. Við foreldrarnir áttuðum okkur ekki alveg á líkingunni þannig að Einar spurði hana hvernig sú tilfinning væri. Stúlkan starði stórum skilningsvana augum á pabba sinn og sagði: „Ég var að segja þér það!“

Nei hana skortir aldrei orð þessa stelpu þótt hún noti þau stundum svona „freestyle“. Ég skil þetta sem svo að henni hafi liðið nokkuð vel á þessu augnabliki og hálfskammast mín fyrir að hafa verið svona hrædd sjálf. Hver ætti líka að vera hræddur við að flytja milli landa með svona lítið ljós sér við hlið, ljós sem ævinlega gefur birtu og yl!

P.s. Frjálsa fallið var ekki eins hræðilegt og ég hafði ímyndað mér, fallhlífin opnaðist á hárréttu augnabliki og við erum um það bil að lenda á nýrri grund eftir skemmtilegt og lærdómsríkt svif. Ég ætla samt aldrei í alvöru fallhlífastökk!!!

 

23. október 2006

Daddaramm!

         

                                  Septembersumar                                         Ömmudagar                                  

Nýjar myndir, nýtt útlit og nýuppfærðir hlekkir: Maggi Ragg er vinur minn úr menntaskóla, kórstjóri og sérlegur ráðgjafi minn um sænska kórmenningu! Sveinn er mágur minn sem flutti ásamt eiginkonu og dætrum til Óðinsvéa daginn áður en við fjölskyldan fluttum til Svíþjóðar. Halldís er sópransystir mín sem flutti til Óðinsvéa til að læra talmeinafræði (er það ekki annars Halldís?). Meira hvað fólkið í kringum mig flykkist til Óðinsvéa!!! Einhverjir Óðinsvéabúar hafa hins vegar eytt meira púðri að undanförnu í að búa til börn en að uppfæra vefdagbækur ... þeirra hlekkjum verður bætt inn um leið og þeim tekst að færa sig úr bleiuskiptunum aftur yfir í bloggið!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða     Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar