Októberdagbók 2003

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

31. október 2003

Helgin nálgast óðfluga! Mikið er það gaman. Og þessa helgi stendur akkúrat ekkert til nema ef vera skyldi helst að gera stórhreingerningu hér á bæ! Ekki af því að við séum svo miklir snyrtipinnar og viljum hafa allt strokið og hreint. Ó, nei, oft var þörf en nú er nauðsyn! Langt síðan við höfum náð upp svona ótrúlegu magni af óhreinindum í íbúðinni okkar en það telst víst ekki kostur!

Hugi fór á Drafnarborg í dag og var bara hress með það. Við mæðgurnar vorum því bara tvær heima og reyndum að gera gott úr deginum með því að baka kanilsnúða. Bárugatan ilmar því af bökunarlykt og ef einhvern langar að kíkja í kaffi til okkar þá lofa ég nýbökuðum snúðum meðan byrgðir endast! (Svona er nú komið fyrir mér, farin að múta fólki til að koma í heimsókn!) Heyrðum svo aðeins í afa Bíbí sem á afmæli í dag. Til hamingju með daginn, pabbi minn! Smelltum svo af nokkrum myndum sem þið getið kíkt á hér.

Svo er það bara Idolið í kvöld! Ég hlakka geðveikt til. Síðast var ég svo æst að ég gat varla horft á þáttinn. Veit ekki hvort Einar leggur aftur í að horfa með mér! Góða helgi, öllsömul.

 

30. október 2003

Fullorðinsbækur!

Nei, hér fer ekkert dónatal á eftir líkt og fyrirsögnin gæti gefið til kynna. Hún á rætur sínar að rekja til þess að í dag rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég var lítil átti ég eina svona uppáhalds fullorðinsbók, s.s. bók sem mamma og pabbi áttu og ég eiginlega meira hélt að mér þætti skemmtileg frekar en að sú væri raunin. Það var einhver mynd sem mér þótti í þá daga alveg ægilega falleg framan á og ég held að það hafi nú aðallega verið þessi kápa sem laðaði mig að bókinni. Man hins vegar ekki í dag fyrir mitt litla líf hvaða bók þetta var. Þetta rifjaðist sem sagt upp fyrir mér í dag þegar ég var að reyna að hafa ofan af fyrir Maríu og það helst án þess að þurfa að sækja eitthvað inn í barnaherbergi en þar svaf Hugi vært. Mundi þá skyndilega eftir einni bók úr skáp okkar Einars sem henni þótti ægilega gaman að fyrir svona tveimur árum. Þetta er bók sem ég keypti í Banff í Kanada og er bara alveg dæmigerð túristabók sem fjallar um helstu staði og menningu þess lands. Það festist eitthvað uppáhald við þessa bók á sínum tíma þar sem það er svolítið af dýramyndum í henni og blóm og þannig sem litlum börnum finnst gaman að benda á! Ég dró sem sagt þessa góðu bók fram í dag og skoðaði með Maríu, benti á alla staðina sem ég hef komið á (sem eru nú bara býsna margir!), sýndi henni indjána, fjallalöggur, skógarvöt og ísbirni, svo eitthvað sé nefnt! Og eitthvað er þessi bók vel til þess fallin að verða uppáhaldsfullorðinsbók hennar. Í það minnsta fannst henni þetta mjög áhugavert og sá að sjálfsögðu ýmislegt á myndunum sem er fullkomlega hulið augum hinna eldri. Á einni sá hún til dæmis sprengju (sem var raunar elding) og á annarri var hún alveg viss um að sæist glitta í mig! Það fannst mér nú reyndar frekar undarlegt (og hreinlega bara dapurlegt þegar í ljós kom að þetta var karlmaður!!!)! Ég hef reyndar aldrei hugsað um það fyrr en í dag en ætli þetta sé einhver sammannleg reynsla að eiga uppáhaldsfullorðinsbók í æsku?

Hugi orðinn hress og að öllu óbreyttu mun hann rifja upp kynnin af Drafnarborg á morgun. María er enn veik og því er allt útlit fyrir að við mæðgur skoðum kannski einhverjar fleiri fullorðinsbækur á næstu dögum!

 

29. október 2003

ZZZZZZZZZZZZZZ ...

Já við hvíldum okkur ansi vel hér á Bárugötunni í dag. Hugi lagði sig í eina þrjá tíma í eftirmiðdaginn. Ég lagðist aðeins fyrir í sófanum með bók og hafði það gott. Eftir dálitla stund vildi María fá að leggjast hjá mér og einhvern veginn tókst okkur að koma okkur báðum fyrir í láréttri stöðu í sófanum. Síðan vissi ég eiginlega ekki fyrr en við vorum líka steinsofnaðar sem og Bjartur sem svaf til fóta hjá okkur mæðgunum! Þannig sváfu allir á heimilinu í góðan klukkutíma. Þvílík kyrrð, það var varla að ég ætlaði að tíma að sofa hana af mér ... stóðst þó ekki freistinguna. Ahhh ... mikið var það notalegt! Við tók svo notaleg stund með Svanhildi á Súfistanum. Það var sko alveg kominn tími á að við rifjuðum upp Súfistaferðirnar okkar! Morgundagurinn verður væntanlega að mestu svipaður þessum í dag, enn eru bæði börnin veik og við þrjú því innilokuð hér að minnsta kosti einn dag í viðbót!

 

28. október 2003

Fyrirlesturinn búinn!

Já og gekk bara vel ... jafnvel bara mjög vel. Ég held að ég hafi talað í svona klukkutíma! Og það meira að segja blaðalaust! Ég er aðeins að fikra mig áfram í að tala án handrits en það hefur verið stefnan lengi enda finnst mér yfirleitt fádæma leiðinlegt að hlusta á fólk þusa upp af blaði! En þetta er þá kannski að koma hjá mér núna! En já, þetta gekk sem sagt vel og ég fékk góð viðbrögð að ekki sé nú tala um góða aðstoð frá bekkjarfélögum og kennara.

Svo var það bara kóræfing í kvöld. Þar gerðist svo sem lítið markvert annað en að ég fékk loksins, loksins í hendurnar diskinn með Messe eftir Frank Martin. Þetta er svo dásamleg tónlist að ég sit hér með tárin í augnum við geislaspilarann! Vildi að ég gæti leyft ykkur að heyra!

Á morgun get ég loks leyft mér að vera í rólegheitunum heima með lasarusunum mínum. Búið að vera frekar leiðinlegt að geta ekki verið hjá þeim í veikindunum undanfarna daga. Við munum án efa hafa það gott þrátt fyrir pestina, lesum sennilega nokkrar bækur, teiknum myndir og syngjum nokkur lög!

Góða nótt!

 

27. október 2003

Church on time ... !

Já hver kannast ekki við öll skemmtilegu lögin um að verða að komast í kirkjuna í tæka tíð fyrir brúðkaupið! En ég get sko sagt ykkur að það er hreint ekkert skemmtilegt að sitja uppáklæddur í bíl á 120 km hraða á Mýrunum á leið í einhverja týnda kirkju og vera viss um að maður muni missa af elstu og bestu vinkonunni ganga inn kirkjugólfið á brúðkaupsdaginn! Ó, nei! Þetta fékk ég að reyna á laugardaginn. Ég var gráti næst og vissi varla hvort ég ætti að einbeita mér að því að reyna að snúa sjálfa mig úr hálsliðnum sem refsingu fyrir að hafa ekki verið fyrr á ferðinni (veikt og vælandi barn, dót sem þurfti að taka til fyrir gistingu, bensín á bílinn, gleraugu sem gleymdust ... þið vitið hvað ég meina) eða reyna að horfa á björtu hliðarnar og vona að ég kæmi ekki það seint að ég missti af kossinum. Á endanum ákvað ég bara að treysta á Guð og gæfuna og vona heitt að ég næði í kirkjuna í tæka tíð. Ég held að við höfum lagt bílnum svona 7 mínútur yfir fimm. Ég óð drulluna á hvítu sokkabuxunum eins hratt og ég gat og hugsaði ekki um annað en að komast alla vega sem fyrst inn. Þegar við komum að kirkjunni blöstu hins vegar við opnar kirkjudyr, ljósmyndari á vappi fyrir utan, bakið á prestinum ... en hreint engin brúður! Í einni svipan áttaði ég mig á því að ég myndi ekki missa af brúðkaupinu. Gleðin heltók mig og um leið og ég settist í eina auða sæti í kirkjunni fékk ég nett spennufall. Þetta spennufall hefur sennilega verið frumorsökin að gríðarlegu táraflóði sem braust fram nokkrum mínútum seinna þegar hún Svanhildur mín birtist í kirkjudyrunum undir brúðarmarsinum ... nema það hafi verið fegurð brúðarinnar, nú eða faðir brúðarinnar (sem var reyndar veikur blettur, hann að leiða einkadótturina upp að altarinu og allt það) eða bara svolítið sambland af öllu þessu. Í það minnsta, church on time, yndisleg athöfn, frábær veisla með dásamlegum veitingum og skemmtilegum skemmtiatriðum. Við Einar héldum alsæl heim á leið um miðnættið og reyndum að bæta fyrir hraðaaksturinn með of hægum akstri á bakaleiðinni. Mér finnst alltaf mjög gaman að keyra með Einari í bíl úti á landi svo þetta var bara glæsilegur endir á góðu kvöldi. Gærdagurinn bar þess aðeins merki að við fórum seint að sofa, og ég var heldur ekki alveg orðin hress af þessari pest. Það var því mest lítið gert annað en að huga að börnunum, Hugi kominn með bullandi eyrnabólgu báðu megin og María komin með hita! Í dag var þó ekki inni í myndinni að leyfa sér slíka leti. Fyrirlestur á morgun og jafnvel þó ég vilji taka þessu létt þá verð ég nú að gera eitthvað. Fékk því pössun fyrir lasarusana og skellti mér með tölvuna til ömmu. Fyrsta skipti sem talvan fer út úr húsi. Ég held að henni hafi fundist mjög gaman í heimsókn á Sóló! En mikið fannst mér undarlegt að hafa enga nettengingu. Ekkert stytti mér stundir við vinnuna nema litli office assistantinn (æ, þið vitið bréfaklemmukarlinn í horninu) og verð ég að segja að ég var félagsskap hans fegin. En því er ekki að neita að vinnan gekk töluvert hraðar og betur en þegar ég er í félagsskap veraldarvefsins!!!

 

25. október 2003

Nú er veturinn formlega kominn, fyrsti vetrardagur í dag!

Langt síðan skrifað var síðast, heilir þrír dagar. Ástæðan er veikindi Huga sem hafa verið frekar slæm og svo stífur undirbúiningur undir brúðkaup Svanhildar. Ég er nú sjálftitluð maid of honor og verð að standa mig! Það er hins vegar týpískara en allt týpískt að nú er ég orðin veik!!! Fjórir tímar í brúðkaup og ég með 38° hita. Svo sem ekkert svakalegt og ég held mínu striki nema fæturnir hreinilega beri mig ekki áfram. Æ, hve oft hefur maður ekki hugsað að maður væri nú alveg til í að vera smá veikur í eins og tvo daga, fá að kúra sig undir sæng og sofa nóg en rísa svo bara stálsleginn upp á þriðja degi!!! En að sjálfsögðu verður maður ekki veikur þá. Nei, auðvitað verður maður veikur á degi sem maður vill það allra síst. Brúðkaupsdagur bestu og elstu vinkonu minnar í dag og eins og það sé ekki nóg þá er ég með stóra framsögu á þriðjudaginn sem ég hef allt of lítið getað undirbúið þar sem ég hef verði með lítinn kall í hitamóki í fanginu frá því á miðvikudag. Þetta er náttúrulega í rauninni bara hlægilegt. Ég segi nú bara, það er eins gott að ég var ekki líka að fara að útskrifast, þá værum við að tala um dag frá helvíti!!! En í brúðkaupið fer ég og er nánast búin að undirbúa allt sem ég ætla fram að færa þar! Og hlakka þvílíkt til. Fæ bara hnút í magann þegar ég hugsa um að kirkjudyrnar opnist og Svanhildur og Ástþór eldri gangi inn kirkjugólfið. Fer bara næstum strax að gráta! Ég get ekki ímyndað mér hvernig Svanhildi sjálfri líður á þessari stundu! Ég er alla vega búin að vera svo stressuð og spennt fyrir þetta brúðkaup að ég held að ég muni varla nokkurn tíman treysta mér sjálf í að vera brúður! Alveg nóg að vera maid of honor!!!

Vona að veturinn leggist vel í ykkur og að þið eigið góða helgi!

 

Enn 22. október 2003

Það er voða myndastuð á mér þessa dagana ... enda fyrirsæturnar ekki af verri endanum! Hér eru nokkrar nýjar af litla lasarusnum, smellið bara á myndina!

 

22. október 2003

Runninn upp miðvikudagur, voðalega kaldur eitthvað, þykir mér! Í það minnsta er ég komin í þykka og hlýja peysu, búin að loka öllum gluggum og skrúfa upp hitann á ofnunum! Er eiginlega bara þakklát fyrir að þurfa ekki að fara út í dag ... þó ég sé ekki þakklát fyrir ástæðu innilokunarinnar ... Hugi er veikur! Ég er búin að hafa það ákaflega sterkt á tilfinningunni að það færu að koma upp veikindi. Gat eiginlega ekki annað verið enda örugglega komnar þrjár vikur frá síðustu pest!!! Í morgun fannst mér Hugi sem sagt eitthvað heitur og með svolítið mikið kvef. Hann slefar líka mjög mikið sem er yfirleitt merki um hálsbólgu hér á þessum bæ. Það var því ákveðið að hafa hann hér heima og mun hann því keppast við Steingrím Hermannsson um athygli mína! En hann er bara hress og kátur, sem betur fer. María var hins vegar stálslegin og fór því á Drafnarborg. Hún fór hins vegar í læknisheimsókn í gær. Þar var hún greind með astma sem kom okkur foreldrunum svo sem ekki mikið á óvart. Þó ekki séu tíðindin góð þá er samt alltaf gott að fá greiningu. Þá getur maður áttað sig betur á hvernig taka eigi á málum. Mikill hósti hefur hrjáð hana og oft verið mjög erfitt að geta ekkert annað gert en að hlusta á það. Við vonum því bara að hún fari að hressast í kjölfarið á greingu og lyfjameðferð. Daman stóð sig svo með eindæmum vel hjá lækninum þrátt fyrir að það þyrfti að hlusta, gera ofnæmispróf og alls kyns kúnstir.Við vorum ansi stolt af henni.

Senn líður að fyrirlestri mínum. Ég er nú eiginlega búin að taka þá afstöðu að það þýði lítið að stressa sig á honum. Þetta á nú í rauninni að vera bara smá svona kynning á efni lokaritgerðarinnar og bara ætlast til að við segjum frá ferlinu þar sem við erum stödd þá stundina. Það er því allt í lagi þó hugmyndirnar séu ekki fulllmótaðar. Ég þarf auðvitað að reyna að lesa yfir helstu heimildirnar og þannig en ætli ég reyni ekki að hafa þetta meira svona spjall og umræður.

Kóræfing í gær og nokkur fleiri jólalög æfð þar á meðal eitt af mínum uppáhalds, „María fer um fjallaveg...“. Veit ekki hvort þið þekki það en ef ekki þá bendi ég á jóladisk Mótettukórsins! Óskaplega er gaman að vera aðeins farin að huga að jólunum enda ekki svo langt í þau. Eftir nákvæmlega tvo mánuði geri ég ráð fyrir að vera að pakka inn gjöfum, baka finnskt kaffibrauð, kaupa kannski pínulítið nýtt jólaskraut og syngja jólalög með Maríu og Huga. Ó, ég hlakka svo til, get varla beðið. En þið?

 

Enn 20. október 2003

Vildi bara láta vita að ég var að setja inn glænýjar myndir af systkinunum. Kíkið á þær með því að smella á myndina hér fyrir neðan!

 

20. október 2003

Ný vika, ný markmið!

Í gærkvöldi ákvað ég að kominn væri tími til að taka sig saman í andlitinu og setja upp smá dagsskipulag sem rúmaði, lærdóm, samveru með börnum og eiginmanni og nokkrar svona kósístundir á skipulegan hátt. Það er svo ótrúlega fúlt þegar það er mikið að gera hjá manni en í staðinn fyrir að takast á við það þá hringsnýst maður bara um sjálfan sig vikum saman! Í dag vaknaði ég því hress og kát klukkan átta, átti hér notalega morgunstund ein á Bárugötunni með kaffibolla, Mogga og krossgátu. Skellti mér síðan í snögga sturtu og hófst svo handa við lesturinn. Eyddi morgninum í ævisögu Steingríms líkt og ég hafði ákveðið kvöldið áður. Skömmu fyrir hádegi settist ég niður við tölvuna til að stússast í ýmsum málum sem hafa setið allt of lengi á hakanum. Sendi verkefni sem ég skuldaði til viðkomandi kennara og gekkst svo í það mikla þrekvirki að drífa mig í að skrifa kennara Eftirstríðsáranna bréf þess efnis að ég væri hætt í kúrsinum. Úff, ég var búin að kvíða svo að skrifa þetta bréf en var fegin að ég dreif í því ... ásamt því sem ég vatt mér í að skrá mig úr námskeiðinu sjálfu. Þar með voru ýmis smáatriði frágengin og tími til að rölta í yndislegu haustveðri til ömmu á Sóló. Þar borðaði ég yndislegan hádegismat, rúsínubrauð og neskaffi, áður en ég hófst handa við síðari lærdómstörn dagsins. Í það skiptið stóð til að kíkja á bókina sem ég hafði pantað á safninu sem hugsanlega heimild fyrir ævisöguverkefnið. Í stuttu máli leist mér vel á þá bók og sýnist að hún muni koma að góðum notum. Hjúkk, engin nýrnasteinastemmning þar á ferð! Ég stefni að því að hafa svipað skipulag aðra daga í þessari viku. Það skiptir miklu máli að vera búin að ákveða hvað maður ætlar að læra hvenær og að brjóta svo daginn aðeins upp með því að skipta um „skrifstofu“ og fá sér góðan göngutúr. Nú er ég hins vegar komin heim með Maríu og Huga, búin að lesa nokkrar hundleiðinlegar barnabækur (því miður virðast þær bækur sem þeim finnst báðum gaman að lesa alveg yfirmáta fúlar!) og púsla smá. Einar á vakt en væntanlegur innan skamms.

María átti stórleik hér við matarborðið í gær. Hún var eitthvað að tala um vinkonu sína á leikskólanum og fullyrti að mamma þeirrar stelpu héti Svavar Hund!!! Okkur Einar grunar nú að þessi ágæta kona heiti Svava Hrund en María er ófáanleg til að hlusta á svoleiðis vitleysu. Svavar skal konugreyið heita og Hundur að auki!!!

 

19. október 2003

Ég er búin að vera svo ótrúlega ódugleg að læra um helgina að það er eiginlega alveg skelfilegt. Nú er bara rétt rúm vika þangað til ég þarf að halda framsögu um Ævisöguverkefnið mitt. Reyndar er nú gert ráð fyrir því að verkefnið sé á þessum tímapunkti enn í þróun svo það er allt í lagi að þetta sé ekki alveg fullkomið. En ég þyrfti náttúrulega að vera búin að gróflesa allar heimildir sem ég ætla að nota og setja fram svona grunntengingar þeirra og ævisögu Steingríms. Ég er hins vegar langt frá því að vera það vel á veg komin. Og næstu helgi geri ég ekki ráð fyrir að gera mikið. Á laugardaginn er brúðkaup Svanhildar og Sigurðar svo sá dagur verður undirlagður. Ég veit svo ekki alveg hvað ég á að gera ráð fyrir að vera vel upplögð á sunnudaginn. Kannski öruggara að gera ráð fyrir að ég verði ekkert súperhress eða árrisul!

Og talandi um brúðkaupið, þá hélt ég Svanhildi svona gæsapartýsígildi í gær! Fórum á Austur-Indíafélagið og fengum alveg dásamlega góðan mat, sötruðum örlítið rauðvín með og spjölluðum. Fengum okkur svo eftirrétt, gott kaffi og líkjör á eftir. Æ, þetta var ótrúlega notalegt og ég vona heitt og innilega að það þurfi ekki brúðkaup til að leikurinn verði endurtekinn. Held a.m.k. að ef bíða eigi eftir mínum brúðkaupsdegi geti orðið ansi langt þar til við förum saman út að borða næst!!!

 

18. október 2003

Frábær dagur hjá okkur á Bárugötunni.

Eftir smá letistemmningu í morgun vorum við nefninlega boðin í hádegisverð með gamla bekknum hans Einars úr læknisfræðinni. Engin smá framtakssemi hjá hjónunum sem buðu heim til sín eitthvað um fimmtíu manns! Það voru sem sagt allir með maka og börn í eftirdragi og virkilega gaman að sjá öll litlu krílin sem bæst hafa í hópinn frá því hist var síðast ... nú og auðvitað að sjá hvað hin hafa stækkað. Veitingarnar voru líka ekki af lakara taginu, kjúklingasalat og grjónagrautur! Þetta var nú partýmatur að skapi Maríu því hún vildi helst hafa grjónagraut með rúsínum í öll mál! Mikið vona ég að hægt verði að gera þetta að árlegum viðburði! Og þetta hvatti okkur Einar líka til dáða því við sáum að fyrst hægt er að bjóða svona mörgum í einu, elda grjónagraut í tröllaskömmtum og grilla eins og tíu eða tuttugu kjúklinga, þá ætti ekki að vera svo mikið mál fyrir okkur að vera duglegri að bjóða örfáum hræðum í mat til okkar!

Eftir boðið nenntum við ómögulega heim enda alveg dásamlega fallegt haustveður úti. Skelltum okkur því í Húsdýragarðinn við gríðarlegan fögnuð systkinanna. Hittum akkúrat á þegar verið var að gefa selunum og skoðuðum Guttorm sem varð ellefu ára fyrir skemmstu. Hestarnir áttu hug Huga allan (hmmm hug-hug!) en okkur Maríu fundust geiturnar skemmtilegastar. Sveitapiltinum Einari fannst skemmtilegast að sjá kindurnar! Amma Imba kom og hitti okkur í garðinum og bauð krílunum í hringekju og lestarferð sem hvorar tveggja fengu góðar undirtektir. Að lokum var svo staðið við gamalt heit um að leyfa Maríu að hengja snuðin sín tvö á þess til gerð hreindýrshorn. Þetta var aðalgulrótin á sínum tíma þegar við vorum að fá hana til að hætta með duddurnar en ekki verið staðið við það fyrr en nú! Hún var gríðarlega stolt og við sáum þarna tvo kálfa sem við erum alveg vissar um að fá hvor sína dudduna!

Í kvöld ætlum við Svanhildur svo að eiga smá dömustund og fara út að borða. Ég er orðin æsispennt. Ég tók að mér að velja staðinn og er búin að eyða síðustu dögum í hringja í fólk og fá meðmæli með hinum og þessum stöðunum og bera mig upp við nánast alla sem ég hef hitt. En ákvörðunin er tekin, borðið pantað og ég vona að brúðurin verðandi láti sér val mitt vel líka.

 

17. október 2003

Komin helgi, júhú!

Helstu stórtíðindin af þessum bæ eru þau að Einar uppfærði síðuna sína í gær eftir eins og mánaðarhlé! Kominn tími til hjá honum drengnum! Segir kannski mest um það hvað það er eitthvað lítið að frétta héðan.

Ég er loksins komin með bókina sem var frátekin fyrir mig á safninu, í hendurnar. Vona að þetta reynist ekki eins „frábær“ heimild og feðgarnir með nýrnasteinana! Annars gengur nú heldur hægt að komast í gegnum sjálfa ævisögu Steingríms, er búin með svona einn fjórða af öðru bindi! Sem betur fer er pappírinn frekar þykkur og svona myndablaðsíður inni á milli ... ég er alveg komin í þessa stemmningu, að hlakka til þegar það koma myndir því þá getur maður flett yfir margar blaðsíður á stuttum tíma. Svo eru myndirnar náttúrulega alltaf það skemmtilegasta við svona ævisögur ... eða það finnst mér!

Við hjónaleysin búin að eyða kvöldinu fyrir framan sjónvarpið. Horfðum á hið magnaða Idol áðan. Oh, mér finnst það svo skemmtilegt. Ég er alveg farin að halda með nokkrum keppendum þarna og hlakka mikið til að fylgjast með mínu fólki í framtíðinni. Að sama skapi auðvitað alltaf einhverjir sem fara í taugarnar á manni ... enda væri annað óeðlilegt og auðvitað ekki nærri því jafnskemmtilegt! En æ, ég fór alveg að hágráta þegar hækjugaurnum gekk illa í kvöld! Eftir Idolið duttum við inn í viðtal við Herbert Guðmundsson sem var líka mjög skemmtilegt. Vá, hvað Can´t walk away er frábært lag! Og hann var ótrúlega hress kallinn. Við vorum náttúrulega svolítið lituð af Idolinu og þess vegna komumst við ekki hjá því að taka eftir að hann er þrusugóður söngvari!

Laugardagur á morgun og ekki annað í stöðunni en að vera dugleg að læra þangað til við Svanhildur skellum okkur út saman! Góða helgi, þið öll!

 

15. október 2003

Letidagur!

Ég hefði kannski ekki átt að hafa svona stór orð um hve dugleg ég væri að byrja að læra á morgnana! Í dag skreið ég nefninlega aftur upp í rúm eftir að aðrir fjölskyldumeðlimir voru farnir til starfa sinna og sofnaði vært! Svaf allt of lengi! Síðan fórum við Inga í bæinn, á kaffihús og í nokkrar búðir! Það hefur sem sagt ekki mikið verið lært í dag og lítið þokast áfram í ritgerðinni. Og þó ... mér tókst að renna yfir greinina sem var svarið við bænum mínum! Ég hefði betur gert það áður en ég fagnaði því svona að hafa rekist á hana! Í greininni talar hann nú mest um veikindi sín og ég var orðin úrkula vonar um að þetta snerist að einhverju leiti um hvort börn vildu líkjast feðrum sínum. En þá vék hann skyndilega að því að hann sé líkur föður sínum að einu leyti (þegar þarna var komið í lestri fóru vonir mínar að glæðast á ný!). Já, þeir hafi nefninlega báðir fengið endurtekna nýrnasteina!!!!! Þessi grein er sem sagt ekki svarið við bænum mínum, það er nokkuð ljóst! 

Smellti inn nokkrum myndum af sætu heimasætunni!

 

14. október 2003

Enn einn af þessum löngu þriðjudögum að verða búinn. Var svo sem ágætur, það er ekki það. Eftir smá lærdómsstund í morgun plataði ég Einar til að bjóða mér í súpu á Súfistanum. Æ, það var eitthvað svo mikið súpuveður, rigning og rok, og gott að hlýja sér svolítið á þykkri blómkálssúpu. Ég fór svo í ógeðslega langan tíma í skólanum. Uppgötvaði mér til skelfingar að það hafði verið sett fyrir eitthvað verkefni en það alveg farið fram hjá mér! Ég bar við tímabundnu heyrnarleysi!!! Svo var kóræfing. Alltaf gaman að fara á fyrstu kóræfinguna eftir haustfagnaðinn ... reyndar oft svolítið vandræðalegt líka! Við héldum spennt áfram að fylgjast með nýrri, hugsanlegri paramyndun!!!

Ég er búin að vera svolítið örvæntingarfull undanfarna daga því mig hefur nauðsynlega vantað einhverja kenningu sem segir að unga drengi langi til að líkjast pabba sínum! Var að því komin að hringja í alla sálfræðinemana sem ég þekki til að grennslast fyrir um hvort einhver kannaðist við eitthvað í líkingu við þetta. Í dag var ég svo á netinu að leita mér að heimildum í tengslum við allt annað verkefni þegar ég rekst á ritgerð eftir frægan kall sem ber heitið „Of the resemblance of children to their fathers“!!! Ótrúleg tilviljun! Þarna er þetta bara komið ... eða ég vona það, á nefninlega eftir að lesa greinina en treysti því fullkomlega að þetta sé svarið við bænum mínum!!!

Á morgun verður svo rólegheitadagur. Tókst að fá Ingu til að bjóða mér í skyr og spjall í hádeginu og ætla að vera dugleg að læra fram að því. Undanfarna morgna hef ég verið mjög dugleg að koma mér af stað snemma, byrjaði meira að segja að læra klukkan sex í fyrra dag!!! Um morgun!!!

Næstu helgi ætla ég svo að fara með Svanhildi í smá svona gæsa-út-að-borða-dæmi! Höfum nú hvorugar áhuga á svona gæsastandi þar sem ég léti hana syngja niðri á Austurvelli í einhverjum búining (þó slíkt geti án efa verið skemmtilegt líka!). Ætlum þess í stað að fara huggulega út að borða saman, bara tvær ... og drekka svolítið af Cosmopolitan!!! Sigurður Ágúst! Búðu þig undir að taka á móti skrautlegri verðandi brúði aðfaranótt sunnudagsins!!!

 

13. október 2003

Fór í vitagagnslausa en alveg óendanlega langa bókasafnsferð í dag. Vantar nauðsynlega einhverjar fleiri heimildir fyrir Steingrímsverkefnið mitt en ekkert gengur að finna. Kennarinn sem leiðbeindi mér við B.A.-ritgerðina var búinn að benda mér á eina bók (þó hann hafi reyndar ekkert með þetta námskeið að gera) en sú bók er í útláni. Lánstíminn rann út á föstudag en bókin er ekki enn komin inn! Urr!!! Ég hef ekki nema u.þ.b. tvær vikur til að setja verkefnið saman í fyrirlestur svo ég þarf að fá þessa bók eins fljótt og auðið er. Þangað til verð ég sem sagt bara að eigra milli hillna á Þjóðarbókhlöðu í leit að einhverju sem getur gagnast mér! Ef einhver kannast við fræði sem skrifuð hafa verið um skáldskapinn í lífinu þá má sá hinn sami gjarnan láta mig vita hið fyrsta!

Eftir svona bókasafnsferð er auðvitað ekkert í stöðunni annað en að skella sér í kaffi til ömmu á Sóló! Hitti þar á Jódísi og deildum við með okkur dásamlegum afgöngum af steiktum fiski og bláberjasúpu með tvíbökum. Dásamlegt!!! Og svo auðvitað neskaffi á eftir ... enn dásamlegra! Alltaf gaman að hitta á Jódísi og tefja hana við lærdóminn ... og láta hana tefja mig frá honum!!!

Setti inn nokkrar nýjar myndir af litlum púslara. Endilega kíkið á þær hér!

 

12. október 2003

Í dag er ég búin að eyða deginum að mestu í rúminu, kom ekki heim fyrr en undir morgun þannig að ég þurfti að ná upp svefni! Partýið í gær var sko ótrúlega skemmtilegt líkt og heimferðartíminn gefur til kynna! Þetta var sannkallað októberfest, bjór á krana, pretzel og pylsur! Ég tók að mér að vera vert og dældi bjór af mikilli list þó ég segi sjálf frá! Ýmsir kórmeðlimir léku listir sínar og svo sungum við svolítið öll saman ... ekki of mikið samt! Þegar leið á kvöldið æstust leikar, djassballett hópar voru stofnaðir, njósnað um hugsanlega paramyndun og Harry Potter gleraugu og ör teiknuð á andlit með augnblýanti!!! Það er samt alltaf svo fyndið í svona partýum að á ákveðnum tímapunkti nær stuðið hámarki en svo bara allt í einu dettur botninn úr og mann langar heim! Þannig var það í gær hjá mér. Klukkan svona hálf fimm sat ég undir teppi í sófanum hjá Ingu og Vigni og skildi ekki hvers vegna ég var ekki löngu farin heim og búin að vera sofandi á mínu græna í marga klukkutíma! Þá er auðvitað tímabært að drífa sig heim, sem ég og gerði! Og búin að sofa nánast síðan!!!

Á morgun heldur lífið svo áfram sinn vanagang. Ég mun halda áfram að undirbúa ævisöguverkefnið mitt, prjóna, horfa á raunveruleikasjónvarp, drekka kaffi með Einari og leika við börnin! Þó það sé alltaf gaman að fara í partý í glænýjum sparifötum þá er hversdagsleikinn nú alltaf bestur af öllu!!!

 

11. október 2003

Partýdagurinn mikli!

Þessi ágæti laugardagur er tileinkaður kórnum mínum. Ég byrjaði á að fara á kóræfingu í morgun. Fyrir utan hefðbundin verkefni byrjuðum við að undirbúa jólin! Jibbí, það finnst mér svooo skemmtilegt. Elska að syngja jólalögin! Æfingunni lauk þó snemma því í dag er nefninlega líka hinn árlegi kjötsúpudagur. Kjötsúpan er aðalfundur kórsins og þá er sinnt hefðbundnum aðalfundarstörfum. Í dag var mér nauðugur einn kostur að taka að mér starf fundarritara. Það var nú bara skemmtilegt enda svo sem lítið hátíðlegt við þenna fund. Og mikið voru kjötsúpurnar góðar!!! Í kvöld er svo haustfagnaðurinn sem á víst þetta árið að bera keim af októberfest, sem sagt bara bjórdrykkja! 

Og ég bjargaði þessu með sparifötin í dag. Fór og keypti mér nýja skó, nýjan kjól og nýjan brjóstahaldara!!! Skórnir voru meira að segja „ókeypis“ þar sem þeir voru keyptir fyrir innleggsnótu! Ég ætlaði nú reyndar að láta þann pening ganga upp í einhverja ótrúlega praktíska vetrarskó ... en svo sá ég þessa! Þeir eru úr bláu rúskinni með bronslitum leðurböndum! Alveg æði bara. Kjóllinn var hluti af nauðsynlegum kaupum. Ég keypti mér síðast sparikjól sumarið ´99. Ég varð svo ólétt af Maríu nokkrum dögum seinna og kjóllinn passaði mér því aldrei almennilega nema í búðinni, var annað hvort í honum með bumbu eða með „mömmulúkkið“ (sem n.b. felur líka í sér bumbu, bara ekkert barn innan í henni!!!)! Þrátt fyrir það er ég búin að nota hann síðast liðin fimm ár enda var hann voða sætur. Hann var nú orðinn svolítið rifinn og tættur og ég var farin að þurfa að vera í jakka eða peysu utanyfir. Síðast þegar ég notaði hann þurfti Hugi svo endilega að grípa í hann svo hann rifnaði þvert yfir rassinn!!! Sú flík er því alveg úr leik og kominn tími á nýja! Og brjóstahaldarinn var líka nauðsynlegur til að vera í innanundir nýja kjólnum. Þetta er nefninlega svona búbbúlínukjóll og ómögulegt að vera með haldarann upp úr!!!

Ég er svo búin að fá einkunn fyrir ritgerðina. Fékk 8,5 sem er nú eiginlega alveg í samræmi við væntingar. Vonaðist reyndar eftir 9 en vissi að það væru litlar líkur á því. Kennarinn sem ég skrifaði hjá gefur yfirleitt ekki mjög háar einkunnir og þessi ritgerð var heldur ekki alveg til þess fallin að vera eitthvað alveg framúrskarandi. Veit að hún var vel unnin hjá mér en ég hefði eiginlega þurft að vera með einhverja ótrúlega smart og nýstárlega greiningu til að fá svona virkilega háa einkunn. Mín ritgerð var bara einfaldlega ekki þannig gerð enda stóð það aldrei til. En þessi einkunn segir mér þó að bæði kennaranum og prófdómaranum hafi þótt hún vönduð og vel unnin þannig að ég er auðvitað bara mjög ánægð með það!

Vona að við eigum öll skemmtilegt stuðkvöld framundan!

 

10. október 2003

Ekkert skrifað í gær þar sem Einar var upptekinn við að undirbúa fyrirlestur sem hann á að flytja í hádeginu í dag. Ég gat ómögulega rifið af honum tölvuna til að uppfæra heimasíðuna!!! Ég verð því að byrja á að segja að í gær fór ég á hárgreiðslustofuna mína í svona djúpnæringu. Oh, það var alveg æði. Hef aldrei áður farið í svona ekta dekur, bara klippingu og litun, aldri farið á snyrtistofu eða í nudd eða neitt þannig. Þetta var nú líka alveg frábær reynsla! Tvisvar sinnum langt höfuðnudd, hárþvottur og svo bara að sitja í hitatækinu heillengi með kaffi að lesa kjaftablöð! Úff, hvað þetta var ótrúlega notalegt. Ég væri sko alveg til í að vera eins og fínu útlensku frúrnar sem fara bara annan hvern dag í þvott og blástur á stofu!!!

Í gær var líka foreldrakaffi á leikskólanum. Krílin voru búin að baka bollur handa foreldrunum nema Hugi hafði nú víst aðallega borðað deigið! Hmmm, hvaðan skyldi hann nú hafa þá hugmynd?!! Kannski frá mér?!!! Ég er sko alveg tryllt deigæta!!! Borða allt deig sem ég kemst í! Finnst þau náttúrulega misgóð en borða samt líka vondu deigin!!! Einu sinni borðuðum við Brynhildur svo mikið gerdeig heima hjá henni á Kirkubæjarklaustri að við lágum báðar emjandi í gólfinu! En ég er líka alveg ferleg í jólabakstrinum! Piparkökudeig og finnska kaffibrauðsdeigið er til dæmis alveg ógeðslega gott. Og í fyrra bakaði ég nokkrar gerðir af amerískum súkkulaðibitakökum. Þið trúið sko ekki hvað deigið með hvíta súkkulaðinu í var gott!!! Og kökurnar reyndar líka þegar búið var að baka þær!!! Oh, hvað ég hlakka til að fara að baka fyrir jólin! 

Í dag ætla ég svo að halda áfram að lesa um Denna. Verkefnið er farið að leggjast vel í mig og ég held að það verði gaman að skrifa það. Verra þykir mér þó að það stendur til að birta þetta. Ekki að það sé neitt slæmt út af fyrir sig en í verkefninu er ég nú svona meira að fjalla um líf Steingríms en ekki endilega ævisöguna hans sem slíka. Það er náttúrulega alveg hrikalega eldfimt að fjalla um raunverulegt fólk, líkt og atburður undanfarinna vikna hafa sýnt okkur!!! Vona að ég verði ekki sett á stall með þeim Hannesi og Halldóri eftir að greinin verður gefin út!!!!

Á morgun er svo árlegur haustfagnaður Mótettukórsins. Það er sko ótrúlega skemmtilegt partý! Fyrsta slíka gleðin sem ég sótti var þó svolítið erfið. Það er nefninlega hefð að nýliðarnir skemmti hinum eldri og setji saman eitthvert atriði. Þegar ég var nýliði í kórnum tók þetta atriði í meira lagi undarlega stefnu og endaði sem einkaatriði okkar systra, mín og Þórunnar ... alveg gegn okkar vilja! Þetta var skelfilega hræðilegt svo ekki sé meira sagt og ég var með hnút í maganum allt kvöldi, ég kveið svo fyrir. Manstu Þórunn? Oh, ég get ekki hugsað um þetta án þess að fá hroll!!! En nú er ég að sjálfsögðu laus undan þessari áþján og nýt þess að horfa á aðra nýliða kveljast. Eða æ, það hefur nú ekki gefist tækifæri til þess svo sem því eftir dvergaatriðið okkar Þórunnar hafa nefninlega bara komið skemmtileg og ótrúlega fyndin atriði! En alla vega, partý á morgun og ég er að hugsa um að skella mér með henni Svanhildi í bæinn á eftir og vita hvort ég finn mér nokkuð eitthvað fínt til að vera í. Sparifötin mín dóu drottni sínum í vor og kannski alveg kominn tími til að endurnýja!!!

Góða helgi þið öll!

 

8. október 2003

Allt gengur sinn vanagang hér á Bárugötu. Vinna, skóli og leikskóli í dag eins og svo oft áður. Á morgun verður verður þó aðeins brugðið út af vananum því þá er haldið svo kallað foreldrakaffi á leikskólanum hjá Maríu og Huga. Þau bökuðu bollur í dag sem okkur er boðið upp á ásamt kaffi í fyrramálið. Þetta er mjög sniðugt, það er s.s. bara smá kaffi fyrir foreldrana um leið og komið er með börnin á leikskólann, hægt að stoppa í smá tíma, kynnast öðrum foreldrum, börnum og starfsfólkinu. Ekki síður mikilvægt að börnin upplifi að maður hafi svolítinn áhuga á því umhverfi sem þau eyða deginum í. Já, þetta er virkilega vel heppnað! Eftir leikskóla verður svo enn meira fjör því við ætlum að fara að heimsækja hana Snædísi vinkonu okkar sem kom heim af spítalanum í dag eftir vel heppnaða aðgerð. Það verður gaman hjá þeim vinkonunum að hittast aftur, þetta varð svolítið endasleppt þegar við hittumst á föstudaginn. Mæðgurnar Sigrún, Snædís og Matthildur þurftu nefninlega að hlaupa í strætó sem rétt náðist. Þegar sá guli keyrði í burtu varð mér litið á Maríu sem var farin að hágráta svo tárin spýttust og æpti bara „Snædís, Snædís“! Já, þetta var einum of að skiljast svona snögglega við góða vinkonu. Ég hlakka sjálf ekki síður til að hitta Snædísi, foreldra hennar og litla systur. Þarf nú líka að pumpa snillingana Björn og Sigrúnu um heimildir fyrir Ævisöguverkefnið mitt!!! Og talandi um það, best að fara að kíkja á Denna!

 

7. október 2003

Þá er það enn einn af þessum löngu þriðjudögum. Ég er búin að fara í maraþontímann í skólanum, er núna heima í stuttu stoppi til að borða kvöldmat og fer svo á kóræfingu á eftir. Í morgun var ég aðeins að reyna að vinna í ævisöguverkefninu mínu. Var bara orðin nokkuð bjartsýn og fannst ég nánast fá of mikið af hugmyndum! Gleðin var sem sagt við völd þar til í tímanum áðan! Þá voru fyrstu fyrirlestrarnir en við eigum að halda framsögu um þetta lokaverkefni þar sem við gerum grein fyrir hvað við ætlum að fjalla um og á hvaða forsendum. Í stuttu máli fannst mér að mitt erindi yrði nú ansi hreint hlægilegt, a.m.k. við hliðina á þeim sem flutt voru í dag. Æ, ég er nú bara orðin eitthvað ótrúlega þreytt á lélegu sjálfstrausti þennan vetur í bókmenntafræðinni! Finnst svo sem að það hafi verið sjálfsagt að lækka í mér rostann eftir síðustu önn þar sem mér fannst ég nú bara nánast komin með doktorsprófið í hendurnar ... en þetta fer nú að verða komið gott! En ég ætla mér nú samt að puða í gegnum þetta verkefni, það verður þá bara að hafa það ef þetta verður hallærislegasta verkefni í sögu HÍ!!!

Það gekk víst bara vel hjá Huga á leikskólanum í dag ... var duglegur að leika og grína með vini sínum þarna! María virðist svo hafa lent í einhverjum átökum, kom heim með eldrautt og bólgið auga eftir einn strákinn á deildinni! Við höfum nú sem betur fer ekki lent í þessu áður, þ.e.a.s. einhverjum svona líkamsmeiðingum á leikskólanum og ég var því svolítið sjokkeruð! En augað er óðum að lagast sýnist okkur svo það verður vonandi bara hægt að gleyma þessu. Ef ekki þá erum við nú í þeirri forréttindastöðu að vera með lækna allt í kringum okkur, þ.á.m. einn frábæran verðandi augnlækni sem mun án efa liðsinna okkur ef þörf þykir!!!

 

6. október 2003

Í gær klukkan nákvæmlega sex fékk ég einhverja ótrúlega fúla pest. Hóstaði í allt gærkvöldi og vaknaði svo alveg ótrúlega rám í morgun og er búin að vera nánast þegjandi hás í allan dag. Ekkert veik svo sem en æ, mann langar alltaf mest að kúra sig undir sæng þegar svona stendur á. Ég lét það þó ekki eftir mér. Fór í morgunkaffi til ömmu á Sóló og þaðan í leit að nýjum útigalla á Maríu. Valdi á endanum allra dýrasta gallann sem ég gat fundið ... en vonandi auðvitað allra besta gallann líka. Það er ótrúlega góð tilfinning sem fylgir því að klæða börnin sín í hlý og góð föt ... ekki furða að íslenskar mæður klæði börnin sín allt of mikið því ég er viss um að það losna einhver vellíðunarhormón við það!!!

Það virðist loksins farið að ganga betur á leikskólanum hjá Huga. Í dag tók deildarstjórinn tímann á því hve lengi hann var að jafna sig eftir að við skildum við hann og það voru nú bara skitnar tíu mínútur. Eftir það hafði hann víst leikið á alls oddi! Þegar ég kom að sækja hann var hann niðursokkinn í bílaleik og loks þegar hann leit upp brosti hann til mín og sagði „mamma“ ... en hélt svo bara áfram að leika og ég þurfti að draga hann út! Æ, ég vona svo innilega að þetta sé það sem koma skuli!

Ég er annars búin að vera ein heima í kvöld þar sem Einar ákvað að fara í vinnuna að rusla til í einhverjum pappírum. Æ, ég var náttúrulega ekkert ein, börnin sváfu auðvitað í herberginu sínu sætt og rótt. En það var enginn félagsskapur í sjónvarpsglápi ... sem er auðvitað ekki nógu gott á Survivor kvöldi!!!

Vona að þið eigið skemmtilega viku framundan!

 

5. október 2003

Við byrjuðum daginn á góðri sundferð. Í þetta sinn var reyndar bara farið í innilaug þar sem það eru allir enn að jafna sig eftir síðasta kvef. Þó krílin séu því miður búin að gleyma öllum töktum úr ungbarnasundinu finnst þeim þetta mjög skemmtilegt og ekki finnst okkur foreldrunum þetta síðra helgarsport! Eftir á var vel við hæfi að skella sér í miðborgina að snæða girnilegt kútabrauð! Sé það ekki öllum ljóst þá er kútabrauð að sjálfsögðu beygla! Við fórum s.s á Reykjavík Bagel Company í hádegismat. Það er alveg ótrúlegt hvað Maríu og Huga finnst þetta frábær staður. Bæði þykja þeim nú veitingarnar alveg frábærar og svo held ég að það auki enn á gleðina að það eru stórir gluggar út að götunni sem þau horfa út um og fylgjast með umferð og mannlífi. Á eftir er svo afmæli hjá Pétri bróður og við hlökkum líka til þess. Langt síðan við höfum komið í nýja húsið þeirra afa Bíbí og Gittu ömmu þannig að það verður gaman að sjá allar breytingarnar.

Annars er þetta bara búin að vera hin dásamlegasta helgi ... sérstaklega miðað við allan hasarinn á miðvikudag og fimmtudag. Á föstudagskvöldið fórum við með mömmu út að borða á Ask við Suðurlandsbraut. Æ, mér fannst það alveg yndislegt. Minnti mig svo á þegar ég var lítil! Ég fór alla vega nokkrum sinnum þangað með mínum foreldrum á sínum tíma. Það var líka eitthvað svo krúttlegt að fá sér bara kótilettur, bakaða kartöflu og bernaissósu eða eitthvað álíka. Ekkert pizzurugl!!! Í gær fór ég svo í langt kaffi til Svanhildar, fékk að sjá brúðarkjólinn og skriðtækni Ástþórs Arnar! Já, útskriftarruglið leysti a.m.k. eitt vandamál! Útskriftin átti nefninlega að vera á brúðkaupsdag Svanhildar og Sigurðar Ágústs og ég sá því ekki fram á að geta farið í veisluna þeirra með góðu móti. En það er leyst og við Einar verðum því viðstödd þegar þau verða gefin saman í sveitinni og Svanhildur getur þá vonandi á móti komið í mína útskriftarveislu í febrúar! Ég þarf bara að byrja á brúpkaupsræðunni hið fyrsta!

Munið svo að halda hvíldardaginn heilagan!

 

3. október 2003

Misjafnt er mannanna bölið!

Já, ekkert heyrst frá mér í langan tíma en það var sko góð ástæða fyrir því. Úff, hvar á ég að byrja? Jú, dyggir lesendur muna kannski eftir færslu í þessa dagbók frá 6. ágúst ... eða kannski ekki! Rifjum upp! Þann dag hafði ég fengið langþráð svar frá leiðbeinandanum mínum við ritgerðarskrifin OG fengið svar frá heimspekideild um að búið væri að samþykkja námsferilinn minn og mér væri ekkert að vanbúnaði að útskrifast svo framarlega sem ritgerðinni yrði skilað í tæka tíð. Nú, eins og þið vitið öll þá er það mál klappað og klárt! Þetta reyndist hins vegar ekki eins einfalt með ferilinn og búið var að lofa! 

Þið vitið líklega flest að ég hef tekið mér þrjú löhöhöng hlé frá námi til vinnu og barneigna. Fyrir vikið var ég svolítið búin að missa sjónar á öllum þessum einingum og var þarna í ágúst orðin ansi stressuð um að ég hefði kannski misreiknað mig illilega þannig að það skorti eitthvað upp á til að ég gæti útskrifast, þ.e.a.s. að einingarnar væru ekki á réttum stað eða jafnvel hreinilega að einhverjar skorti upp á! Ástæðan fyrir að ég fór að grafast fyrir um þetta þarna í ágúst var að sjálfsögðu sú að mig langaði sko alls ekki að fá upphringingu nokkrum dögum fyrir stóra daginn þar sem mér væri sagt að ég gæti bara því miður ekki útskrifast. Nei, ég vildi hafa tímann fyrir mér ef eitthvað væri að svo ég gæti bara bjargað því, skrifað aukaritgerð eða samið við einhverja stórlaxana í HÍ! En svo þurfti ég það sem sagt ekkert, ferillinn samþykktur, ekkert mál! Eða hvað?

Nei, í fyrradag, nokkrum klukkutímum áður en ég átti að flytja Gerplu fyrirlesturinn fékk ég upphringingu frá sömu indælu stúlku og hafði áður sagt mér að ferillinn væri samþykktur! Nema hvað, núna voru fréttirnar ekki alveg jafnánægjulegar. Nei, henni hafði nefninlega einhvern veginn yfirsést það þarna í ágúst að mig vantaði einmitt tvær og hálfa einingu upp á til að geta útskrifast!!! Já, það sem ég óttaðist mest og reyndi að koma í veg fyrir gerðist samt!!! Ég fékk sem sagt eftir allt saman upphringingu nokkrum dögum fyrir stóra daginn þar sem mér var vinsamlegast tjáð að ég gæti því miður ekki útskrifast! Dálítið skrítið! Ég varð nú aðallega bara steinhissa en auðvitað svolítið leið líka.

Ég byrjaði á að hringja í leiðbeinandann minn (sem sagði mér m.a. að ef þetta hefði komið í ljós þarna í ágúst þá hefðum við sko getað reddað því án nokkurra vandkvæða) og eftir hans ábendingum endaði ég á fundi annars kennara í skorinni. Mér tókst einhvern veginn að selja þeim góða manni þá hugmynd að ég gæti snúið Gerplu fyrirlestrinum upp í 2,5 einingar verkefni og þurfti bara að fá kennara þess námskeiðs til að gangast inn á hugmyndina líka. Það gerði hún og sagðist sko skyldu styðja mig í þessu heilshugar. Já, sá sigur var unninn. En einhvers staðar á leiðinni breyttist hugmyndin mín (sem var að bæta nokkrum blaðsíðum við fyrirlesturinn og fá fyrir það 2,5 einingu) yfir í eitthvað svo allt annað og miklu stærra (s.s. að lesa Fóstbræðrasögu, lesa Gerplu aftur, lesa svona sjö fræðigreinar og bækur og mynda mér svo einhverja ótrúlega frábæra og byltingarkennda skoðun á bókinni sem ég myndi skrifa 10 bls. rigerð um frá grunni). Einhvern veginn fór alveg fram hjá mér hvað hugmyndin hafði breyst gífurlega mikið þangað til í gærkvöldi þegar ég sat með Fóstbræðrasögu í höndunum og sá hreinlega ekki stafina í bókinni fyrir stressi. Ég veit eiginlega ekki hvort ég get fengið nokkurn mann sem ekki er lærður í bókmenntafræðinni til að skilja hvað þetta verkefni var stjarnfræðilega langt frá bæði minni getu og öðru því sem ég hef vanist í náminu. Og hef ég nú samt sem áður talið mig góðan námsmann! Já, gærkvöldið var eiginlega alveg óbærilegt. Fyrir það fyrsta fannst mér náttúrulega dálítið glatað að hafa ekki haldið betur utan um nám mitt en svo að mig skorti upp á einingar en kannski aðallega var ég alveg niðurbrotin yfir því að ég gæti bara alls ekki leyst þetta verkefni sem fyrir mig hafði verið lagt, sérstaklega ekki þar sem ég átti eiginlega í fullu fangi með námið fyrir. Mér fannst svo enn verra að gefast bara upp og var eiginlega fullkomlega búin að missa allt sjálfstraust í náminu (í annað sinn á þessari önn ... voðalega er ég viðkvæm!). Í morgun settist ég því upp á Jódísi frænku, fékk hana til að hella í mig Neskaffi og ræða málin. Á endanum fékk ég hana líka til að fylgja mér upp í skóla til að tilkynna þessum stuðningsmönnum mínum þar að ég væri hætt við þess geðsýkislegu hugmynd mína um að redda mér 2,5 einingum á nokkrum dögum! Og þvílíkur léttir!!! Léttirinn við að losna undan þessu Gerplu verkefni var svo yfirþyrmandi að ég er sko ekki hið minnsta leið yfir að útskriftin frestist fram í febrúar. Þvert á móti finnst mér eiginlega alveg bráðfyndið að ég hafi verið búin að fá staðfestingu á því fyrirfram að þetta væri sko allt í góðu lagi en lendi samt í þessari uppákomu. Get ekki annað sagt en að það er nokkuð ljóst að mér er hreinlega ekki ætlað að útskrifast í október og er bara fullkomlega sátt við það. Er bara viss um að það er fyrir góðu! Ég á reyndar enn eftir að ráðast aðeins í að leysa það hvar ég næ mér í þessar örfáu einingar ... en það verður ekki mikið mál! Já ég hef svo sannarlega tekið gleði mína að nýju og eyddi kvöldinu í að horfa á hið magnaða Idol og hlæja að þeirri hugmynd Einars að hann hefði kannski átt að taka þátt í prufunum með „Dvel ég í draumahöll....“!!! Jah, nóg er alla vega æfingin, þetta er sungið hér á hverju kvöldi!!!

P.s. Gerplu fyrilesturinn var haldinn á tilsettum tíma þrátt fyrir þessa uppákomu og gekk bara vel!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar