Októberdagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. október 2004

Færslan í gær var kannski á dálítið neikvæðum nótum! Til að bæta sjálfsmynd mína og þá mynd sem þið gerið ykkur af mér ákvað ég að birta hér aðra mynd sem María hefur teiknað af mömmu sinni:

Þetta er mynd af mér, Huga og Maríu á leiðinni á leikskólann að morgni dags. Börnin eru að gæða sér á rifsberjum af runnanum sem er þarna til hægri. Þarna er ég í bláu skónum mínum með gullböndunum og með ægilega fína eyrnalokka með bleikum kúlum!

Mér sýnist þessi mamma öllu liklegri til að haga sér eins dama! Hárið er enn svolítið úfið en hey, það væri náttúrulega bara fölsun af hálfu listamannsins að breyta því!

Góða helgi!!!

*Þetta blogg var í boði alfræði-færslunnar um Tómas Guðmundsson sem skila á um helgina og dagbókarinnar um Myndhvarfanámskeiðið sem skila á á mánudag* 

 

28. október 2004

Mynd af mér

Stundum er ég hrædd um að ég sé dálítið „vúlgar“! Mér finnst ég tala allt of hátt og allt of mikið. Sé stundum alveg fyrir mér að þegar ég komi í heimsóknir til fólks hlammi ég mér í stofusófann, breiði úr mér þar og byrji svo að æpa eitthvað á húsráðendur sem aftur á móti verða að láta sér nægja að sitja á sófaarminum eða hreinilega á eldhúskollinum og tísta eitthvað á móti! Ég er hrædd um að ég sé martraðarsjúklingur inni á læknastofum ... það taki sama tíma að afgreiða mig og 3-4 sjúklinga þar sem ég er yfirleitt farin að æpa á lækninn eitthvað sem sé komu minni þangað algjörlega óviðkomandi, t.d. mikilvægi latínukennslu eða bragðgæði ólíkra fisktegunda! Ég þoli ekki þegar ég hef á tilfinningunni að fólki þori ekki öðru en að samsinna mér af því að ég sé orðin svo æst, jafnvel þó það sé á allt annarri skoðun.  Ég óttast fátt meira en að vera með varalit á tönnunum (svona í stíl við karakterinn) ... nema ef vera kynni að ég muni einn góðan veðurdag rota viðmælanda minn með æsilegu handapati því sem gjarnan fylgir þessu háværa tali mínu! 

Mig langar ekki að vera svona og af og til læt ég mig dreyma um að ég sé pen dama og alls ekki neitt „vúlgar“. Sá draumur var fótum troðinn í gær! Í gær teiknaði dóttir mín þessa mynd af mér:

Er það ekki deginum ljósara af þessari mynd að ég er einmitt sú manneskja sem ég óttast mest að vera? Getur mamman á myndinni talað lágt og kurteislega án þess að fara út fyrir efnið? Getur hún tyllt sér pent á eitt lítið sófahorn þegar hún fer í heimsóknir? Getur þessi mamma liðið fólki að hafa aðrar skoðanir en hún sjálf? Einhvern veginn sýnist mér ekki!!! Og hvað er málið með pilsið sem mamman er með á hælunum?! Hafið þið orðið vör við að ég sé svo „vúlgar“ að ég girði niður um mig í tíma og ótíma?! Meira að segja ég hafði ekki hugmyndaflug í að óttast að ég gengi svo langt!

Sjáið þið líka að þarna glittir í smá varalit á kaffimettuðum tönnunum? Sýnist ykkur, eins og mér,  að mamman á myndinni sé u.þ.b. að fara að éta einhvern?!!! Guð minn góður ... ég er tröllskessa!!!

Héðan í frá ætla ég að einbeita mér að því að vera á háhæluðum skóm, krossleggja fætur, vera með augnskugga og tala undurlágt og mjúklega. Ég ætla að láta aðra um að brydda upp á umræðuefnum og fylgja þeim staðfastlega án nokkurra hliðarspora. Ég mun hér eftir vera sammála síðasta ræðumanni og gefa það til kynna aðeins með nettu kolla-kinki! Ég ætla að leyfa fólki að hafa sínar skoðanir án nokkurra tilrauna til að hafa áhrif á þær. Reynið samt að vera ekki mikið ósammála mér ... eins og allir vita þá hef ég hvort eð er alltaf rétt fyrir mér!!!

p.s. Nokkrar nýjar myndir af öðru litla hálftröllinu mínu eru komnar í októberalbúmið.

 

22. október 2004

Siggi er á nýjum buxum, Solla á bláum kjól ...

Eftir akkúrat tvo mánuði rennur upp dagur sem yfirleitt hefur verið hlaðinn spennu hér á Bárugötunni! 22. desember ... tveir dagar til jóla, eldhúsið mitt er fóðrað að innan með smákökudeigi, jólapappírstætlum snjóar yfir íbúðina og jólaborðarnir liðast um gólfin eins og snákar. Svitinn drýpur af okkur Einari, beint niður á gólf ... sem er allt í lagi því þar á hvort eð er eftir að skúra og yfirleitt þykir okkur, á þeim tímapunkti, ólíklegt að það náist yfir höfuð. Á þessum degi er ég vanalega enn að farast úr áhyggjum yfir hvað ég eigi að gefa í jólagjafir og allir eru löngu, löngu búnir að gefa upp vonina um að það náist nokkurn tíma að greiða komandi visa-reikninga! Þetta er samt yfirleitt dagurinn sem við á Bárugötunni veljum til að taka myndirnar í jólakortin! Já eins og foreldrum sæmir sendum við Einar jólakveðju til vina og ættingja með sérstakri mont-mynd af börnunum okkar. Á þeirri mynd viljum við auðvitað að skíni í gegn hvað þau eru óendanlega falleg, gáfuð, skemmtileg, fyndin og góð. Þess vegna er nokkuð undarlegt að við höfum ár eftir ár valið einmitt þennan dag til að taka myndir af þeim.

Ímyndið ykkur börnin í óþægilegum sparifötum, búið að rífa þau úr einhverjum skemmtilegum leik til að sitja kyrr í lengri tíma. Ímyndið ykkur líka eitt sett af foreldrum sem er löngu farnir á taugum yfir gjafakaupum, skreytingum, smákökubakstri og vöntun á þrifum. Síðast en ekki síst eru þeir svo við það að missa vitið af stressi yfir jólakortunum sem ekki einu sinni hefur verið tekin mynd í, hvað þá að þau séu löngu komin á pósthúsið eins og allar reglur segja til um! Undir þessum kringumstæðum er svo ætlast til að náist mynd sem sýnir að börnin okkar séu einmitt bestu börn í heimi! Einar hefur hingað til verið bak við linsuna, ég hef séð um að fyrirsæturnar séu ekki bara kyrrar á sínum stað og horfi í myndavélina heldur er líka í mínum verkahring að fá þau til að brosa fallega. Undir þessum kringumstæðum er það hins vegar vita vonlaust. Börnin vilja halda áfram að leika og eru því á stöðugu rápi, ég keyri þau af mikilli hörku aftur niður á sína staði og skipa þeim að vera sæt og gáfuleg, þau fara að gráta, ég garga á þau að þegja, þau vilja hlaupa í burtu, ég held þeim föstum, þau gráta enn hærra ... og ljósmyndarinn horfir í gegnum linsuna á myndefnið og sér akkúrat ekkert myndarlegt þar!!! Já jólaandinn svífur svo sannarlega yfir vötnum hér á Bárugötu þegar jólamyndatakan er annars vegar og Kodak-momentin eru á hverju strái! Þegar við foreldrarnir erum farin að æpa ókvæðisorðum hvert að öðru, börnin orðin grátbólgin og „ljómyndastofan“ komin í rúst er tökum hætt! Merkilegt nokk höfum við hins vegar alltaf átt alla vega eina nothæfa mynd! 

Spurning er samt hvort við beitum nýrri tæki þetta árið. Hvernig lýst ykkur á að fá bara myndir af börnunum bundnum á höndum og fótum, reyrðum niður í stóla og með broskróka í munnvikum? Eða jafnvel bara með teip yfir munninum og brosi teiknuðu þar á? Ég get svo límt á þau jólasveinahúfur til að lífga aðeins upp á þetta? Já, þetta er alveg spurning ... eh, eða kannski er aðallega spurning um að vera fyrr á ferðinni með myndatökuna og gefa sér aðeins betri tíma í þetta en undanfarin ár, gæta þess að allir magar séu mettir og menn almennt í góðu skapi. Já, það er kannski ráð!!! Í öllu falli eru hér nokkrar upphitunarmyndir

Góða helgi!

 

12. október 2004

Síðan mín!

Ég er voða stolt af litlu síðunni minni og þykir svo vænt um að þið skuluð öll skoða hana. En þó ég þekki sjálf alla sem skrifa komment eða kveðju í gestabók (sem by the way er risin upp frá dauðum) þá geri ég mér grein fyrir því að þið hin þekkist kannski ekki öll. Hér skal gerð örlítil bragarbót þar á! Ég veit svo sem ekki hverjir lesa en virka þátttakendur get ég þó auðveldlega kynnt til leiks. Þetta eru þeir sem ég linka á og þeir sem hafa kommentað hjá mér á síðustu tveimur mánuðum ... eða þar um bil:

Sú sem skrifar komment undir nafninu Mamma er einmitt mamma mín (kemur á óvart, ekki satt?)! Ég hef aldrei getað útskýrt fyrir neinum við hvað mamma vinnur því ég skil það ekki sjálf en hún fer voða oft á ráðstefnur, fundi og námskeið! Mamma er líka kjarnakona sem kann að byggja hús og keyra bíla hratt! Mamma er dugleg að passa börnin mín og hún gefur mér riiisastórar gjafir! Svo kemur hún líka á alla tónleikana mína! Hún gerir besta pottréttinn, kartöflupönnukökurnar og kjúklingasúpuna! 

Þórunn er stóra systir mín. Hún er söngkona, kennari, uppeldisfræðingur og heimspekingur í einum pakka! Hún kann að gera upp íbúðir og rífa veggi! Uppáhaldsbók Þórunnar er Óli Alexander fílíbommbommbomm sem hún les með reglulegu millibili. Þórunn finnur ekki eingöngu nýjar hliðar á öllum málum heldur yfirleitt þær bestu! Hún er alveg spes því hún er eina systkinið mitt sem er ekki með brún augu!

Svanhildur er elsta og besta vinkona mín! Við höfum verið vinkonur síðan í níu ára bekk. Núna er hún list- og sagnfræðinemi á lokasprettinum. Við höfum stofnað mörg félög saman, t.d. kabaretthópinn GASL, Bræðrafolana og Prjónafélagið Pálínu. Við höfum líka gert óteljandi símaöt saman. Svanhildur er rosalega flink að mála veggi og hún er ótrúlega góð í dönsku! Svo gerir hún frábært kaffi!

Björg var skólasystir mín í Hagaskóla og MR en er núna að læra að verða læknir í ungverska bænum Debrecen. Hún er alvöru pæja og var m.a.s. einu sinni ballerína! Björg var best af öllum í vélritun í gamla daga þó hún væri með ritvél frá 1874 og það kæmi jarðskjálfti þegar hún skipti um línu!

Stína er ekki bara fyrrum skólasystir úr Hagaskóla og MR heldur er hún líka fyrrverandi nágranni minn. Hún syngur eins og engill og var líka einu sinni ballerína, já svo er hún meia að segja verkfræðingur. Stína ætlar bráðum að segja mér allt um Gautaborg og Stokkhólm og hvar bestu prinsessuterturnar fáist því ég er að fara til Svíþjóðar í nóvember!

Birta er platsystir mín. Hún er myndlistarkona á leið heim úr framhaldsnámi í Hollandi. Birta á geðsjúkan, indverskan aðdáanda sem sendir henni fyndnustu bréf í heimi. Við Birta erum saman í listafélagi sem hefur haldið gjörninga víðsvegar um borgina, sá frægasti var framinn inni á klósetti á Bíóbarnum sáluga.

Sirrý er skólasystir mín úr Austurbæjarskóla og MR. Ég man að hún átti rosalega flotta eskimóabarbí og alveg magnaðan búðarkassa þegar við vorum litlar. Núna á hún Harald Daða sem er mun flottari en það sem hún átti í gamla daga og ég fylgist með þeim á barnalandi.

Anna Þorbjörg er skólasystir mín úr MR. Hún er í hagfræðinámi í L.A. og veit allt um hina ríku og frægu! Einu sinni gerðum við Anna Þorbjörg símaat saman ... ég elska símaöt. Þetta var rosalega fyndið símaat!!! Þeim sem vilja fræðast meira um Önnu er bent á heimasíðuna hennar!

Kristján og Fanný eiga linka hér til vinstri. Kristján er litli bróðir Einars og þau Fanný eiga von á barni eftir nokkrar vikur. Það verður strákur, annars skal ég éta hattinn minn! Þau skötuhjú eru við nám og störf í Odense.

Svo er það Berglind hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku barna. Hún er samstarfskona Einars á barnadeildinni og hugsaði líka svo undur vel um okkur í vor þegar Hugi varð lasinn. 

Kórfélagarnir hafa verið alveg ótrúlega dyggir lesendur:

Gunna Finn skrifar komment undir heitinu gf. Gunna er dyggur starfsmaður í Kirkjuhúsinu og raddleiðtogi í altinum. Hún er líka í Schola Cantorum sem er hinn kórinn í kirkjunni. Gunna gæti unnið hvaða ungling sem er í sms-keppni!

Tobbi er tenór. Verkfræðingur á daginn en rokkstjarna á kvöldin. Hann er æstur Bítlaaðdáandi og þekkir Birgittu Haukdal! Þeim sem vilja vita meira um Tobba er bent á grænan skít.

Hrefna er alt, flugfreyja og kennari. Hún bakar bestu kökur í heimi og það fara allir að gráta af gleði þegar hún sér um kaffið á kóræfingum!

Sverrir er leynikærastinn minn. Hann er bassi og (leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál) nýútskrifaður úr hagfræði! Sverrir er með riiiiiisastórar hendur!

Þröstur Freyr er stjórnmálafræðinemi. Hann er ástfanginn og hræddur við kóngulær. Hann er líka vinur minn!

Að lokum skrifaði Kristín kveðju í gestabókina um daginn sem gerði það að verkum að hún vaknaði til lífsins eftir langan dvala! Kristín er alt og hjúkrunarfræðingur. Hún er líka fráfarandi messuhópstjóri í Flotta hóp og ætlar að setja mig inn í embætti með viðhöfn!

Ég vona að ég sé ekki að gleyma neinum, ef svo er þá verður sá hinn sami bara að minna á sig!

Börnin mín hafa að sjálfsögðu alltaf verið aðalstjörnurnar á síðunni minni. Þeim sem þurfa á upprifjun að halda er bent á allra nýjustu myndirnar af þeim

Takk öll fyrir að lesa!

 

9. október 2004

Einmitt núna sit ég á Þjóðdeildinni á Þjóðarbókhlöðunni. Hér er einstaklega rólegt, bara ég og þrír eldri herrar ... og svo starfsmaðurinn sem ber í mig eintök af tímaritunum Heima er bezt og Barnablaðinu Æskunni. Um þau þarf ég að skrifa færslur þessa helgina. Hér er lykt af gömlum bókum og ekkert heyrist nema skrjáfið í gulnuðum pappír. Það er svo dásamlegt að skoða þessi gömlu blöð, hér er t.d. fyrirsögn úr því fyrrnefnda frá árinu 1951: Undraefnið „Plast“!!! Með greinni eru svo sýndar myndir af nokkrum nýstárlegum plasthlutum eins og t.d. plastgreiðu og kúlupenna úr plasti! Hvílík undur!!! Auglýsingar fyrir hrífur og Rafha ( ... „hefir staðizt dóm reynslunnar“!) ráða ríkjum. Og í fyrsta tölublaði Æskunnar sem kom út árið 1898 (jebb, hún er 106 ára gömul!) er að finna þennan brandara:

Gesturinn: Komið þjer sælir, húsbóndi góður.

Húsbóndinn: Komið þjer sælir! Veskú, stóll, fáið þjer yður sæti.

Ég fatta hann ekki alveg ... en pissaði samt næstum í mig af hlátri! 

Og á meðan ég sit og sekk mér niður í hugarheim húsmóður um miðja síðustu öld, ímynda mér að ég væri að skoða Heima er bezt og láta mig dreyma um að eignast Rafha þvottapott eða plastbolla; þá eru herrarnir á hinum borðunum sjálfsagt í einhverjum allt öðrum heimum, kannski að ímynda sér að þeir gengju í sauðskinsskóm uppi á fjöllum eða væru úti á reginhafi að sigla til Vesturheims. Inni í þessum litla sal rúmast óendanlega margir heimar. Stundum getur verið svo óskaplega skemmtilegt að vera skólastúlka!!!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar